Um daginn lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að selja Gagnaveituna, dótturfélag Orkuveitunnar. Rökin voru þau, að mati flokksins, sú að starfsemi Gagnaveitunnar samræmist ekki grunnskyldum Reykjavíkur sem sveitarfélags, né að hún sé hluti af grunnrekstri Orkuveitunnar. Það mætti beita sömu rökum hvað varðar aðkomu Reykjavíkurborgar að Orkuveitunni. Rekstur þess öfluga orkufyrirtækis er strangt til tekið ekki hluti af grunnskyldum Reykjavíkurborgar. Aftur á móti er það samfélagsleg ábyrgð sveitarfélagsins að eiga öflugt orkufyrirtæki sem tryggir íbúum þess örugga dreifingu á bæði köldu og heitu vatni auk rafmagns. Sem hluti af þessari samfélagslegri ábyrgð hefur Orkuveitan rekið Gagnaveituna sem tryggir öruggt net ljósleiðara um borgina og til nágrannasveitarfélaga. Ljósleiðaranet er kerfislægt innviðakerfi sem óheppilegt er að sé í höndum einkaaðila með einokunaraðstöðu.
Ekki kemur á óvart að þessi tillaga komi frá Sjálfstæðisflokknum, því nýlega seldu Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði (en þeir mynda meirihluta þar með Framsóknarflokknum) hlut bæjarins í HS Veitum. Sú sala var mjög umdeild; m.a. hafnaði meirihlutinn því að fá álit íbúa bæjarins á sölunni. Það má alveg halda því fram að meirihluti sem hefur umboð til fjögurra ára sé umboðslaus til að selja verðmætar eignir sveitarfélags sem íbúar hafa byggt upp í áratugi, eins og átti við um hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum. Það má líka minna á að á sínum tíma seldi þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hlut ríkisins í HS Orku til einkaaðila og olli sú sala gífurlegum deilum. Auk þess seldi sama ríkisstjórn á sínum tíma Símann, með öflugu innviðakerfi ljósleiðara. Það var mjög umdeild aðgerð. Það innviðakerfi ljósleiðara tilheyrir nú fyrirtæki sem heitir Míla. Það fyrirtæki ætti með réttu að vera í eigu almennings, þ.e. sveitarfélags eða ríkisins.
Gagnaveitan er vel rekið fyrirtæki, með góða eiginfjárstöðu og skilar góðum hagnaði. Það heldur verði á ljósleiðaratengingum niðri, neytendum til hagsbóta. Það er nákvæmlega engin ástæða til að selja Gagnaveituna til einkaaðila, sem eðli máls samkvæmt reyna að hámarka sinn hagnað sem reynslan sýnir að leiðir til hærra verðs fyrir neytendur og verri þjónustu.
Svona „saklaus“ tillaga um sölu á Gagnaveitunni er hluti af orðræðu hægri manna um selja allt sem er hönd á festandi m.a. til að lækka skuldir. Ef fólk lætur blekkjast, þá er stutt í að sömu rök verði notuð til að selja Orkuveituna, eitt öflugasta fyrirtæki landsins. Þá sitjum við neytendur sem áttum þessi fyrirtæki áður með þá staðreynd að verð fyrir þjónustuna hefur hækkað og þjónustan versnað.
Það er sammerkt með flestum ef ekki öllum opinberum orkufyrirtækjum að þau hafa byggst upp og þróast í áratugi, þar sem íbúar hafa greitt gjald fyrir þjónustuna í gegnum tíðina. Miklar eignir þessara fyrirtækja eru í eigu almennings. Með sölu á slíkum fyrirtækjum mun aldrei fást rétt verð fyrir þær eignir sem verið er að selja, því nánast alltaf eru þessi fyrirtæki með gríðarlega sterka markaðsaðstöðu. Þessi grein er skrifuð sem vörn fyrir því að almenningur eigi öflug orkufyrirtæki sem og fyrirtæki sem dreifa orku og rafmagni. Þessi fyrirtæki eru eignir sem hafa orðið til á mörgum áratugum og eru í raun ómetanlegar eignir fyrir almenning í landinu. Sporin hræða í þessum efnum. Lærum af reynslunni.
Höfundur er heilsuhagfræðingur og tekur þátt í yfirstandandi flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.