Tímabili loftslagsskuldbindinga má skipta í fernt:
- 2008-2012: Kyoto fyrra tímabil
- 2013-2020: Kyoto, Doha framlenging
- 2021-2030: Parísarsamkomulagið - fyrsta skuldbindingartímabil
- 2030+: Kolefnishlutleysi ríkja
2008-2012: Kyoto 1
Markmið Íslands fyrir fyrsta tímabilið var að halda okkur fyrir innan 10% aukningu í losun miðað við 1990. Ísland samdi sérstaklega um tvenns konar undanþágur í sinni talningu; annars vegar að undanskilja CO2-losun frá nýrri stóriðju og hinsvegar heimild til að telja breytingar í landnotkun og skógrækt í áttina að markmiðum sínum.
Þetta 10% svigrúm var nýtt til að gangsetja álver, en á fyrstu árum nýs álvers er mikil losun á PFC sem er öflug gróðurhúsalofttegund og fékkst ekki undanskilin talningu. Þrátt fyrir að hart hafi verið barist fyrir að fá landnotknun og skógrækt viðurkennda var lítið gert í þeim málaflokki á tímabilinu.
2013-2020: Kyoto Doha
Annað skuldbindingartímabil Kyoto var samþykkt í Doha, Katar. Ísland tók á sig ögn metnaðarfyllri skuldbindingar samkvæmt samkomulagi við ESB. Við upphaf þessa tímabils hlaut Ísland aðild að ETS kerfinu þar sem stóriðja fær sérstakar úthlutunarheimildir sem ætlunin er að draga saman með tíð og tíma. Ætlast er til að fyrirtæki annaðhvort finni leiðir framhjá frekari losun eða kaupi heimildir á opnum markaði.
Reglur um það hvaða hluti stóriðju væri á beinni ábyrgð stjórnvalda breyttust talsvert á milli tímabilanna tveggja. Þær undanþágur sem við höfðum fyrir stóriðju á fyrra tímabili þurfti ekki lengur með tilkomu ETS kerfisins á seinna tímabili.
Ísland samdi við Evrópusambandið um heimild til að losa 15 milljónir tonna í þeim geirum sem eru á ábyrgð stjórnvalda. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar verður losun Íslands nær 20 milljónum eða fjórðungi yfir heimild. Til viðmiðunar var losun frá vegasamgöngum samtals 979 þúsund tonn árið 2018. Losun verður því a.m.k. 17% umfram losunarheimildir og við því þarf að bregðast með jöfnunaraðgerðum sem hlaupa á milljörðum króna.
Önnur lönd en Ísland, sem gerðu ekki tvíhliða samning eins og við heldur höfðu aðild að evrópska „effort sharing“ fyrirkomulaginu frá upphafi höfðu viðmið fyrir sína losun reiknaða niður á hvert ár.
Ísland fékk ekki slíkan útreikning fyrir hvert ár og hefur mér gengið illa að skilja hvaða forsendur liggja að baki okkar heimild. Umhverfisstofnun hefur vísað fyrirspurn minni á Umhverfisráðuneytið og þaðan berast vonandi svör innan skamms hvaða forsendur liggja að baki hinni rúmlega 15 milljón tonnum heimild til losunar á seinna tímabili.
Aukning vegna ferðamanna birtist meðal annars í losun frá vegasamgöngum. Til ársins 2018 hafði gistinóttum ferðamanna fjölgað margfalt miðað við viðmiðunarárið 1990 og fjöldinn náði hámarki í ríflega 10,4 milljónum gistnátta árið 2018. Afar lítið var gert á þessum árum til að setja ferðamannastrauminn í samhengi við aukna losun þó neysla ferðamanna að flugi undanskildu sé öll á ábyrgð stjórnvalda þess lands sem er heimsótt. Framúrhlaupið á tímabilinu nemur langtum meiri losun en hægt er að útskýra með fjölgun ferðamanna þó það sé vafalaust drjúgur þáttur í aukningunni. Á þessu tímabili jókst fjöldi díselknúinna bifreiða á hvert heimili. Fullfjármagnaðar loftslagsáætlanir birtust ekki fyrr en í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd.
Í ljósi COVID-19
Á fyrstu níu mánuðum þessa árs var 18% samdráttur í innflutningi á blýlausu bensíni miðað viðsama tímabil í fyrra. Hrun ferðaþjónustu, hærra hlutfall ekinna kílómetra hreinorkubíla og aðgerðir stjórnvalda vegna kórónufaraldursins sem hafa áhrif á lífsstíl og neyslu almennings eru allt þættir sem hafa áhrif á notkun innfluttra orkugjafa. Ljóst er að snarpur samdráttur í losun á þessu síðasta ári Kyoto-skuldbindinga mun duga skammt í stóra samhenginu. Hagstofan birti nýlega svokallaða tilraunatölfræði um eldsneytissölu sem benda til að eldsneytissala hafi lítið sem ekkert breyst á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta rímar hinsvegar ekki við innflutningstölur frá tollinum.
2021+
Nú er markið sett enn hærra; 40% minni losun árið 2030. Góðu fréttirnar, þó þær séu slæmar í efnahagslegu samhengi, er að ferðamenn eru svo gott sem horfnir – í bili. Efnahagsáhrifum kórónufaraldursins fylgir samdráttur í losun vegna minni neyslu. Orkuskipti munu skila miklum árangri þegar upp er staðið, en ábatinn verður ekki í hlutfalli við nýskráningar hreinorkubíla heldur ekinna kílómetra og þar er það samsetning virks bílaflota sem skiptir máli. Enn menga flestir nýir bílar og enn eigum við eftir að úrelda út úr flotanum fjöldan allan af mengandi bílum. Bílafloti endurnýjast á 15 til 20 árum og við munum þurfa allt það tímabil með 100% hreinum nýskráningum ökutækja í öllum flokkum áður en árið 2040 gengur í garð ef ætlunin er að ná fram kolefnishlutleysi í vegasamgöngum það árið.
Pólitísk ábyrgð
Fyrra Kyoto-tímabil ber þess merki hversu framarlega í forgangsröðinni uppbygging stóriðju var upp úr aldamótum. Seinna tímabil Kyoto fangar árin þar sem vöxtur ferðaþjónustu var hvað mestur og á sér engan líka í sögunni. Bæði tímabilin einkennast af andvaraleysi. Ef við leyfum okkur að líta í baksýnisspegilinn þá hefði verið farsælt að huga að grænum samgöngum, bæði með hreinorkubílum í bílafleiguflota og bættu leiðakerfi fyrir áætlanaakstur á milli landshluta. Önnur sóknarfæri eru í stöðvun sauðfjárbeitar á illa förnu landi, samræmingu skipulags á byggð sem dregur úr eknum kílómetrum, flýtingu banns við nýskráningu brunabíla og hraðari förgun mengandi bifreiða.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, komst vel að orði þegar hann sagði að sitjandi umhverfisráðherra hefði fengið eitraðan arf þegar hann tók við embættinu. Í hans tíð höfum við séð faglegri vinnubrögð og fjármagnaðar loftslagsáætlanir. Þrátt fyrir snarpan samdrátt í losun á þessu ári er á brattann að sækja. Það er ekki bara umhverfisráðherra sem burðast með arfinn heldur þjóðin öll. Kolefnisbókhaldið er í stærri mínus vegna fyrri ríkisstjórna sem sýndu málaflokknum lítinn áhuga.
Þó það sé ekki við ráðherrann að sakast á stjórnsýsla loftslagsmála enn langt í land til að öðlast fullan trúverðugleika á ný og betur má ef duga skal. Líkön og forsendur að baki loftslagsaðgerðum hafa ekki verið gerð opinber í öllum tilfellum og fagaðilar eru ekki á einu máli um það hversu áreiðanlegar tölur um losun sem tengist landnotkun eru. Dæmi um veigamiklar forsendur er líkan um samsetningu bílaflota landsins, en það líkan er ekki opið almenningi. En betur sjá augu en auga. Brýnt er að málaflokkurinn fá fjármagn til að bæta eftirlit og ganga úr skugga um að bókhaldið okkar sé trúverðugt.
Loftslagsáætlanir eiga að vera opnar og fylgja „open source“-hugmyndafræði sem hefur gefist vel í Stafrænu Íslandi og málrannsóknum síðustu ár. Miðlun þarf að vera tíðari, dýpri og í senn aðgengileg öllum hagsmunahópum. Samningar fortíðar þurfa að vera gerðir opinberir og jafnframt forsendur þeirra. Gagnsæi er forsenda trausts. Fleiri skref í þá átt væru til heilla.
Höfundur er ráðgjafi.
Athugasemd: Í fyrri útgáfu af greininni kom fram að tvíhliða samningur Íslands við Evrópusambandið og aðildarríki þess um annað skuldbindingartímabil Kyoto væri ekki opinber. Það er ekki rétt. Hann má nálgast hér.