Í samráðsgátt stjórnvalda má finna drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands, sem á uppruna sinn í forsætisráðuneytinu. Kallað hefur verið eftir slíku ákvæði í hátt í hálfa öld í íslenskri þjóðmálaumræðu, án þess að af því hafi orðið. Ekki síst hafa yfirráð og ráðstöfun fiskveiðiauðlindarinnar verið rót mikilla pólitískra átaka, ákallið um auðlindaákvæði í seinni tíð má ekki síst rekja til þess.
Þar er krafan að þjóðin í heild sinni njóti meginágóðans af auðlindunum, en ekki útvalin fyrirtæki. Það er því mikilvægt að nýtt auðlindaákvæði taki mið af þeirri kröfu – án þess er betur heima setið en af stað farið.
Í nýbirtu áliti Feneyjarnefndarinnar kemur m.a. fram að skýra þurfi frekar hvað átt sé við með þjóðareign í tengsl við hefðbundinn eignarrétt í drögunum, þar sem í greinargerð er gert ráð fyrir að þjóðin „eigi“ auðlindir samkvæmt skilgreiningu:
„Í frumvarpinu er lagt til að þjóðareignarhugtakið sé notað í lagalegri merkingu varðandi auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Jafnframt sé kveðið á um að auðlindir almennt í náttúru Íslands tilheyri þjóðinni sem er þá fremur stefnuyfirlýsing án ákveðins lagalegs inntaks.“
„Samkvæmt ákvæðinu tilheyra auðlindirnar íslensku þjóðinni en það orðalag vísar ekki til eignarréttar heldur þeirrar hugmyndar að náttúruauðlindir Íslands séu gæði sem þjóðin öll hefur ríkulega hagsmuni af og séu í þeim skilningi sameiginleg verðmæti landsmanna.“
Þarna er því um óljóst lagalega marklaust „eignarhald“ að ræða sem ekki verður séð að skipti neinu raunverulega máli – orðagjálfur til að skreyta mál pólitíkusa í ræðhöldum á 17. júní. Þessi drög að nýju auðlindaákvæði eru því fjarri því að vera svarið við því ákalli sem hefur hljómað úr samfélaginu í áratugi. Slíkt ákvæði þjónar helst hagsmunum stórútgerða, eigenda laxeldisstöðva og annarra sem fá aðgang að auðlindum fyrir brot af andvirði þeirra. Þá þjónar það hagsmunum ógagnsærrar gamaldags pólitískrar hentistefnu. Í gegnum tíðina hafa heyrst raddir um að þjóðin geti ekki átt neitt, en auðvitað eru eigur ríkisins, eins og ríkisjarðir, eign þjóðarinnar, þótt ríkið sé skráð fyrir eignarhaldi, eins og ætti auðvitað einnig að gilda um náttúruauðlindir.
Þessi drög varpa líka ljósi á þá staðreynd að Alþingi er vanhæft til að hanna stjórnarskrá sem setur völdum þess og áhrifum skorður. Þótt það hafi samkvæmt núverandi stjórnarskrá völd til þess, er það siðferðilega vanhæft og eina boðlega leiðin er að það framselji sjálfviljugt það vald til t.d. einhvers konar stjórnlagaþings sem sækti umboð sitt frá þjóðinni.
Stjórnlagaráð var á sínum tíma skipað af fólki víða úr samfélaginu, fólki sem hafði engra hagsmuna að gæta, annarra en þjóðarinnar. Í auðlindaákvæði stjórnarskrár stjórnlagaráðs má finna:
„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“
Krafan um fullt gjald vísar beint til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, sem getur aldrei verið annað en sú meginstefna að greitt sé fullt markaðsgjald fyrir aðgang að auðlindum. Það er eina leiðin sem getur tryggt bæði jafnræði og gagnsæi. Í ákvæði forsætisráðherra eru þessi hugtök marklaus í plaggi sem er opið fyrir pólitískri hentistefnu, plaggi sem með réttu má kalla auðlindaákvæði stórútgerðarinnar.
Höfundur er heimspekingur og formaður Okkar auðlindar.