Þann 14. október síðastliðinn var hátíðisdagur í dagatali Sameykis – stéttarfélags í almannaþjónustu. Þann dag stóð félagið fyrir málþingi í tilefni könnunar félagsins á Stofnun ársins. Þar var stofnunum hjá ríki, borg og bæ veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í sínu innra starfi. Verðlaunin voru veitt vegna ársins 2019, en vegna Covid ástandsins í okkar kæra landi þá hafði hátíðinni verið frestað síðastliðið vor fram á haustið. Í flokki stórra stofnana þá var Nýsköpunarmiðstöð Íslands í fyrsta sæti, framúrskarandi stofnun með 4,53 í heildareinkunn. Til að ná slíkum árangri þá verður stofnunin að skora vel á öllum matsþáttum; stjórnun, starfsanda, ímynd stofnunar, ánægju og stolti, o.s.frv. Það hefur sýnt sig að viðurkenning af þessu tagi er mikilvæg þeim stofnunum, sem hafa staðið sig vel í að bjóða upp á góða vinnuaðstöðu, góða stjórnun, hvetjandi vinnuumhverfi og þar fram eftir götunum. Og undantekningarlaust hefur þessi árangur náðst vegna þess að stofnanir eru að sinna hlutverki sínu í samfélagi okkar vel. Starfsánægja og stolt starfsmanna af sínum vinnustað hefur þannig vaxið í réttu hlutfalli af velgengni stofnana í kjarnahlutverki sínu. Stofnun sem er augljóslega að vinna framúrskarandi starf kallar þannig fram það besta í starfsmönnum sínum. Með þann árangur í farteskinu ætti stofnunin núna að vera að uppskera eins og til var sáð. Nú ætti stefnan að vera tekin á að gera enn betur í því mikilvæga hlutverki, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur staðið fyrir árum saman. Núna ætti að byggja enn frekari árangur á þeim traustu stoðum sem stofnunin stendur á. Á svona tímamótum væri ærið tilefni fyrir ráðherra nýsköpunarmála á Íslandi að fagna. Kalla forstjórann á sinn fund, eða hitta hann á rafrænum fundi, senda starfsmönnum hamingjuóskir eða jafnvel senda blómvönd með góðri hvatningu. En ... ekkert af þessu gerðist. Því að ráðherra iðnaðar og nýsköpunar ætlar að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður.
Það er alltaf réttur tími fyrir góðar hugmyndir, en aldrei fyrir vondar. Vondar hugmyndir geta að vísu komið fram á mis óheppilegum tímum og þessi hugmynd um að leggja Nýsköpunarstofnun niður gæti varla hafa komið fram á verri tíma. Ef ætlun stjórnvalda er sú að grípa til varna fyrir íslenskt samfélag á þessum tímum sem við nú lifum, þá væri rétta ákvörðunin sú að fara í stórátak í nýsköpunar- og hvatningarverkefnum, þar sem byggt yrði á þeim trausta grunni sem starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar hafa lagt. Samtímis væri hægt ef þurfa þykir að styrkja stofnunina með innra umbótastarfi og framsæknum nýjungum í þjónustunni. Stofnunin hefur sýnt og sannað að þar starfar samhentur og framsýnn starfsmannahópur, sem er hlutverki sínu vel vaxinn.
Forsætisráðherra hefur margsagt að núverandi ríkisstjórn byggi á stöðugleika. Að því gefnu er eini leikurinn í stöðunni að styrkja Nýsköpunarmiðstöð og færa öflugum starfshópi ný verkefni og tækifæri til að gera enn betur, sækja ákafar fram í þjónustu, aðstoð og nýjum verkefnum á landinu öllu. Því ættu stjórnvöld að leika sína bestu leiki í stöðunni til að ná þeim markmiðum sem þjóðin þarf á að halda núna. Einn þeirra leikja er að styrkja starf Stofnunar ársins árið 2019. Sem er Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Höfundur er framkvæmdastjóri kjaramála og reksturs hjá Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu.