Margir sem reka augun í þessa fyrirsögn munu ekki lesa þennan pistil. Þeir hugsa sem svo: Gaurinn sem skrifar er fastur í gamaldags hugmyndafræði kommúnista og sósíalista! En af hverju eigum við forðast að nota orð sem lýsa ástandinu eins og það er. Orðin voru notuð af óprúttnum valdhöfum í ríkjum sem virtu ekki mannréttindi og sinntu ekki þeirri sjálfsögðu skyldu að búa öllum mannsæmandi kjör. Sovét Ísland, óskalandið, var notað af þeim Íslendingum sem trúðu því að hægt væri að byggja upp samfélag sem einkenndist af jöfnuði og mannúð. Þeir hinir sömu vörðu ástandið í Sovétríkjunum fram í rauðan dauðann eins og þeim sakleysingjum er tamt sem trúa því að allir er aðhyllast sósíalismann geri það á grundvelli fagurra hugsjóna.
Mennska – Hlúum að þeim verr settu
Ég mun í þessum pistli fjalla um nokkur atriði sem að mínu mati þarf að leggja mikla áherslu á í stjórnarmyndun eftir næstu kosningar. Hér verður ekki fjallað um hvernig þarf að lappa upp á úr sér gengna innviði. Nei, hér er það mennskan sem sjónum er beint að. Hvernig ber okkur að búa öllum mannsæmandi lífsskilyrði í landinu okkar? Hvernig ber okkur að koma fram við samborgarana – þannig að allir geti verið stoltir Íslendingar?
Útrýmum fátækt
Meirihluti landsmanna vill stjórn sem hefur það markmið að útrýma fátækt, leiðrétta kjör eldri borgara svo og að greiða öryrkjum og atvinnulausum mannsæmandi laun. Einnig vill meirihluti Íslendinga gera miklar úrbætur á kjörum leigjenda. Undanfarna áratugi hafa þessir hópar dregist mjög aftur úr þar sem önnur máli hafa verið talin mikilvægari. Vegna ástandsins sem skapast hefur í kjölfar farsóttarinnar er ljóst að hér eru stór skref að stíga.
Börn á flótta
Það er til skammar hvernig farið er með barnafjölskyldur sem leita til okkar í von um að öðlast hlut í þeirri mennsku sem allir eiga skilið. Þær flýja kúgun og eymd og það er skylda okkar að leggja að mörkum þann litla skerf sem við svo auðveldlega getum gefið.
Réttlátt skattkerfi
Aðgerðarpakkar ríkisstjórnarinnar til bjargar atvinnulífinu hafa kostað okkur mörg hundruð milljarða. Það þarf að tryggja að almenningur í landinu verði ekki látinn borga þennan kostnað – eins og gerðist að stórum hluta eftir Hrunið. Þessu má koma til leiðar með réttlátara skattkerfi. Það er við hæfi að auðmenn landsins borgi mun meira af þeim lánum sem ríkið hefur neyðst til að taka – þeir hafa haft mestan hag af þeim – þar eru jú peningarnir. Einnig þarf skattkerfið að byggja á því að lægstu tekjur verði ekki skattlagðar. En það er fleira sem þarf að koma til.
Arðrán
Allir vita að lítill minnihluti Íslendinga á mikinn meirihluta fjármagns í landinu. Flestum er ljóst að þetta er ósanngjarnt. En margir hugsa sem svo: Ja, sumir eru klókari en aðrir og geta með góðu skipulagi og útsjónarsemi byggt upp arðvænleg fyrirtæki. Og ef þessir góðu menn og konur eru kúguð með of miklum sköttum þá hætta þau að byggja upp ný og nauðsynleg atvinnutækifæri til heilla fyrir allan almenning í landinu. Flestum ofbýður að þessi hugsanavilla sé yfirleitt til umræðu. Ekki síst vegna þess að auðmenn hafa í ríkum mæli komið illa fengnum fé í „öruggt skjól“ svo þeir geti notað þá – sér og sínum til lystisemda.
Margir auðmenn segja: Virðum eignaréttinn – ég erfði mitt fjármagn frá honum pabba og hann erfði peningana hans afa, sem erfði þá frá honum langafa. Í þessari þulu er ekkert komið inn á hvernig pabbarnir og afarnir eignuðust þessa peninga. Þar er ekki minnst á að auðurinn var tekinn af fátæklingum þessa lands. Arðrán var það – og það er fáránlegt að forðast þá orðnotkun – hún lýsir ástandinu eins og það var of eins og það er.
Útrýmum spillingu
Að mínu viti hefði Katrín Jakobsdóttir gert meira gagn sem fjármálaráðherra heldur en forsætisráðherra. Það er til skammar hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert lítið í því að ráðast gegn spillingu í íslensku fjármálalífi. Til eru skýrslur ofan í skúffum fjármálaráðherra sem sýna hvernig auðmenn landsins hafa svínað á almenningi.
Útdeiling ráðherraembætta minnir raunalega á leiki okkar krakkanna í „den“. Allir vildu verða forsætisráðherrar – allir urðu að hlýða honum. Þar næst var ráðherra utanríkisráðmála mjög vinsæll – hann fékk að fara í svo margar fínar veislur í útlöndum. Og restina rak svo ráðherra menntamála – því öll vissum við krakkarnir hvernig ætti að kenna krökkum og líka vissum við að það þyrfti að reka alla leiðinlega kennara.
Hættum dekri við auðmenn
Eins og ég sagði fyrr í þessum pistli: Langstærstur hluti aðgerða ríkisstjórnarinnar til að mæta afleiðingum farsóttarinnar hefur farið til atvinnurekenda. Óþolandi er þegar óprúttnir auðmenn leggjast á ríkisspenann – þó svo fyrirtæki þeirra eigi digra varasjóði. Og í kjölfarið hafa þeir getað greitt „eigendunum“ svipaðan arð og þeir gerðu fyrir hörmungarnar.
Í dag meðhöndlar útgerðarauðvaldið fiskikvótann sem sína eign. Það er mjög brýnt að setja það inn í stjórnarskrá að auðlindir Íslands séu eign þjóðarinnar. Og ekki síður að krefja auðvaldið um eðlilega greiðslu fyrir afnotin. Fáránlegt er að þau fyrirtæki sem moka inn fé og greiða mikinn arð til „eigendanna“ komist hjá eðlilegri greiðslu vegna þess að fáein útgerðarfyrirtæki berjist í bökkunum. Taka þarf kvótann af þessum peningaplokkurum „ekki síðar en í gær“.
Lokaorð
Það er einkenni íslenskunnar að búa yfir góðum og lýsandi orðum. Einar Benediktsson skáld sagði í ljóðinu Móðir mín: „ – Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu.“
Á netinu hafa orð Davíðs Þórs Jónssonar breiðst út eins og eldur í sinu. En hann fletti ofan af því hvað fælist í orðum Barna Ben um bankasölu: „að setja eignir ríkisins á markað“ þýðir einfaldlega: „að koma eignum þjóðarinnar í hendur auðmanna.“
Orðalagið lýsir vel hver það er sem talar eða skrifar. Margir stjórnmálamenn eru klókir og eiga því auðvelt með að færa setningar í skrautlega búning oftast er það til að hylja það sem að baki liggur. Markmið stjórnmálamanna eru mjög mismunandi og helst það í hendur við fyrir hvaða þjóðfélagshópa þeir vinna.
Höfum í huga í næstu kosningum að það þarf að vinna gegn arðráni auðvaldsins – og vinna gegn fjölgun öreiga á Íslandi.
Höfundur er framhaldsskólakennari.