Af íslenskum sjónarhóli – viðhorf um Evrópusambandið

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifar um Ísland og Evrópusambandið.

Auglýsing

I

Full aðild að Evrópusambandinu (ESB) brýtur ekki gegn sjálfstæði og fullveldi aðildarþjóðar, og þá ekki gegn fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og Lýðveldisins Íslands ef til aðildar þess kemur. Full aðild að ESB verkar ekki heldur gegn þjóðmenningu, þjóðtungu eða þjóðerni. ESB styður beinlínis þjóðmenningu og þjóðtungur aðildarþjóðanna. 

Reynsla aðildarríkja ESB staðfestir sjálfræði aðildarríkjanna, en stjórnvöld sumra þeirra hafa staðið gegn ýmsum ákvörðunum ESB og komist vel upp með það. Um þetta má nefna Dani, Grikki, Íra, Ítali, Pólverja, og Ungverja. Mikla athygli vakti á sínum tíma að Frakkar og Hollendingar, hvorir um sig, stöðvuðu um tíma staðfestingu nýs aðalsáttmála ESB, og héraðsþing Flanderns í Belgíu tafði staðfestingu verslunarsamnings við Kanada. Auk þess hefur aðildarríki einhliða útgöngurétt úr ESB, svo sem úrsögn Breta staðfestir. 

Við ársbyrjun 2021 stendur ESB andspænis ýmsum viðfangsefnum. Vegna alþjóðafarsóttarinnar er rætt um að ESB taki sér meiri verkefni á sviði lýðheilsumála en ráð er gert fyrir í aðalsáttmála þess. ESB hefur ákveðið að grípa til aðgerða gegn ofurveldi alþjóðlegra upplýsinga- og tölvurisa, með sérstakri löggjöf um stafræna þjónustu og stafræna markaði. Afleiðingar þessa kunna að verða víðtækar. Pólverjar, Ungverjar og Slóvenar settu nýlega skilyrði við afgreiðslu fjárlaga og fjármálaáætlunar ESB, vegna þess að önnur aðildarríki vilja skilyrða styrkveitingar við samstöðu um mannréttindi og reglur réttarríkisins. Tímabundin málamiðlun náðist þessu sinni. Á síðustu stundu náðist málamiðlun um víðtækan samskipta- og viðskiptasamning við Stóra-Bretland sem hvarf úr ESB að fullu um áramótin. Í þessu er mikið í húfi og reyndar mest undir framkvæmdinni komið. Loks myndast nýjar aðstæður við Norður-Atlantshaf með nýrri forsetastjórn í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Samningaviðræður Breta, eða Englendinga, og ESB um samskipti og viðskipti eftir útgöngu Stóra-Bretlands fóru fram eftir gamalkunnu mynstri: Fyrst er urrað, gelt og glefsað mánuðum saman en á síðustu stundu gengið að málamiðlun með efnisatriðum sem allir höfðu fyrir löngu séð fyrir.

Reynsla Evrópuþjóða sýnir að það skiptir miklu að ákvarðanir um aðild að ESB séu ekki teknar í tvísýnni sundrungu með mikilli andstöðu meðal almennings, heldur sé áhersla lögð á tillitssemi innbyrðis og víðtæka þjóðlega samstöðu eftir föngum. Um þetta er reynsla Breta skýrt dæmi, en reyndar var stöðugum ádeilum á ESB árum saman þar í landi yfirleitt ekki svarað. 

Útganga Stóra-Bretlands er tímamót í sögu ESB. Til skamms tíma var ESB i útþenslu og vexti og hafði aðdráttarafl, en nú virðist því skeiði lokið. Og útganga Breta er áfall. Hún er álitshnekkir, og ESB er veikara eftir en áður. Meðal annars má gera ráð fyrir að valdaafstæður breytist og forysta mótist meira en áður af tvíspili Þjóðverja og Frakka. Ekki verður séð fyrir hvernig þetta verkar á önnur aðildarríki fyrr en frá líður. 

II

Samkvæmt aðalsáttmála hefur ESB sérstakt og óskipt yfirþjóðlegt valdsumboð í fimm málefnaflokkum, samkvæmt samningsumboði aðildarríkjanna um innra markað, efnahagssamband og tollabandalag. Varðar þar mestu um reglur um tilhögun og þróun í svo nefndu fjórfrelsi: frjálsum hreyfingum og flutningum fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á svæði ESB. Þá hefur ESB blandað umboð sameiginlegt með aðildarríki í nokkrum öðrum málefnaflokkum. En aðildarríkin hafa hvert um sig óskorað vald og umsjón með öllum öðrum verkefnum og málefnum sínum. Samkvæmt reglum ESB skal samráð haft við þjóðþingin og ríkisstjórnir aðildarríkjanna um undirbúning, ákvarðanir og framkvæmdir. Gagnrýnt hefur verið að þetta samráð sé ekki nægilegt í öllum atvikum.

Aðild ríkis að ESB ræðst að miklu leyti af sérstökum aðildarsamningi sem gerður er við inngöngu þess. Aðildarsamningurinn hefur varanlegt gildi, meðal annars gagnvart aðalsáttmála og öllum ákvörðunum og breytingum ESB. Aðildarsamningur á að kveða á um sérstöðu, óskir, réttindi og hagsmuni hvers aðildarríkis og um tilhögun og takmörk þátttöku þess. En þá leiðir það af eðli máls að ekki verður fullyrt um það fyrir fram hvort eða hvernig full aðild að ESB mætir og tryggir hagsmuni, réttindi, óskir og kröfur þjóðríkis sem leitar inngöngu, fyrr en sameiginlegt frumvarp að aðildarsamningi er lagt fram.  

Auglýsing
Ísland er aðildarland samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Með því hefur Ísland aukaaðild að ESB, en er í raun annars flokks áhrifalaust fylgiríki ESB og í skjóli Noregs. Með aðild að EES verðum við að lúta þeim ákvörðunum sem ESB tekur á sérstöku valdsviði þess. Við tökum ekki gildan þátt í undirbúningi mála og lútum ákvörðunum annarra sem háðir þiggjendur. Þátttakan í EES hefur reynst afar vel, en hún mætir ekki þeim kröfum sem hæfa sjálfstæðu fullvalda þjóðríki, stöðu þess eða metnaði þjóðarinnar. 

Ef til inngöngu Íslands í ESB kemur verður að gera ráð fyrir að fyrst verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að sækja um inngöngu og hefja viðræður. Að loknum viðræðum og gerð frumvarps að aðildarsamningi verður að gera ráð fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu til að staðfesta frumvarpið og inngöngu í ESB á grundvelli samningsins. En íslensk stjórnvöld verða að vera við því búin að ekki fáist allar óskir samþykktar í viðræðunum eða að samningsfrumvarp verði ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hafa önnur viðbrögð og úrræði tilbúin.

Miklir viðskiptalegir hagsmunir tengjast samskiptum Íslendinga við ESB, auk annarra almennra samskipta og menningartengsla. Utanríkisviðskipti Íslendinga, bæði útflutningur og innflutningur, beinast að ráðandi hluta að ESB, EES og Stóra-Bretlandi. Það er hins vegar álitamál hvernig hentast og réttast verður að haga samskiptunum. Til greina koma aðild að EES áfram, útganga úr EES og gerð tvíhliða samninga, eða full aðild að ESB. Samskiptin við Stóra-Bretland verða síðan sérstakt viðfangsefni frá og með 2021.

Samskipti og tengsl við ESB eru varanlegt og umsvifamikið verkefni og ráðast ekki í flýti. Eðlilegt er að Íslendingar starfi áfram innan EES, og að allar breytingar bíði meðan ný skipan samskipta Stóra-Bretlands og ESB mótast. Brexit veldur óvissu um viðskipti og jafnvel röskun sem ekki má sjá fyrir, og samningur Breta og ESB leysir ekki úr þessu þótt samningurinn sé Íslendingum vissulega betri kostur en samningsleysi aðilanna. 

Eftir því sem frekast er unnt ber að miða við víðtæka innlenda samstöðu um valkosti í fjölþjóðasamskiptum Íslendinga, viðskiptamálum og þá einnig aðildarmálum. Og breytingar krefjast mikils undirbúnings og aðlögunartíma.

Full aðild að ESB virðist best mæta stöðu, kröfum, hagsmunum, réttindum og metnaði sjálfstæðs fullvalda þjóðríkis, miðað við fullnægjandi aðildarsamning. Aðeins full aðild gerir ráð fyrir jafn-réttháum, sjálfráða og fullvalda þátttakendum að stefnumótun, undirbúningi, ákvörðunum og framkvæmd. En sjálfstætt fullvalda þjóðríki hefur líka aðra valkosti, verður að taka tillit til annarra samningsaðila og finna sér sjálft færar leiðir.

III

ESB er umsvifamesta fríverslunarsvæði heims, en er tollasvæði út á við. ESB gengur næst Bandaríkjunum í hagrænu mati og samanlagðri kaupgetu. Aðildarríki ESB eru 27 talsins við ársbyrjun 2021. Mannfjöldi í ESB er 447,7 milljónir manna, eftir að Stóra-Bretland er gengið út með um 65,8 milljónir manna. Evruríkin eru nú 19 talsins, með um 341,9 milljónir íbúa. Árleg fjárlög ESB nema nú aðeins um 2% af samanlögðum fjárlögum aðildarríkjanna. 

