Málþóf er list og forsætisráðherra er listamaðurinn

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar um stjórnarskrármál.

Auglýsing

Í góðri grein sinni í Kjarnanum fer Stefán Erlendsson yfir þær hindranir sem hafa verið í vegi nýrrar stjórnarskrár. Greinin er mjög fróðleg og vel þess virði að lesa en það eru nokkur atriði í henni sem eru áhugaverð út frá öðru sjónarhorni.

Í greininni er nefnilega þó nokkuð fjallað um málþóf, þó það sé misaugljóst. Hér fyrir neðan tek ég saman dæmi um þau „málþófstæki“ sem nefnd eru í greininni og þingmenn geta beitt.
Kannski finnst ekki öllum öll þau atriði sem ég tel hér upp að neðan vera málþóf. Flest telja eflaust að málþóf snúist um að nota ræðustól þingsins til þess að tala rosalega mikið. Að hluta til er það rétt því það er eini hluti málsþófsins þar sem meirihlutinn hefur í raun engin úrræði önnur en að bíða. Það er að segja ef þau vilja ekki beita svokallaðri „kjarnorkusprengju“ sem felst í því að leggja fram tillögu um að ljúka umræðunni. Málþóf er hins vegar flóknara en svo og felur í raun í sér allar þær aðferðir sem gætu flokkast undir það að tefja mál. 

Til að byrja með þá verður að taka það fram að málþóf er tvíeggja sverð. Það er hægt að beita því til þess að stöðva góð og slæm mál (og sitt sýnist hverjum auðvitað hvað er gott mál og hvað er slæmt mál). Einnig er hægt að láta aðra beita málþófi. Fyrri ríkisstjórnir hafa til dæmis sett rammaáætlun á dagskrá til þess að kaupa tíma fyrir önnur mál, vitandi að stjórnarandstaðan þá stundina myndi ekki hleypa breytingum á rammaáætlun í gegn. Eina leiðin til þess að gera það væri einmitt að beita málþófi. 

Auglýsing
Það er ekki endilega augljóst hvenær er verið að beita málþófi. Stundum er einfaldlega þörf á mjög málefnalegum og löngum umræðum um flókin mál. Einhver gæti kallað það málþóf af því að viðkomandi finnst málefnalegi ágreiningurinn ekkert merkilegur. Stundum getur hins vegar verið málefnalegt að tefja mál, af því að það vantar í alvörunni upplýsingar. Málþóf getur þannig verið málefnalegt ef það er til þess að stöðva slæmt mál eða til þess að afla frekari upplýsinga. Í þeim tilfellum er alveg eðlilegt að efast um að rétt sé að nota orðið málþóf - sérstaklega í samanburði við ómálefnalegu notkunina á málþófi, þar sem er beinlínis verið að fótum troða lýðræðið.

Því má segja að málþóf sé í raun listgrein sem þrífst á stóru gráu svæði milli þess málefnalega og ómálefnlega. Í tilviki þeirra dæma sem ég vísa í úr fyrrnefndri grein Stefáns þá myndi ég flokka nokkur af þeim sem málefnalegt málþóf og önnur sem ómálefnalegt málþóf. Ég kýs að nota orðið málþóf fyrir þau atriði sem gætu flokkast sem málefnaleg vegna þess að forsendurnar eru skýrar: Rúmlega tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sögðu já við grundvallarspurningunni um frumvarp stjórnlagaráðs. Það þýðir að allar tafir á því að uppfylla niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu eru málþóf. Tafirnar geta samt verið málefnalegar ef þær snúast um réttmætt álitaefni. Grípum nú niður í grein Stefáns: 

„Áformað var að halda þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um frum­varpið jafn­hliða for­seta­kosn­ing­unum í júní 2012 til að ýta undir kjör­sókn. En minni­hlut­inn á Alþingi beitti mál­þófi til að koma í veg fyrir að slíkt næði fram að ganga. Þjóð­ar­at­kvæða­greiðslan var því haldin í októ­ber sama ár.“

Fyrsta dæmið, málþóf gegn því að kjósa meðfram forsetakosningum, er eins ómálefnalegt og það getur orðið. Þarna var komið í veg fyrir að þjóðin gæti ákveðið sjálf það það sem hún á með réttu að ákveða sjálf (þjóðin er jú stjórnarskrárgjafinn). Að auki kostaði málþófið aðrar kosningar sem er sóun á almannafé. 

„Eftir að það [frumvarpið] hafði verið lagað að veiga­mestu athuga­semdum nefnd­ar­innar var tíma­bært að ganga til atkvæða á Alþing­i. Þá varð fjand­inn laus. Stjórn­ar­and­stað­an, með Sjálf­stæð­is­flokk­inn í far­ar­broddi, gekk hrein­lega af göfl­unum og hélt uppi linnu­lausu mál­þófi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem hafði stutt stjórn­ar­skrár­ferlið í byrj­un, lét heldur ekki sitt eftir liggja.“

Annað dæmið, að stöðva atkvæðagreiðslu á þingi, er klassískara dæmi um málþóf. Alla jafna myndi ég ekki flokka það sem mjög alvarlegt tilfelli af málþófi en í þessu tilfelli er aftur verið að koma í veg fyrir að þjóðin geti haft sín réttmætu áhrif. Ofbeldið gegn lýðræðinu verður ekki verra. Hér ber að hafa í huga að þetta er eftir að búið var að fá fjölmargar umsagnir og sérfræðiálit á frumvarpi stjórnlagaráðs. 

„Hér réði þó úrslitum að þáver­andi for­seti Alþing­is, Ásta Ragn­heiður Jóhann­es­dótt­ir, braut þing­sköp til að koma í veg fyrir að breyt­ing­ar­til­laga við til­lögu nýbak­aðra for­manna stjórn­ar­flokk­anna og Bjartrar fram­tíðar um að binda enda á umræð­una kæmi til atkvæða“

Þriðja dæmið er verulega svæsið. Þar eru þingsköp brotin til þess að koma í veg fyrir eðlilega afgreiðslu málsins. Að snúa út úr reglum á einn eða annan hátt er ákveðin málþófsaðferð. Þingsköp eru þær leikreglur sem við þingmenn vinnum eftir til þess að passa upp á að allir séu að leika sama leikinn. Þegar reglurnar eru svo brotnar til þess að þjóna þeim sem ræður þá gengur það gegn grundvallaratriðum lýðræðisins.

„Í stað þess að virða nið­ur­stöðu lýð­ræð­is­legrar kosn­ingar er ráð­ist í heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­innar öðru sinni í „þverpóli­tísku sam­starfi“ allra flokka sem eiga sæti á Alþingi með það fyrir augum að ná „breiðri sátt“ um breyt­ing­ar­til­lögur „að und­an­gengnu víð­tæku sam­ráði“ (Minn­is­blað for­sæt­is­ráð­herra, 22. jan. 2018)“

Auglýsing
Fjórða dæmið, að endurramma umræðuna á þann hátt að nauðsynlegt sé að ná „breiðri sátt,“ er klassískt pólitískt spil. Þegar niðurstöður kosninga sýna fram á stuðning aukins meirihluta þá þýðir það víðtæk sátt. Að slá um sig með einhvers konar „sáttatón“ er ekkert annað en fyrirsláttur og leikrit. Leikritið snýst um að hljóma sanngjarn og þegar þeim málflutningi er mótmælt þá lítur mótmælandinn alltaf út fyrir að vera ósanngjarn fyrir að vera á móti „skynsemistali.“ Þetta er málþóf af toganum „að drepa málinu á dreif.“

„Höf­uðið er svo bitið af skömminni með því að bjóða upp á sýnd­ar­lýð­ræði í gegnum svo­kall­aða „rök­ræðukönn­un“ og „sam­ráðs­gátt“ til að breiða yfir sví­virði­lega aðför stjórn­valda að lýð­ræð­inu.“

Fimmta dæmið er svo sem ekkert hryllilegt. Að fara í gegnum rökræðukönnun og setja málið í annað samráð er ekki ómálefnalegt. Það er málþóf, en ekki ómálefnalegt. Hvað er svo gert við niðurstöðurnar getur hins vegar verið ansi ómálefnalegt eins og ég fór yfir í öðrum pistli.

„Birgir Ármanns­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hélt því til dæmis fram að til að sjá vilja þjóð­ar­innar væri ekki nóg að rýna í nið­ur­stöður þjóð­ar­at­kvæða­greiðsl­unnar heldur þyrfti einnig að túlka hug þeirra sem ekki mættu á kjör­stað. Hann komst jafn­framt að þeirri nið­ur­stöðu að þeir sem sátu heima myndu hafa kosið gegn frum­varp­inu“

Sjötta dæmið er sorglegt. Að reyna að ætla atkvæðum þeirra sem mættu ekki á kjörstað ákveðinn málstað gengur í báðar áttir. Lýðræðið virkar þannig að niðurstaðan ræðst af þeim atkvæðum sem fólk skilar í atkvæðakassann. Ekki af þeim atkvæðum sem fólk ákvað að skila ekki í kassann. Með þessum rökum er bókstaflega verið að mæla með því að hætta lýðræðinu nema það sé óvéfengjanleg niðurstaða (atkvæði þeirra sem sátu heima myndu ekki breyta niðurstöðum þó þau væru öll á einn veg). Venjulega eru það þau sem eru mótfallin niðurstöðum atkvæðagreiðslna sem nota þessi rök. Svo heyrist ekki píp í þeim þegar niðurstaða atkvæðagreiðslna er þeim að skapi. Sem dæmi má nefna að við hefðum ekki orðið fullvalda árið 1918 ef þeirra rök hefðu orðið ofan á. Kosningaþátttaka var nefnilega svo léleg þó niðurstaðan hafi verið afgerandi. 

„Í stefnu­ræðu sinni á Alþingi 1. októ­ber síð­ast­lið­inn sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra, að núna væri „tæki­færi fyrir Alþingi“ til að „breyta stjórn­ar­skrá með skyn­sam­legum hætti með almanna­hags­muni að leið­ar­ljósi.“

Síðasta dæmið, „tæki­færi fyrir Alþingi“, hunsar enn og aftur þær forsendur sem Alþingi fékk í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er alveg hægt að breyta stjórnarskrá með skynsömum hætti hér og þar. Það heimilar stjórnvöldum þó ekki að snúa sér út úr því sem þjóðin samþykkti: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Það getur aldrei þýtt að hægt sé að uppfylla niðurstöðurnar með einstaka lagfæringum eða viðbótum á núverandi stjórnarskrá. Það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir sjálfstæðar uppfærslur á gömlu stjórnarskránni - en þær munu aldrei uppfylla lýðræðislegu niðurstöðuna. Allir sem halda öðru fram eru einfaldlega að snúa út úr. 

Auglýsing
Um það snýst pólitík að miklu leyti. Að snúa út úr. Að segja „að við verðum að gera þetta skynsamlega“ þegar ætlunin er ekkert að gera neitt skynsamlega. Þegar markmiðið er að stöðva málið, þrátt fyrir lýðræðislegan vilja í atkvæðagreiðslu um annað, eða að snúa því svo á hvolf að útkoman er allt önnur en sú sem var lagt upp með. Þess háttar pólitík er óheiðarleg og skemmandi.  

Tökum dæmi um aðra spurningu úr atkvæðagreiðslunni. Spurninguna um þjóðkirkjuna. Eins gölluð og sú spurning er og eins ósammála og ég er niðurstöðunum þá voru þetta samt niðurstöðurnar. Ég hef bókstaflega ekki umboð til þess að koma í veg fyrir að slíkt ákvæði verði þrátt fyrir allt í nýju stjórnarskrárfrumvarpi. Ég get mælt gegn því og reynt að fá sérstaka atkvæðagreiðslu um það ákvæði, en að beita málþófi til þess að koma í veg fyrir að ákvæðið verði í því frumvarpi sem þjóðin fær svo að kjósa um? Ekki séns. Umboð samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu er æðra mínu umboði samkvæmt almennum þingkosningum. Ég starfa í þágu allra í landinu samkvæmt minni eigin sannfæringu. Sú sannfæring er að virða lýðræðislega ferla. Ég vildi að ég gæti sagt það sama um alla aðra þingmenn og þar nefni ég forsætisráðherra sem dæmi og vísa í þennan pistil sem rök fyrir máli mínu.

Höfundur er þingmaður Pírata.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar