Úr ákveðnum ranni er fullyrt að tollasamningurinn sem gerður var við ESB árið 2015 og tók gildi 1. maí 2018 hafi skilað neytendum lægra verði, það er röng fullyrðing. Afkoma bænda hefur rýrnað verulega bæði með tollasamningum sem gerðir voru við ESB 2007 og 2015 og svo nú síðast með því að breyta fyrirkomulagi við útboð á tollkvótum. Það er staðreynd að kjöt hefur hækkað heldur meira en almennt verðlag í landinu, með öðrum orðum bændur fá færri krónur í vasann á meðan neytandinn þarf að greiða fleiri.
Á sama tíma og tekjur bænda rýrna hafa innflytjendur á landbúnaðarvörum á þessu tímabili fengið um 3 milljarða endurgreidda frá ríkinu (sem neytendur voru búnir að borga) vegna oftekinna skatta í formi tolla. Samkvæmt skýrslu starfshóps, sem falið var að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, jókst innflutningur landbúnaðarafurða verulega frá 2007 til 2019. Í sumum tilfellum margfaldaðist innflutningurinn.
Aukinni eftirspurn mætt með innflutningi
Aukningin á þessu árabili var mest í óunnum kjötvörum, eða 333% en sala á innlendri framleiðslu jókst á sama tíma um 15%. Innflutningur á mjólkurvörum jókst um 136% og um 45% á grænmeti. Skýringin á mjólkurvörum var að miklu leyti vegna osta en á sama tíma jókst innvegin mjólk frá bændum um 23%. Á þessum tíma dróst sala á innlendu grænmeti saman um 20%. Þar vó þyngst sölusamdráttur í kartöflum um 34% og um 20% í tómötum.
Staða einstakra búgreina
Rétt er að benda á að innflutningur á svínakjöti hefur farið úr því að vera lítill í byrjun þessa tímabils yfir í að vera orðinn um fjórðungur af allri neyslu á svínakjöti. Þá er reyndar eftir að taka tillit til þess að innfluttar pylsur og unnar kjötvörur eru að uppistöðu til úr svínakjöti, þannig að innflutningur er í raun umtalsvert meiri. Hvað þá heldur, ef satt reynist, að ekki komi allur innflutningur fram í opinberum tölum. Ef þessi þróun heldur áfram styttist í að innflutt svínakjöt fari fram úr innlendri framleiðslu..
Samdráttur í sölu og aukin hlutdeild innfluttra búvara á markaði hefur leitt til verðfalls til bænda fyrir sínar afurðir. Birgðir safnast upp og verð til kúabænda frá afurðastöðvum fyrir nautgripi hefur lækkað um allt að 30% frá ársbyrjun 2020. Framleiðslukostnaður hefur hækkað með verðhækkunum á aðföngum, hærri launakostnaði og hærri kostnaði fyrir aðkeypta þjónustu. Haldi áfram sem horfir er ljóst að ákveðnar búgreinar hérlendis eiga enn meira í vök að verjast en áður og því verða stjórnvöld að svara því ákalli hvert stefna eigi með innlenda framleiðslu. Neytendur eiga kröfu á að fá skýrt svar um það.
Höfundur er stjórnarkona í Bændasamtökum Íslands.