Upphaf ESB var Evrópska Kola- og Stálsambandið sem var stofnað 1952 og síðan Rómarsáttmálinn sem gerður var 1957. Sameiginlegur innri markaður tekur gildi 1993, Maastricht-sáttmálinn líka 1993, Amsterdam-sáttmálinn 1999 og Lissabon-sáttmálinn 2009. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit fór fram í Stóra-Bretlandi 23. júní 2016 og í ársbyrjun 2021 varð endanleg útganga Stóra-Bretlands. Margs konar ágreiningur hefur jafnan verið um sameiginlegar ákvarðanir innan ESB, viðamiklar umræður og málamiðlanir. Margt í ESB er enn í mótun. 

ESB hefur á sínum vegum eitthvert víðtækasta kerfi viðskiptasamninga í veröldinni. Samningar voru haustið 2020 við 78 ríki í öllum heimshlutum og til viðbótar um 30 samningar í undirbúningi, líka í öllum heimshlutum, auk nokkurra sem voru í bið af ýmsum ástæðum. Við aðild að ESB opnast allir þessir samningar nýju aðildarríki, nema það semji um annað í aðildarsamningi sínum. 

Auglýsing
Framtíð þjóðríkisins Íslands og farsæld íslensku þjóðarinnar innan þess skipta mestu máli varðandi samskipti okkar við ESB sem aðra. Ekki má hunsa þá staðreynd að fjarlægðir skipta máli, hvað sem tækniframförum líður, en rúmlega 2.100 kílómetrar eru milli Reykjavíkur og Brüssel. Augljóslega eru aðstæður hér allar aðrar en þar, og þekking þar á aðstæðum hér takmörkuð. Lýðveldið Ísland er augljóslega aðeins lítið brotabrot samanborið við umfang ESB. Hér er á flestum sviðum sérstaða og sérstakar forsendur. En það er ásetningur Íslendinga í fjölþjóðlegu samstarfi að við eigum okkar eigin miðju og miðstöð á landi hér. Fjarlægðir og allar aðstæður krefjast þessa. Og mat á framtíð og farsæld felur meðal annars og ekki síst í sér mat varðandi þjóðmenningu, þjóðtungu, þjóðerni Íslendinga, velferð og lífsafkomu, fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar í landinu.

Það er ótvíræð og óumdeild reynsla íslensku þjóðarinnar að sjálfstæði, fullveldi og sérstaða hafa reynst prýðilega. Engar óskir eða skoðanir eru um það meðal þjóðarinnar að hverfa skuli frá þessu, nema síður sé.

Flestir Íslendingar kjósa frjáls og opin samskipti við aðrar þjóðir, opið viðskiptaumhverfi og verslunarfrelsi með miklum útflutningi og fjölbreytilegum innflutningi. Umfang vöru- og þjónustuútflutnings Íslendinga 2018 var um 47% af vergri landsframleiðslu og umfang vöru- og þjónustuinnflutnings um 44%. Reyndar hefur innflutningur iðulega verið jafnmikill eða meiri en útflutningur á liðnum tíma. 

Langflestir Íslendingar kjósa samkeppnishæft og sjálfbært hagkerfi. Flestir Íslendingar vilja líka forðast efnahagsástand sem einkennist af gengissveiflum og jafnvægisleysi og þeim háu vöxtum og kjaraskerðingum sem þessu fylgja, og flestir vilja forðast ójöfnuð við aðgengi manna og fyrirtækja að erlendu lánsfé á erlendum lánskjörum. En þessi vandamál verða viðvarandi í viðskiptaheimi fárra fjölþjóðagjaldmiðla andspænis viðkvæmum þjóðargjaldmiðli smáþjóðar. Þetta er raunsætt mat á magnhlutföllum og öðrum aðstæðum en alls ekki geðþóttadómur um íslensku krónuna. En í þessu er varanleg viðskipta- og samkeppnishindrun sem heldur meðal annars aftur af nýsköpun, hagvexti og þróun lífskjara á Íslandi. 

ESB er mikilvægt í viðskiptaumhverfi Íslendinga, til viðbótar við alhliða menningar- og félagssamskipti. Og evran er mikilvægasti erlendur viðskiptagjaldmiðill Íslendinga. Í vöruútflutningi vegur evran 61,7% árið 2018, og í vöru- og þjónustuútflutningi 43,0%. Mismunurinn á þessum tölum skýrist helst af mismun í vægi Bandaríkjadals og breska pundsins. Vægi pundsins kann að breytast á næstu árum. Ef gjaldmiðlum ESB-þjóðanna Dana, Pólverja og Svía er bætt við vægi evrunnar verður það 50,4% í vöru- og þjónustuútflutningi, en 67,7% í vöruútflutningi árið 2018. Í vöruinnflutningi árið 2018 vegur evra 33,9% og í vöru- og þjónustuinnflutningi 36,2%, en með gjaldmiðlum Dana, Pólverja og Svía er vægi evru 49,6% í vöruinnflutningi og 52% af vöru- og þjónustuinnflutningi.

Hafa ber í huga að inngönguferli ríkis í ESB tekur mörg ár. Í atviki Íslands má gera ráð fyrir að innganga taki varla skemmri tíma en nemur 6 árum. Í raun eru margar forsendur Íslendinga jafnt sem ESB gjörbreyttar frá því sem var þegar aðildarumsókn Íslands var til umræðu fyrir áratug. Ef til nýrrar aðildarumsóknar kemur þarf því að vinna málin að verulegu leyti upp á nýtt. Erfitt er að meta hve langan tíma slíkur undirbúningur tæki, hvort sem er meðal Íslendinga eða í stofnunum ESB, eða hins vegar hvort nægilega breið samstaða gæti mótast meðal Íslendinga til að tryggja framgang málsins. 

IV

Margvísleg efnahagsleg og stjórnmálaleg rök verða nefnd með og móti fullri aðild Íslands að ESB. Meðal þess ávinnings sem Íslendingar kunna að sækja sér með fullri aðild að ESB er: 

 • Fullgild og fullvalda aðild að undirbúningi, ákvörðunum og framkvæmd sameiginlegra málefna og regluverks; 
 • Mjög víðtækt og víðfeðmt viðskipta-, markaðs- og samskiptasvæði með margvíslegum tækifærum og áskorunum; 
 • Bætt umhverfi og forsendur samkeppni, nýsköpunar og hagvaxtar; 
 • Stjórnmálatengsl, samráð og öryggi; 
 • Verulega lækkaðir og stöðugir vextir, svo og fjármagnskostnaður yfirleitt; 
 • Stöðugleiki í gengi gjaldmiðilsins og verðlagi og einnig nokkuð lækkað almennt verðlag. 

Íslendingar njóta nú þegar, með aðildinni að EES, verulegs hluta þess ávinnings sem hér greinir, en þó ekki að fullu. Og EES-samningurinn tekur til margvíslegra félags- og menningarsamskipta á grundvelli ESB. Sterkar líkur eru til þess að ávinningur af fullri aðild verði einnig verulegar almennar kjarabætur þegar frá líður. En muna ber að full aðild tekur mót og mið af aðildarsamningnum sem gera verður áður. Hann heldur fullu gildi áfram. En fjárhagur, efni og veraldarframi skipta ekki öllu máli. Úrslitum hlýtur að ráða hvernig samið verður um þjóðríkið Ísland, um menningarlega þætti og hver áhrifin og hverjar afleiðingarnar verða í sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga. 

Margt vinnur gegn því að Íslendingar verði að fullu aðilar að ESB. Um það má nefna erlenda reynslu. Í umræðum erlendis um Evrópumál hefur mikið borið á andúð gegn miklum greiðslum í sameiginlega sjóði, á andúð og ótta gegn því sem er útlent, því sem er fjarlægt og ókunnuglegt og virðist lokað, og því sem er umsvifamikið, stórt um sig og líklegt til að taka sér völd. Mótun sameiginlegra reglna á innra markaðnum hefur verið mótmælt sem skipulagsbákni og óeðlilegri yfirfærslu valds, jafnvel þótt aðeins séu reglur um mat á stærð og lögun söluvarnings. Víða er vísað til þjóðerniskenndar og ættjarðarástar, og í nokkrum Evrópulöndum hefur verið árangursríkt að andmæla „ofríki Þjóðverja". Þessi andstaða meðal almennings hefur víða reynst þeim mun sterkari sem hún hefur verið óljós, óskilgreind og jafnvel þokukennd. Alls þessa gætir einnig hér á landi. 

Ef almenningur hér á landi sér aðeins stjórnarstofnanir í Brüssel og kemur ekki auga á fjölbreytileg og mismunandi sérstæð og sjálfráð þjóðríki innan ESB, er hæpið að full aðild Íslands að ESB verði samþykkt. Ef kjósendur á Íslandi álykta að full aðild að ESB hljóti að leiða til erlendrar aðildar og yfirráða í íslenskum sjávarútvegi, verður full aðild að ESB ekki samþykkt hér. Ef kjósendur telja að aðildinni fylgi hrun í íslenskum landbúnaði, verður aðild varla samþykkt hér. Ef íslenskur almenningur trúir því að ESB hnekki sjálfstæði og fullveldi Íslands, eða íslenskri þjóðmenningu og þjóðtungunni, verður full aðild að ESB aldrei samþykkt hér. Ef íbúar á landsbyggðinni sjá ESB sem grunn undir forréttindastöðu einhverra eftirlætishópa í höfuðborginni, verður full aðild að ESB ekki samþykkt hér. Ef almenningur metur það svo að aðild að ESB fylgi yfirburðastaða erlendra fyrirtækja og innflutts vinnuafls, verður aðild ekki samþykkt hér. Ef almenningur trúir því að full aðild að ESB feli í sér að Alþingi glati valdi sínu og íslenskar stjórnvaldsstofnanir verði að lúta erlendu forræði, verður full aðild að ESB aldrei samþykkt hér. Ef Íslendingar meta það svo að Ísland verði í ESB aðeins útibú, kot eða hjálenda, samþykkja þeir aldrei fulla aðild. Og ef íslenskur almenningur telur að engar leiðir verði opnar til útgöngu síðar, verður full aðild að ESB aldrei samþykkt hér.

Reynsla Evrópuþjóða staðfestir að margs konar óljós og þokukennd sjónarmið hafa mikil áhrif, ráða jafnvel úrslitum, um afstöðu kjósenda. Í Noregi kom það fram á sínum tíma að samanburður milli Noregs og fjölmennra Evrópuríkja, mannfjöldi, stórfyrirtæki og umfang hagkerfanna, fældi fólk frá hugmyndum um aðild að ESB. Þar kom líka í ljós að fjarlægðir skiptu fólk miklu máli. Þar sögðu menn: „Það er langt til Oslóar en miklu lengra til Rómar". Og þetta náði hugum almennings.

En við megum aldrei fallast á ákvarðanir vegna þess að við neyðumst til eins eða annars, enda engin ástæða til, eða vegna þess að við endilega þurfum þetta eða annað. Innganga í ESB má ekki koma til mála nema við viljum það sjálf, ákveðum það sjálf. Hún má ekki verða þáttur í undanhaldi, uppgjöf, vantrú á eigin getu og tækifærum, eða af veikleikum eða ósigrum, heldur á hún þvert á móti að verða stefna til þess að ná nýjum árangri, sækja fram, bæta stöðu okkar, og til sigra. Full aðild kemur því aðeins til greina að gott verði betra.

Íslendingar verða að forðast að nokkur nauðung hafi áhrif á þessi mál. Tillögur um fulla aðild að ESB hljóta að miðast alveg við hagsmuni, óskir og réttindi íslensku þjóðarinnar og íslenska þjóðríkisins.

V

Innan ESB er valdi og forráðum hagað samkvæmt aðalsáttmála ESB sem kenndur er við Lissabon, höfuðborg Portúgals. Valdsumboð ESB er sem hér segir:

A) Sérstakt og óskipt yfirþjóðlegt valdsumboð aðeins í höndum ESB (Ausschließliche Zuständigkeiten/exclusive competences): 

 1. Tollabandalag - 
 2. Nauðsynlegar samkeppnisreglur vegna innra markaðar - 
 3. Evran og peningamál evrulanda - 
 4. Verndun auðlinda hafsins innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu - 
 5. Sameiginleg viðskiptastefna - 

Auk þess: samningar við önnur ríki um þessi mál.

Í þessum fimm málefnaflokkum hafa sameiginlegar reglur og ákvarðanir ESB óskorað gildi í aðildarríkjunum og ganga að öðru jöfnu framar lögum og regluverki aðildarlands. 

B) Blandað valdsumboð ESB sameiginlegt með hverju aðildarríki (Geteilte Zuständigkeiten/shared competences):

 1. nnri markaður - 
 2. Félagsmál, en aðeins samkvæmt sérheimildum - 
 3. Hagrænar og félagslegar svæðaaðgerðir og byggðastefna til jöfnunar og til að móta samstöðu og samfellu - 
 4.  Landbúnaður og fiskveiðar - 
 5. Umhverfismál - 
 6. Neytendavernd - 
 7. Flutningamál - 
 8. Samevrópsk samskiptanet - 
 9. Orkumál - 
 10.  Dómsmál, frelsi, öryggi og réttvísi - 
 11. Sameiginlegir þættir lýðheilsumála, en aðeins samkvæmt sérheimildum - 
 12.  Rannsóknir og tækniþróun, en aðildarríki getur líka tekið frumkvæði - 
 13. Þróunarsamvinna og líknarmál, en aðildarríki getur líka tekið frumkvæði - 
 14. Aðstoð við aðildarríki.

C) Öll önnur völd og allir aðrir málefnaflokkar verða áfram á höndum einstakra þjóðríkja.

Stjórnkerfi ESB lýtur annars vegar nálægðarreglu (Subsidiarität/subsidiarity) og hins vegar meðalhófsreglu (Verhältnismäßigkeit/proportionality). Í 1. bókun með aðalsáttmála ESB er fjallað um skyldu til samráða við þjóðþing aðildarríkjanna um sameiginleg málefni, undirbúning mála og ákvarðanir. Í 2. bókun er fjallað um samráð og undirbúning mála samkvæmt nálægðarreglu og meðalhófsreglu. 

Auglýsing
Nálægðarreglan gerir ráð fyrir því að ákvörðun sé jafnan tekin svo nálægt sem verða má þeim sem mál snertir beint. Því skal til dæmis fyrst leita afgreiðslu í nærsamfélagi og þjóðríki, áður en máli verður vísað til sameiginlegrar stofnunar ESB, enda hafi ákvörðun þá víðari almenna tilvísun og afleiðingar. Meðalhófsreglan gerir ráð fyrir að ákvörðun sé jafnan þröngt mótuð efnislega og aldrei gengið lengra en beina málefnalega nauðsyn ber til, enda réttmætt tillit tekið til aðstæðna og réttinda þeirra sem hlut eiga að máli. Fiskveiðireglur ESB miðast við skilmála um stöðug hlutföll (relative Stabilität /relative stability) en þá er gert ráð fyrir að fyrri veiðireynsla á hafsvæði verði lögð til grundvallar skiptingu veiðiheimilda.

VI

Æðsta vald í málefnum ESB hafa:

 • Leiðtogaráð ESB (Europäischer Rat), 
 • Ráðherraráð ESB (Rat der Europäischen Union /Ministerrat),     
 • Þing ESB (Europäisches Parlament),
 • Framkvæmdastjórn ESB (Europäische Kommission),
 • Auk þess eru: Dómstóll, Miðbanki, og eftirlitsstofnanir.

Í leiðtogaráðinu ráða leiðtogar stærstu aðildarríkjanna mestu, en öll aðildarríkin eiga þar einn fulltrúa jafnt og hafa öll rödd. Í ráðherraráðinu eiga öll aðildarríkin einn fulltrúa jafnt, þ.e. fagráðherra á því sviði sem er til umfjöllunar hverju sinni, en ráðherrar þeirra ríkja sem koma að hverju máli hafa þar sterkasta rödd hverju sinni. Í aðalatriðum er þingsætum á þingi ESB skipt eftir íbúafjölda, en þó njóta fámennustu aðildarríki nokkurra forréttinda í skiptingunni. Öll aðildarríkin eiga líka einn fulltrúa jafnt í framkvæmdastjórn ESB, en þar er þeim skylt að meta og framfylgja ævinlega sameiginlegum sjónarmiðum og hagsmunum. 

Fámenn aðildarríki hafa sterka stöðu í æðstu stofnunum ESB. Þau hafa líka aðstöðu þar til að mynda sín eigin óformlegu bandalög og hjálpast að í málum. Aðalregla ESB um ákvarðanir er einhugur og samstaða allra, en í nokkrum tilteknum málaflokkum ræður meirihluti. Hlutleysi i máli hindrar ekki ákvörðun. Um fundarsköp og óskir um rannsókn, skýrslur og óskir um tillögur embættismanna fer að einföldum meirihluta. Skilgreindur aukinn meirihluti gildir um utanríkismál og öryggismál. Um margvísleg önnur ákvörðunaratriði ræður skilgreindur aukinn meirihluti, en þá er miðað við að lágmarki samþykki 55% aðildarríkja og jafnframt 65% mannfjölda. Í Leiðtogaráðinu er alltaf leitað fullrar samstöðu og unnið að málamiðlun uns hún er fengin.

Auðvitað lifir „gamla Evrópa" að sínu leyti áfram í ESB, með hefðbundnum samskiptaháttum, með aflsmun þegar svo ber við, og stundum með undirhyggju, takmarkaðri tillitssemi, klókindum og endalausu samningamakki. En fjölmiðlar ráða því að athyglinni er oftast beint að forystumönnum fjölmennustu aðildarríkjanna, jafnvel svo að þeir virðast einir um hituna stundum.

Í aðalsáttmála ESB eru ákvæði um einhliða úrsagnarrétt aðildarríkis, sem tekur tvö ár enda þótt ekki verði samkomulag um útgönguna (50.gr.). Þar eru líka sérstök ákvæði um sérstöðu og sérstakt svigrúm og sjálfræði fjarlægra eyjasamfélaga (349.gr.). Í bókunum með aðalsáttmálanum eru ýmis ákvæði sem varða séraðstöðu, sérstakar aðstæður og réttindi einstakra aðildarríkja. 

VII

Samkvæmt því sem ofar segir um stjórnarstofnanir ESB er staða þjóðríkjanna býsna sterk innan sambandsins. Reynsla sýnir að þau geta farið sínu fram að miklu leyti og einnig staðið í andstöðu við stefnu og ráðstafanir ESB. Nokkur dæmi, en ekki tæmandi:

 • Bretar höfðu gengið gegn ýmsu áður en þeir ákváðu að ganga úr ESB. Og þeir héldu uppi stöðugri skothríð á ESB allan tímann, jafnvel þótt Stóra-Bretland nyti að ýmsu leyti forréttinda innan ESB. Greiðslur Breta til ESB höfðu verið endurskoðaðar, og að ýmsu leyti nutu þeir sérstöðu á fjármálamarkaði.
 • Danir taka aðeins lítinn þátt í sameiginlegum lögreglumálum, og þeir hafa sérstakar reglur um eignarhald á landi og fasteignum og varðandi gjaldmiðil, danska krónu. Þeir hafa með þjóðaratkvæði fellt tillögu um fulla þátttöku í evrusamstarfinu, jafnvel þótt danska krónan sé í raun svæðistengd evru-útgáfa í mörgu tilliti.
 • Frakkar hafa lengi hunsað reglur ESB um ríkisfjármál. Þetta snertir meðal annars langvarandi hallarekstur, almenn ríkisumsvif, skuldasöfnun og fleira.
 • Grikkir héldu uppi mikilli andstöðu vegna greiðslusamninga eftir fjármálahrunið. Þeir tóku ekkert tillit til ýmissa ábendinga um skattheimtu, ríkisútgjöld, nefndabákn, spillingu og skuldsetningu. Við skuldauppgjör höfðu þeir miklar yfirlýsingar uppi og knúðu ýmsar tilslakanir fram.
 • Írar hafa farið gegn reglum og beinum óskum ESB vegna skattamála sem sagt er að raski samkeppnisstöðu annarra, og unnu málið nýlega fyrir Dómstóli sambandsins.
 • Ítalir hafa um langt árabil hunsað reglur og óskir ESB um hallarekstur ríkissjóðs og um ríkisskuldir, og upp á síðkastið um móttöku hælisleitenda og fleira. Þar hafa menn lengi notað ESB sem skotspón og grýlu í kosningum. 
 • Maltverjar hafa stundað ábatasölu vegabréfa og viðtæk kostaboð til fjárfesta utan ESB, í blóra við óskir ESB og flestra annarra aðildarríkja.
 • Kýpur : sama og Malta.
 • Portúgal: sama og Malta.
 • Pólverjar hafa gengið þvert gegn skilmálum og óskum ESB um dómsvaldið og skipan dómenda, um stöðu stjórnarandstöðu og ýmis mannréttindamál, einnig um þungunarrof og stöðu kvenna. Ráðandi öfl þar nota ESB iðulega sem grýlu. Nú síðast stöðvuðu Pólverjar afgreiðslu fjárlaga og fjármálaáætlunar ESB, en bráðabirgðalausn um skeið fékkst með málamiðlun . 
 • Slóvenar tóku undir með Pólverjum og Ungverjum um fjárlög og fjármálaáætlun ESB.
 • Ungverjar hafa farið algerlega í bága við reglur og óskir ESB vegna flóttamanna, við tilhögun og framkvæmd kosninga og stöðu lýðræðis og mannréttinda, vegna kostnaðar við rekstur menntastofnana, vegna sambúðar Ungverja við nágranna sína, og fleira. Ungversk stjórnvöld hlakka yfir að nota ESB sem grýlu. Nú síðast stöðvuðu Ungverjar afgreiðslu fjárlaga og fjármálaáætlunar ESB, en bráðabirgðalausn um skeið fékkst með málamiðlun.
 • Þjóðverjar hafa hunsað reglur ESB um ríkisfjármál.

Ekki er vafi á því að ágreiningur og átök hljóta að verða regla en ekki undantekning í víðtæku og nánu ríkjasambandi 27 ólíkra og misfjölmennra ríkja. Innan ESB hefur mikið verið deilt um ólíkan hugsunarhátt, löghlýðni og skyldurækni í sunnanríkjunum, miðað við þjóðlöndin í norðrinu. Norðanmenn eru þá sakaðir um yfirlæti og frekju. Eins hafa deilur staðið vegna athafna stjórnvalda í Miðaustur-Evrópu, og þar þykir mönnum að Norðvestur-Evrópumenn sýni kúgarahneigð og dramb. Nú síðast var mikill lánasjóður stofnsettur til stuðnings sunnanríkjunum, og má vera að þannig megi mýkja kantana í samlífinu. En í framtíðinni má áfram búast við margs konar ágreiningi og árekstrum innan ESB.

ESB hefur ýmsar leiðir til að knýja sameiginlegan vilja fram gagnvart einstökum aðildarríkjum sem skorast úr samstöðu eða brjóta gegn sameiginlegum reglum eða ákvörðunum. Til dæmis getur ESB skilyrt styrkveitingar og fjárveitingar til einstakra ríkja, svipt þau atkvæðisrétti og stöðu innan sameiginlegra stofnana, og loks tekið úrsögn til umræðu. En hingað til hefur ekki orðið af slíku. Líklega hafa stofnanir ESB einfaldlega ekki treyst sér til þess að láta verulega til sín taka í raun, að minnsta kosti enn sem komið er. Og ESB hefur haldið uppi stuðningi við þjóðtungur og þjóðmenningu einstakra þjóða innan sambandsins. 

Svo virðist sem þjóðríkin hafi smám saman styrkt stöðu sína innan ESB í mörgum ákvörðunum. Eftir reynslu ESB af staðfestingu viðskiptasamningsins við Kanada 2016 telja margir að forysta sambandsins hiki við að beita sérstöku og óskiptu yfirþjóðlegu valdsumboði eða vísa til þess áfram í slíkum málum. Svipað hefur komið á daginn varðandi nýjan samning við Singapore árið 2017, en þá dæmdi Dómstóll ESB að málið heyrði til blönduðu sameiginlegu valdsumboði sambandsins með aðildarríkjunum.

VIII

Á umliðnum árum hefur verið kröftug fjölþjóðaþróun. Tæknilegar framfarir og uppgötvanir hafa ýtt á eftir henni. Margt gott hefur fylgt. Má þar nefna meðal annars aukna fjölbreytni lífsgæða á markaði, batnandi lífskjör, nýsköpun og hagvöxt, aukin alhliða kynni, samskipti og menningarstrauma, minnkandi fordóma, útlendingaótta og þjóðahatur, vaxandi verkaskiptingu og samvinnu þjóða, stöðugleika og frið. Þetta er ekki lítið og skiptir miklu máli. 

En fjölþjóðaþróuninni hafa einnig fylgt auðsöfnun örfárra og ofurveldi örfárra fyrirtækja og auðmanna. Orðið hefur mikil samþjöppun valds og áhrifa, eigna og tekna. Misrétti og ójöfnuður hafa vaxið. Alþjóðafyrirtæki hafa tekið sér samkeppnisforskot og skattfríðindi. Vald yfir fréttum og upplýsingum hefur safnast á fáar hendur, en jafnframt hafa málflutningsóreiða og samsærisáróður fengið nýjan byr. Beint og óbeint tengist þróunin meðal annars viðkvæmri stöðu og stjórnleysi í mörgum þjóðríkjum, straumum flóttamanna og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Og alþjóðaþróuninni í viðskiptum og flutningum hefur fylgt skaðvænleg aukning í kolefnisspori, náttúruspjöllum, mengun og áhrifum á loftslag. Þessar öfgar ber að forðast, en leggja ber áherslu á góða kosti sameiginlegrar fjölþjóðlegrar þróunar. Vaxandi skilningur og samstaða margra er um þetta.

Auglýsing
Fleiri og fleiri málefnasvið og viðfangsefni eru orðin og verða sameiginleg og fjölþjóðleg. Hátækniþróun og fjárfestingaþarfir knýja á um þetta. Við þetta raskast staða þjóðríkjanna. Þeim hnignar og staða þeirra veikist. ESB hefur meðal annars þróast á síðari árum sem viðbragð við þessari öfugþróun. ESB starfar í vaxandi mæli til eflingar og styrkingar evrópskum þjóðríkjum. Þau freista þess að rétta stöðu sína af og styrkja hana aftur með samþættingu stjórnvaldsþátta, víðtæku samstarfi og verkaskiptingu. Meðal annars leggur ESB áherslu á framlög til styrkingar og eflingar þjóðmenningu og þjóðtungum, og innan þess hafa smáþjóðir öðlast rödd sem þær höfðu ekki áður. Að ýmsu leyti hefur staða evrópskra smáríkja styrkst eftir inngöngu í ESB, frá því sem áður hafði verið. 

Í samræmi við þetta eru þjóðernissinnaðir og þjóðræknir menn víða í Evrópu einlægir stuðningsmenn fullrar aðildar að ESB. Nægir að nefna Íra sem eru logandi þjóðræknismenn og Skota sem eru líka ákaflega þjóðernissinnaðir, og Eystrasaltsþjóðirnar sem lengi hafa barist fyrir þjóðlegum og þjóðernislegum sjónarmiðum. Grikkir, Pólverjar, og Ungverjar eru líka miklir þjóðræknismenn og þeir eru óhræddir að standa uppi í hárinu á embættismönnum ESB. En þessar þjóðir hafa kosið aðild að ESB og hafa ekki horfið frá þeirri afstöðu. Á þessu gæti reyndar orðið breyting, til dæmis eftir að Bretar eru horfnir úr ESB.

IX

Meirihluti Englendinga vildi og vill ganga úr ESB, en þeir hafa ekki talað mest um þjóðmenningu eða þjóðerni sem ástæður. Þeir hafa aðallega talað um aukið sjálfræði í atvinnulífi og viðskiptum, gagnrýnt greiðsluskyldur til ESB, skammað sameiginlegt stjórnvald á innra markaðnum, og fordæmt það sem þeir kalla ólýðræðislegt embættismannavald og reglugerðafargan. Í kosningahita hafa Brexit-sinnar reyndar oft lagt áherslu á að aðild að ESB takmarki langt um of fullveldi þjóðarinnar. 

Þegar umræður Englendinga eru skoðaðar kemur í ljós að margir þeirra hafa einfaldlega aldrei, hvorki fyrr né síðar, viljað taka þátt í víðtæku eða nánu ríkja- og viðskiptabandalagi yfirleitt. Svo virðist sem alls kyns gremjuvaldar meðal almennings á Englandi, óvissa um framtíðarþróun, kjarastöðnun, bágt atvinnuástand og innflytjendur í áberandi störfum hafi allt verið túlkað beint á ábyrgð ESB í hugum fólks. Þessi afstaða virðist miklu ráða meðal Englendinga, en þá verða ástæður í sjálfum sér ekki raktar einvörðungu til ESB. Sem lýðræðisleg ákvörðun er útganga Englendinga úr ESB eðlileg og sjálfsögð af þessum ástæðum einum.  

Talsmenn Brexit-sinna reyndust mjög sleipir og einbeittir í málflutningi sínum. Þeir léku ýmsa djarfa og áhættusama leiki, en komust upp með það allt. Meðal annars slógu þeir með áhrifamiklum hætti á strengi ættjarðarástar og þjóðerniskenndar. Sjálfstæðisvitund, þjóðarmetnaður, stolt og sjálfsvitund Englendinga fengu að njóta sín, allan tímann frá baráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og til loka brottgöngusamninga við ESB. Og árangurinn kórónaði verkið. Leikni og sniðugheit helstu talsmanna Brexit verða lengi í minnum höfð. 

Fulltrúar Englendinga og ESB deildu í Brexit-viðræðunum um fiskveiðiheimildir meginlandsþjóða í breskri landhelgi. Jafnvel þótt fiskveiðar vegi ekki þungt í enskum þjóðarhag var ævinlega mjög mikil óánægja yfir þeim fiskveiðisamningum sem bresk stjórnvöld höfðu gert við inngönguna í ESB, og á ekki að þurfa að skýra það fyrir Íslendingum. En slíkir samningar snerta hugmyndir um útgöngu ekki beint og gætu komið til endurskoðunar án útgöngu. Útgöngusamningurinn gerir ráð fyrir að aflamagn meginlandsþjóðanna í breski landhelgi skerðist um fjórðung á fimm og hálfu ári, en þá verði samið aftur. Forystumönnum í enskum sjávarútvegi þykir þetta lítilmótleg niðurstaða. 

Í annan stað snerust deilurnar mjög um viðskipta- og samkeppnisreglur á innra markaði ESB, en þar er óhjákvæmilegt að sameiginlegt stjórnvald móti reglurnar í einu fyrir alla í senn. Englendingar beindu spjótum að þessu regluverki, einmitt vegna þess að það er sameiginlegt og undir sameiginlegri stjórn. Heróp Englendinga var: „Tökum völdin aftur heim". Eðli málsins samkvæmt sjá menn að aðeins útganga úr ESB mætir slíkri kröfu. 

Að lyktum náðist samkomulag 24. desember 2020 um opið tollalaust markaðsaðgengi, að vísu með kröfum um skýrslugerð, tryggingar, starfsréttindi og starfsleyfi, dvalar- og komuleyfi og ýmis skilríki. Vandinn varðandi framtíðarviðskipti aðilanna er sá að eigi Englendingar að hafa opið þröskuldalaust aðgengi að innra markaði ESB verður að gera ráð fyrir sama grundvelli og sams konar regluverki báðum megin, jafnri aðstöðu allra („level playing field"). Erfitt reyndist að finna þessu sameiginlegan samningsfarveg með nauðsynlegum skuldbindingum sem virði svigrúm og fullveldi beggja samningsaðilanna. 

Loks náðu menn saman um nægilegan grunn með samstarfsnefndum og sameiginlegum gerðardómi. En allt veltur á framkvæmdinni og vilja aðilanna til að ganga saman og gera málamiðlanir á líðandi stundum framundan. Þarna er nefnilega flest undir beinum samskiptum og samningum komið um framkvæmdarverkefni og einstök verkefni dag frá degi. Samningurinn gerir meðal annars ráð fyrir að skoðað verði hvort meira en 40% íhluta í vöru séu utanaðkomandi. Þarna verða ærin tilefni túlkana, sérfræðiþjónustu lögmanna og endurskoðenda og fleiri, undirskrifta og skjalamagns, tafa, skriffinnsku og ágreinings. Og óvíst er hvort og hvernig Englendingar una niðurstöðum sameiginlegs gerðardóms, eða telja hann í reyndinni nýtt yfirþjóðlegt dómsvald. 

Auglýsing
Innan ESB hefur fjöldi fjármálafyrirtækja beðið eftir því að Bretar gangi út. Bretar hafa nefnilega notið talsverðra forréttinda á fjármálamarkaði innan ESB og notfært sér þá aðstöðu út í æsar. En fjármálaþjónusta er eiginlega utan Brexit-samningsins enda þótt hún sé lang-mikilvægasti geirinn og atvinnuvegurinn sem málið snertir. Enn er eftir að vinna úr því hvernig Bretar mæta reglum ESB um fjármálaþjónustu, um svokallað jafngildi („equivalence"), til þess að fjármálamiðstöðin í Lundúnum og breskir fjölþjóðabankar geti notið sín til fulls áfram. Úrslit ráðast á löngum tíma í dreifðum átökum og ákvörðunum framundan. Um þetta er enn óvissa og mikið í húfi fyrir Englendinga. 

Fernu má bæta hér við umfjöllun um Brexit. Fylgismenn aðildar lágu í makindum og sváfu í þeirri sjálfsblekkingu að allt færi eftir vild þeirra og óskum. Þeir vöknuðu við vondan draum. Í annan stað vissu breskir kjósendur hvað var í húfi, létu ekki ljúga takmarkalaust að sér og voru reiðubúnir að taka á sig erfiðleika. Meirihluti þeirra vildi einfaldlega út þótt það kostaði þá eitthvað. Í þriðja stað er allt óljóst um áhrifin á Norður-Írlandi eða á ákvarðanir Skota sem eru mjög andvígir Brexit. Hins vegar er enginn vafi um það að enda þótt útgangan valdi röskun og einhverjum afturkipp verða Englendingar áreiðanlega fljótir að ná góðum styrk á nýjan leik. Til þess hafa þeir burði, ef þeim tekst að ráða við innri klofning og sundurþykki. 

Mörg aðildarríki harma útgöngu Breta, meðal annars vegna þess að Bretar hafa skipt miklu máli við að móta æskilegt valdajafnvægi í ESB. Og yfirleitt hafa Bretar lagst á sveif með frjálslyndum viðhorfum og markaðslausnum. Nánustu samstarfsþjóðir Breta, Írar, Hollendingar og Norðurlandamenn, harma mjög útgöngu þeirra.

En Brexit-reynsla Englendinga sýnir hve auðvelt er að gera fjarlæga utanaðkomandi stofnun að þægilegu skotmarki. Og merkilegt var að skothríðinni var yfirleitt aldrei svarað á Englandi. Sama hefur gerst í Grikklandi, Ítalíu, Póllandi, Ungverjalandi, og víðar. Hvarvetna verður fjarlægt yfirþjóðlegt ríkjasamband að auðveldu skotmarki sem kenna má um flest það sem veldur óánægju og óróa í heimalandinu. Svipað birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunum í Noregi á sínum tíma. Með þessu er ESB alls ekki hreinsað af ásökunum, en aðeins minnt á hve auðvelt skotmark það verður. Trúlega gætir þessa áfram í framtíðinni.

Í nútíma og framtíð verða samskipti ríkja og þjóða sívaxandi viðfangsefni áfram, með verslun, tækni, menningartengslum, afþreyingu, tísku, samskiptum, vöruflutningum, ferðamennsku, alþjóðlegum stórfyrirtækjum og auðhringum, og fjölþjóðlegri samþættingu verkefna og valds. Hvert þjóðríki verður að velja. Kostirnir eru að taka þátt, vera með, vera virkir, sækja fram, eflast á sameiginlegum velli annars vegar eða hins vegar að dragast til hliðar og dragast aftur úr, lokast af, einangrast, láta undan og hnigna.

Þessir eru líka almennir valkostir íslensku þjóðarinnar. En við höfum líka ýmsa valkosti um tilhögun og framkvæmd sem áður segir. Við getum enn sem komið er valið að vera áfram innan EES. Við getum valið að hverfa úr EES en sækjast eftir tvíhliða viðskipta- og samskiptasamningum. Og við getum valið að sækja um fulla aðild að ESB, með sérstökum aðildarsamningi. Aðildarsamningur verður meginviðfangsefnið, ef stefnt verður að fullri aðild Íslendinga að ESB í framtíðinni. 

X

Sem fyrr segir eru Íslendingar nú þegar aðilar að ESB með þátttöku í Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) frá 1. janúar 1994. Við erum annars flokks áhrifalaust fylgiríki ESB og í skjóli Noregs.

Utan við EES-samninginn:

 • aðild að stjórnarstofnunum ESB, undirbúningi og ákvörðunum,
 • gjaldmiðill og peningamál, 
 • sjávarútvegur og Íslandsmið, 
 • landbúnaður, en þó hefur tollvernd minnkað, 
 • orkumál, þ.e. ákvæði um sérstöðu hér.

Fyrir utan þessa fimm málaflokka er Ísland þátttakandi í Evrópuþróuninni, ekki ólíkt því sem við á um aðildarlönd ESB. En afdrifaríkur mismunur er í því fólginn að Íslendingar taka ekki gildan þátt í undirbúningi mála eða að gerð tillagna um sameiginleg málefni. Íslendingar eru háður og þiggjandi samstarfsaðili, fylgiríki. 


Ýmsir telja að full aðild að ESB verði röskun og útheimti flóknar breytingar hér heima. Vafalaust er mikið til í því. Og greinilegt er að slík breyting snertir sérstaklega þau svið sem aðildin að EES tekur ekki til, ekki síst sjávarútveg og landbúnað. Á meðal andmælenda gegn fullri aðild að ESB eru forvígismenn og aðilar að íslenskum sjávarútvegi og fiskiðnaði, landbúnaði og afurðavinnslu. Ýmsir forystumenn í öðrum atvinnugreinum og faggreinum líta eins á málin. Líklega breytist afstaða þessara aðila ekki, hvernig svo sem niðurstöður viðræðna um aðildarsamning kunna að verða. 

Forystumenn í íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði hafa skilgreint aðild að ESB fyrir fram sem óaðgengilega og stórhættulega, og eru því og verða á móti inngöngu. Þetta dregur ekki úr mikilvægi þess að við þessa aðila verði rætt og á þá hlustað og tekið tillit til ábendinga þeirra og athugasemda ef til þess kemur að rætt verði um hugsanlega fulla aðild Íslands að ESB. Sjónarmið þeirra eru mikilvæg og skerfur þessara atvinnugreina til íslensks þjóðarbúskapar svo mikilvægur að fram hjá þeim verður ekki gengið. Og áherslu verður að leggja á þessi atriði í vinnslu aðildarsamnings, eins og fram kemur á þessum blöðum.

XI

Í aðalsáttmála ESB eru greinilega nokkur vandamál frá sjónarmiði Íslendinga, ákvörðunarvald og reglur sem geta komið í veg fyrir fulla aðild Íslendinga að ESB. Þau eru einkum þessi:

 1. Verndun auðlinda hafsins á grundvelli sameiginlegrar fiskveiðistefnu (sérstakt óskipt yfirþjóðlegt valdsumboð) -
 2. Landbúnaður og fiskveiðar (blandað sameiginlegt valdsumboð) -
 3. Flutningamál (blandað sameiginlegt valdsumboð) -
 4. Orkumál (blandað sameiginlegt valdsumboð) -

Um þessi efni má segja stuttlega:

1. Íslendingar eru einhuga í því að aðeins íslensk fiskiskip hafi aðgang að Íslandsmiðum, auðlindalögsögu Íslands, nema þá Íslendingar hafi gert sérstakan samning um afmarkað tímabundið aðgengi annars aðila. Íslendingar eru líka einhuga í því að þeir einir setji reglur um Íslandsmið og alla hagnýtingu auðlinda á svæðinu. Íslendingar telja að þetta sérstaka forræði eigi að haldast, hvort sem verður við fulla aðild Íslands að ESB eða ekki, svo og vald til að móta og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Sama á við um aðrar auðlindir í og undir hafi. Aftur á móti kann það að vera skilgreiningaratriði hvort og hvernig Íslendingar kynnu að geta hugsað sér að taka þátt í sameiginlegum ákvörðunum um „verndun auðlinda". Sameiginleg fiskveiðistefna ESB (Die gemeinsame Fischereipolitik/common fisheries policy) er Íslendingum óviðkomandi og Íslandsmið eru utan umdæmis hennar. Reyndar eru fiskimið ESB dreifð og um nokkur tilgreind svæði að ræða: Miðjarðarhaf sem skiptist í hluta, vesturstrendur Evrópu sem skiptast í hluta, lögsaga Írlands, lögsaga Stóra-Bretlands sem gengur út í árslok 2020; þar á meðal svæði í Norðursjó og lögsaga Hjaltlands, Eystrasalt, Svartahaf, lögsaga fjarlægra eyjasamfélaga í ESB (Azoreyjar, Kanaríeyjar, Madeira, Guadadelupe, Réunion,...). Og reglur ESB gera ráð fyrir sérstakri yfirstjórn einstakra hafsvæða, svæðisráðum (Regionale Beiräte/regional advisory councils). Í frumvarpi að aðildarsamningi Norðmanna, sem ekki var samþykktur, eru ákvæði um sérstakt hafsvæði út af ströndum Noregs undir umsjón Norðmanna. Árið 2002 hélt Halldór Ásgrímsson þáv. utanríkisráðherra ræðu í Berlín og gerði grein fyrir þeim hugmyndum að Íslandsmið gætu orðið, ef af aðild Íslands yrði, sérstakt slíkt nýtingarsvæði með eigin svæðisráði undir stjórn Íslendinga, en samkvæmt veiðireynslu og nálægðarreglu yrði íslenskum fiskiskipum einum heimilt að stunda veiðar á svæðinu. Máli skiptir að ekki er um samliggjandi hafsvæði að ræða með öðrum hafsvæðum ESB og ekki heldur sameiginlega veiðistofna. En makríll og norsk-íslenska síldin eru á öðrum hafsvæðum. Minnt hefur verið á að engar aðrar þjóðir hafa veiðireynslu lengur á Íslandsmiðum og því ekki þörf fyrir samninga um sérstakar undanþágur, ef kæmi til inngöngu Íslands í ESB. Auk þess skipta hér máli reglur ESB um stöðug hlutföll (relative Stabilität/relative stability) sem beinlínis styðja íslenskt fiskveiðistjórnarkerfi og einkarétt íslenskra skipa samkvæmt veiðireynslu.

2. Um landbúnað og fiskveiðar gildir svipað sem um 1. lið. Íslenskur landbúnaður gæti að vísu unað við skilgreinda tilhögun sem svokallaður „heimskautalandbúnaður" samkvæmt heimildum ESB um það. Aðildarsamningar Finna og Svía eru lærdómsríkir í þessu efni, en Finnar fengu til dæmis rúmar heimildir til stuðnings við landbúnað til viðbótar við stuðningskerfi ESB. Auk þess verður að meta hreinleika og heilbrigði íslenskra búfjárstofna, en ESB hefur metnaðarfulla stefnu um dýraheilbrigði og fjölbreytni í lífríki (Artenvielfalt/biological diversity). Hafa ber í huga að stefna um fjölbreytni í lífríki hér er innantóm ef í henni eru ekki ákvæði um rekstrargrundvöll landbúnaðar samkvæmt henni. Ýmislegt í landbúnaðarstefnu og byggðastefnu ESB er álitlegt frá íslensku sjónarmiði, og vafalaust er mikill stuðningur við landbúnað í boði með fullri aðild. Það kom fram af hálfu fulltrúa ESB í þeim viðræðum sem fóru fram á sínum tíma um hugsanlega inngöngu Íslands að íslenskur landbúnaður væri svo umsvifalítill í evrópskum samanburði að það yrði aldrei vandamál að tryggja honum nægilegt svigrúm. En Íslendingar gera ráð fyrir að staða helstu greina landbúnaðarins verði tryggð og að innflutningur hnekki ekki íslenskri framleiðslu. Um tilhögun fiskveiða, í þessum tölulið, er að segja að Íslendingar hljóta að ætlast til þess að reglur Íslands um sjávarútveg, fiskveiðistjórnarkerfið ásamt strandveiðum og byggðakvóta, verði samþykktar og tryggðar varanlega í aðildarsamningi, ásamt yfirumsjón og stjórnun Íslendinga í þessum málefnaflokki hér og samkvæmt því sem ofar segir. Þetta á þá jafnframt við um framtíðarþróun og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

3. Það leiðir af aðstæðum á Íslandi og legu landsins að hugsanlegur aðildarsamningur hlýtur að kveða á um siglingar og flugsamgöngur og um skilgreindan forgangsrétt Íslendinga til yfirráða og forystu fyrir fyrirtækjum á þessum sviðum hér. Jafnframt hlýtur aðildarsamningur að kveða á um tryggingu fyrir lágmarksvöruflutningum til landsins í viðlögum. Í aðildarsamningi verður að taka tillit til þess hve opið íslenska hagkerfið er og hve háð þjóðin er margháttuðum innflutningi hvers kyns lífsgæða.

4. Íslendingar hljóta að gera ráð fyrir því að aðildarsamningur kveði á um yfirráð og yfirstjórn Íslendinga sjálfra yfir orkumálum, orkulindum, orkuvinnslu, nýtingu, dreifingu og sölu orku að öllu leyti á landi hér, enda um auðlindanýtingu að ræða sem er hluti mikilvægustu grundvallarnauðsynja og landið fjarri öðrum löndum. Íslendingar hljóta að ráða því sjálfir og einir hvort eða hvernig þeir haga samstarfi við aðra á þessu sviði.

Þetta lauslega yfirlit sýnir hve gerð aðildarsamnings verður mikilvæg, ef til viðræðna um fulla aðild Íslands að ESB kemur. Og af þessu má einnig meta að ekki er unnt að fullyrða fyrir fram um niðurstöður þeirra viðræðna.

XII

Flokksþing Framsóknarmanna 2009 fjallaði rækilega um Evrópumál, aðildarumsókn og einstök efnisatriði málsins. Ný forysta flokksins hvarf síðar frá þessari samþykkt, og yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna hefur á síðustu árum verið andvígur hugmyndum um aðild Íslands að ESB. Flokksþingið 2009 samþykkti stuðning við aðildarumsókn við þær aðstæður sem þá ríktu, en tók þessi skilyrði og skilmála fram sem fjalla þurfi um í aðildarsamningi:

 • Ótvíræður einhliða úrsagnarréttur.
 • Fiskveiðilögsaga og fiskveiðistjórnun verði samkvæmt þeim sjónarmiðum Íslendinga sem framar eru nefnd, að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga.
 • Vísað er til reglna ESB um stöðug hlutföll og nálægðarreglu.
 • Minnt er á Lúxemborgarsamkomulagið (Luxemburger Kompromiss/Luxembourg accords) frá 1966, en samkvæmt því getur aðildarríki vísað til þess að í máli sé um grundvallarhagsmuni eða lífshagsmuni þess að ræða og þá skuli áfram leitað málamiðlunar sem þetta aðildarríki getur fallist á.
 • Samningar um úthafsveiðar og flökkustofna, en Ísland verði sjálfstæður aðili að þeim.
 • Fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar verði tryggt.
 • Viðurkennd verði sérstök ákvæði um sérstöðu Íslands vegna fámennis.
 • Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
 • Rekstrarskilyrði með íslenska búfjárstofna verði tryggð.
 • Hreinleiki íslenskra búfjárstofna verði varinn.
 • Vegna aðstæðna og fámennis hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um organg þeirra sem hafa íslenskt lögheimili og stöðuga búsetu hér til þess að eiga ráðandi hlut í jarðeign, lóð, fasteign eða fyrirtæki hérlendis. Að hluta styðst þetta m.a. við svonefnt Danmerkurákvæði í ESB, við Álandsbókun með aðildarsamningi Finna, við ákvæði um fjarlæg eyjasamfélög, Azoreyjar og víðar (349.gr. aðalsáttmála), og við bókun með aðildarsamningi Maltverja. - Til er lögfræðiálit sem segir að Íslendingar geti sett um þetta lög á eigin spýtur en ákvæði um takmörkun réttar til eigna eða eignasöfnunar verði þá að gilda jafnt um alla, þ.e. um íslenska aðila sem aðra, svo sem eðlilegt má telja (Innanríkisráðuneytið dags. 30.5.2014). 
 • Í byrjun verði gerður stöðugleikasamningur um gjaldmiðil og gengi við Evrópska seðlabankann.
 • Tekið verði tillit til sérstöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peningamála og gjaldeyrismála.
 • Varðstaða um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu, og þjóðhætti.
 • Íslensk tunga verði meðal opinberra tungumála ESB.

Hér er ekki fitjað upp á neinum óþekktum nýmælum, og hér er þess ekki krafist að ESB undirgangist einhverjar breytingar sjálft til þess eins að teygja sig til Íslands. Öll þessi atriði eiga sér beina og óbeina stoð og fordæmi í gildandi regluverki ESB, í aðildarsamningum þjóðríkja og sérstökum bókunum sem þeim fylgja. Þessi skilyrði eru einnig í ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um aðildarumsókn að ESB 17. júlí 2009, nema skilyrðið um forræði yfir jörðum, lóðum, fasteignum og fyrirtækjum. 

Öll þessi áhersluatriði eru í fullu gildi enn. Án þeirra, og jafnvel fleiri slíkra, verður full aðild Íslands að ESB varla samþykkt á landi hér.

XIII

Áður en til hugsanlegrar inngöngu Íslands í ESB kæmi verða að vera fyrir hendi lög á Íslandi, aðrar stjórnskipulega gildar reglur eða ákvæði í stjórnarskrá:

 • Ákvæði um skilgreiningar, tilhögun og skorður varðandi framsal stjórnvaldsþátta til fjölþjóðastofnana og -samtaka, og sé framsal skýrt, skilgreint, afmarkað og einhliða afturkallanlegt og hnekki ekki almennu forræði og stöðu íslenskra laga á landi hér eða almennu valdi Alþingis, íslenskrar stjórnsýslu og íslenskra dómstóla. Slíkt framsal hefur lengi tíðkast í reynd af hálfu Íslands, meira og minna í öllu samningsbundnu varanlegu fjölþjóðasamstarfi Íslendinga, en ákvæði um takmörk, afmörkun og afturköllun hefur alveg vantað. Verður þetta að teljast alvarleg vanræksla og vá. Meginefni þessara ákvæða verður þá skilgreiningar, afmarkanir, takmörk og síðan um tilhögun afturköllunar. 
 • Ákvæði um ótvírætt eignarhald og forræði íslensku þjóðarinnar yfir auðlindum á Íslandi og á Íslandsmiðum, í auðlindalögsögu Íslands, og um fiskveiðistjórnarkerfi og veiðiheimildir, samkvæmt því sem segir hér framar. Mikilvægt er að þetta allt liggi skýrt fyrir, meðal annars staða íslenska ríkisins og íslenskrar stjórnsýslu og vald ríkisins á þessu sviði, áður en Íslendingar undirgangast almenn sameiginleg skilyrði með öðrum þjóðríkjum.
 • Ákvæði um eignarhald og yfirráð yfir jörðum, lóðum, fasteignum og fyrirtækjum hérlendis, samkvæmt því sem segir hér framar. Annars vegar er hér um að ræða ákvæði um heimildir til reglusetningar eftir þörf og atvikum síðar eða hins vegar reglur um tilhögun og framfylgju sem taki þegar gildi. Eðlilegt er að ákvæði gildi jafnt um íslenska sem erlenda auðmenn því að ráðandi tilhneigingar auðmanna eru hvarvetna samar. 
 • Ákvæði um ýmsa þætti gjaldmiðilsmála og gjaldeyrismála, aðlögun, undirbúning ákvarðana um gjaldmiðlaskipti við upptöku evru. Ákvarðanir um lokagengi íslenskrar krónu eru ákaflega mikilvægar og móta samkeppnisstöðu og lífskjaraþróun eftir inngöngu í evrusamstarfið í ESB. Meðal annars þarf að stofna íslenskan hagsveiflusjóð vegna þess að hagsveiflan á Íslandi fylgir ekki beint með framvindunni í Evrópu eða annars staðar.

Gjaldmiðilsþátturinn vegur þungt í stefnumótun um fulla aðild Íslands að ESB. Með aðild er einnig stefnt að því að bregðast við kenningunni sem kalla mætti eftir enskunni „ófæra þríleikinn" og kennd er við hagfræðingana Robert Mundell og Marcus Fleming, en samkvæmt henni getur þjóðríki ekki haft saman í senn stöðugt gengi, opið fjármálakerfi og eigin peningamálastefnu. Íslendingar hafa einmitt áratugalanga reynslu af þessu. En við evrusamstarf verða nýjar vinnumarkaðsleiðir fundnar til viðbragða við áföllum í atvinnulífi, aðrar en sú að grípa sífellt til skyndilegrar almennrar kjaraskerðingar í landinu með gengisfellingu krónunnar. Ekki er vafi á því að vitneskja um þessi tækifæri til misbeitingar krónunnar, gegn kaupmætti almennings, hefur áratugum saman mótað afstöðu margra stjórnmálamanna og forystumanna í atvinnulífi á landi hér. Og mál er að linni.

 • Ákvæði um stöðu íslenskrar tungu í stjórnkerfi, viðskiptum og atvinnulífi, mennta- ogmenningarstofnunum og á öðrum sviðum á Íslandi, svo og í utanríkissamskiptum.

XIV

Í umræðum í Stóra-Bretlandi og víðar hefur mikið verið rætt um svonefndan lýðræðishalla (Demokratiedefizit/democratic deficit) innan ESB. Lýðræðishallinn er sagður birtast í afskiptum og íhlutun embættismanna sem ekki hafa lýðræðislegt umboð. Greinilegt var lengi að Bretar, þá fyrst og fremst Englendingar, vildu ekki una því að embættismenn ESB gætu beitt valdi eða áhrifum sem studdust ekki beinlínis við sérstakt breskt, eða helst enskt, umboð út af fyrir sig, heldur byggðust á ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB. 

Ráð ESB eru öll beint skipuð fulltrúum þjóðríkjanna og þjóðþinganna. Allar aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar og embættismannanna eiga rætur í ákvörðunum leiðtogaráðs, ráðherraráðs og þings ESB. Og ákvæði aðalsamnings gera ráð fyrir víðtæku samráði og sérstökum ákvörðunum aðildarþjóða, á þjóðþingum, í ríkisstjórnum eða jafnvel í þjóðaratkvæði. Og hafa ber líka í huga að ráð ESB fjalla um mál með nánu samráði við þjóðþing aðildarríkjanna. Ráðin, þessar æðstu stofnanir ESB, eru beinlínis armar þjóðríkjanna.

Smáþjóðirnar hljóta beinlínis að leggja sérstaka áherslu á lýðræðishallann, vegna þess einfaldlega að valkostur gegn lýðræðishalla innan ESB er algert forræði fjölmennustu þjóðanna. Af hálfu Íslendinga, ef um fulla aðild ætti að verða að ræða, er óhjákvæmilegt að krefjast þess beinlínis að lýðræðishallinn verði varanlegur áfram, í einhverjum mæli. Það er ófært frá sjónarmiði Íslendinga að mál verði yfirleitt ákvörðuð með sameiginlegu meirihlutavaldi að vild fjölmennustu þjóðanna. Afl atkvæða kemur helst til álita á þingi ESB, og verður nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um þetta í aðildarsamningi ef af fullri aðild Íslands verður. Nauðsynlegt verður að hafa þetta hugfast þegar og ef unnið verður að hugsanlegum aðildarsamningi Íslands.

Auglýsing
Íslendingar hljóta að miða við núverandi aðstöðu smáþjóðar innan ESB, í Leiðtogaráðinu, Ráðherraráðinu, Framkvæmdastjórninni, Dómstólnum, Miðbankanum og í eftirlitsstofnunum ESB. Þátttaka íslenskra fulltrúa í Þingi ESB verður mikilvæg, en fyrst og fremst sem tengsla- og upplýsingavinna og aðstaða til að vara fulltrúa okkar í hinum stofnunum við í einstökum málum. 

Að sínu leyti er það hálfgerð þversögn, frá sjónarmiði smáþjóðanna, að aukin völd og áhrif lýræðislega kjörins sameiginlegs Þings skuli leiða til algerra yfirráða fjölmennustu þjóðríkjanna, en slikri öfugþróun hljóta smáþjóðirnar að andæfa. Hér er mikilvægt atriði sem Íslendingar hljóta að setja í aðildarsamning, með einhverju raunhæfu orðalagi ef af fullri aðild Íslendinga að ESB á að verða. Það tekur þá til sérstöðu og sérstakra hagsmuna og réttinda okkar. En þetta verður þá sjálfsagt flókið og vandasamt. 

Og þá má ekki gleyma eflingu utanríkisþjónustunnar og virku tengslastarfi, sérstaklega gagnvart stjórnvöldum annarra smáþjóða innan ESB. Flestar þeirra eru í fjarlægum hlutum Evrópu og hagsmunir þeirra rekast yfirleitt ekki á íslenska hagsmuni. Má ætla að góð gagnkvæm aðstoð og víðtæk samstaða geti orðið með Íslendingum, Azoreyingum, Madeirabúum, Kanaríeyingum, Kýpurmönnum, Maltverjum, og fulltrúum frá Krít, Sikiley, Sardiníu og Baleares-eyjum. Sambærilegt gæti átt við um Grikki, Ítali, Portúgala, Eystrasaltsþjóðir og Balkanþjóðir. Norrænt samstarf hlýtur einnig mikla eflingu á þessum vettvangi, en á þeim vettvangi þarf til hliðar að knýta góð bönd við Álendinga. Hér er líka góð aðstaða til að styrkja samskipti við Íra, og talsverðar líkur á aðstöðu til sams konar náinna samskipta og samhjálpar við Skota, Norður-Íra/Úlster, Orkneyinga og Hjaltlendinga. Enginn vafi leikur á því að það skiptir okkur miklu máli að ná góðum tengslum og málefnasamtarfi við þessa vini, nágranna og frændur okkar. En þá verður að vinna að þessu af alúð. 

Aftur á móti verður að vara við því að menn álíti ESB einhverja allsherjar-tryggingu fyrir góðum lífskjörum, lýðræði, menningu og réttlæti, eða gegn hagsveiflum og efnahagsáföllum, eða gegn samfélagslegri hnignun og ómenningu, eða gegn spillingu, misrétti og valdabjögun. Eðli mannanna og atferli verða söm við sig eftir sem áður, og veldur hver á heldur. Stofnanir og samtök mannanna eru þeim mun þyngri, ójafnari og vandasamari sem þau verða stærri og umsvifameiri.

Og það er líka fráleitt að ímynda sér að á vettvangi ESB nái Íslendingar einhverri athyglisverðri áhrifa- eða valdastöðu, og alveg út í hött að þar verði einhver fjöldi eftirsóknarverðra atvinnutækifæra eða framleiða fyrir Íslendinga. Þannig verða fulltrúar Íslands á þingi ESB varla fleiri en þrír eða fjórir, og önnur störf sem nefnd eru hér ofar og Íslendingar gætu sótt í varla fleiri en fimm eða sex. 

XV

Allir sjá að alþjóðamótunin heldur áfram. Fleiri og fleiri málefnasvið verða óhjákvæmilega háð sameiginlegum ákvörðunum bandalaga ríkja og þjóða. Tækniþróun og fjárfestingarþarfir ráða miklu um þetta allt. Samfélagsþróunin verður áfram í átt til samstarfs, samlögunar, verkaskiptingar og samþættingar.

Allt þetta er auðvelt fyrir alþjóðasinna. Sama verður sagt um flesta frjálshyggjumenn, markaðshyggjumenn, jafnaðarmenn og sameignarsinna að þeir eiga greiða leið í þessa átt. En þetta er vandasamt frá sjónarhóli þjóðræknismanna, þjóðernissinna og hófsamra þjóðhyggjumanna. Öll fjölþjóðamótun, verkaskipting þjóða og samþætting er viðurhlutamikið áhyggjuefni og úrlausnarefni af sjónarhóli þjóðræknis- og þjóðhyggjuafla. En reynsla og raunsæi eru árangursmiklir lærimeistarar. Engir starfa í tómarúmi eða einir sér. Gjörhygli, gagnrýnin hugsun og ábyrgð verða að ráða viðbrögðum og stefnumótun. Valkostirnir eru þátttaka, aðild og sókn til sigra annars vegar eða hins vegar að þokast til hliðar, dragast aftur úr og láta undan, hopa og tapa. 

Þjóðhyggjuöflin leitast við að sveigja fjölþjóðaþróunina inn á æskilegar stefnubrautir. Það hefur alls ekki verið árangurslaust. Af þessum sökum eru þjóðernissinnar og þjóðhyggjumenn víða í Evrópu einlægir stuðningsmenn fullrar og fullvalda aðildar að ESB. Þeir sjá gjörla að kostirnir eru þeir að lokunarstefna er undanhald til ósigurs, en opnunarstefna er sókn til sigra. 

Þjóðhyggja, frjálshuga og hófsöm þjóðernishyggja, hefur sterka skírskotun og mikilvægi á nýrri öld. Öldin einkennist af fjölþjóðlegu samstarfi, yfirgripsmikilli tækniþróun, samgöngum, viðskiptum, sameiginlegri menningarsókn, listastraumum og tískustraumum þjóða á milli, og vaxandi verkaskiptingu samfélaganna. Þetta allt stuðlar að friði og sátt, en í virkri samkeppni og samvinnu. Og þessu fylgja líka óæskilegar breytingar, en gegn þeim þarf að vinna eins og framar er nefnt. 

Þjóðirnar, svæðisbundin samfélögin, stýrast og dafna af sameiginlegum vilja fólksins, samborgaranna eða samþegnanna, hvort orðið sem við viljum heldur nota. Og þær mynda glæsilegt blómabeð, lífræna fjölbreytni þar sem hvert blómið getur stutt annað og saman mynda þau óviðjafnanlegt litgeislaskrúð. Hvað svo sem gerðist í fortíðinni, eru þjóðirnar ekki sundrung eða hatursefni, heldur þvert á móti strengir saman á þessari yndislegu slaghörpu sem er mannkynið. Það er sameiginleg hugsjón allra að lífskrúðið dafni, að hljómkviðan ómi, litir og hljómar saman. Íslendingar, svo fáir sem við erum, eru hluti þessarar heildar. 

Best fer á því að ákvarðanir séu sem mest í huga og höndum þessara samfélaga. Best hentar að ákvarðanir séu sem mest og sem flestar dreifðar eftir misfjölmennum og innbyrðis ólíkum mannfélögum, þjóðunum. Og það hefur sannast í óteljandi dæmum að slíkar ákvarðanir einar hafa eðlilegt og nauðsynlegt lögmæti í hugum almennings. Gæta þarf vandlega að þessu í mótun og þróun fjölþjóðlegra samtaka og samskipta. En það veikir þjóðina ef hún reynir að hverfa bak við hurð, loka sig af og flýja ögranir. Það eflir og styrkir þjóðina að opnast, vinna með öðrum og fagna nýliðum, sækja út, mæta áskorunum og taka á með öðrum.

Bræðralag allra manna er enn sem fyrr ljómandi hugsjón: „Alle Menschen werden Brüder¨.

En hér eru hættur á leiðum. Hér þarf að vanda hvert handtak, ígrunda hvert spor. Ef til hugsanlegrar fullrar aðildar Íslands að ESB kemur, verður að leggja þyngstu áherslu á vandaðan undirbúning aðildarsamnings, svo sem framar er rakið. Aðild að ESB er ekki sjálfstætt markmið heldur valkostur sem leiðir af stefnumiðum, óskum, hagsmunum, kröfum og metnaði Íslendinga. Vitaskuld verða Íslendingar líka að vera við því búnir að þeir fái ekki öllum kröfum sínum framgengt í aðildarviðræðum. Íslensk stjórnvöld verða að búa sig undir slíkt og hafa önnur úrræði og aðrar leiðir þá opnar sem valkosti.

Auglýsing
<-- Skyn cleanup -->
Í mikilvægum samskipta- og viðskiptamálum verða Íslendingar jafnan að leggja áherslu á tillitssemi innbyrðis og á eins víðtæka þjóðlega samstöðu og frekast verður unnt. Þetta á greinilega við um hugmyndir um aðild að ESB. Það sem framar greinir og meðal annars þau skilyrði og skilmálar sem þurfa að verða í aðildarsamningi sýna að full aðild Íslands að ESB getur stuðlað að óskum, réttindum, hagsmunum og kröfum Íslendinga. Full aðild getur styrkt samfélag okkar, þjóðtungu og þjóðmenningu, atvinnulíf og hagkerfi, lífskjör og farsæld, fullveldi og sjálfstæði.

Könnun reglna, hagsmuna og allra aðstæðna leiðir í ljós að aðeins full aðild að ESB fullnægir og tryggir stöðu sjálfstæðs og fullvalda þjóðríkis, að því gefnu að nauðsynleg ákvæði verði í aðildarsamningi og nægileg þjóðleg samstaða sé fyrir hendi í landinu. Því ber að stefna að því að Ísland verði aðildarríki ESB að fullu, með tilgreindum skilyrðum og skilmálum í aðildarsamningi. Innan ESB geta Íslendingar eflt og þroskað þjóðlíf sitt, með eigin miðju og miðstöð í ættlandi sínu. Gott verður betra.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri og formaður Framsóknarflokksins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar