Hvenær er mælirinn fullur?

Einar Helgason skrifar um kvótakerfið.

Auglýsing

Hvernig fyndist þér, lesandi góður, ef þú fengir heimsókn á hverri nóttu af innbrotsþjófi sem hirti hjá þér einhver verðmæti sem þú þyrftir svo að kaupa daginn eftir. Stundum myndi sjónvarpið hverfa og þú myndir kaupa nýtt daginn eftir. Síðan hyrfi fartölva og hana myndir þú kaupa nýja og síðan á hverri nóttu myndi þetta endurtaka sig án þess að þú gerðir eitthvað til þess að stöðva þetta.

Og ef þú værir spurður hvers vegna í fjandanum þú létir þetta viðgangast þá einfaldlega myndir þú svara: „Ja, í fyrsta lagi hef ég nú alveg efni á því að það sé stolið frá mér á hverri nóttu. Síðan finnst mér að ég leggi mitt af mörkum með að skapa góðan hagvöxt sem kemur þjóðfélaginu til góða. Sko innbrotsþjófurinn er með bíl og bílstjóra sem hann borgar laun og af öllum rekstri af bílnum eru borgaðir skattar sem er gott fyrir samfélagið“.

Ef það væri eitthvert sannleikskorn í þessari frásögn hérna á undan, þá efast ég ekki eitt augnablik um að þér yrði ráðlagt að leita þér aðstoðar hjá geðlækni á stundinni. En því miður er meira en bara sannleikskorn í þessari fantasíu því hún er staðreynd. Hún á við alla þá sem storma inn í kjörklefa á fjögurra ára fresti og krossa við þá flokka sem halda hlífiskildi yfir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi. 

Í Morgunblaðinu sem borið var frítt út á höfuðborgarsvæðinu þann 23. október síðastliðinn var frétt sem vakti athygli mína. Reyndar er það furðulegt að hún hafi birst í þessum miðli sem engum dylst að er hreinræktað áróðursrit fyrir útgerðina. En þar var sagt frá könnun sem Verðlagsstofa skiptaverðs gerði á verði á síld sem landað er í Noregi og á Íslandi.

Í fyrsta lagi er borið saman það verð sem fæst fyrir síld sem landað er upp úr skipi til vinnslu og síðan það verð sem fæst fyrir hana þegar hún er seld fullunnin á markað erlendis. Þessi könnun spannaði yfir nokkurra ára tímabili eða frá 2012 til 2019. Í stuttu máli þá er niðurstaða þessarar könnunar á þann veg að það fyrsta sem mér datt í hug að þarna væri enn ein sönnun þess að eigendur sjávarauðlinda á Íslandi eru beinlínis rændir. Ekki bara einu sinni, heldur aftur og aftur ár eftir ár. Og niðurstaðan sem kom út úr þessu hjá verðlagsstofu var einfaldlega á þann veg að verð sem greitt er fyrir síldarafla upp úr skipi á Íslandi er að meðaltali 128% lægra heldur en í Noregi. En svo er það svo merkilegt að verðið sem fæst fyrir síldina þegar hún er fullunnin og flutt á markað erlendis er nánast það sama og jafnvel í sumum tilfellum hærra á Íslandi en í Noregi. 

Hvernig í fjandanum getur staðið á þessu misræmi á verði með sömu vöru í þessum tveimur löndum? Ég efast ekki eitt augnablik um að ef útgerðarmenn eða málpípur þeirra væru spurðir út í þetta misræmi þá stæði ekki á svörum frá þeim. Þeir myndu koma með allskonar útskýringar bæði fáránlegar og kannski einhverjar sem gætu útskýrt einhvern eðlilegan mun upp á eitt til tvö prósent. En mun upp á 128% að meðaltali á verði upp úr skipi segir bara einfaldlega eina sögu. Útgerðarmenn á Íslandi eiga fiskvinnslunnar sem kaupa aflann af skipunum sem þeir eiga líka og þess vegna geta þeir ráðið því hvaða verð þeir borga fyrir hann. Með því komast þeir hjá því að borga sjómönnunum eðlilegan skiptahlut og geta lágmarkað  þau gjöld sem borguð eru af verðmæti afla. Eða með öðrum orðum, þeir ganga eins langt og þeir mögulega geta við að hámarka eigin hagnað á kostnað alls almennings á Íslandi sem á auðlindina og ætti samkvæmt öllum lögmálum að fá hámarksverð fyrir hana.

