Þegar ég opnaði Útvarpið um liðna helgi var verið að segja frá horfnum dögum í á Rás eitt. Fróðleg frásögn og vel orðuð. Ég settist, hlustaði og horfði út. Gegnum glerið. Dagurinn var ekki allur runninn upp og það var lágskýjað og ýringur í skímunni Það hafði greinilega verið þinghald í næsta nágrenni. Þeir komu af því sjö saman. Sjö svartir hrafnar. Flokkurinn sveif hljóðalaust að glugganum og lyfti sér frá glerinu að því er virtist fyrirhafnarlaust. Þetta var á sömu stundu og farið var að kveða stemmu í morgunþætti KK.
Svo fór ég að fletta Fréttablaðinu sem ég fæ á hverjum degi án þess að hafa beðið um það. Mér taldist til að það væri 60 síður að viðbættum fjórum aukablöðum, kálfum, sem voru 60 blaðsíður. Sum sé 120 síður alls. Auglýsingar þöktu 87 síður, almennt lesmál - margt ágætt - var því á 33 blaðsíðum. Og ég fór að velta því fyrir mér hvernig blað með svo mikið auglýsingamagn gæti átt í peningalegum erfiðleikum með útgáfuna. Eru auglýsingar seldar á undirverði? Eru auglýsingatekjur Fréttablaðsins færðar á annan reikning en tekjurnar af kálfunum? Eða er leki í bókhaldinu?
Og þeir hafa þjóðþekkta baráttumenn í liði með sér. Tengda "frjálsu sjónvarpi". Nátengda. Einn þeirra er fyrrverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, Björn Bjarnason, einnig fyrrverandi kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason svo og fyrrverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Þessi marglaga Björn skrifar pistil á síðu sína, bjorn.is, þann 13. þessa mánaðar undir fyrirsögninni Ríkisútvarp í kreppu. Þar segir undir lokin:
„Ríkisútvarpið sópar allri gagnrýni á efnistök sín undir teppið. Samherjamálið sýnir hve miklu afli þeir verða að ráða yfir sem taka sér fyrir hendur að afhjúpa ámælisleg vinnubrögð fréttastofu ríkisútvarpsins. Það er skýrt hnignunarmerki að þeir sem að er sótt fái ekki að svara fyrir sig á vettvangi „hlutlausrar framsetningar“ heldur verði að skapa sinn eigin vettvang."
Ég veit að Björn er að segja ósatt þegar hann heldur því fram að Samherjamenn hafi ekki fengið að svara fyrir sig í Ríkisútvarpinu. Það hefur margoft komið fram í fréttum að bæði hljóðvarp og sjónvarp hafa boðið Samherjamönnum viðtöl. Að svara fyrir sig. En þeir hafa neitað, Samherjamennirnir. Og það getur enginn sannfært mig um að Björn þessi Bjarnason viti þetta ekki. Að það hafi farið framhjá honum sem alltaf er á varðbergi. Það er eitthvað annað en fáfræði sem veldur ósannsögli hans, lygum. Ég hef grun um hvað veldur. En held því fyrir mig. Í bili.
Þarna kominn í skrifunum heyrði ég í hádegisfréttum Útvarpsins að menntamálaráðherra hélt að nýja fjölmiðlafrumvarpið yrði samþykkt á alþingi. Það myndi hjálpa fjölmiðlunum. Fréttamaður spurði ráðherrann hvort þetta gæti orði til þess að Stöð 2 opnaði fyrir fréttaútsendingar aftur. Ráðherrann kvaðst vona það. Og fólskulegt af mér að spyrja: Yrði Stöð 2 þá ekki ríkisrekin?
Ef alþingismenn vilja fara vel með opinbert fé ættu þeirra hiklaust að láta ríkisskattstjóra kanna bókhald þeirra miðla sem ætlað er að fái ríkisstyrk svo sjá mái hverjir þurfa hans við og birta almenningi niðurstöður rannsóknarinnar. Í anda frjálsrar fjölmiðlunar.