Það bárust fréttir af því í hljóðvarpi í nýverið (10.12.´20) að Rússar og Kínverjar og fleiri óvinaþjóðir Atlantshafsbandalagsins væru á sameiginlegri heræfingu með Nató í arabíska hafinu undan ströndum Pakistan.
Viðbrögð miðaldra Sjálfstæðismanna á Íslandi létu ekki á sér standa. Þeir urðu hræddir. Herforingi þeirra, Björn Bjarnason, fyrrverandi eitt og annað birti angistarfullan langhund í Morgunblaðinu þann 11.12.´20 og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Moggans birtir á bloggi sínu og einnig á mbl.is stuttan pistil undir fyrirsögninni Norðurslóðir: Vaxandi ógn frá Rússum. Þar segir:
Norsk stjórnvöld líta svo á, að því er fram kemur á Barents Observer, að Norðmönnum og bandalagsþjóðum þeirra stafi vaxandi ógn af hernaðarlegri uppbyggingu Rússa. Þetta er kjarninn í nýrri Norðurslóðastefnu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs hefur kynnt.
Meðal þeirra bandalagsþjóða Norðmanna, sem hljóta að taka þessar ábendingar til sín erum við Íslendingar. Þetta er okkar umhverfi. Það sem gerist á Norðurslóðum hefur bein áhrif á okkar eigið öryggi.
Í dag er það aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin, sem er okkar eina trygging.
Til viðbótar við þá ógn frá Rússum, sem Norðmenn telja nú vaxandi, kemur svo augljós áhugi Kína á þessum heimshluta.
Má búast við einhverjum viðbrögðum? (Feitt letur er Styrmis.)
Hræðsla miðaldra Sjálfstæðismanna við Rússa er athyglisverð í ljósi þess að þar eru ekki lengur þeir hryllilegu kommúnistar sem þessir menn töldu að ætluðu að innlima Ísland í Sovétið; þeir eru harðvítugir frjálshyggjumenn, Rússar dagsins, hugsjónabræður hræddu karlanna.
Ef þeir róuðu sig, hræddu karlarnir og leiddu hugann að því af hverju Rússar og Kínverjar og aðrir „óvinir” eru að æfa sjóorrustur með Nató austur í höfum, kæmust þeir kannski að þeirri niðurstöðu að þarna séu herveldin að sýna hvert öðru framleiðslu sína, nýjustu og áhrifaríkustu drápstólin og efna til kaupskar í sameiginlegri frjálshyggju svo hagkerfi heimsins eflist og ótti okkar óbreyttu magnist. Herveldin austan hafs og vestan þurfa nefnilega á honum að halda, óttanum, til að næra lífi í iðnaðinum.
Þegar þeir hafa meðtekið þetta, hræddu karlarnir í Fljótshlíðinni, ætti að draga úr hræðslu þeirra, og þá er aldrei að vita nema þeir sjái glaðan dag. Óttalausan. Því varla eiga þeir hagsmuna að gæta í vopnaframleiðslu.