Þegar samfélagslegt skaðræði skreytir sig með samfélagslegri ábyrgð

Auglýsing

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa síðustu misseri staðið fyrir mótun á stefnu í samfélagsmálum. Sú vinna er viðbragð við því að mörg fyrirferðarmikil fyrirtæki innan geirans hafa orðið uppvís af því að haga sér með hætti sem jafnvel best launuðu málaliðar þeirra viðurkenna í einkasamtölum að sé samfélagslegt skaðræði. 

Í grein sem framkvæmdastjóri SFS skrifaði í Morgunblaðið – blað að uppistöðu í eigu sömu aðila og stýra þeim samtökum – um helgina sagði að sem hluti af samfélaginu beri fyrirtækjum að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu. „Það er von mín að með þeim aðgerðum sem ráðist verður í á grundvelli þessarar stefnu verði sjávarútvegur leiðandi afl jákvæðra breytinga í samfélaginu. Stefnan, ein og sér, mun duga skammt ef fyrirtæki í greininni gera sér ekki far um að innleiða hana í allar sínar athafnir.“

Þegar veikum skipverjum er haldið föngnum

Síðar sama dag og grein framkvæmdastjórans, Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, birtist steig fyrsti skipverjinn á Júlíusi Geirmundssyni, frystitogara sem gerður er út af Hraðfrystihúsinu Gunnvöru (HG), fram í fjölmiðlum og lýsti aðstæðum um borð. Honum og vinnufélögum hans hafði verið haldið á sjó vikum saman þrátt fyrir að nær allir þeirra væru smitaðir af COVID-19. Það er kaldhæðni örlaganna að SFS notuðu myndefni af Júlíusi Geirmundssyni í kynningarefni um nýju samfélagsstefnuna sína, þeirri sem boðar meira jákvætt og minna neikvætt. Eitt fyrirtækjanna sem hafði skrifað undir sáttmálann var enda Hraðfrystihúsið Gunnvör. Ljóst ætti að vera öllum með augu og eyru að sú útgerð hefur ekki innleitt stefnu um samfélagslega ábyrgð í „allar sínar athafnir“.

Í viðtalinu við skipverjann, hinn 21 árs gamla Arnar Hilmarsson, á RÚV kom fram að fyrst fór að bera á veikindum meðal áhafnarinnar á öðrum degi veiðiferðarinnar, sem stóð á endanum yfir í þrjár vikur. Skipverjarnir voru látnir vinna veikir, verkjalyf voru af skornum skammti og forgangsraða þurfti hverjir fengu þau. Áhöfninni var bannað að ræða veikindi sín við fjölskyldur sínar, við fjölmiðla eða á samfélagsmiðlum. Þau skilaboð voru ítrekuð þegar á leið veiðiferðina.

Auglýsing
Samkvæmt frásögninni var meginástæða þess að farið var í land ekki sú að 22 af 25 áhafnarmeðlimum voru orðnir veikir, heldur að það var bræla og það vantaði olíu á skipið. Meira að segja eftir að COVID-smit voru staðfest þá var þess krafist af veikum áhafnarmeðlimum að þeir kláruðu að gera að aflanum og þrifu skipið, sem í felst háþrýstiþvottur með heitu vatni þannig að mikil gufa myndast, með tilheyrandi áhrifum á lungu. 

Aðspurður hvort að skipverjar hafi ekki hreyft andmælum sagði Arnar að „andmæli beinlínis gegn skipstjórunum á frystitogara líðst ekki“ og að „hegðun HG í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni.“

Þykja ásakanirnar þungbærar

Viðbrögð útgerðarinnar voru upphaflega þögn. Hún neitaði að tjá sig um það sem átt hafði sér stað. Það breyttist í gær þegar Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn stærsti eigandi Hraðfrystihússins Gunnvarar, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á málinu. Þess má geta að Einar Valur er einnig varaformaður atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins sem hefur meðal annars það hlutverk að móta stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum, atvinnumálum almennt og um nýtingu auðlinda. Hraðfrystihúsið Gunnvör er einnig á meðal eigenda Morgunblaðsins, fjölmiðils sem rekinn er í botnlausu tapi ár eftir ár að því er virðist til að meðal annars halda úti áróðri sem er útgerðarrisunum þóknanlegur

Í lýsigögnum í Word-skjali með yfirlýsingunni sem var send á suma fjölmiðla var Heiðrún Lind, sú sama og var að skrifa upp stefnu sjávarútvegsfyrirtækja um samfélagslega ábyrgð, skráð höfundur skjalsins.

Í yfirlýsingunni sagði Einar Valur það aldrei hafa verið ætlun útgerðar eða skip­stjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skips­ins í hættu og „fyr­ir­tæk­inu þykir þung­bært að sitja undir ásök­unum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfs­manna“. 

Yfirlýsingin hafði ekki þau áhrif sem vonast var til og Einar Valur var kominn í viðtal við Vísi skömmu eftir að hún var send út. Þar sagði hann meðal annars: „Þetta er nýtt. Það þekkti enginn þetta COVID. Við vissum ekki hvað það var. Og þetta er eins og ég segi, fyrsta COVID-ið sem kemur í fyrirtækið hjá okkur. Við höfum blessunarlega verið laus við þetta og ekki þekkt þetta.“ 

Fyrsta COVID-smitið á Íslandi greindist í febrúar 2020. Síðan þá hefur heimsfaraldurinn heltekið samfélagið og haft meiri áhrif á það en nokkuð annað. Fjölmiðlar fjalla um COVID frá nær öllum hliðum oft á dag. Sá sem segist ekki þekkja COVID í nóvember 2020 hefur ekki verið með meðvitund í síðustu rúmu átta mánuði. Eða er einfaldlega að ljúga.

Ábatinn af því að stofna heilsu í háska

Þegar einstaklingar innan jaðarsettra hópa, sem glíma oftar en ekki við alvarlegan fíknivanda, svipta hvorn annan frelsi og/eða valda skaða eru þeir réttilega dæmdir til fangelsisvistar, líkt og lög gera ráð fyrir. 

Þegar útgerðarmaður heldur veikum mönnum úti á sjó vikum saman, og ætlast svo til þess að þeir klári ýmis verk þegar í land er komið þrátt fyrir að sjúkdómur þeirra sé þegar greindur, er erfitt að sjá hvernig það stangist ekki á 4. málsgrein 220. greinar almennra hegningarlaga. Þar segir að fangelsi allt að fjórum árum skuli „sá sæta, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.“

Nokkuð fyrirliggjandi ætti að vera að rökstuddur grunur sé um að Hraðfrystihúsið Gunnvör hafi brotið gegn 34. grein sjómannalaga þar sem segir að ef ástæða sé til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skuli skipstjóri „láta flytja sjúk­linginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smit­hættu á skipinu.“ Við brotum á sjómannalögum getur legið fangelsisrefsing ef miklar sakir eru. 

Engin formleg lögreglurannsókn hafði verið sett af stað á málinu í gær*. Viðbrögð ráðherra sjávarútvegsmála hafa takmarkast við það að segja að málið sé ömurlegt, að freklega hafi verið farið á svig við grund­vall­ar­at­riði sjó­mennsk­unnar sem snú­ast um að vernda heilsu og öryggi áhafn­ar­inn­ar og að fyr­ir­tækið hefði átt að taka á þessu máli með allt öðrum hætti en gert var.

Þegar ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, var spurður hvort hann teldi þessa óheil­brigðu og óeðli­legu menn­ingu sem var um borð í Júl­íusi Geir­munds­syni vera til marks um víð­tækara vanda­mál í sjáv­ar­út­veg­inum í heild sinni sagði Krist­ján að „ógnarstjórnun“ væri ekki bara bundin við sjáv­ar­út­veg. Málið gæti orðið til að bæta samskipti milli sjómanna og útgerðarmanna.

Ráðherrann vildi, samandregið, að lærdómur yrði dreginn af málinu, ekki að það myndi hafa afleiðingar fyrir þá sem bera ábyrgð á að stefna heilsu skipverja í hættu.

Ógnarstjórnun er víða

Það er hins vegar þannig að ógnarstjórnun, rökstuddur grunur um lögbrot í viðskiptum og allskyns óheilbrigði er eitthvað sem er ítrekað að koma upp í tengslum við sjávarútveg. Nærtækast er að minnast á meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja, stærsta sjávarútvegsveldi landsins, í tengslum við viðskiptahætti fyrirtækisins í Namibíu, þar sem sex eru með réttarstöðu sakbornings

Í stað þess að sýna auðmýkt gagnvart þessari stöðu hafa stjórnendur Samherja, sem telur sig líka vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og hefur undirritað nýja stefnu SFS, ráðist í afar kostnaðarsaman stríðrekstur gagnvart nafngreindu fólki og völdum fjölmiðlum.

Í þeim stríðsrekstri er reynt að hafa æruna og lífs­við­ur­væri af þeim sem útgerðin telur að ógni sér. Venju­legu fólki sem á engra sérhagsmuna að gæta, er einungis að vinna vinnuna sína og á ekki tugi millj­arða króna til að nota í ógn­ar­til­burði. Í honum hefur maður sem hefur fengið yfir 130 milljónir króna í greiðslur frá Samherja yfir nokkurra ára tímabil áreitt og elt blaðamenn sem tóku þátt í opinberunum á viðskiptaháttum fyrirtækisins. Í honum er lögfræðingi borgað fyrir að taka skjáskot af samfélagsmiðlum fjölmiðlamanna yfir lengri tíma sem svo eru notuð til að reyna sýna fram á siðareglubrot.

Auglýsing
Allt til að beina athyglinni af meginatriðum málsins, þeim sem héraðssaksóknari á Íslandi og yfirvöld í tveimur öðrum löndum eru að rannsaka.

Sama fyrirtækjasamsteypa er stærsti eigandi Eimskips og er með tögl og hagldir í því skráða fyrirtæki, þrátt fyrir að eignarhlutur þess eigi ekki að tryggja slíka stöðu. Eimskip hefur mótað og birt stefnu um samfélagslega ábyrgð sem skiptist í þrjú áherslusvið; umhverfi, samfélagið og stjórnarhætti. Þrátt fyrir það hikaði félagið ekki við að selja tvö skip í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfs­­­manna og umhverf­is­á­hrif nið­­­ur­rifs­ins eru mun lak­­­ari en í Evr­­­ópu, vegna þess að það var hagkvæmara. Þetta mál, sem er augljóslega í andstöðu við stefnu Eimskips um samfélagslega ábyrgð, hefur líka verið kært til héraðssaksóknara. 

Þá er ótalið mál sem Stundin greindi nýverið frá og í fólst að skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu ákvað að taka sér löggjafarvald með því að láta fresta birtingu nýrra laga um laxeldi þrátt fyrir að þau ættu að taka gildi strax. Fyrir vikið gátu þrjú laxeldisfyrirtæki, sem nú tilheyra SFS, skilað inn gögnum til Skipulagsstofnunar áður en lögin tóku gildi. Vegna þessa byggja fyrirhuguð laxeldisáform fyrirtækjanna þriggja á lagaákvæðum eldri laganna um laxeldi, sem eru ekki eins ströng og nýju lögin. Maðurinn sem tók sér þetta vald var sendur í leyfi. Ráðuneytinu fannst ekkert tilefni til að upplýsa um það opinberlega þegar það kom upp, þrátt fyrir augljóslegan alvarleika þess. Málið virðist ekki ætla að hafa frekari afleiðingar.

Svöðusár sem þarf að græða

Grunnurinn að ósætti í íslensku samfélagi liggur í framsali kvóta og afleiðingum þess. Þær eru helstar að til er orðin ofurstétt manna sem er að eignast Ísland. Örfáar fjölskyldur sem telja sig yfir lög hafnar og telja hluti eins og stefnur um samfélagslega ábyrgð vera fyrst og síðast fjaðrir til að skreyta sig með, ekki eitthvað til að fara eftir. Stjórnmálamenn þora ekki að láta þennan hóp sæta ábyrgð og hafa ekki kjark til þess að breyta kerfunum sem færa honum þessi samfélagslega skaðlegu völd.

Þetta eru einstaklingar sem telja sig ekki bundna af samfélagssáttmála. Með því að rísa ekki upp gegn þessari hegðun hafa stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra normaliserað siðrof. Veitt óboðlegu atferli viðurkenningu. 

Eina leiðin til að breyta þessu er að grípa til stórfelldrar lækkunar á kvótaþaki, algjörrar endurskilgreiningu á tengdum aðilum innan sjávarútvegs og banns við veðsetningu á kvóta í eigu almennings. Þá þarf að kyrfilega binda í stjórnarskrá að aflaheimildir séu eign þjóðarinnar og að þær séu ekki framseljanlegar nema tímabundið fyrir sanngjarnt afgjald. Það er svöðusár í íslensku samfélagi. Það myndaðist við framsal kvóta og það hefur einungis stækkað eftir því sem að ofurstétt útgerðarmanna hefur orðið ríkari, valdameiri, ófyrirleitnari og meira úr takti við samfélag manna á þessu landi.

Það þarf að græða þetta sár. 

Annars mun aldrei sátt ríkja í þessu landi.

Greint var frá því í dag, eftir að leiðarinn birtist, að lögreglurannsókn væri hafin vegna COVID-smita á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá Keflavíkurflugvelli.
Segja Ísland geta orðið miðstöð flugs á norðurslóðum
Í skýrslu starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum er sagt mikilvægt að flugi frá Íslandi til Rússlands og Kína verði komið á, enda hafi kínverskir ferðamenn mikinn áhuga á ferðum til norðurslóða. Þá séu tækifæri fólgin í betri tengingu við Grænland.
Kjarninn 14. maí 2021
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari