Aukning peningamagns umfram þjóðartekjur, gengisfall krónu og mikill halli á ríkissjóði eru allt þættir sem geta kynnt undir verðbólgu. Enginn þessara þátta er þó hver um sig nauðsynlegt eða nægjanlegt skilyrði fyrir aukinni verðbólgu. Það sem vekur ugg er að þeir róa allir í sömu átt og samspil þeirra er nánast örugg uppskrift að aukinni verðbólgu.
Traustur gjaldmiðill vinnur gegn óstöðugleika
Aukning peningamagns vegna örvunaraðgerða seðlabanka víða um lönd hefur ekki leitt til verðbólgu ennþá að minnsta kosti. Þannig hefur efnahagsreikningur Seðlabanka Bandaríkjanna vaxið úr um einni billjón dala (e. trillion) í september 2008 í yfir sjö billjónir jafnframt því sem mikill halli er á ríkissjóði og skuldahlutfall farið yfir 100% af landsframleiðslu. Þrátt fyrir þetta virðast stjórnvöld hafa litlar áhyggjur af stöðu mála. Gengi dalsins hefur ekki veikst og vilji fjárfesta til að fjármagna ríkishallann er óbreyttur. Ástæðan er óbilandi trú manna á framleiðslugetu Bandaríkjanna. Þótt á móti blási muni atvinnulíf eflast á ný og geta greitt allar skuldir hins opinbera. Svipaða sögu er að segja frá evrusvæðinu. Þannig geta ítölsk stjórnvöld sem eru skuldug upp fyrir haus enn fengið skammtímalán á markaði með núll vöxtum. Ástæðan er traust manna á getu seðlabanka Evrópu (ECB) til að hlaupa undir bagga ef á þarf að halda.
Íslenska örmyntin stendur ein og óstudd með innbyggðan óstöðugleika. Traust er lítið sem ekkert enda ómögulegt að segja fyrir um verðgildi krónunnar eftir t.d. eitt ár. Viðskiptakostnaður er mjög hár og ábyggileg áætlanagerð mjög erfið fyrir heimili og fyrirtæki. Bankakerfið er í spennitreyju krónunnar og getur ekki nýtt mannauð eða sterka eiginfjárstöðu til að vaxa og dafna á stærri markaði. Kostnaðurinn við óstöðugt og óvisst gengi er vafalítið hærri en hugsanlegur ábati af sveigjanleika. Íslendingar geta ekki með neinum hætti borið aðstæður hér saman við stöðu peningamála í stórum hagkerfum. Það er þó ekki smæð hagkerfisins sem útilokar traustan gjaldmiðil. Markviss peninga- og fjármálastjórnun um árabil getur lagt grunn að traustum gjaldmiðli jafnvel í örhagkerfi.
Nú er leiðin til að fá traustan gjaldmiðil full aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eftir tveggja ára dvöl í ERM II myntsamstarfinu. Hugmyndir um upptöku evru með sérsamningi í tengslum við EES eru líklega óraunhæfar. Mikill áróður gegn ESB og evrunni hefur verið rekinn hér einkum með tilstilli stórútgerðarinnar. Á meðan afturhaldsflokkarnir eru svo neikvæðir í garð Evrópusamvinnu og evru sem raun ber vitni er lítill grundvöllur fyrir sérsamninga við ESB. Gerist Ísland hins vegar aftur umsóknaraðili í ESB opnast leið til flýtisamninga um myntina. Hægt væri að taka upp jafngildi evru með myntráði og fá bakstuðning frá ECB ef samningsvilji er fyrir hendi og væntanlega stutt í ERM II og síðan evru aðild.
Lánveitandi til þrautavara og áhrif á vaxtastig
Vöntun á lánveitanda til þrautavara og lítil áhrif á vaxtastig er meðal þess sem hefur verið fundið að myntráðsfyrirkomulaginu. Hér er um óþarfa áhyggjur að ræða. Það á að vera pólitísk ákvörðun að bjarga banka sem nýtur ekki lánstrausts annarra banka og er að falli kominn. Ábyrgðin verður að vera á herðum stjórnvalda ekki seðlabanka eða myntráðs. Hlutverk lánveitanda til þrautavara er því hjá ríkissjóði. Hins vegar getur myntráð veitt skammtíma lausafjárfyrirgreiðslu ef gjaldeyrisforðinn er meiri en það sem þarf til að baktryggja innlendu myntina.
Vextir fylgja markaðsvöxtum í þeirri mynt sem menn tengja sig við. Ekkert bannar bönkum að bjóða hærri vexti og laða þannig að fjármagn. Vandamál gæti komið upp ef kreppa verður innanlands og bankar vilja lækka vexti undir vöxtum viðmiðunarmyntarinnar því þá verður fjárflótti ofan á kreppuna. Slíkt ástand verður að teljast mjög ólíklegt, ekki síst vegna þess að lítil hagkerfi búa yfirleitt við skort á lánsfé og hafa tilhneigingu til hærra vextastigs en stór hagkerfi.
