Talið er að um 32 þúsund af um 43 þúsund eldri borgurum fái greiðslur frá TR. Lífeyrissjóðsgreiðslur og aðrar tekjur, sem skerða greiðslur TR eru stighækkandi greiðslur frá kr. 0 upp í um kr. 540.000 á mánuði. Þeir sem fá hærri greiðslur, um 5 þúsund eldri borgarar, mynda þann hóp sem hækkar meðaltalið, þegar vitnað er um bætt kjör hjá eldri borgurum. Þá er líklega ekki talið með í því meðaltali um 6 þúsund eldri borgara sem fá greitt innan við lágmarksgreiðslur TR. Um helmingur þeirra er á elli og hjúkrunarheimilum sem fær um 1/3 af grunnlífeyri, en jafnframt gert skylt að greiða af fjármagnstekjum sínum allt að 454 þúsund á mánuði fyrir dvöl sína þar. Aðrir eru innflytjendur og Íslendingar, sem hafa búið hluta ævi sinnar erlendis, með möguleikum á að fá greitt 90% af grunnlífeyri með mörgum takmörkum og hindrunum til töku þess lífeyris, sbr lög nr 74 frá 3.7. 2020. Nú í byrjun árs höfðu aðeins 141 einstaklingur uppfyllt kröfur varðandi framsettar hindranir til umsóknar.
Skerðingar á greiðslum TR námu um 24 milljörðum árið 2017
Samkvæmt svari ráðherra við fyrirspurn á alþingi var meðalupphæð ellilífeyris og heimilisuppbótar árið 2017 kr. 241.250 á mánuði frá TR. Greiðslur það ár, án skerðinga hefðu kostað ríkissjóð 101,9 milljarða, en ríkissjóður greiddi út 66,9 milljarða í ellilífeyri og heimilisuppbót. Skerðingarnar spöruðu ríkissjóði því um 35 milljarða það ár. Þar af spöruðu skerðingarnar vegna lífeyrissjóðsgreiðslnanna líklega um 70% af þeirri upphæð eða um 24 milljarða. Upphæðin hafur hækkað verulega síðan. Fólkið er hýrudregið vegna áunninna réttinda, sem alþingi með ólögum heimilar að séu teknar af lögbundnum sparnaði þess allt frá 1969.
Skerðingar eru með margvíslegum hætti til viðbótar
Fyrsta skerðing: Hækkun á greiðslum TR til ellilífeyrisþegar í ársbyrjun hefur árlega verið skert mörg undanfarin ár miðað við verðlag tveggja ára á undan. Grunnlífeyrir hækkaði 1. janúar 2021 um 6,1% í kr. 266.033 á mánuði. Hækkunin var skilgreind 3,6%, miðað við óskiljanlegan útreikning hækkunar, líklega frá 2019, að viðbættri 2,5% hækkun, sem sambærilegir hópar fengu að lágmarki, vegna sömu hækkana á föstum aukatekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga 2021. Skattleysismörkin voru lækkuð um kr. 3.836.- á mánuði, eins og reyndar var einnig gert 2020, í bæði skiptin án umfjöllunar, sem bitnar mest á þeim sem minnst fá. Hækkun TR 1. janúar 2021 reyndist vera um kr. 10.000 á mánuði, sem eftir skattlagningu og með lækkuðum persónuafslætti skilja eftir af greiðslu TR, kr. 198.986, en hjá einstæðingum með heimilisuppbót kr. 245.270.
Önnur skerðing: Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) skerðast um 45% á móti lífeyrissjóðsgreiðslum umfram kr 25.000 á mánuði og vinnulaunum umfram kr. 100.000 á mánuði. Til viðbótar þeirri skerðingu á greiðslum frá TR, reiknast tekjuskattur á lífeyrisgreiðslurnar og vinnulaunin, þannig að skerðingin og skatturinn af greiðslum umfram frítekjumarkið geta numið allt að 81,9%.
Þriðja skerðing: Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara eru skattlagðar sem almennar tekjur frá 31,45% að 45% skatti, þótt hluti af því fé, sem sjóðfélaginn á í viðkomandi lífeyrissjóði, hafi áður verið skattlagður frá 1996 til 1988 og annar hluti hafi orðið til vegna vaxta og annarra hækkana fjármagns og ætti því að vera að hluta án skatts og að hluta með 22% fjármagnstekjuskatti, reiknað út á hvern einstakling. Sannarlega er tvísköttun ólögleg.
Fjórða skerðing: Ofangreindar viðmiðanir um skerðingar hafa verið óbreyttar í fjögur ár. Þegar allt annað hækkar í gjöldum og launum eftir vísitölum og verðbólgu, þá ættu viðmiðunarfjárhæðir vegna frítekjumarks að hækka árlega miðað við það. Þessar óbreyttu skerðingar á greiðslum frá TR eru því ekkert annað en lækkun á greiðslustöðu þessa fólks sem minnst fær.
Fimmta skerðing: Hún er ákvörðun um að skerða með sama hætti og að ofan greinir desemberuppbót og sumarorlof, sem TR greiðir til eldri borgara. Upphaflega var samið um að allir fengju þetta sem uppbót á laun, tryggingargreiðslur og bætur. Hverjum skyldi hafa dottið í hug við þá samninga, að skerðingarnar sem settar voru á þessar bætur árið 2008 yrði viðhaldið þannig árlega síðan?
Afnema verður að fátækasta fólkið sé hýrudregið
Loforð flokka í ríkisstjórnum undanfarin 12 ár um bættan hag til eldri borgara, sem búa við fátækt, hafa reynst markleysa. Reyndin er sú að kjör þeirra eru skert mest, með líkum hætti og kjör öryrkja eru skert. Markvisst er komið í veg fyrir að lífskjör þessara hópa hækki í samanburði við laun og lífsgæði annarra í landinu.
Stefna ríkisstjórna frá hruni 2008 hefur verið að lækka árlega verðgildi greiðslna TR og sitja á margskonar hindranir og eftirlit með greiðslunum, þannig að margir missa af þeim eða vita ekki af þeim. Síðan er þessi lágmarksgreiðsla skattlögð til sárrar fátæktar hjá þeim sem minnst fá, sem heitir á góðri íslensku, að þetta fólk sé hýrudregið.
Höfundur formaður kjararáðs félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.