Heimsbyggðin hefur nánast öll staðið á öndinni frá 6. janúar yfir því að ofbeldisfullir hægri-öfgamenn réðust inn í þinghús Bandaríkjanna á Capitol Hill í þann mund þegar þingið var að staðfesta kjör Joe Biden sem næsta forseta Bandaríkjanna. Árásin var gerð að áeggjan og með einbeittri hvatningu lýðræðislega kjörins forseta. Nokkuð sem flestum okkar hefði ekki dottið í hug fyrir skemmstu að gæti gerst í lýðræðisríki á borð við Bandaríkin. Þessi hegðun var þó ekki ný af nálinni hjá Trump. Hann hefur áður hafnað niðurstöðum kosninga og áður hvatt stuðningsmenn sína til ofbeldis sem byggir á kynþáttafordómum og hatursglæpum. Með orðum sínum og hegðun, hefur hann gefið hægri-öfgahópum, nýnasistum og þjóðernisöfgasinnum lögmæti undanfarin 4 ár. Lögmæti til að skríða út úr skuggunum í ljósið þar sem þeir hafa staðið beinir í baki án þess að skammast sín og spúð hatri í allar áttir með stuðningi forseta sem hefur stundað pópulisma af verstu sort, afbakað sannleikann, reynt að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna og eftir að hafa hvatt fólk til að ráðast á bandaríska þinghúsið, hrósaði hann óeirðaseggjunum að árásinni lokinni. Trump hefur reynt að grafa undan tiltrú bandarísk almennings á grundvallarstofnunum Bandaríkjanna og valdatíð hans hefur verið ofsafenginn og ofbeldisfull, uppfull af kynþáttahyggju og karlrembu. Svona hegðun leiðtoga er þekkt úr einum dekksta kafla evrópskrar sögu. Enda skekur árásin á þinghúsið og tilraun til valdaráns að áeggjan Trumps bandarískt samfélag.
Ein ástæðan er að hluti þeirra sem stormuðu inn í þinghúsið á Capitol Hill báru merki og voru í bolum merktum stæku gyðingahatri og upphafningu á voðaverkum Nasista. Bolir hægri-öfgamannanna með áletruninni „6MWE“ sem merkir „6 milljón gyðinga voru ekki nóg“ og bolir merktir fangabúðunum í Auswichtz hafa vakið óhug og hrylling. Gyðingar og afkomendur þeirra sem lifðu af Helförina eru skelfingu lostnir að sjá þessi skilaboð þvinga sér inn á gólf bandaríska þinghússins.
Lýðskrumið er nær okkur, meira og hættulegra en áður
Þessi hætta á lýðskrumi og lögmæti á hatursglæpum og kynþáttahyggju er því miður ekki svo fjarri okkur. Í mörgum nágrannalöndum okkar í Evrópu hafa pópulískir öfga-hægri stjórnmálamenn fengið meiri stuðning undanfarin ár en nokkru sinni eftir seinni heimsstyrjöld. Glæpum sem byggja á gyðinga-andúð hefur fjölgað gríðarlega og samtökum sem ala á kynþáttahatri vaxið fiskur um hrygg. Í nýjustu ársskýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (ECRI nefndinni) kemur fram að glæpir byggðir á gyðinga-andúð, múslimahatri, kynþáttafordómum og kynþáttahatri, og aðrir glæpir gegn öðrum trúarhópum fjölgaði árið 2019 á ógnarhraða í 48 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Sérstaklega hafi mælst mikil aukning í glæpum byggðum á gyðingahatri á undanförnum árum. Og hatursorðræðu sem beinist að þessum hópum er oft hrundið af stað af nýnasistum og öðrum hópum öfgasinna.
Verðum að sporna við hættulegri þróun
Það er því bráðnauðsynlegt að sporna ákveðið við þessari skelfilegu þróun og varna því að hún nái fótfestu hér á landi. Ekki aðeins samræmist það lýðræðishefðum sem Ísland hefur tileinkað sér og undirgengist í bandalagi við aðrar þjóðir, heldur miðar að því að standa vörð um þá lýðræðishefð og þau almennu gildi sem lýðræðisríki Evrópuráðsins eru ásátt um að halda á lofti sem er virðing fyrir lögum og reglum, lýðræði og mannréttindum.
Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á hegningarlögum um að bæta við nýrri grein við almenn hegningarlög nr. 19/1940 um refsinæmi þess að afneita þjóðarmorði Nasistaflokks Þýskalands, einnig þekkt sem Helförin. Frumvarpið styður allur þingflokkur Samfylkingarinnar, þingmaður Viðreisnar og þingmaður utan flokka.
Helförin
Nasistar fóru með völd í Þýskalandi á árunum 1933 til 1945 og stóðu fyrir skipulögðum fjöldamorðum – Helförinni - á evrópskum gyðingum og öðrum samfélagshópum með það að markmiði að útrýma þeim. Um 6 milljónir gyðinga í Evrópu létust í Helförinni á árunum 1939 – 1945 og flestir þeirra í útrýmingarbúðum sem settar voru upp í Póllandi. Óvéfengjanlegar heimildir og gögn eru fyrir þessu þjóðarmorði. Það er því óskiljanlega dapurleg og hræðileg þróunin sem hefur átt sér stað undanfarin ár, bæði í Evrópu og í valdatíð Trumps í Bandaríkjunum, að upp hafi sprottið sífellt fleiri öfga-hægrihópar sem afneita Helförinni og glæpum byggðum á gyðinga-andúð fjölgað samhliða því. Sem betur fer hafa fjölmörg Evrópuríki gert það refsivert að afneita eða réttlæta Helförina, þjóðarmorð eða stríðsglæpi.
Tjáningarfrelsið og skorðurnar við því
Tjáningarfrelsið er eitt af grundvallarmannréttindum og er varið af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í 3. mgr. stjórnarskrárinnar er útlistað hver skilyrðin eru til að setja megi tjáningarfrelsinu skorður. Frumvarpið fullnægir þeim skilyrðum því takmörkunin felur í sér bann við því að afneita opinberlega einum af allra verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni. Glæpum sem standa mjög nærri Íslandi bæði í sögulegu samhengi sem og landfræðilegu.
Alþjóðlegar skuldbindingar og viðbrögð við hatursorðræðu
Tjáningarfrelsið er einnig verndað í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Ákvæði 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eiga sér efnislega samstöðu. Og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu með dómum að bann við tjáningu gegn Helförinni samræmist Mannréttindasáttmála Evrópu og að tjáningar sem fela í sér að gera gróflega lítið úr Helförinni, njóta ekki verndar 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Til viðbótar má nefna að hjá Evrópusambandinu tók gildi árið 2008 rammaákvörðun um baráttu gegn ákveðnu formi og tjáningu kynþáttafordóma og útlendingahaturs með refsilögum.
Heim að Lækjartorgi
En hvernig tengjast þessir atburðir fyrir 75 árum, þróunin undanfarin ár í Evrópu og innrásin fyrir nokkrum dögum á Capitol Hill hingað heim ? Er brýn nauðsyn að við gerum breytingar á hegningarlögum til að setja takmarkanir á tjáningarfrelsið út af einhverjum atburðum í útlöndum?
Jú, við erum hluti af alþjóðlegri heild og skoðanir og heimsfaraldur eiga það sameiginlegt að þau berast alltaf hingað til okkar. Það er ekki lengra síðan en í september 2019 að nokkrir menn frá Norðurlöndunum söfnuðust saman á Lækjartorgi, veifuðu fánum og dreifðu bæklingum. Þessir menn eru í nýnasistahreyfingu sem aðhyllist kynþáttahyggju og rasisma og kallar sig „The Nordic Resistance Movement“ sem Ríkislögreglustjóri er með á lista yfir möguleg hryðjuverkasamtök. Með norrænu körlunum á Lækjartorgi voru Íslendingar í undirdeild norrænu nýnasistahreyfingarinnar sem kallar sig Norðurvígi. Einn íslenskur félagi í Norðurvígi sagðist í viðtali við Stundina draga mjög í efa að Helförin væri sönn og lýsti yfir mikilli hrifningu yfir því sem Nasistaflokkur Hitlers stóð fyrir. Þannig tengjast Auschwitz, Lækjartorg og Capitol Hill.
Nauðsynlegt er að standa vörð um sögu þessa hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt sé að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo slíkir atburðir endurtaki sig aldrei aftur. Til að draga línu í sandinn og gefa skýr skilaboð um að hatursorðræða kynþáttafordóma sé óboðleg. Þróunin og nýlegir atburðir í Bandaríkjunum sýna að við verðum alltaf að vera á varðbergi til að sambærileg þróun verði ekki hér og að glæpir sem byggja á djúpstæðri kynþáttahyggju séu ekki framdir.
Því þarf að breyta hegningarlögum og gera það sem önnur Evrópuríki hafa gert í forvarnarskyni. Og til minningar og af virðingu við öll þau sem voru drepin, ekki fyrir hvað þau gerðu, heldur vegna þess að þau voru einfaldlega þau sjálf.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar.