Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir prófessor Ragnar Árnason þar sem hann gagnrýnir ýmislegt við nýja félagshagfræðilega úttekt á Borgarlínunni og segir útreikningana sýna í raun að Borgarlína sé ekki þjóðhagslega arðbær.
Að mati Ragnars er til dæmis rangt að tiltaka auknar fargjaldatekjur vegna nýrra notenda sem þjóðhagslegan ábata. Þetta er áhugaverður punktur (og sá áhugaverðasti í gagnrýni Ragnars). Þetta kann að virka sannfærandi á yfirborðinu. Fargjöld eru, jú, tekjur fyrir rekstraraðilann en útgjöld fyrir notendur svo ætti heildarútkoman ekki alltaf að verða núll?
En þetta er ekki alveg þannig. Borgarlínu-greiningin studdist við handbókina Guide to Cost-Benefit Analysis of Investment Projects frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þar er þetta ávarpað skýrt. Í neðanmálsgrein á blaðsíðu 87 segir:
„Sometimes revenues of the operator are not included in the appraisal since it is argued that this is only a transfer from users to the operator which is not relevant for the economy as a whole. However, this reasoning is only valid for the existing traffic, but not for the newly generated traffic. For the newly generated traffic the additional revenues of the operator are a measure of the additional benefits of the additional traffic and must therefore be included in the evaluation.”
Hugsum okkur tvær nýjar lestarlínur. Köllum þær Miðalínu og Skattalínu. Báðar skila jafnmiklum tíma- og slysasparnaði. Miðalínu má fjármagna með fargjöldum en Skattalínu þarf að borga með sköttum. Eru línurnar jafnhagkvæmar þjóðhagslega? Nei. Notendurnir sjálfir meta ávinning sinn af Miðalínu hærri en ávinninginn af Skattalínu. Þeir eru sjálfir tilbúnir að greiða fyrir hann!
Í grein sinni segir Ragnar: „Til þess að fá þá niðurstöðu að þessi framkvæmd hafi jákvætt núvirði hefur reynst nauðsynlegt að reikna sem ábata ýmsa þætti sem eru alls ekki félagslegur ábati eins og greidd fargjöld[...].”
Af þessu má skilja að Ragnar telji höfunda greiningarinnar hafi beitt einhverjum brellum til að „fá” þá niðurstöðu að borgarlínan bæri sig. En ef kafað er í frumheimildir með greiningunni sést fljótt að er ekkert rangt við það að telja auknar fargjaldatekjur vegna nýrra notenda sem félagslegan ábata. Það var ekki bara að höfundar greiningarinnar hafi mátt gera það, þeir áttu að gera það. Ef lýsingin á aðferðarfræðinni er lesin er beinlínis mælt fyrir um það.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.