Ríkisfjármál
Mikill halli á ríkissjóði fylgir núverandi árferði og er samkomulag um að það sé nauðsynlegt til að halda uppi velferðarkerfi og atvinnu. Hægt er að fleyta skuldum í nokkur ár en svo kemur að skuldadögum. Hér er úr vöndu að ráða því skattahækkanir eru nánast ómögulegar hvort sem litið er til óbeinna eða beinna skatta. Ástæðan er mikil þensla í umsvifum hins opinbera undanfarin ár. Hið opinbera ráðstafar vel yfir 45% af hreinum þjóðartekjum*. Tekjuskattar teygja sig langt niður fyrir lágmarks framfærsluviðmið og þyrfti raunar að aflétta skattbyrði lágtekjufólks. Mögulega má hækka tekjuskatta á hátekjufólki en sú aðgerð mun ekki vega þungt. Virðisaukaskattur er hár og verður ekki hækkaður. Hins vegar ber að afnema undanþágur sem eru ómarkvissar og ónauðsynlegar. Aukinn hagvöxtur er því forsenda fyrir bættri fjárhagsstöðu hins opinbera ásamt góðri skuldastjórn. Fjármögnun á skuldum ríkissjóðs yrði mun ódýrari innan evrusvæðisins.
Fjárfesting
Markviss fjárfesting er forsenda efnahagsframfara. Þó ferðamenn muni skila sér á endanum þarf að beina að minnsta kosti hluta fyrrum starfsmanna ferðaþjónustunnar í önnur störf. Einkageirinn verður að mynda þessi störf. Hið opinbera getur lagt til fjármagn í verðug sprotafyrirtæki og styrkt grunngerð. Til dæmis er stór hluti vegakerfisins nánast ófær fyrir nútíma fólksbíla og átak í vegamálum því augljóslega arðsamt verkefni ekki síst til að búa í haginn fyrir ferðamenn sem vilja skoða landið. Kaup á framleiðsluleyfum eða jafnvel heilum fyrirtækjum í rekstri erlendis mætti einnig athuga en mikilvægt er að atvinnulausir komi saman og skiptist á hugmyndum sem geta leitt til nýrra atvinnutækifæra með stuðningi fjárfestingarsjóða. Aðild að ESB mun opna fyrir nýtt fjármagn einkum til uppbyggingar á landsbyggðinni sem styrkir fjárhag sveitarfélaga.
Gengisfall og vextir
Gengisfall leiðir óhjákvæmilega til hækkunar á erlendri neysluvöru þótt stöndug fyrirtæki í virkri samkeppni geti mætt verðhækkunum með minni hagnaði. Atvinnuleysi er mikið og fólk sem fer á atvinnuleysisbætur lækkar í tekjum. Tekjumissir atvinnulausra leiðir þó varla til samdráttar í verslun með matvöru sem vegur þungt í vísitölunni. Gengisfall mun því kynda undir verðbólgu
Peningastefna sem hvílir á verðbólgumarkmiði þarf að vera framsýn. Með það í huga er óhjákvæmilegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti innan skamms. Hækkun stýrivaxta leiðir til hærri útlánavaxta banka og í ljósi þess hve óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum eru algeng mun vaxtahækkun draga fljótt úr kaupgetu almennings og auka hættu á vanskilum heimila.
Stýrivaxtalækkun Seðlabankans á þessu ári hefur ekki aukið einkafjárfestingar eða hagvöxt heldur leitt út í eignaverð einkum fasteignaverð líkt og algengt er erlendis. Lægri vaxtabyrði eykur lánstraust þar sem lægri afborganir stækka þann hóp lántakenda sem stenst greiðslumat vegna fasteignakaupa. En það er skammgóður vermir. Óstöðugleiki krónunnar gerir mjög erfitt að halda lágu vaxtastigi.
Að lokum
Óstöðugur og ótrúverðugur gjaldmiðill auðveldar ekki glímuna við samdrátt í hagkerfinu, verðbólguþrýsting og almennt mikla óvissu um stöðu þjóðarbúsins eftir mikla skuldasöfnun ríkissjóðs. Ekki er annað að sjá en að núverandi ástand sé uppskrift að verðbólgu sem kallar á vaxtahækkanir og enn meiri óstöðugleika. Full aðild að ESB og upptaka evru er opin leið til að draga úr óvissu og styrkja stöðu þjóðarbúsins. Myntráð við evru er einfalt og traust peningakerfi sem getur dugað vel fram að upptöku evru.
*Samkvæmt Hagstofu voru vergar þjóðartekjur árið 2019 2.593 milljarðar en tekjur hins opinbera 1.211 milljarðar eða 47%. Hlutfall af landsframleiðslu er um 41%.