Í sjónvarpsþætti nýlega urðu tveir stjórnmálaforingjar sammála um að núverandi fyrirkomulag veiðigjalda væri ekki ásættanlegt. Bæði voru þau hlynnt því að tekjur af auðlindinni rynnu „til byggðanna þar sem verðmætin eru sköpuð“, eða eins og sagt var: „voru sköpuð“. Málnotkun þessara forystumanna var nokkuð óljós, og þetta með sköpun verðmæta var sérlega óljóst. Það mátti skilja að verið væri að bæta einhverjum fyrir missi sem þeir hefðu orðið fyrir.
Núverandi veiðistjórnun hefur skilað þjóðarbúinu miklu, en jafnframt hafa mörg störf tapast, sérstaklega störf sjómanna.
Togaraútgerð hófst með komu Jóns forseta, 1907 til Reykjavíkur, Þegar nýsköpunartogararnir komu frá 1947 til 1952 voru þeir að tveimur þriðju gerðir út frá Reykjavík og Hafnarfirði. Í áhöfnum þess þriðjungs togaranna sem dreifðust um landið var verulegur hlutur áhafnar alla jafna „að sunnan“. Sömu sögu er að segja um skuttogaravæðinguna frá 1972. Þá voru flestir af nýju stóru togurunum gerðir út frá Reykjavík en brátt komu togarar á flesta firði. Til að fullmanna skipin þurfti að fá menn af höfuðborgarsvæðinu. Þarflegt væri að kanna hversu stór hluti lögskráðra áhafna á togurum á landinu öllu hafa verið af höfuðborgarsvæðinu fram á þennan dag.
Það er í lok þessa tímabils sem settar eru þær veiðitakmarkanir sem leiddu til kvótakerfisins, sem aftur leiddi til þess að stærsti hluti þessara togara og starfa hvarf.
Ísland hefur breyst frá komu Jóns forseta 1907. Sum þorp fóru úr byggð þegar eftir stríðslok og nú eru komin sumarhús í nokkrum þessara byggða. En þróunin hélt áfram, fólk flutti suður, og kannski meira eftir tilkomu kvótakerfisins. Í könnun á vegum Byggðastofnunar 2019 kemur fram að auk atvinnutækifæra sjálfs og maka eru það félagslegu þættirnir sem gætu leitt til brotthvarfs frá minnstu byggðunum.
Byggðastofnun hefur gert mannfjöldaspá fyrir næstu 48 ár. Þar er gert ráð fyrir mikilli fækkun fólks í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.
Byggðafestukvóti
Gerðar hafa verið tilraunir til að snúa þróuninni við, meðal annars með því að úthluta 5,3% kvóta botnfisks til að stuðla að svokallaðri byggðafestu. Þótt þetta fyrirkomulag hafi verið við lýði í áratug, þá liggur ekki fyrir neinn mælikvarði á árangur. Það er ekki einu sinni til mælingarhæf skilgreining á hugtakinu byggðafesta. Hver er þróun þeirra byggða sem þetta á að styðja? Hver er breyting á mannfjölda á vinnualdri, þeim sem hafa stöðuga viðveru, og versla í „kaupfélaginu“ og styrkja með því byggðina?
Sem skilyrði fyrir sumum úthlutunum af þessum 5,3% afla er gerð krafa um vinnslu afla í löndunarhöfn. Í athugasemdum á samráðsgátt um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.) er eftirfylgni þessarar kröfu dregin í efa. Það virðist vanta skilgreiningu á hvað átt er við með vinnslu afla? Til að bátur geti landað þarf lyftara á bryggjuna til að koma kerunum á ökutækið sem flytur fiskinn suður, og væntanlega líka einhvern sem vigtar aflann, nema það sé lyftaramaðurinn. Það er væntanlega ekki vinnsla.
Spurt var:
- Er það fiskvinnsla ef fiskur er tekinn úr bát og honum keyrt í gegnum einar dyr á fiskvinnsluhúsi og út um aðrar?
- Er nóg að slægja fisk inni í húsi til að kalla það fiskvinnslu?
- Er nóg að ísa yfir landaðan fisk inni í fiskvinnsluhúsi til að það kallist fiskvinnsla?
Ný vélvædd fiskiðjuver á Grundarfirði, í Reykjavík og á Dalvík eru dæmi um það besta í framleiðni og vöruvöndun. Það er hins vegar erfitt að sjá hvernig litlar einingar, stundum styrktar vegna byggðasjónarmiða, kannski í Hrísey eða á Bakkafirði, geta verið á pari við þau fiskiðjuver.
Verðmætasköpun í sjávarútvegi byrjar þegar fiskur veiðist. Þá skiptir ekki máli í hvaða byggðarlagi skipið er skráð.
Næsti liður í ferlinum er að fiskurinn sé unninn þar sem best hentar, oftast sem næst miðunum til þess að ekki fari of langur tími í siglingu og til þess að koma í veg fyrir að aflinn spillist eða veiðitækifæri glatist, eða sem næst útflutningshöfn.
Einn þeirra staða þar sem verðmæti skapast nú á tímum er í Kópavogi. Þar er fiskur hvaðanæva af landinu búinn undir flutning með flugi á markaði í austri og vestri.
Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu frá febrúar 2017 staðfestir „að um 50% alls botnfisks sem landað er fer nú til vinnslu á svæði sem er í innan við klukkustundar fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli og Sundahöfn, þ.e. aðallega við sunnanverðan Faxaflóa og á Reykjanesi“
Niðurstaðan er að: a) Á undanförnum áratugum hefur fólk hvaðanæva af landinu „skapað verðmæti“. b) Það er erfitt að sjá réttlæti í því að fólk á einhverjum sérstökum hluta landsins eigi rétt á meiri hluta af arði auðlindarinnar en aðrir.
Einungis þeim sem nú hafa veiðileyfi og vilja hafa til eilífðarnóns er gagn að umræðum um að stýra fjármunum þangað sem „verðmætin eru sköpuð“.
Öðruvísi framtíð
Við verðum að undirbúa okkur undir öðruvísi framtíð þar sem alls konar störf eru lögð niður. Þetta hefur þegar gerst, ekki bara á fiskiskipaflotanum og í fiskiðjuverum eins og áður er rakið, heldur líka í bönkum og annarri fjármálastarfsemi þar sem fækkun starfa á undanförnum árum nemur hátt í öll störf í álverunum þremur og hjá mörgum undirverktökum þeirra.
Það er bara tímaspursmál hvenær veiðiheimildir verða veittar þeim sem hæst bjóða. Þjóðin skuldar eigendum Samherja ekkert. Það voru til duglegir útgerðarmenn áður en þeir komu að útgerð og skip hafa þróast stöðugt. Sú þróun var hafin löngu áður en þeir fermdust sem nú geta keypt allt og alla vegna þess að kjark hefur skort til að framkvæma vilja þjóðarinnar um að þjóðin skuli njóta fullrar auðlindarentu – þar sem markaðurinn er betri ákvörðunaraðili en stjórnmálamenn.
Hér hefur verið rætt um veiðar með smærri bátum sem margir eru gerðir út frá minni sveitarfélögum og sækja leyfi til þess í gegnum 5,3% kerfið. Ef þessar veiðar skila frábæru hráefni væri ekki úr vegi að þeir sem slíkar veiðar stundi greiði veiðigjald sem gæti verið nálægt leigu fyrir samsvarandi kvóta, þar til veiðileyfi verða boðin upp á markaði. Þá borgi þeir það verð sem samþykkt hefur verið á markaði. Þeir sem búa og gera út frá byggðum sem að bestu manna yfirsýn þarfnast stuðnings gætu haft umtalsverðan afslátt frá leigu með því skilyrði einu að aflinn sé verkaður í sveitarfélaginu, eða fari á fiskmarkað.
Þeir eru til sem af misskilinni góðsemi vilja bæta upp þeim sem kvótakerfið hefur haft áhrif á, svo sem þeim sem ekki geta fengið skipspláss sem ekki eru lengur til, eða þeim sem vinna í fiskiðjuverum sem eru heldur ekki til. Slíkar uppbætur eru gagnslausar og óskynsamlegar. Alveg eins og með bankastarfsfólkið er afar ólíklegt að þar verði í framtíðinni til störf eins og áður voru í boði. Stjórnmálamenn sem standa undir nafni eiga að gera auðlindamál að meginmálum næstu kosninga, og huga í alvöru að búsetuþróun og alvöru starfstækifærum á næstu árum og áratugum. Heimurinn hefur aldrei staðið kyrr og við þurfum sameiginlega að vinna að betri framtíð fyrir alla landsmenn í breyttum heimi.
Höfundur starfaði sem togarasjómaður.