Mynd: Skjáskot/RÚV

Kergja innan hluthafahóps Eimskips nær suðupunkti

Óánægja með fyrirferð stærsta eigandans, dramatík í kringum stjórnarkjör og yfirtökuskyldu sem var svo felld úr gildi og slök rekstrarframmistaða sem leiddi af sér fall á markaðsvirði Eimskips hafði leitt til kergju á meðal lífeyrissjóða sem eiga meirihlutann í félaginu. Nýlegt mál, sem snýst um meint brot Eimskips lögum um með­höndlun úrgangs sem ríma ekki vel við áherslur lífeyrissjóða um sam­fé­lags­lega ábyrgð í fjár­fest­ing­um, er sem olía á eld.

Það hefur verið þung staða í hlut­hafa­hópi Eim­skips lengi. Hvert málið hefur komið upp á fætur öðru þar sem óánægju hefur gætt meðal hluta stærstu líf­eyr­is­sjóða lands­ins með fram­vindu mála. Í ofaná­lag hefur rekstur Eim­skips ekki gengið sem skyldi og félagið rekið með umtals­verðu tapi á fyrri helm­ingi yfir­stand­andi árs.

Það er í þessu ljósi sem skoða verður þá stöðu sem teikn­að­ist upp eftir að Kveikur greindi frá því að tvö skipa Eim­skips, Lax­foss og Goða­foss, hefðu verið seld í des­em­ber í fyrra til fyr­ir­tækis sem heitir GMS, og sér­­­­hæfir sig í að vera milli­­­­liður sem kaupir skip til að setja þau í nið­­­­ur­rif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfs­­­­manna og umhverf­is­á­hrif nið­­­­ur­rifs­ins eru mun lak­­­­ari en í Evr­­­­ópu. 

Þar eru skip oft rifin í flæð­­­­ar­­­­mál­inu og ýmis spilli­efni látin flæða út í umhverf­ið. Þá vinna starfs­­­­menn þar við svo erf­iðar aðstæður að þær hafa verið kall­aðar mann­rétt­inda­brot.

Ein helsta ástæðan fyrir því að skip eru flutt á þessar slóð­ir, í umræddu til­viki í skipa­kirkju­garð í Alang á Ind­landi, er ekk­ert flók­in, það er greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í nið­ur­rif þar en í Evr­ópu. Það útskýrist af því að í Evr­ópu þarf að greiða laun sam­kvæmt kjara­samn­ing­um, við­halda öryggi starfs­manna á vinnu­stöðum og mæta lög­gjöf frá árinu 2018 sem leggur bann við því að skip yfir 500 brúttó­­tonnum séu rifin ann­­ars staðar en í vott­uðum end­­ur­vinnslu­­stöðv­­­um. 

Umhverf­is­stofnun hefur kært meint brot Eim­skips á lögum um með­­höndlun úrgangs til hér­að­sak­sókn­ara og málið rímar ekki við þær áherslur um sam­fé­lags­lega ábyrgð í fjár­fest­ingum sem stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hafa und­ir­geng­ist. 

Auglýsing

Þeir hafa allir kallað eftir skýr­ingum frá stjórn Eim­skips og á grund­velli þeirra munu sjóð­irnir taka ákvörð­un. 

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja tvo kosti blasa við ef stjórn Eim­skips tekst ekki að sann­færa líf­eyr­is­sjóð­ina um að mála­til­bún­aður á hendur félag­inu byggi á sandi. Ann­ars vegar geti líf­eyr­is­sjóð­ir, sem eiga yfir helm­ing hluta­bréfa í Eim­skip, selt þau eða þeir geta beitt sér í gegnum eign­ar­hluta sinn í stjórn félags­ins, og kraf­ist þess að núver­andi stjórn­endur og stjórn­ar­menn axli ábyrgð á stöð­unni sem sé uppi.

Framundan er því, að óbreyttu, upp­gjör innan Eim­skips. 

Stærsti eig­and­inn með tögl og hagldir

Það hefur verið kergja innan hlut­hafa­hóps Eim­skips allt frá því að Sam­herji Hold­ing, annar helm­ingur Sam­herj­a­sam­stæð­unn­ar, keypti  um fjórð­ungs­hlut í Eim­­­skip sum­arið 2018.

Í sept­em­ber sama ár var hald­inn hald­inn hlut­hafa­fundur til að kjósa nýja stjórn. Á þeim fundi tók Bald­vin Þor­­­steins­­­son, fram­­­kvæmda­­­stjóri við­­­skipta­­­þró­unar hjá Sam­herja og sonur Þor­­­steins Más Bald­vins­­­son­­­ar, ann­ars for­­­stjóra og eins helsta eig­anda Sam­herja, við sem stjórn­ar­for­maður og Guð­rún Blön­dal var kjörin ný í stjórn. Þótt Guð­rún byði sig fram sem óháður stjórn­­­­­ar­­­maður þá naut hún stuðn­­­ings Sam­herja í starf­ið. Við­mæl­endur Kjarn­ans úr hlut­hafa­hópi Eim­skips litu á þau bæði sem full­trúa Sam­herja í fimm manna stjórn félags­ins.

Í jan­úar 2019 var svo ráð­inn nýr for­stjóri Eim­skips, Vil­helm Már Þor­­­­steins­­­­son. Hann er frændi stjórn­­­­­­­ar­­­­for­­­­manns­ins og tveggja helstu eig­enda Sam­herja. Hluti líf­eyr­is­sjóð­anna í hlut­hafa­hópi Eim­skips litu svo á að með þeirri ráðn­ingu væri Sam­herji að herða tök sín á félag­in­u. 

Baldvin Þorsteinsson er stjórnarformaður Eimskips en faðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, hefur stýrt Samherja í áratugi.
Mynd: Skjáskot

Í lok mars 2019 fór fram aðal­fundur Eim­skips. Þar tókst ekki að kjósa lög­mæta stjórn þar sem að sex stjórn­ar­menn höfðu sóst eftir fimm stjórn­ar­sæt­um. Sá sem bætt­ist nýr við var Óskar Magn­ús­son, sem gegnt hefur marg­s­­­konar trún­­­að­­­ar­­­störfum fyrir eig­endur Sam­herja í gegnum tíð­ina og situr í stjórn fjöl­marga félaga sem tengj­­­ast sam­­­stæð­unni.

Mán­uði síðar náð­ist nið­ur­staða í það þrá­tefli þegar Vil­hjálmur Vil­hjálms­­son, fyrr­ver­andi for­­stjóri HB Granda, dró fram­boð sitt í stjórn­inni til baka og eft­ir­lét Ósk­ari sæt­ið. Þá var Sam­herji, með sinn 27,1 pró­sent eign­ar­hlut, kom­inn form­lega með tvö af fimm stjórn­ar­sætum og einn stjórn­ar­maður til við­bótar sem naut óskor­aðs stuðn­ings sam­stæð­unnar til setu sem óháð sat þar líka.

Þessi atburða­rás lagð­ist ekki vel í marga aðra hlut­hafa.

Yfir­töku­skyldan sem Sam­herji slapp við

Þriðju­dag­inn 10. mars síð­ast­lið­inn bætti Sam­herji Hold­ing 3,05 pró­sent hlut við fyrri eign­ar­hlut sinn í Eim­skip. Við kaupin fór heild­ar­eign Sam­herja yfir 30 pró­sent og yfir­töku­skylda mynd­að­ist sam­kvæmt lög­um. 

Ástæða þess er sú að þegar einn fjár­festir er far­inn að ráða yfir meira en 30 pró­sent í félagi þá eru tök hans á því orðin svo mikil að þær aðstæður geta skap­ast að hann geti tekið ákvarð­an­ir, og hrint þeim í fram­kvæmd, sem þjóna hags­munum fjár­fest­is­ins, ekki félags­ins eða ann­arra hlut­hafa. Því er um lyk­il­skil­yrði í lög­unum sem ætlað er að vernda minni hlut­hafa fyrir því að stórir fjár­festar geti valdið þeim skaða. 

Tíu dögum síð­ar, 20. mars, hafði staðan í heim­inum breyst hratt. Hluta­bréfa­mark­aðir voru í frjálsu falli og hvert ríkið á fætur öðru var að loka landa­mærum sínum og hrinda í fram­kvæmd stór­felldum skerð­ingum á ferða­frelsi íbúa sinna, jafnt innan landamæra sem utan. Afleið­ingin var hrun í eft­ir­spurn eftir flest öllum vörum og þjón­ust­u­m. 

Auglýsing

Þann dag sendi Sam­herji Hold­ing Fjár­mála­eft­ir­liti Seðla­banka Íslands erindi þar sem félagið óskaði eftir að fá und­an­þágu frá yfir­töku­skyld­unni sem hafði mynd­ast. Sú und­an­þágu­beiðni var rök­studd vegna þeirra „sér­­­stöku aðstæðna sem hefðu skap­­ast á fjár­­­mála­­mark­aði vegna útbreiðslu Covid-19. Í lögum um verð­bréfa­við­­skipti er fjár­­­mála­eft­ir­lit­inu veitt heim­ild til að veita slíka und­an­þágu ef sér­­stakar ástæður mæla með því.“

Þremur dögum síðar seldi Sam­herji 2,93 pró­sent hlut í Eim­skip. Sú sala gerði það að verkum að atkvæða­vægi Sam­herja í Eim­skip fór niður í 29,99 pró­sent, eða í hæsta mögu­lega fjölda atkvæða sem halda má á án þess að mynda yfir­töku­skyldu.

Dag­inn eftir að Sam­herji seldi sig undir við­mið­un­ar­mörk ákvað Eim­skip að fella afkomu­spá sína fyrir árið 2020 úr gildi vegna óvissunnar sem væri uppi vegna COVID-19. 

Fjár­mála­eft­ir­litið sam­þykkti beiðni Sam­herja um að sleppa við yfir­töku­skyld­u. 

Við­mæl­endur Kjarn­ans á fjár­mála­mark­aði og innan líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins sögðu að mörgum fjár­festum þætti ákvörð­unin ótrú­leg. Svo virt­ist vera sem að hags­munir einnar fyr­ir­ferða­mik­illar sam­stæðu væru teknir fram fyrir hags­muni ann­arra hlut­hafa með því að „sleppa þeim af öngl­in­um“ eins og einn við­mæl­andi orð­aði það. Hlut­hafar hafi verið full­færir til að taka þessa ákvörðun sjálfir og ákveða hvort að aðstæður köll­uðu eftir því að taka yfir­tökutil­boð­inu og hætta afskiptum að félag­inu, eða hafna því og halda áfram að vera í hlut­hafa­hópi þess á þeim krefj­andi tímum sem framundan eru. 

Tap­rekstur

Í lok síð­asta mán­aðar birti Eim­skip hálfs­árs­upp­gjör sitt. Þar kom fram að tekjur höfðu lækkað á milli ára þegar tíma­bilið var borið saman við fyrstu sex mán­uði árs­ins 2019. Alls nam tapið á tíma­bil­inu 2,5 millj­ónum evra, rúm­lega 400 millj­ónir króna. Á sama tíma í fyrra var Eim­skip rekið í 300 þús­und evru hagn­aði. EBIT­DA-hagn­að­ur, sem er hagn­aður fyrir afskrift­ir, fjár­magns­gjöld og skatta, dróst saman um 12,8 pró­sent. Vert er þó að taka fram að fjár­fest­ingar voru 4,4 millj­ónum evra meiri nú en á fyrstu sex mán­uðum árs­ins 2019 og tek­ist hefur að lækka launa­kostnað félags­ins um 10,5 pró­sent milli ára. Í upp­gjöri ann­ars árs­fjórð­ungs kom fram að nei­kvæðra áhrifa af COVID-19 gætti einna helst í ferða­þjón­ustu­tengdu dótt­ur­fé­lög­unum Sæferðum og Gáru. Þ.e. ekki í kjarna­starf­semi Eim­skips.

Tap var á rekstri Eimskips á fyrri helmingi ársins 2020.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Þessi staða hefur leitt til þess að hluta­bréf í Eim­skip hafa hrunið í verði. Á árinu 2020 hafa þau lækkað um 30,7 pró­sent. Mark­aðsvirði félags­ins nú er 24,7 millj­arðar króna. Í byrjun jan­úar náði það að vera 36 millj­arðar króna. Því hefur virði Eim­skips lækkað um 11,3 millj­arða króna innan yfir­stand­andi árs. 

Virði Eim­skips reis hæst í lok nóv­em­ber 2016. Þá var mark­aðsvirðið 63,3 millj­arðar króna. Frá þeim tíma hefur mark­aðsvirðið hrunið um 38,6 millj­arða króna.

Þessi staða hefur valdið auk­inni kergju á meðal líf­eyr­is­sjóð­anna í eig­enda­hópn­um. Þeir hafa það hlut­verk sam­kvæmt lögum að ávaxta fé sjóðs­fé­laga. Og fjár­fest­ing þeirra í Eim­skip, félagi sem er að uppi­stöðu stýrt af stærsta eig­and­anum Sam­herja, er ekki að gera það.

Einu félögin sem skráð eru í Kaup­höll sem hafa lækkað meira en Eim­skip það sem af er ári eru þau sem hafa orðið harð­ast úti allra skráðra félaga vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins. Þar er ann­ars vegar um að ræða Icelanda­ir, sem hefur lækkað um 85,3 pró­sent, og fast­eigna­fé­lagið Reiti, sem hefur lækkað um 36,8 pró­sent. Icelandair hefur þegar farið í gegnum hluta­fjár­út­boð til að takast á við yfir­stand­andi stöðu, þar sem sóttir voru 23 millj­arðar króna, og Reitir greindu frá því í byrjun viku að hluta­fjár­út­boð þess, þar sem til stendur að sækja 5,1 millj­arð króna, fari fram 20. til 21. októ­ber.

Kæra til hér­aðs­sak­sókn­ara

Staðan innan hlut­hafa­hóps Eim­skips batn­aði ekki þegar Kveikur sýndi afrakstur margra mán­aða rann­sókn­ar­vinnu síð­ast­lið­inn fimmtu­dag, í þætti sem fjall­aði um hvernig Eim­skip hafði selt tvö skip til fyr­ir­tæk­is­ins GMS, og sér­­hæfir sig í að vera milli­­liður sem kaupir skip til að setja þau í nið­­ur­rif í Asíu þar sem skip eru oft rifin í flæð­­ar­­mál­inu og ýmis spilli­efni látin flæða út í umhverf­ið, laun starfs­manna eru langt undir kjara­samn­ingum í Evr­ópu og vinnu­að­stæður svo erf­iðar að þær eru sagðar vera mann­rétt­inda­brot.  

Auglýsing

Fram­­ferði Eim­­skip hefur þegar verið kært til emb­ætti hér­­aðs­sak­­sókn­­ara af Umhverf­is­­stofn­un. Eim­­skip sendi frá sér til­­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands á föst­u­dag þar sem félagið hafn­aði því að hafa brotið lög. 

Íslenskir líf­eyr­is­­sjóðir eiga meira en helm­ing í Eim­­skip. Stærstu sjóðir lands­ins: Líf­eyr­is­­sjóður starfs­­manna rík­­is­ins (LS­R), Gildi, Líf­eyr­is­­sjóður verzl­un­ar­manna og Birta eiga sam­tals 43,2 pró­­sent í skipa­­fé­lag­in­u. 

Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna er næst stærsti eig­andi Eim­skips og á alls 14,7 pró­sent hlut í Eim­skip. Sjóð­ur­inn hefur und­an­farin ár lagt aukna áherslu á sam­fé­lags­lega ábyrgð við fjár­fest­ing­ar. Er sjóð­ur­inn t.d. aðili að UN-PRI, sam­tökum á vegum Sam­ein­uðu þjóð­anna, sem og FEST­U-­Sam­fé­lags­á­byrgð fyr­ir­tækja. Þar er málið til skoð­un­ar. 

Gildi líf­eyr­is­sjóður er þriðji stærsti eig­andi Eim­skips með 13,43 pró­sent eign­ar­hlut. Hann hefur und­an­farin ár lagt aukna áherslu á sam­fé­lags­lega ábyrgð við fjár­fest­ing­ar. Í hlut­hafa­stefnu sjóðs­ins segir m.a.: „Gild­i-líf­eyr­is­sjóður leggur áherslu á að þau félög sem hann fjár­festir í fylgi lög­boðnum og góðum stjórn­ar­háttum og gefi út full­nægj­andi stjórn­ar­hátta­yf­ir­lýs­ing­ar, standi vörð um rétt­indi hlut­hafa, fylgi lögum og reglum og gæti að sam­fé­lags­legri ábyrgð, umhverf­is­málum og við­skiptasið­ferð­i.“ Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans sagði sjóð­ur­inn að „vinnu­brögðin sem lýst var í þætt­inum ríma illa við stefnu sjóðs­ins um ábyrgar fjár­fest­ing­ar.“ Málið yrði tekið til skoð­unar innan Gildis og sjóð­ur­inn biði eftir við­brögðum Eim­skips.

LSR er fjórði stærsti eig­andi Eim­skips. Sam­an­lagt eiga A og B-deildir sjóðs­ins 8,97 pró­sent í félag­inu. LSR hefur und­an­farin ár lagt aukna áherslu á sam­fé­lags­lega ábyrgð við fjár­fest­ing­ar. Í áherslum hans, sem birtar eru á heima­síðu sjóðs­ins, segir m.a. að „mik­il­vægi sam­fé­lags­legs hlut­verks líf­eyr­is­sjóð­anna verði haft að leið­ar­ljósi í allri starf­semi þeirra.“

Sjóð­ur­inn hefur sagt að í kjöl­far umfjöll­unar Kveiks muni hann óska eftir skýr­ingum frá Eim­skip vegna þess sem þar kom fram.

Rímar ekki við áherslum um sam­fé­lags­lega ábyrgð

Birta líf­eyr­is­sjóður er á fimmti stærsti eig­andi Eim­­skips með 6,1 pró­­sent eign­­ar­hlut í félag­inu. Sjóð­­ur­inn er meðal ann­­ars aðili að reglum Sam­ein­uðu þjóð­anna um ábyrgar fjár­­­fest­ingar (Princip­les for Responsi­ble Invest­ment). Þær eiga að vera leið­bein­andi fyrir stofn­ana­fjár­­­festa um allan heim og fela í sér að þátt­tak­endur skuld­binda sig til að taka til­­lit til umhverf­is­­legra og félags­­­legra þátta við fjár­­­fest­ingar sín­­ar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórn­­­ar­hætti fyr­ir­tækja sem fjár­­­fest er í. Sam­­kvæmt því sem fram kemur á heima­­síðu Birtu þykja regl­­urnar því falla „al­­mennt vel að hlut­verki og eðli líf­eyr­is­­sjóða enda hafa þeir þýð­ing­­ar­­miklu sam­­fé­lags­­legu hlut­verki að gegna og almenn­ingur gerir kröfu um að þeir axli sam­­fé­lags­­lega ábyrgð.“

Fjallað um sið­ferði, mannréttindi, spill­ingu og mútur

Í síðustu birtu árs­reikn­ingnum þeirra tveggja félaga sem mynda Sam­herj­a­sam­stæð­una á Íslandi, Sam­herja hf. og Sam­herja Holding ehf., sem eru fyrir árið 2018, er fjallað um það sem er kallað „ófjár­hags­leg upp­lýs­inga­gjöf“.

Þar sagði meðal ann­ars að Sam­herj­­a­­sam­­stæðan virði „al­­menn mann­rétt­indi, rétt allra til félaga­frelsis og kjara­­samn­inga. Áhersla er lögð á að verk­takar og und­ir­verk­takar fari eftir gild­andi lögum er varðar alla sína starfs­­menn, hvort sem það eru þeirra laun­þegar eða eigin und­ir­verk­tak­­ar.“ Sam­­stæðan hafi þó ekki sett sér skrif­­leg við­mið um sið­­ferði, spill­ingu, mann­rétt­indi eða mútur en að vinna við það hafi verið í gangi og átti að ljúka á árinu 2019. Samherji hefur ekkert birt opinberlega um niðurstöðu þeirrar vinnu en samstæðan, og lykilstarfsmenn innan hennar, eru sem stendur til rannsóknar vegna meintra mútugreiðslna, peningaþvættis og skattsniðgöngu í tengslum við starfsemi hennar í Namibíu.

Í árs­reikn­ing­unum var auk þess fjallað um að félög innan sam­­stæð­unnar hafi und­an­farið unnið að marg­vís­­legum stefnum og áætl­­unum sem eigi það sam­­merkt að styðja beint eða óbeint hver við aðra. „Má þar nefna inn­­­leið­ingu á við­bragðs­á­ætlun gegn ein­elti, kyn­­ferð­is­­legu og kyn­bundnu áreiti og ofbeldi, mann­rétt­inda­­stefnu, stefnu í vinn­u­vernd­­ar- og örygg­is­­mál­um, jafn­­rétt­is­á­ætl­­un, per­­són­u­vernd­­ar­­stefnu og fleira. Vinna við fram­an­­greindar stefnur og áætl­­­anir er vel á veg komin og er stefnt að því að þær verði inn­­­leiddar á árinu 2019.“

Þar kom einnig fram að vinna stæði yfir við gerð mann­rétt­inda­­stefnu Sam­herja og Sam­herja Holding sem miði að því að tryggja að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóti mann­rétt­inda án til­­lits til kyn­­ferð­is, kyn­hneigð­­ar, trú­­ar­bragða, skoð­ana, þjóð­ern­is­­upp­­runa, kyn­þátt­­ar, lit­­ar­hátt­­ar, efna­hags, ætt­­ernis og stöðu að öðru leyti. „Engum skal haldið í nauð­ung­­ar­vinnu eða barna­­þrælkun og hafnar Sam­herji hvers kyns þræl­­dómi, nauð­ung­­ar­vinnu og man­­sali.“

Sam­herj­­a­­sam­­stæðan sagðist telja að sam­­fé­lags­­leg ábyrgð væri ekki ein­ungis ábyrgð heldur að í henni fælist einnig tæki­­færi til að bæta vel­­ferð nær­­sam­­fé­lags­ins. „Sam­­stæðan leggur sitt af mörkum til að efla kom­andi kyn­­slóðir og stuðla að fram­­förum í sam­­fé­lag­inu og hefur Sam­herji veitt styrki til ýmissa sam­­fé­lags­verk­efna.“

Ólafur Sig­­urðs­­son, fram­­kvæmda­­stjóri Birtu, var bein­skeyttur í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um það hvernig ætlað athæfi Eim­skips pass­aði við skuld­bind­ingar Birtu um sam­fé­lags­lega ábyrgð við fjár­fest­ing­ar. „Sú kæra sem borist hefur frá Umhverf­is­­stofnun til emb­ættis hér­­aðs­sak­­sókn­­ara vegna meintra brota Eim­­skips á lögum um með­­höndlun úrgangs rímar aug­­ljós­­lega ekki vel við áherslur okkar um sam­­fé­lags­­lega ábyrgð í fjár­­­fest­ing­­um. Við lítum það mál að sjálf­­sögðu mjög alvar­­legum aug­­um. Í okkar huga snýst málið ekki ein­­göngu um sið­­ferð­is­­leg sjón­­­ar­mið í alþjóð­­legum við­­skiptum heldur hlít­ingu við lög og reglur sem er algjört grund­vall­­ar­at­riði við mat á stjórn­­­ar­hátt­u­m.“

Hann sagði einnig að það væri hlut­verk stjórnar Eim­­skips að upp­­lýsa um mál­ið. Ef ekki yrði orðið við því þyrfti „aug­­ljós­­lega að grípa til harð­­ari aðgerða sem við höfum á þessu stigi ekki lagt mat á. Það mat mun byggja á fram­vindu máls­ins á næstu dögum og vik­­um.“

Á borði eða bara í orði?

Málið er það fyrsta sem reynir virki­lega á að líf­eyr­is­sjóðir sem hafa skuld­bundið sig til að sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð í fjár­fest­ingum geri það á borði, ekki bara í orði. Það er hins vegar vanda­samt verk fyrir sjóð­ina að grípa til aðgerða, telji þeir þörf á því. 

Ef þeir myndu selja eign­ar­hlut sinn nú væru þeir að leysa hann út í tapi þar sem virði Eim­skips und­an­farin miss­eri er það lægsta sem verið hefur frá því að félagið var skráð aftur á hluta­bréfa­markað eftir end­ur­skipu­lagn­ingu í jan­úar 2012. Virði bréfa nú er tæp­lega 60 pró­sent af skrán­ing­ar­gengi bréfa í félag­in­u. 

Hin leiðin sem hægt yrði að fara er sú að beita sér fyrir breyt­ingum á stjórn og stjórn­enda­teymi Eim­skips. 

Það myndi þýða beinni afskipti af stjórn skráðs félags en líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hafa viljað fram­kvæma á und­an­förnum árum, en þeir eru í dag, beint og óbeint, saman eig­endur að um helm­ingi allra skráðra hluta­bréfa í Kaup­höll Íslands.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar