Þó stjórnvöld hafi gert sumt ágætlega til að bregðast við kreppunni sem Kóvid hefur orsakað þá vekur annað furðu.
Þannig eru stjórnvöld nú að áforma umtalsverða lækkun fjármagnstekjuskatts, sem einkum nýtist efnafólki. Þau eru einnig að stórauka skattfrelsi hagnaðar vegna nýtingar kaupréttar á hlutabréfum, sem einkum gagnast æðstu stjórnendum í einkafyrirtækjum. Einnig er verið að létta skattbyrði af þeim sem safna sparnaði á gjaldeyrisreikningum, en þeir koma flestir úr sömu hópum. Þetta eru skattalækkanir upp á hátt í 2 milljarða króna á ári.
Loks hafa stjórnvöld þegar lækkað veiðigjöld til útvegsmanna, sem hafa stóraukið eignir sínar á liðnum árum (um hátt í 500 milljarða frá 2010). Þær lækkanir nema um 6,5 milljörðum frá 2018.
Er þetta fólkið sem hefur orðið fyrir mestum áföllum vegna Kóvid-kreppunnar? Nei, þarna er verið að lækka skatta á þá sem almennt standa best í samfélaginu, hvað eignir og tekjur varðar.
Árið 2019 jukust hreinar eignir ríkasta 0,1 prósentsins um heila 22 milljarða – 22 þúsund milljónir (sjá grein Kjarnans um það hér).
Maður hefði haldið að stjórnvöld teldu sig hafa nóg við að vera í að verja þá sem hafa orðið fyrir mesta tjóninu af völdum kreppunnar, en það eru einkum fólkið sem hefur misst vinnuna.
Atvinnulausir þurfa skattalækkun – en ekki þeir ríkustu
Alls voru 20.906 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok nóvembermánaðar og 5.448 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 26.354 manns. Hátt í 10.000 manns hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði eða meira og þurfa nú að stóla á flatar atvinnuleysisbætur.
Það fólk fær nú 289.500 krónur á mánuði og greiðir tæpar 43.000 krónur af því í tekjuskatt. Eftir standa um 235.000 krónur til framfærslu (eftir frádrátt skatts og lífeyrisiðgjalda). Það er vel undir framfærslukostnaði.
Hvers vegna er verið að skattleggja sannkallaða neyðaraðstoð til atvinnulausra, þegar flatar atvinnuleysisbætur eru vel undir framfærslukostnaði?
Hvers vegna er verið að lækka skatta á vel stætt efnafólk sem hefur aukið eignir sínar stórlega á síðustu árum? Þurfa þau neyðaraðstoð?
Kostnaðurinn við lækkun fjármagnstekna einna færi langt með að greiða fyrir fulla niðurfellingu tekjuskatts af flötum atvinnuleysisbótum næstu 6 mánuðina. Ef stjórnvöld hefðu sleppt því að lækka veiðigjöld hefði mátt nota það fé bæði til að greiða fyrir meiri hækkun flatra atvinnuleysisbóta og fullt skattfrelsi þeirra allt næsta árið. Pælið í því!
Stjórnvöld eru greinilega með ranga forgangsröðun. Þau eiga að hjálpa þeim sem á þurfa að halda – en ekki þeim sem best eru settir.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu – stéttarfélagi.