Og þú, það er að segja ef þú krossar við þau stjórnmálaöfl sem leifa þessu að viðgangast, þá ert þú að kjósa að það sé stolið af þér og þér finnst það bara allt í lagi. Og þetta síldardæmi er ekkert einsdæmi því það er vitað að stærstu útgerðarfyrirtæki á Íslandi leika sér að því að stofna fyrirtæki erlendis til þess eingöngu að kaupa aflann úr eigin skipum á því verði sem þeim þóknast. Það er furðulegur andskoti að landsmenn og ég tala nú ekki um  sjómenn þessa lands láti bjóða sér þetta ár eftir ár.

Svo var það á haustdögum eða í byrjun vetrar að á síðum Morgunblaðsins birtist grein eftir Gunnar nokkurn Birgisson. Þið vitið, þennan sem hélt því alltaf fram að það væri gott að búa í Kópavogi. Þið vitið líka að þessi maður er einn af æðstu postulum þessa flokks sem er hvað harðastur í því að halda hlífiskildi yfir þjófnaðinum sem á sér stað í sjávarútveginum. Í þessari grein viðurkennir þessir aldni postuli flokksins að á hann séu runnar tvær grímur. Og hann tekur það líka fram að það sé sárt að deila á sinn gamla flokk. En hann geti ekki annað vegna þess að hann sé búin að finna út augljósan galla á kvótakerfinu sem hann hafi þó ætíð stutt. Hann var sem sagt búin að koma auga á þá svívirðu að stórútgerðirnar á Íslandi fengju úthlutað kvóta sem þeir greiddu fyrir eitthvað í kring um tíu krónur kílóið. Síðan gætu þeir endurselt þennan kvóta að stórum hluta fyrir tvö hundruð krónur kílóið ekki bara í eitt skipti heldur aftur og aftur á hverju ári. Þetta væri alveg sama dæmi að ég fengi úthlutað íbúð frá ríkinu á hverju ári sem ég þyrfti að borga tíu þúsund fyrir á mánuði, en gæti svo leigt einhverjum fyrir tvö hundruð þúsund á mánuði. 

Auglýsing
Nú veit ég ekki hvort Gunnar I. Birgisson er fyrst núna að átta sig á þessari svívirðu sem viðgengst í kvótakerfinu íslenska eða hvort þetta er eini gallinn sem hann sér á þessu kerfi. Ef það er þannig þá hefur hann ekki hugmynd um íslenska þjóðarsál og þau sárindi sem kvótakerfið er búið að valda ár eftir ár. Ég get meira að segja sagt honum pínulitla sögu frá sjálfum mér sem dæmi um þetta hróplega óréttlæti.

Fyrir næstum þrjátíu árum síðan var ég skipverji tvö hundruð tonna bát sem var gerður út frá litlum bæ fyrir norðan. Þessi útgerð var vel rekið fjölskyldufyrirtæki og flestir um borð innan fjölskyldunnar. Þessi bátur sem lengst af hafði verið gerður út á línuveiðar var farin meir og meir að stunda rækjuveiðar þegar þarna var komið í sögu. En vegna fyrri veiðireynslu á línunni var honum úthlutað árlega sínum skammti af þorskkvóta. Svo var það einn góðan veðurdag að við félagarnir vorum að hreinsa rækju hlið við hlið við aðgerðaborðið að vélstjórinn sem stóð við hliðina á mér sagði okkur aldeilis tíðindin. Hann var einn af eigendum útgerðarinnar og var einn af þeim mönnum sem hafði gaman að segja frá. En fréttirnar voru þær að hann var nýbúin að panta far fyrir alla fjölskylduna til Spánar þar sem þau ætluðu að dvelja í þrjár vikur. Auðvitað fögnuðum við með okkar manni og einn af okkur skaut því að honum að hann skyti nú ekki aldeilis með því skraufþurru að geta þetta. Og vélstjórinn sem var yfir sig ánægður með alla athyglina sagði okkur það líka að hann gæti ekkert betur gert við ávísunina sem borist hafði heim til hans fyrir einhverjum dögum. Auðvitað vildum við vita um þessa ávísun sem hann hafði fengið í hendurnar. Nú hann var ekkert að liggja á því og sagði okkur að þorskkvótinn sem útgerðinni hafði verið úthlutað þetta árið hefði verið framseldur austur á firði og ávísunin væri einfaldlega hans hlutur.

Við þessar fréttir sló nokkra þögn á mannskapinn þar til ég laumaði því út úr mér að ég væri ekki enn búin að fá mína ávísun senda. Hann hrökk dálítið við og horfði forviða á mig um leið og hann spurði hvort ég ætti von á því eða hvort ég væri með einhverja útgerð. Auðvitað viðurkenndi ég að vera ekki með útgerð en ég ætti fiskinn í sjónum eins og hann og þess vegna hlyti ég að fá mína ávísun eins og hann. Og nú var okkar maður og tilvonandi spánarfari aldeilis kjaftstopp. Hann horfði opinmynntur á mig og virtist jafnvel vera búin að tapa þeim eiginleika að tala sem var aldeilis ekki líkt honum. En svo að einhverjum tíma liðnum fékk hann málið á nýjan leik og þá fékk ég það óþvegið því að í hans augum var það hróplegt óréttlæti að einhver dirfðist að gagnrýna þetta. Og til þess að gera langa sögu stutta þá endaði þetta sem hafði byrjað sem góðlátlegt rabb upp í dálítinn hasar því auðvitað stóð ég fastur á minni meiningu og hann á sinni.

Ég hóf þessi skrif mín á því að halda því fram að þeir sem krossuðu við þá flokka sem stæðu vörð um íslenska kvótakerfið láta stela af sér verðmætum í stórum stíl. Þetta eru kannski stór orð, en ég get ekki orðað þetta öðruvísi þegar þetta blasir við og ekki gerð minnsta tilraun til þess að fela það. En því miður virðist svo vera að þeir stjórnmálaflokkar sem góla í stjórnarandstöðu um breytingar á þessu kerfi sé ekki treystandi fyrir til þess að standa við þau orð. Það hefur aldrei sýnt sig eins berlega eins og núna þegar þetta núverandi stjórnarsamstarf er að renna sitt skeið á enda. Að flokkur sem gerði út á að vera sem lengst frá græðgisöflunum sem standa vörð um þetta óréttlæti skuli hoppa upp í bælið hjá þeim og hreiðra þar um sig er eins og að leggja blessun sína yfir svívirðuna.

Hafið þið lesendur góðir nokkuð velt því fyrir ykkur hvort ein dýrmætasta auðlind sem íslenska þjóðin á sé endanlega runnin okkur úr greipum. Þið hljótið að vita það að þessar örfáu fjölskyldur sem eru handhafar þessarar auðlindar geta veðsett þær eins og þeim sýnist, arfleitt börnin sín af þeim eins og nýleg dæmi sanna. Þeir geta jafnvel borgað kerlingunum sem þeir skilja við svimandi upphæðir af þessari auðlind sem er í eigu okkar án þess að nokkur geri athugasemdir við það. Sárast er þó að vita að hver einasti stjórnmálaflokkur sem þykist ætla að breyta þessu er ekki treystandi fyrir fimmaura. Þeir virðast allir vera tilbúnir að hoppa undir sængina hjá Sjálfstæðisflokknum eins og vændiskona og tryggja það kyrfilega að engu verður breytt. Hvenær í ósköpunum kemur einhver íslenskur stjórnmálaflokkur fram á sjónarsviðið fyrir kosningar sem segist ætla að breyta þessu og gefur það út í leiðinni að hann ætli ekki í stjórnarsamstarf með þeim öflum sem standa vörð um þessa svívirðu. Ég er það lengi búin að fylgjast með íslenskum stjórnmálum að ég veit hundrað prósent að sá stjórnmálaflokkur sem fer í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki, hann breytir engu jafnvel þótt hann hafi vilja til. Eftir situr spurningin. Hvers vegna í ósköpunum lætur íslensk þjóð þetta yfir sig ganga? Eða eins og ég sagði í upphafi þessa pistils. Er einhver nautn fólgin í því að láta stela af sér og fullnægingin er þá kannski sú að dýrmætasta auðlind þjóðarinnar er hirt varanlega af okkur fyrir fullt og fast. Í mínu tilfelli er mælirinn fullur og mér er það fullkomlega óskiljanlegt að einhver vilji láta þetta viðgangast. Ekki nema ef viðkomandi hefur svona mikla nautn í því að láta stela af sér þá hlítur hann auðvitað að halda því áfram. 

Höfundur er fyrrverandi sendbílstjóri.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar