Úrskurður yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu er mikið áfall fyrir Sigríði Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og fyrir íslenska réttarkerfið.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins er dæmd fyrir lögbrot við skipun dómara. Hún braut stjórnsýslulögin sem hún átti að starfa eftir og 6. grein mannréttindasáttmálans sem Ísland er aðili að. Sjálfur dómsmálaráðherrann.
Þetta var ekki bara við skipun eins dómara, heldur við skipun allra dómara við nýtt dómstig í landinu, Landsrétt. Og þetta gerðist þrátt fyrir að fagfólk í dómsmálaráðuneytinu hafi varað ráðherrann við.
Það er auðvitað einstakt að svona nokkuð gerist í alvöru réttarríki.
Það er oft talað um þetta mál eins og að ráðherra hafi einungis gert tæknileg mistök við val dómara í hið nýja dómstig. Málsmeðferðin var vissulega óeðlileg. En um hvað snýst málið í grunninn? Hvað gekk dómsmálaráðherra til?
Lögum samkvæmt átti að velja þá fimmtán hæfustu úr hópi umsækjenda til að gegna dómarastörfum við réttinn. Sérstök fagleg matsnefnd hafði það hlutverk að meta hæfni umsækjenda.
Dómsmálaráðherra vék hins vegar frá niðurstöðu matsnefndarinnar og hafnaði fjórum úr hópi þeirra fimmtán hæfustu og réð í staðinn aðra sem voru neðar á listanum. Hún tók sem sagt fjóra minna hæfa einstaklinga fram yfir aðra meira hæfa – þvert á leikreglur laganna.
Þeir sem ráðherrann hafnaði voru almennt ekki sérstaklega eyrnamerktir Sjálfstæðisflokknum (sumir höfðu t.d. áður tengst VG eða Samfylkingu að einhverju leyti). Þeir sem hún valdi í staðinn voru hins vegar taldir nákomnari Sjálfstæðisflokknum, þ.á.m. var eiginkona áhrifamikils þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Það sem vakti fyrir ráðherranum var ekki bara að velja meirihluta dómara í hinn nýja dómstól sem væru taldir handgengir Sjálfstæðisflokknum, heldur virðist hún hafa viljað freista þess að allir dómararnir teldust handgengnir eða vinsamlegir Sjálfstæðisflokknum. Allir.
Hún vildi að þetta yrði dómstóll Sjálfstæðisflokksins!
Menn geta borið þetta saman við það sem Donald Trump og Repúblikanar hafa gert í Bandaríkjunum. Þeir hafa þótt stórtækir í að skipa hlutdræga dómara (handgengna Repúblikanaflokknum) í rúman meirihluta hæstaréttar og einnig á lægri dómstigum.
Sigríður Á. Andersen virðist hafa ætlað að ganga enn lengra en hægri menn hafa gert í Bandaríkjunum. Þetta gat hún gert hér innanlands og naut til þess stuðnings Sjálfstæðisflokksins og þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórnarmeirihluta með honum, í skjóli meirihluta þeirra flokka á Alþingi þar sem skipunin var endanlega staðfest.
Þetta sigldi hins vegar í strand við Mannréttindadómstól Evrópu, en Ísland er aðili að honum. Og hvernig er þá brugðist við?
Sigríður sjálf gerir lítið úr Mannréttindadómstólnum og segir að þetta sé „pólitískt at“ sem muni engu breyta. En það var einmitt hún sem var á pólitískri vegferð – en ekki Mannréttindadómstóllinn. Núverandi dómsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segja sömuleiðis að þetta muni engu breyta. Þau eru öll að verja flokkshagsmuni sína – alla leið.
Þetta var ljótt mál frá byrjun og öll framvinda og meðferð þess til skammar, þar til það lenti hjá Mannréttindadómstólnum. Málið er þar sagt hafa fordæmisgildi gagnvart misbeitingu stjórnmálavalds við skipun dómara í Tyrklandi, Ungverjalandi og Póllandi, þar sem réttarríkið þykir standa á veikum fótum.
Hér virðast Sjálfstæðismenn hins vegar ætla að hrista þetta af sér með hroka og hundalógík.
Eigum við ekki rétt á meiri auðmýkt og fagmennsku frá þeim sem falin hafa verið forráð almannahagsmuna þegar þeir eru staðnir að misgjörðum og lögbrotum?
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.