Oft hafa auðmenn mörg andlit. Einn slíkur er aðaleigandi Fréttablaðsins. Hann á líka Markaðinn, Helgarblað DV, Dv. is, Pressuna, Eyjuna og sjónvarpsstöðina Hringbraut og ekki er allt upp talið. Hann, aðaleigandinn, velur starfsfólk á miðla sína. Að minnsta kosti yfirmenn. Þeir eru fulltrúar hans.
Aðaleigandinn valdi Jón Guðmann Þórisson sem ritstjóra Fréttablaðsins og gerði hann að meðeiganda að 5%. Ritstjórinn skrifar leiðara einu sinni í viku eða svo. Þar kemur hann skoðunum sínum á mönnum og málefnum á framfæri. Þær, skoðanirnar, eru íhaldssamar, sumar svartasta íhald, svo notað sé tungutak nýliðinnar aldar um hugmyndir sem margur taldi vera skaðlegar farsælu samfélagi manna.
Í dag, 9.janúar 2021, skrifar meðeigandinn leiðara sem hann nefnir Landráð og fjallar að mestu um Trump og nýliðna atburði vestan hafs; ekki tiltakanlega ósanngjörn skrif þangað til skiptir um. Hvers vegna hann gerir það, meðeigandinn, verður ekki sagt hér. En þetta fylgdi og voru lok leiðarans:
"En atburðirnir í þinghúsi Washingtonborgar í vikunni eru ekki einsdæmi og ekki þarf að líta langt til að finna eins konar hliðstæðu. Veturinn 2008 var ófriðlegt á Austurvelli. Daglega safnaðist þar saman fólk sem fann reiði sinni útrás með því að berja í búsáhöld og gera hróp að þinghúsinu og þeim sem þar voru inni. Þetta var viðkvæm staða og menn óttuðust stigmögnun. Ekki síst að ráðist yrði inn í þinghúsið.
Og að því kom þegar hópur fólks ruddi sér braut þangað inn. Framganga þingmanns var til umfjöllunar í fjölmiðlum á þessum tíma og gagnrýndi formaður Landssambands lögreglumanna hann fyrir framgöngu hans við mótmælin. Í stað þess að fylgja tilmælum um að halda sig frá gluggum hússins hafi þingmaðurinn staðið úti við glugga og hvatt mótmælendur til dáða. Síðar varð þessi þingmaður ráðherra.
Þeir leynast víða landráðamennirnir."
Nú vill svo til að um þetta mál hafa verið skrifaðar margar greinar, tekin og birt mörg viðtöl og löngu þekkt sú staðreynd að þingmaðurinn var ekki að hvetja mótmælendur til dáða. Því var haldið á loft til að ófrægja hann og flokk hans. Þetta er og hefur verið á almannavitorði lengi þótt ein og ein rægitunga hleypi sögunni fram af og til gegn betri vitund eða af vanþekkingu ellegar í upphafinni sjálfsfróun líkt og Guðmann meðeigandi gerir í leiðara sínum í dag.
Leiðaraskrifin er enn eitt andlit aðaleigandans; frekar þó sameiginleg ásýnd hans og meðeigandans, snoppa fávísi, smekkleysis og heiftar.