Það er margt gott í matvælastefnu til 2030, sem stjórnvöld kynntu 10. desember 2020, miðað við stöðu þessara mála í dag, en mun betur þarf að gera ef stefnan á að gagnast neytendum og almenningi vel.
Meðal þess sem horfir til betri vegar í stefnunni er að það er þó leitast við að horfa til hagsmuna neytenda. Í upphafsorðum neytendakaflans segir: „Neytendur sem þekkja réttindi sín standa sterkari á markaði. Setja þarf skýrar reglur til grundvallar viðskiptum og tryggja virka samkeppni sem eykur velferð neytenda og jafnræði framleiðenda".
Hingað til hafa hagsmunaverðir landbúnaðarins ekki verið að hafa mikið fyrir því að minnast á neytendur þegar þeir gera sínar kröfur um tollvernd, tollkvóta og framlaga skattgreiðenda á fjárlögum. Þeir hafa eiginlega horft þannig á að neytendur geti bara étið það sem bændur framleiða hvað sem það kostar og hvernig sem það er framleitt. Það sé mál landbúnaðarins. Umhverfið, dýravernd, matvælaverð, fjölbreytni matvæla... iss, piss... skiptir ekki máli. „Látið okkur hafa pening, verndið okkur fyrir samkeppni og við framleiðum bara það sem okkur sýnist," hafa þeir í rauninni sagt.
Það sem matvælastefnan hefði átt að byrja á að segja varðandi neytendur er á þessa leið:
„Neytendur hafa aðgang að opnum matvælamarkaði þar sem í boði er án markaðshindrana, fjölbreytt úrvali matvæla, á markaðsverði, án tolla og annarra hindrana annara en þeirra sem stafa af eðlilegu faglegu matvælaeftirliti."
Með slíkri stefnu eykst fjölbreytni matvæla á markaði og verð lækka nokkuð. Það kemur (fátækum) neytendum best og bætir samkeppnishæfni landsins sem ferðamannalands og lands sem á í vaxandi samkeppni við önnur lönd um fólk og fyrirtæki og þar með lífskjör.
Í fljótu bragði virðist stefnan vera rökrétt hvað varðar kolefnisspor matvæla. Hagmunaverðir landbúnaðarins hafa haldið því fram að innlend matvæli séu með minna kolefnisspor en innflutt. Það er ekki rétt. Það þarf að flytja inn aðföng fyrir matvælaframleiðslu til dæmis um 2 kg. af korni fyrir hvert kg. sem framleitt er af svína- og kjúklingakjöti. Svipað á við um lambakjötið, að sínu leyti. Þá er eftir að nefna hvernig ríkisstyrkt mjólkur og kjötframleiðsla hefur farið með landið. Nægir að nefna votlendi, jarðargróður og moldina sem hefur „fokið burt". Nefnt er í stefnunni að gæta þurfi að kolefnisspori, sem er rétt.
Sem sagt, matvælastefnan er lítið spor í rétta átt, í flottum umbúðum samt.
Höfundur er viðskiptafræðingur og í stjórn Neytendasamtakanna.