Í grunninn er málið gamalgróin íslensk innansveitarkronika, sem rambaði óvænt í þá stöðu að verða að mikilvægu prófmáli um evrópska réttarríkið. Hvorki meira né minna.
I. Evrópska réttarríkið
Málið er í sjálfu sér frekar einfalt lögfræðilega séð. Ef við stígum aðeins til baka og skoðum stóru línurnar í málinu, þá snérist það í grunninn um þá megin kröfu réttarríkisins að samræmi sé á milli efnis laga og lagaframkvæmdar. Í réttarheimspeki litaratúrnum hefur það verið talið til marks um ólögmæti ef stjórnvöld framfylgja lögum með öðrum hætti en ætla má af texta eða efni laganna (Lon Fuller, The morality of law).
Venjulega má segja að stjórnvöldum beri að stefna að því að heiðra þetta göfuga viðmið og að þeim beri jafnframt skylda til að brjóta ekki gegn því með grófum hætti. Það er því siðferðislegt markmið að framkvæma lög með efnislega réttum hætti og jafnframt siðferðisleg skylda að brjóta ekki gegn því markmiði með grófum hætti. Skilin á milli siðferðislegu skyldunnar og siðferðislega markmiðsins, ákvarða svo skilin á milli þess hvort tiltekin lagaframkvæmd skuli að engu höfð, eða ekki.
Það sem er hins vegar við að eiga í þessu máli er að skyldan til fylgja lögum efnislega í framkvæmdinni er beinlínis bundin í stjórnlög þegar kemur að skipun dómara, sbr. 6. gr. MSE og 59. gr. stjskr. Skyldan er því enn þyngri þegar kemur að því að skipa dómara en venjulega. Þetta er stóra hugmyndin sem verið var að takast á um í málinu.
Það vildi síðan þannig til að dómaframkvæmdin um þetta atriði í Evrópu var ennþá í mótun og því lendir málið í þeirri stöðu að verða að nokkurs konar fordæmismáli um hversu bókstaflega beri að skilja þennan áskilnað um að samræmi skuli vera á milli efnis og framkvæmdar laga. Toguðust þar á sjónarmið um að svigrúm til að víkja frá efni laga við skipun dómara ætti að vera ekkert, og þess að játa ætti stjórnvöldum svigrúm til að gera viss mistök sem teldust ekki vera alvarleg frávik.
Sú dómaframkvæmd sem lá fyrir þegar mál Ástráðssonar var fyrir Hæstarétti og síðar þegar það kom til Strassborgar hafði tekið nokkuð afdráttarlaust þá línu að svigrúmið væri svo til ekkert til að víkja frá efni laga við skipun dómara. Helst var þar horft til dóms EFTA dómstólsins í máli sem varðaði nýlega endurskipun norska dómarans í þann sama dómstól (mál E-21/16 Pascal Nobile), og til dóms lægra dómstigs Evrópudómsstólsins (mál T-639/16 P FV v Council), sem hafði tekið mjög stífa línu í máli varðandi skipun dómara í Stafsmannadómsstól Evrópusambandsins.
Fyrri dómur MDE í máli Ástráðssonar sló nýjan tón varðandi þetta, þar sem hann kvað upp úr um það að frávik frá efni laga þyrfti að vera visst alvarlegt (flagrant), til þess að koma til greina sem brot á 6. gr. MSE. Engu að síður var brotið náttúrulega talið það alvarlegt að engin vafi var á að um brot væri að ræða.
Það sem gerist síðan er að efri deild Evrópudómsstólsins ákveður að endurskoða málið varðandi Starfsmannadómsstólinn og færa sig nær þessari nálgun MDE í Ástráðssonarmálinu, sem leiðir til þess að sú skipun sem áður hafði talist brot varðandi Starfsmannadómstólinn, var það ekki lengur sökum þess að alvarleikastiginu var ekki náð (sjá sameinuð mál C-542/18 RX-II og C-543/18 RX-II Simpson v Council and HG v Commission).
II. Innansveitarkronikan
Eins og ég nefndi áðan þá var málið ekki bara prófmál á evrópska vísu um kröfur réttarríkisins, heldur líka innansveitarkronika af bestu (eða verstu) gerð.
Við sem hér erum, og flestir sem á hlýða vita að mikil einföldun er fólgin í því að segja að málið hafi snúist um valdabaráttu hins siðspillta ráðherra, sem vildi koma pólitískum samherjum á dómarabekkinn, og hinar dyggðugu matsnefndar, sem vildi standa vörð um sjálfstæði dómsvaldsins með faglegum ráðleggingum. Eins og í öllum góðum kronikum, þá eru skilin á milli góðs og ills óljós og söguhetjurnar dygðugar og breyskar á víxl.
Það er hægt að rekja átökin um skipun dómara hérlendis langt aftur í tímann. Alveg til stofnunar Hæstaréttar og Jónasar frá Hriflu ef því er að skipta. Í grunninn hafa stjórnmálaelítan og dómaraelítan jafnan tekist á um þessi völd. Pendúllinn hefur sveiflast fram og aftur með tíðarandanum og þetta mál allt saman er hluti af þeirri átakasögu.
Þróunin á síðustu árum hefur verið í þá átt að færa meiri völd í hendur matsnefnda, sem hefur hérlendis í reynd fært völd frá stjórnmálaelítunni og yfir til efsta lags lögfræðingastéttarinnar. Þetta er í samræmi við þróunina í Evrópu, þar sem slíkar nefnir hafa orðið útbreiddar á síðustu 20-30 árum að undirlagi Evrópuráðsins. Í Evrópu hefur þessi þróun gerst undir þeim formerkjum að matsnefndir séu faglegar, en að pólitísk yfirvöld séu, einmitt það; pólitísk.
Við á Íslandi vitum hins vegar af reynslu síðustu ára og áratuga að matsnefndirnar eru ekki óskeikular fremur en pólitíkin. Það eru kannski ekki flokkspólitísk sjónarmið sem ráða för innan nefndanna, en það eru þó ýmsar vísbendingar um að þær noti stundum svigrúm sitt til þess að hygla vissum kandídötum og til þess að setja aðra niður, án þess að byggja faglegum sjónarmiðum. Það er því einhvers konar kunningjapólitík sem ræður á stundum þar för.
Það vill svo til að dómur yfirdeildarinnar í máli Ástráðssonar kemur inn á þetta atriði, þó í framhjáhlaupi sé (sjá t.d. mgr. 226; 233; 247).
Í evrópsku dómaframkvæmdinni er lögð áhersla á að skilyrðinu um að dómsvaldinu sé skipað með lögum sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið seilist til áhrifa innan dómsvaldsins og því þurfi að fylgja þeim viðmiðum sem löggjafinn setur með sem nákvæmustum hætti við skipun dómara.
Í Ástráðssonar málinu má hins vegar í báðum dómunum sjá sérkennilega klausu um það að áskilnaðinum um skipan með lögum sé einnig ætlað að koma í veg fyrir ótilhlýðileg áhrif dómsvaldsins á skipun dómara. Það er sérstakt og jafnvel einkennilegt að þetta sé tekið fram í ljósi þess að málið snérist ekkert um það, og Evrópudómstóllinn útskýrði í systurmálunum tilgang ákvæðisins bara með vísun í ótilhlýðileg áhrif framkvæmdavaldsins. (sjá mgr. 99 í fyrri dómnum).
Niðurstaða MDE felur því bæði í sér að pólitísk yfirvöld eigi ekki að skipta sér ótilhlýðilega af skipun dómara, og að dómsvaldið eigi ekki heldur að gera það. Það sé löggjafans að mæla fyrir um það með almennum hætti og að þeim fyrirmælum skuli fylgja af sem mestri nákvæmni.
Sú spurning sem vaknar hjá mér við þetta, er hvort MDE sé þarna að gauka að okkur lausn á sorgum innansveitarkronikunnar. Væru kannski réttu viðbrögðin við dómnum m.a. þau að löggjafinn sníði matsnefndinni þrengri stakk og minnki þannig svigrúm hennar. Það myndi mögulega auka traust pólitíkurinnar á ferlinu og þá jafnframt minnka líkurnar á að hún blandi sér í málið með þeim hætti sem gert var við frumskipun Landsréttar.
Með öðrum orðum að löggjafinn ákveði með lögum hvernig heppilegur dómari skuli vera á hverju dómstigi og minnki þannig svigrúm pólitíkurinnar og dómsvaldsins til þess að hafa ótilhlýðileg áhrif á skipun dómara.
Ég held að við höfum að stórum hluta lent í þessari stöðu með Landsrétt vegna gagnkvæms vantrausts á milli dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins um það að hvor aðili um sig myndi reyna nota svigrúm sitt til þess að hafa ótilhlýðileg áhrif í frumskipun Landsréttar. Í mínum huga er ítarlegri reglusetning af hálfu löggjafans eðlilegt viðbragð við slíku vantrausti.
Höfundur er nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
*Erindið var upphaflega flutt 3. desember 2020 á Málþingi Réttarfarsstofnunar Háskólans í Reykjavík um dóm yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu.