Fullveldisdagurinn er nýliðin. Alla jafna erum við ekkert sérstaklega upptekin af þessum degi, jafnvel þótt að í „sjálfstæðismálum“ sé sennilega engin atburður mikilvægari en akkúrat þessi dagur. Það var kannski ekki meiningin, en ég skildi þetta alltaf þannig að fullveldisdagurinn væri einhvers konar „litli 17. júní“. Einhver forveri að hinu raunverulega sjálfstæði sem Íslendingar öðluðust svo 1944. Fram að þeim tímapunkti hafi Ísland bara verið hálf-sjálfstætt frá árinu 1918. Öll matreiðslan snerist um 17. júní en ekki 1. desember. Engu skipti að það væri skýrt tekið fram í sambandslaga- samningnum frá 1918 að samningurinn væri milli tveggja frjálsra og fullvalda ríkja. Hafi Ísland verið hálf-sjálfstætt á árunum 1918-1944, þá átti það nákvæmlega sama við um Danmörk út frá sömu forsendum og sömu rökum. Engum dettur slík vitleysis túlkun í hug. Ég veit raunar eingöngu eitt dæmi þess að annað ríki haldi sérstaklega upp á fullveldisdaginn og eigi svo annan þjóðhátíðardag. Yfirleitt er þjóðhátíðardagurinn sami dagur og ríki öðlast fullveldi. Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland eiga öll sinn þjóðhátíðardag jafn vel þótt þau séu eingöngu hálf-sjálfstæð og deila þjóðhöfðingja með mörgum öðrum fullvalda ríkjum. Þau virðast heldur ekki hafa fattað hvað þau eru ósjálfstæð.
„En bíddu“ segir eflaust einhver, „Fóru ekki Danir með utanríkismál Íslands frá 1918-1944?“ Jú, það er rétt, Danir gerðu það, en eingöngu í umboði Íslendinga. Það kemur skýrt fram í áðurnefndum sambandslögum. Þar er fyrsta beiting fullvalda Íslands á ytra fullveldi sínu. Fullveldi skiptist gróflega í ytra og innra fullveldi. Allir geta borið kennsl á innra fullveldi. Það er notað til að setja samfélaginu hinu ýmsu lög, leyfa og banna hina ýmsu hluti, til dæmis að leyfa eða banna að kaupa og drekka bjór, leyfa fólki að trúa því sem það vill osfrv. osfrv. Í ytra fullveldi felst að fullvalda ríki geta gert samninga við önnur fullvalda ríki og átt við þau allskonar samstarf. Ísland kaus því að beita ytra fullveldi sínu og semja við Danmörk um að fara með tiltekin þátt fullveldis síns, hinu ytra. Annað dæmi um framsal tiltekins hluta fullveldisins er þegar Ísland samdi við Bandaríkin um að annast varnir ríkisins fyrir sig. Í þessu ljósi verður það beinlínis kjánalegt þegar málsmetandi fólk heldur því fram að Ísland hafi „afsalað sér hluta fullveldisins“ þegar EES-samningurinn var undirritaður. Sama fólk segir meir að segja að það sé vafi á því að undirritun hans hafi staðist stjórnskipunarlög. Ísland gerði milliríkjasamning þar sem tilteknum hluta fullveldisins (að setja borgurum landsins lög) var færður til fjölþjóðlegrar stofnunar. Fullvalda Ísland getur svo hvenær sem er, að uppfylltum samningsbundnum kvöðum, ákveðið að hætta að taka þátt í þessu samstarfi. Það reynir heldur ekkert á stjórnskipun ríkisins. Fyrir slíku afturkræfu framsali fullveldis er löngu búin að myndast stjórnskipunarvenja, sbr. dæmin tvö hér að ofan. Hið sama gildir um aðild Íslands að Mannréttindadómstól Evrópu á grunni aðildar þess að Mannréttindasáttmála Evrópu.
Fullvalda íslenskt ríki er rammi utan um samfélag fólks sem hefur sameinað sig á ákveðnu landsvæði um ákveðin gildi. Verandi passlega stór eyja með passlega fáu fólki er sá hluti einfaldari en hjá mörgum öðrum ríkjum, flestum öðrum ríkjum kannski. Um gildin sem sameina okkur er flóknara að segja, flest höfum við einhverja hugmynd um hvað sameinar okkur en rífumst svo um tiltekna hluta þeirra. Það að við rífumst á tungumáli sem hvort annað skilur er kannski stundum það eina sem sameinar okkur. Ef það eru ekki gildin sem sameina okkur, þá eru það kannski markmiðin sem gera það. Flest viljum við geta klætt okkur og fætt, geta gert það sem okkur langar dags daglega að gera, stunda áhugamál, elska hvort annað (stundum alls ekki). Vera frjáls til orða, athafna og hugsana.
Við erum líka forrituð til að álykta sem svo að fullveldi eða sjálfstæði sé alltaf nauðsynlegur hluti hagsældar. Það er kannski ekkert skrítið. Á sama tíma og viðurkenndum sjálfstæðum ríkjum hefur fjölgað hefur hagsæld mannkyns alls tekið stórstígum framförum. Stríðum hefur fækkað, örbirgð minnkað jafnt og þétt, hlutfall þeirra sem líða fyrir ofbeldi minnkar, fólk lifir lengur og menntun eykst. Á sama tíma og mannkyni fjölgar gríðarlega hefur aldrei jafn stór hluti þess notið jafn mikillar velsældar. Að segja að þessi árangur hafi náðst vegna þess að svo mörg ríki ráði nú sínum málum sjálf er einföldun. Hin raunverulega ástæða er hvernig ríki hafa beitt fullveldinu sínu. Með útbreiðslu markaðsbúskapar, auknu frelsi til orða og athafna, auknu frelsi fólks til að mynda með sér félagsskap hafa ríki veraldar náð að beisla sitt innra fullveldi til góðs. Undanfari þess er oftar en ekki að ríki beita ytra fullveldi sínu og mynda félagsskap með hvort öðru. Þannig hafa viðskipti milli landa aukist og samhliða menningarleg samskipti aukist. Með menningarlegum samskiptum verða einnig menningarleg áhrif landa milli og þegar þegnar ríkja verða vitni að meiri hagsæld nágranna sinna en hjá sjálfum sér verður sjálfkrafa til þrýstingur á valdhafa að beita innra fullveldi sínu með öðrum hætti. Með mikilli einföldun má segja að slíkur menningarlegur þrýstingur hafi verið það sem réð því að Járntjaldið féll og Varsjárbandalagið liðaðist í sundur og að lokum sjálf Sovétríkin.
Fullveldi ríkja er gott og gilt markmið en það á ekki og má ekki vera eina markmiðið. William Wallace er ein þekktasta frelsis- og sjálfstæðishetja sem gerð hefur verið skil á seinni tímum, í kvikmyndinni Braveheart. Hann uppfyllir líka flest það sem okkur finnst að eigi að prýða slíka manneskju, hann er hluti yfirstéttar samfélags sem er kúgað af vondum erlendum öflum. Á dánarstundu á kvalarabekk öskrar hann sjálft lykilorðið „FRELSI“, við flest sem verðum ekki ódauðleg hefðum beðist vægar eða kjökrað eftir einhverjum ástvin, eða það kannski sem skynsamlegast er, ekki verið nálægt þessari vitleysu. Okkur finnst augljóst að halda með William Wallace enda voru öflin sem hann barðist gegn ekkert lítið ill. En hvað ef þau hefðu ekkert verið svo ill. Hvað ef Englandskóngur hefði stundað virk milliríkjaviðskipti, leyft frjálsa verslun, séð öllum sem vildu fyrir heilbrigðisþjónustu, kennt börnum að lesa, handtekið misyndisfólk og haldið flottar þjóðhátíðir á 17. júní. Ef svo hefði verið, hefði þá Wallace yfir leitt getað fengið fólk með sér í suðurátt og höggið mann og annan og brennd heilu borgirnar? Líklega ekki, hann hefði líklega bara verið álitinn vera kjánalegur, fyrir rest hefði hann fallið í gleymskunnar dá og þegnar konungs hefðu yfirleitt hætt að spá neitt sérstaklega í því að þeir hafi nokkurn tímann verið sitthvert samfélagið. Það voru bætt lífsgæði sem fólkið sem fylgdi Wallace að málum var að leitast eftir, ekki fullveldi sem slíkt. Í því tilviki var „frelsi“ eingöngu tæki til sameiningar fólks. Við vitum ekki einu sinni hversu bættara fólk hefði verið með Wallace sem leiðtoga. Norður-Kórea er ríki sem barist hefur fyrir frelsi sínu og ég er ekki viss um að þegnar þess upplifi frelsi sitt sem endilega mikla bætingu á lífskjörum sínum. Enda er ríkinu stjórnað af öflum sem eru mjög upptekin af innra fullveldi þess og telja beitingu hins ytra vera óásættanlega fórn á því.
Á þeim fullveldisdegi sem nú er ný liðinn varð sú skemmtilega tilviljun að fyrri beiting fullvalda Íslands á ytra fullveldi sínu varð til þess að þær stofnanir sem fara með innra fullveldið, í umboði þeirra sem byggja þetta samfélag, þurfa að ráðast í sjálfsskoðun á því hvernig manna beri einn þriggja anga ríkisvaldsins. Um dóminn sem slíkan ætla ég ekki að fjalla ítarlega. Hann er nokkuð skorinorður um það að vinnubrögð valdhafa af ráðningu dómara á millidómsstig hafi verið slík, að ekki hafi verið hafið yfir vafa að þau hafi litast um of af ómálefnalegum forsendum. Undir þetta kvitta allir þeir 17 dómarar sem kváðu upp dóminn. Ef maður treystir því að allir þessir dómarar séu ekki sérstakir hatursmenn Íslands, tiltekinna íslenskra stjórnmálaflokka eða jafnvel tiltekinna íslenskra stjórnmálamanna, er eðlileg ályktun að hér sé nokkuð svigrúm til bætinga á þessu samfélagi sem er nú bara skrambi gott fyrir.
Það sem er sérstaklega gleðilegt er það að þessi dómur er enn ein áminning þess að tiltekið afmarkað og afturkræft framsal á innra fullveldi Íslands getur verið þegnum landsins til góðs og er það yfirleitt. Enginn stjórnvöld, neins staðar, eru svo öflug að þeim getur ekki orðið á. Mannréttindadómstóll Evrópu er settur til að tryggja, eins og kostur er, samræmda túlkun allra aðildarríkja á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindi eru sett til að tryggja þegnum ákveðna lágmarks vernd fyrir misbeitingu valdhafa á stöðu sinni. Auk þessa er aðild Íslands að sáttmálanum yfirlýsing þess að við erum þátttakendur í samfélagi þjóða sem sameinast um ákveðin gildi og ákveðin markmið. Það er þungbært að hlusta á kjörna fulltrúa tala með þeim hætti að gildi dómsins sé á einhvern hátt takmarkað, þar sem hann sé erlendur og hafi minna stjórnskipunarlegt gildi þar eð hann er ekki kveðinn upp af íslenskum dómstól. Slíkt tal minnkar ekki eingöngu þann sem svo talar, heldur er það til þess fallið að grafa undan stjórnskipun landsins og draga enn frekar úr trausti á stofnarnir samfélagsins. Slíkt tal er ekki til neins annars en að slá ryki í augu fólks í eigin þágu og á kostnað hagsmuni alls almennings.
Eftir því sem nær dregur næstu kosningum til Alþingis munum við örugglega fá að heyra úr kunnuglegum hornum tal um að Íslendingar hafi afsalað sér fullveldi sínu og að við ráðum ekki lengur öllum okkar málum. Það er enda viðbúið, forritunin okkar er þannig stillt að við hlustum ef einhver segir að sjálfstæðinu sé ógnað. Umfram allt verði að verja sjálfstæðið annars er frelsinu glatað og þá er öllu glatað. Okkur er ekki tamt að hugsa um fullveldið sem verkfæri til hagsældar og hamingju.
Sá sem leitar eftir umboði okkar og talar eins fullveldið og sjálfstæðið séu einföld hugtök og það sé einhvern veginn hægt að „afsala fullveldinu“ eða „afsala sér hluta fullveldis“ með því að gera afturkræfa milliríkjasamninga, hefur ekki sérstaklega góð tök á hugtakinu fullveldi. Líklegast hefur viðkomandi aldrei lagt sig eftir neinum sérstökum skilning á því, utan þess að hafa kannski horft á Braveheart.
Höfundur er lögfræðingur.