Mynd: Skjáskot/RÚV

Kergja innan hluthafahóps Eimskips nær suðupunkti

Óánægja með fyrirferð stærsta eigandans, dramatík í kringum stjórnarkjör og yfirtökuskyldu sem var svo felld úr gildi og slök rekstrarframmistaða sem leiddi af sér fall á markaðsvirði Eimskips hafði leitt til kergju á meðal lífeyrissjóða sem eiga meirihlutann í félaginu. Nýlegt mál, sem snýst um meint brot Eimskips lögum um með­höndlun úrgangs sem ríma ekki vel við áherslur lífeyrissjóða um sam­fé­lags­lega ábyrgð í fjár­fest­ing­um, er sem olía á eld.

Það hefur verið þung staða í hluthafahópi Eimskips lengi. Hvert málið hefur komið upp á fætur öðru þar sem óánægju hefur gætt meðal hluta stærstu lífeyrissjóða landsins með framvindu mála. Í ofanálag hefur rekstur Eimskips ekki gengið sem skyldi og félagið rekið með umtalsverðu tapi á fyrri helmingi yfirstandandi árs.

Það er í þessu ljósi sem skoða verður þá stöðu sem teiknaðist upp eftir að Kveikur greindi frá því að tvö skipa Eimskips, Laxfoss og Goðafoss, hefðu verið seld í des­em­ber í fyrra til fyr­ir­tækis sem heitir GMS, og sér­­­hæfir sig í að vera milli­­­liður sem kaupir skip til að setja þau í nið­­­ur­rif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfs­­­manna og umhverf­is­á­hrif nið­­­ur­rifs­ins eru mun lak­­­ari en í Evr­­­ópu. 

Þar eru skip oft rifin í flæð­­­ar­­­mál­inu og ýmis spilli­efni látin flæða út í umhverf­ið. Þá vinna starfs­­­menn þar við svo erf­iðar aðstæður að þær hafa verið kall­aðar mann­rétt­inda­brot.

Ein helsta ástæðan fyrir því að skip eru flutt á þessar slóðir, í umræddu tilviki í skipakirkjugarð í Alang á Indlandi, er ekkert flókin, það er greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í niðurrif þar en í Evrópu. Það útskýrist af því að í Evrópu þarf að greiða laun samkvæmt kjarasamningum, viðhalda öryggi starfsmanna á vinnustöðum og mæta löggjöf frá árinu 2018 sem leggur bann við því að skip yfir 500 brúttó­tonnum séu rifin ann­ars staðar en í vott­uðum end­ur­vinnslu­stöðv­um. 

Umhverfisstofnun hefur kært meint brot Eimskips á lögum um með­höndlun úrgangs til héraðsaksóknara og málið rímar ekki við þær áherslur um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sem stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa undirgengist. 

Auglýsing

Þeir hafa allir kallað eftir skýringum frá stjórn Eimskips og á grundvelli þeirra munu sjóðirnir taka ákvörðun. 

Viðmælendur Kjarnans segja tvo kosti blasa við ef stjórn Eimskips tekst ekki að sannfæra lífeyrissjóðina um að málatilbúnaður á hendur félaginu byggi á sandi. Annars vegar geti lífeyrissjóðir, sem eiga yfir helming hlutabréfa í Eimskip, selt þau eða þeir geta beitt sér í gegnum eignarhluta sinn í stjórn félagsins, og krafist þess að núverandi stjórnendur og stjórnarmenn axli ábyrgð á stöðunni sem sé uppi.

Framundan er því, að óbreyttu, uppgjör innan Eimskips. 

Stærsti eigandinn með tögl og hagldir

Það hefur verið kergja innan hluthafahóps Eimskips allt frá því að Samherji Holding, annar helmingur Samherjasamstæðunnar, keypti  um fjórð­ungs­hlut í Eim­­skip sumarið 2018.

Í september sama ár var haldinn hald­inn hlut­hafa­fundur til að kjósa nýja stjórn. Á þeim fundi tók Bald­vin Þor­­steins­­son, fram­­kvæmda­­stjóri við­­skipta­­þró­unar hjá Sam­herja og sonur Þor­­steins Más Bald­vins­­son­­ar, annars for­­stjóra og eins helsta eig­anda Sam­herja, við sem stjórnarformaður og Guð­rún Blöndal var kjörin ný í stjórn. Þótt Guð­rún byði sig fram sem óháður stjórn­­­ar­­maður þá naut hún stuðn­­ings Sam­herja í starfið. Viðmælendur Kjarnans úr hluthafahópi Eimskips litu á þau bæði sem fulltrúa Samherja í fimm manna stjórn félagsins.

Í janúar 2019 var svo ráðinn nýr forstjóri Eimskips, Vil­helm Már Þor­­­steins­­­son. Hann er frændi stjórn­­­­­ar­­­for­­­manns­ins og tveggja helstu eig­enda Sam­herja. Hluti lífeyrissjóðanna í hluthafahópi Eimskips litu svo á að með þeirri ráðningu væri Samherji að herða tök sín á félaginu. 

Baldvin Þorsteinsson er stjórnarformaður Eimskips en faðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, hefur stýrt Samherja í áratugi.
Mynd: Skjáskot

Í lok mars 2019 fór fram aðalfundur Eimskips. Þar tókst ekki að kjósa lögmæta stjórn þar sem að sex stjórnarmenn höfðu sóst eftir fimm stjórnarsætum. Sá sem bættist nýr við var Óskar Magnússon, sem gegnt hefur marg­s­­konar trún­­að­­ar­­störfum fyrir eig­endur Sam­herja í gegnum tíð­ina og situr í stjórn fjöl­marga félaga sem tengj­­ast sam­­stæð­unni.

Mánuði síðar náðist niðurstaða í það þrátefli þegar Vil­hjálmur Vil­hjálms­son, fyrr­ver­andi for­stjóri HB Granda, dró framboð sitt í stjórninni til baka og eftirlét Óskari sætið. Þá var Samherji, með sinn 27,1 prósent eignarhlut, kominn formlega með tvö af fimm stjórnarsætum og einn stjórnarmaður til viðbótar sem naut óskoraðs stuðnings samstæðunnar til setu sem óháð sat þar líka.

Þessi atburðarás lagðist ekki vel í marga aðra hluthafa.

Yfirtökuskyldan sem Samherji slapp við

Þriðjudaginn 10. mars síðastliðinn bætti Samherji Holding 3,05 prósent hlut við fyrri eignarhlut sinn í Eimskip. Við kaupin fór heildareign Samherja yfir 30 prósent og yfirtökuskylda myndaðist samkvæmt lögum. 

Ástæða þess er sú að þegar einn fjárfestir er farinn að ráða yfir meira en 30 prósent í félagi þá eru tök hans á því orðin svo mikil að þær aðstæður geta skapast að hann geti tekið ákvarðanir, og hrint þeim í framkvæmd, sem þjóna hagsmunum fjárfestisins, ekki félagsins eða annarra hluthafa. Því er um lykilskilyrði í lögunum sem ætlað er að vernda minni hluthafa fyrir því að stórir fjárfestar geti valdið þeim skaða. 

Tíu dögum síðar, 20. mars, hafði staðan í heiminum breyst hratt. Hlutabréfamarkaðir voru í frjálsu falli og hvert ríkið á fætur öðru var að loka landamærum sínum og hrinda í framkvæmd stórfelldum skerðingum á ferðafrelsi íbúa sinna, jafnt innan landamæra sem utan. Afleiðingin var hrun í eftirspurn eftir flest öllum vörum og þjónustum. 

Auglýsing

Þann dag sendi Samherji Holding Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskaði eftir að fá undanþágu frá yfirtökuskyldunni sem hafði myndast. Sú undanþágubeiðni var rökstudd vegna þeirra „sér­stöku aðstæðna sem hefðu skap­ast á fjár­mála­mark­aði vegna útbreiðslu Covid-19. Í lögum um verð­bréfa­við­skipti er fjár­mála­eft­ir­lit­inu veitt heim­ild til að veita slíka und­an­þágu ef sér­stakar ástæður mæla með því.“

Þremur dögum síðar seldi Samherji 2,93 prósent hlut í Eimskip. Sú sala gerði það að verkum að atkvæðavægi Samherja í Eimskip fór niður í 29,99 prósent, eða í hæsta mögulega fjölda atkvæða sem halda má á án þess að mynda yfirtökuskyldu.

Daginn eftir að Samherji seldi sig undir viðmiðunarmörk ákvað Eimskip að fella afkomuspá sína fyrir árið 2020 úr gildi vegna óvissunnar sem væri uppi vegna COVID-19. 

Fjármálaeftirlitið samþykkti beiðni Samherja um að sleppa við yfirtökuskyldu. 

Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði og innan lífeyrissjóðakerfisins sögðu að mörgum fjárfestum þætti ákvörðunin ótrúleg. Svo virtist vera sem að hagsmunir einnar fyrirferðamikillar samstæðu væru teknir fram fyrir hagsmuni annarra hluthafa með því að „sleppa þeim af önglinum“ eins og einn viðmælandi orðaði það. Hluthafar hafi verið fullfærir til að taka þessa ákvörðun sjálfir og ákveða hvort að aðstæður kölluðu eftir því að taka yfirtökutilboðinu og hætta afskiptum að félaginu, eða hafna því og halda áfram að vera í hluthafahópi þess á þeim krefjandi tímum sem framundan eru. 

Taprekstur

Í lok síðasta mánaðar birti Eimskip hálfsársuppgjör sitt. Þar kom fram að tekjur höfðu lækkað á milli ára þegar tímabilið var borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Alls nam tapið á tímabilinu 2,5 milljónum evra, rúmlega 400 milljónir króna. Á sama tíma í fyrra var Eimskip rekið í 300 þúsund evru hagnaði. EBITDA-hagnaður, sem er hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta, dróst saman um 12,8 prósent. Vert er þó að taka fram að fjárfestingar voru 4,4 milljónum evra meiri nú en á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 og tekist hefur að lækka launakostnað félagsins um 10,5 prósent milli ára. Í uppgjöri annars ársfjórðungs kom fram að neikvæðra áhrifa af COVID-19 gætti einna helst í ferðaþjónustutengdu dótturfélögunum Sæferðum og Gáru. Þ.e. ekki í kjarnastarfsemi Eimskips.

Tap var á rekstri Eimskips á fyrri helmingi ársins 2020.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Þessi staða hefur leitt til þess að hlutabréf í Eimskip hafa hrunið í verði. Á árinu 2020 hafa þau lækkað um 30,7 prósent. Markaðsvirði félagsins nú er 24,7 milljarðar króna. Í byrjun janúar náði það að vera 36 milljarðar króna. Því hefur virði Eimskips lækkað um 11,3 milljarða króna innan yfirstandandi árs. 

Virði Eimskips reis hæst í lok nóvember 2016. Þá var markaðsvirðið 63,3 milljarðar króna. Frá þeim tíma hefur markaðsvirðið hrunið um 38,6 milljarða króna.

Þessi staða hefur valdið aukinni kergju á meðal lífeyrissjóðanna í eigendahópnum. Þeir hafa það hlutverk samkvæmt lögum að ávaxta fé sjóðsfélaga. Og fjárfesting þeirra í Eimskip, félagi sem er að uppistöðu stýrt af stærsta eigandanum Samherja, er ekki að gera það.

Einu félögin sem skráð eru í Kauphöll sem hafa lækkað meira en Eimskip það sem af er ári eru þau sem hafa orðið harðast úti allra skráðra félaga vegna kórónuveirufaraldursins. Þar er annars vegar um að ræða Icelandair, sem hefur lækkað um 85,3 prósent, og fasteignafélagið Reiti, sem hefur lækkað um 36,8 prósent. Icelandair hefur þegar farið í gegnum hlutafjárútboð til að takast á við yfirstandandi stöðu, þar sem sóttir voru 23 milljarðar króna, og Reitir greindu frá því í byrjun viku að hlutafjárútboð þess, þar sem til stendur að sækja 5,1 milljarð króna, fari fram 20. til 21. október.

Kæra til héraðssaksóknara

Staðan innan hluthafahóps Eimskips batnaði ekki þegar Kveikur sýndi afrakstur margra mánaða rannsóknarvinnu síðastliðinn fimmtudag, í þætti sem fjallaði um hvernig Eimskip hafði selt tvö skip til fyr­ir­tækisins GMS, og sér­hæfir sig í að vera milli­liður sem kaupir skip til að setja þau í nið­ur­rif í Asíu þar sem skip eru oft rifin í flæð­ar­mál­inu og ýmis spilli­efni látin flæða út í umhverf­ið, laun starfsmanna eru langt undir kjarasamningum í Evrópu og vinnuaðstæður svo erfiðar að þær eru sagðar vera mannréttindabrot.  

Auglýsing

Fram­ferði Eim­skip hefur þegar verið kært til emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara af Umhverf­is­stofn­un. Eim­skip sendi frá sér til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands á föstu­dag þar sem félagið hafn­aði því að hafa brotið lög. 

Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir eiga meira en helm­ing í Eim­skip. Stærstu sjóðir lands­ins: Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins (LSR), Gildi, Líf­eyr­is­sjóður verzlunarmanna og Birta eiga sam­tals 43,2 pró­sent í skipa­fé­lag­inu. 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti eigandi Eimskips og á alls 14,7 prósent hlut í Eimskip. Sjóðurinn hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð við fjárfestingar. Er sjóðurinn t.d. aðili að UN-PRI, samtökum á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem og FESTU-Samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar er málið til skoðunar. 

Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti eigandi Eimskips með 13,43 prósent eignarhlut. Hann hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð við fjárfestingar. Í hluthafastefnu sjóðsins segir m.a.: „Gildi-lífeyrissjóður leggur áherslu á að þau félög sem hann fjárfestir í fylgi lögboðnum og góðum stjórnarháttum og gefi út fullnægjandi stjórnarháttayfirlýsingar, standi vörð um réttindi hluthafa, fylgi lögum og reglum og gæti að samfélagslegri ábyrgð, umhverfismálum og viðskiptasiðferði.“ Í svari við fyrirspurn Kjarnans sagði sjóðurinn að „vinnubrögðin sem lýst var í þættinum ríma illa við stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar.“ Málið yrði tekið til skoðunar innan Gildis og sjóðurinn biði eftir viðbrögðum Eimskips.

LSR er fjórði stærsti eigandi Eimskips. Samanlagt eiga A og B-deildir sjóðsins 8,97 prósent í félaginu. LSR hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð við fjárfestingar. Í áherslum hans, sem birtar eru á heimasíðu sjóðsins, segir m.a. að „mikilvægi samfélagslegs hlutverks lífeyrissjóðanna verði haft að leiðarljósi í allri starfsemi þeirra.“

Sjóðurinn hefur sagt að í kjölfar umfjöllunar Kveiks muni hann óska eftir skýringum frá Eimskip vegna þess sem þar kom fram.

Rímar ekki við áherslum um samfélagslega ábyrgð

Birta lífeyrissjóður er á fimmti stærsti eig­andi Eim­skips með 6,1 pró­sent eign­ar­hlut í félag­inu. Sjóð­ur­inn er meðal ann­ars aðili að reglum Sam­ein­uðu þjóð­anna um ábyrgar fjár­fest­ingar (Principles for Responsible Investment). Þær eiga að vera leið­bein­andi fyrir stofn­ana­fjár­festa um allan heim og fela í sér að þátt­tak­endur skuld­binda sig til að taka til­lit til umhverf­is­legra og félags­legra þátta við fjár­fest­ingar sín­ar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórn­ar­hætti fyr­ir­tækja sem fjár­fest er í. Sam­kvæmt því sem fram kemur á heima­síðu Birtu þykja regl­urnar því falla „al­mennt vel að hlut­verki og eðli líf­eyr­is­sjóða enda hafa þeir þýð­ing­ar­miklu sam­fé­lags­legu hlut­verki að gegna og almenn­ingur gerir kröfu um að þeir axli sam­fé­lags­lega ábyrgð.“

Fjallað um sið­ferði, mannréttindi, spill­ingu og mútur

Í síðustu birtu árs­reikn­ingnum þeirra tveggja félaga sem mynda Sam­herj­a­sam­stæð­una á Íslandi, Sam­herja hf. og Sam­herja Holding ehf., sem eru fyrir árið 2018, er fjallað um það sem er kallað „ófjár­hags­leg upp­lýs­inga­gjöf“.

Þar sagði meðal ann­ars að Sam­herj­­a­­sam­­stæðan virði „al­­menn mann­rétt­indi, rétt allra til félaga­frelsis og kjara­­samn­inga. Áhersla er lögð á að verk­takar og und­ir­verk­takar fari eftir gild­andi lögum er varðar alla sína starfs­­menn, hvort sem það eru þeirra laun­þegar eða eigin und­ir­verk­tak­­ar.“ Sam­­stæðan hafi þó ekki sett sér skrif­­leg við­mið um sið­­ferði, spill­ingu, mann­rétt­indi eða mútur en að vinna við það hafi verið í gangi og átti að ljúka á árinu 2019. Samherji hefur ekkert birt opinberlega um niðurstöðu þeirrar vinnu en samstæðan, og lykilstarfsmenn innan hennar, eru sem stendur til rannsóknar vegna meintra mútugreiðslna, peningaþvættis og skattsniðgöngu í tengslum við starfsemi hennar í Namibíu.

Í árs­reikn­ing­unum var auk þess fjallað um að félög innan sam­­stæð­unnar hafi und­an­farið unnið að marg­vís­­legum stefnum og áætl­­unum sem eigi það sam­­merkt að styðja beint eða óbeint hver við aðra. „Má þar nefna inn­­­leið­ingu á við­bragðs­á­ætlun gegn ein­elti, kyn­­ferð­is­­legu og kyn­bundnu áreiti og ofbeldi, mann­rétt­inda­­stefnu, stefnu í vinn­u­vernd­­ar- og örygg­is­­mál­um, jafn­­rétt­is­á­ætl­­un, per­­són­u­vernd­­ar­­stefnu og fleira. Vinna við fram­an­­greindar stefnur og áætl­­­anir er vel á veg komin og er stefnt að því að þær verði inn­­­leiddar á árinu 2019.“

Þar kom einnig fram að vinna stæði yfir við gerð mann­rétt­inda­­stefnu Sam­herja og Sam­herja Holding sem miði að því að tryggja að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóti mann­rétt­inda án til­­lits til kyn­­ferð­is, kyn­hneigð­­ar, trú­­ar­bragða, skoð­ana, þjóð­ern­is­­upp­­runa, kyn­þátt­­ar, lit­­ar­hátt­­ar, efna­hags, ætt­­ernis og stöðu að öðru leyti. „Engum skal haldið í nauð­ung­­ar­vinnu eða barna­­þrælkun og hafnar Sam­herji hvers kyns þræl­­dómi, nauð­ung­­ar­vinnu og man­­sali.“

Sam­herj­­a­­sam­­stæðan sagðist telja að sam­­fé­lags­­leg ábyrgð væri ekki ein­ungis ábyrgð heldur að í henni fælist einnig tæki­­færi til að bæta vel­­ferð nær­­sam­­fé­lags­ins. „Sam­­stæðan leggur sitt af mörkum til að efla kom­andi kyn­­slóðir og stuðla að fram­­förum í sam­­fé­lag­inu og hefur Sam­herji veitt styrki til ýmissa sam­­fé­lags­verk­efna.“

Ólafur Sig­urðs­son, fram­kvæmda­stjóri Birtu, var beinskeyttur í svari við fyrirspurn Kjarnans um það hvernig ætlað athæfi Eimskips passaði við skuldbindingar Birtu um samfélagslega ábyrgð við fjárfestingar. „Sú kæra sem borist hefur frá Umhverf­is­stofnun til emb­ættis hér­aðs­sak­sókn­ara vegna meintra brota Eim­skips á lögum um með­höndlun úrgangs rímar aug­ljós­lega ekki vel við áherslur okkar um sam­fé­lags­lega ábyrgð í fjár­fest­ing­um. Við lítum það mál að sjálf­sögðu mjög alvar­legum aug­um. Í okkar huga snýst málið ekki ein­göngu um sið­ferð­is­leg sjón­ar­mið í alþjóð­legum við­skiptum heldur hlítingu við lög og reglur sem er algjört grund­vall­ar­at­riði við mat á stjórn­ar­hátt­u­m.“

Hann sagði einnig að það væri hlut­verk stjórnar Eim­skips að upp­lýsa um málið. Ef ekki yrði orðið við því þyrfti „aug­ljós­lega að grípa til harð­ari aðgerða sem við höfum á þessu stigi ekki lagt mat á. Það mat mun byggja á fram­vindu máls­ins á næstu dögum og vik­um.“

Á borði eða bara í orði?

Málið er það fyrsta sem reynir virkilega á að lífeyrissjóðir sem hafa skuldbundið sig til að sýna samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum geri það á borði, ekki bara í orði. Það er hins vegar vandasamt verk fyrir sjóðina að grípa til aðgerða, telji þeir þörf á því. 

Ef þeir myndu selja eignarhlut sinn nú væru þeir að leysa hann út í tapi þar sem virði Eimskips undanfarin misseri er það lægsta sem verið hefur frá því að félagið var skráð aftur á hlutabréfamarkað eftir endurskipulagningu í janúar 2012. Virði bréfa nú er tæplega 60 prósent af skráningargengi bréfa í félaginu. 

Hin leiðin sem hægt yrði að fara er sú að beita sér fyrir breytingum á stjórn og stjórnendateymi Eimskips. 

Það myndi þýða beinni afskipti af stjórn skráðs félags en lífeyrissjóðir landsins hafa viljað framkvæma á undanförnum árum, en þeir eru í dag, beint og óbeint, saman eigendur að um helmingi allra skráðra hlutabréfa í Kauphöll Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar