Í Sprengisandi síðastliðinn sunnudag, voru í heimsókn Heiðrún Lind Marteinsdóttir frá Samtökum Fyrirtækja í Sjávarútvegi og Þórður Snær Júlíusson frá Kjarnanum. Í þættinum ræddu þau samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi. Í lok þáttar var bent á þá staðreynd í því sambandi að fyrstu 8 mánuði ársins 2020 hefði útflutningur á heilum óunnum þorski aukist um 50% frá árinu 2019. Þetta sagði Heiðrún einfaldlega vera rangt. Staðreyndin aftur á móti er sú að útflutningur á þessum fiski jókst um 80% fyrstu 9 mánuði ársins frá árinu á undan. Þorskurinn fyrir þá sem það ekki vita er okkar alverðmætasti fiskistofn. Hagstofa Íslands heldur utan um þessar tölur og hægt er með einföldum hætti að sannreyna þær.
Yfirskrift þáttarins var samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi. Það er jú þekkt að fyrirtæki þessi eru umfangsmikil og stór hluti af íslensku efnahagslífi. Þau hafa jafnframt mikil áhrif á samfélagið og ábyrgð samkvæmt því.
Samfélagið í dag er statt á samdráttarskeiði, áhrif Covid-19 ekki að fullu komin í ljós. Eitt er þó skýrt atvinnuleysi hefur aukist, starfa er þörf og aukinna þjóðartekna. Áætla má, miðað við 50% verðmæta aukningu við framleiðslu vöru úr þessum afla hér innanlands, að þjóðartekjur sem við Íslendingar verðum af geti verið um 10 milljarðar.
Fækkun starfa vegna útflutnings á óunnum afla hefur aukist stöðugt frá árinu 2014 í kjölfar þess að hömlur við þessum útflutningi voru afnumdar. Þá hafði sá árangur náðst að einungis voru flutt úr landi 25 þúsund tonn af óunnum afla. Síðan þá hefur þróunin snúist við og miðað við þróunina er ekki óvarlegt að áætla að þessi tala verði nálægt 60 þúsund tonnum í ár.
Setjum þetta aðeins í samhengi.
Það sem við sem þjóð aftur á móti veljum í dag er að þróast í þátt átt að verða hráefnis þjóð. Þetta segi ég vegna þess að við höfum ekki markað stefnu í þessum efnum. Þessi stóri hluti veiða okkar er fluttur úr landi hömlulaust. Hann fer til vinnslu í erlendum vinnslum þar sem hann er ekki unnin undir íslensku matvælaeftirliti, seldur samt sem áður sem íslenskur fiskur inn á markaði okkar.
Á sama tíma erum við í fjárfestingu í vörumerkjum okkar og markaðssetningu með margvíslegum hætti. Við hinsvegar gengisfellum þá vinnu með því að hafa ekki stjórn á þessu útflæði. Í mörgum tilfellum kemur þessi vara, það léleg inn á markaðinn í viðskiptalöndum okkar að það bætir ekki ímynd íslensks sjávarútvegs heldur þvert á móti.
Markaðsátak líkt og „Father Fishmas“ hefði átt að fylgja stefnubreyting í þá átt að hráefnið sem úr hafinu kemur. Sé allt unnið hér heima, eða í það minnsta tryggt að það fari úr landi þannig að það hafi ekki skaðlegt áhrif á ímynd okkar. Annars er ekki til mikils unnið með fjármuni sem í slíkar herferðir fara.
Snúum bökum saman.
Alltof oft snýst umræða í íslenskum sjávarútvegi um það að benda hver á annan. Hagsmunavarslan er umfangsmikil og engin vill missa spón úr sínum aski. Þó eru atriði sem bent er á hér að ofan sem allir ættu að geta sammælst um. Það er að minnka atvinnuleysi og auka þjóðartekjur. Framferði þetta sem hér hefur verið rakið verður til þess að sveitarfélög, ríkissjóður og landsmenn allir verða af gríðarlegum tekjum í viku hverri.
Kreppan er móðir allra tækifæra. Þingmenn, ráðherrar, forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka í sjávarútvegi. Snúum bökum saman og vinnum á þessu skaðræði. Hagsmunir eru miklir fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með íslenska þjóð.
Höfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.