Húsnæðis- og skipulagsmál voru nýlega sameinuð undir nýju innanríkis- og húsnæðismálaráðuneyti Danmerkur eftir um hálfrar aldar aðskilnað. Markmiðið er meðal annars að ná betur utan um heildarsamhengi innviða hins byggða umhverfis og vinna heildrænt að framgangi húsnæðismála.
Á Íslandi fara ekki færri en fimm ráðuneyti með málaflokkinn húsnæðis- og mannvirkjamál. Skipulagsmál heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti, opinber menningarstefna í mannvirkjagerð heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti, Framkvæmdasýslan, undir fjármálaráðuneyti. Nýsköpunarmiðstöð sem m.a. sinnti rannsóknum og miðlun þekkingar um byggingar og mannvirki, var með tilskipun atvinnu- og nýsköpunarráðherra lögð niður sl. áramót, hvers ráðuneyti fer eftir sem áður fyrir nýsköpunarmálum á sviði húsnæðis og mannvirkja. Mannvirkjastofnun var nýverið sameinuð Íbúðalánasjóði undir félags- og barnamálaráðuneyti í nýrri Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS), sem gegnir gífurlega mikilvægu og víðtæku hlutverki. Stofnunin skal stuðla að því að jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði, m.a. með húsnæðisstuðningi, lánveitingum, rannsóknum, upplýsingagjöf, áætlanagerð og eftirliti, og leitast við að tryggja að almenningur hafi aðgang að öruggu og vistvænu húsnæði á viðráðanlegu verði og í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu. Þá gegnir stofnunin samræmingarhlutverki, sinnir samstarfi við sveitarfélög um stjórnsýslu húsnæðis- og mannvirkjamála. Síðast en ekki síst er hlutverk stofnunarinnar að stuðla að fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæðum mannvirkjagerðar.
Gæði í umræðu
Á morgun heldur HMS árlegt húsnæðisþing sitt undir yfirskriftinni Húsnæði – undirstaða velsældar. Dagskrá þingsins er bæði metnaðarfull og áhugaverð. Hagfræðingar gefa yfirlit um áætlaða húsnæðisþörf næstu ára og fjallað verður um ný úrræði HMS til að bregðast við húsnæðisþörf almennings. Aðilar á vettvangi sveitarstjórnarmála veita innsýn í áætlaða uppbyggingu og samstarfsáætlanir sveitarstjórna og HMS. Þá verður staða tekin á húsnæðisáætlunum, sem er n.k. magntaka áætlaðrar húsnæðisþarfar sveitarfélaga, farið yfir byggingarmarkaðsmál, eftirlits- og öryggismál. Loks ræðir ráðherra húsnæðismála ásamt fulltrúum sveitarstjórna, HMS og byggingariðnaðarins framtíðarhorfur. Allt saman verðugir umræðufletir. Dagskráin virðist hins vegar sneiða alveg fram hjá umræðu um hlutverk HMS sem tengist gæðum húsnæðis, rannsóknum og áætlunum þeim tengdum.
Opinbert inngrip
Húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna munu sýna að víða er mikil uppbygging húsnæðis framundan. HMS mun taka virkan þátt í þeirri innviðauppbyggingu með stofnframlögum til almennra íbúða og nýjasta úrræðinu hlutdeildarlánum. Hluti ríkisins, og þar með fjárfesting almennings, til byggingar almenns leiguhúsnæðis er ráðstafað með 30% stofnframlagi frá HMS og viðkomandi sveitarfélagi. Restin, 70%, er fjármögnuð með greiðslugetu lágtekjufólks þar sem bundið er í lög að viðmið um húsaleigu megi ekki yfirstíga fjórðung tekna.
Þessi leið er ekki farin í nágrannalöndum okkar. Það að byggja upp húsnæði á forsendum greiðslugetu lágtekjuhópa vekur upp margar spurningar. Sum húsnæðisfélög hafa, með stuðningi HMS, leitað allra mögulegra og ómögulegra leiða til að draga úr kostnaði við uppbygginguna. Úr verður húsnæði sem uppfyllir allar tæknilegar kröfur byggingarreglugerðar en dregið hefur verið verulega úr gæðum. Hlutdeildarlánaúrræði stefna í sömu átt og miða að íbúðum sem eru svo hagkvæmar sem frekast er kostur. Takmarkaðar rannsóknir virðast hafa verið gerðar til að undirbyggja þessa leið, og markast ákvarðanatakan mögulega af því að þröngt sjónarhorn hefur verið ráðandi en ekki heildarsamhengið. Afleiðingarnar sem birtast í sjálfu húsnæðinu sem, þetta snýst jú allt um, virðast m.a. vera þær að sparnaður í fermetrum er tekinn út í sameiginlegum íverurýmum íbúða (þar sem við eyðum mestum vökutíma) eins og í eldhúsi og stofu. Gluggar minnka og hluti inngarða, þar sem börn gætu leikið sér, lagðir undir bílastæði. Allt í nafni „hagkvæmni“.
Fyrirsjáanleiki
Ímyndum okkur að sérstök húsnæðisgæðadeild HMS gegndi því hlutverki stofnunarinnar að stuðla að fyrirsjáanleika og gæðum mannvirkjagerðar. Ynni að því að framfylgja stefnumörkun hins opinbera, sem m.a. er fyrirliggjandi í opinberri menningarstefnu í mannvirkjagerð, gerði áætlanir og greindi breytilegar þarfir íbúa og áskoranir, sinnti rannsóknum og fræðslu um leiðir, lausnir og áhrif gæða í húsnæði. Húsnæðisdeild sem sæi fyrir og mæti stöðuna reglulega á húsnæðismarkaði. Hvernig verður staðan eftir 10 – 20 – 50, jafnvel 100 ár? Hafði áhersla dagsins í dag á „hagkvæmni“ góð áhrif á efnahagsmál heildarinnar? Stuðlaði hún að jöfnuði, velsæld og lýðheilsu? Var „hagkvæmt“ og umhverfisvænt að stýra húsnæðisuppbyggingu út frá greiðslugetu lágtekjufólks eða var það einmitt orsök misheppnaðra íbúðabygginga með mikla veltu flutninga frá leiguíbúðum og loks niðurrifi þeirra allra verstu með tilheyrandi umhverfiskostnaði? Hvar var velsældin? Breyttist hún í vesöld? Vonandi ekki.
Gæði eru hagkvæm
Gæði húsnæðis er lykilbreyta í félagslegu, lýðheilsulegu, umhverfislegu og efnahagslegu samhengi. Þau eru einnig mælistika á hagkvæmni húsnæðis, og geta, ef rétt er með farið, skapað afleidd verðmæti fyrir nærumhverfi, einstaklinga og samfélög. Nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt fram á með rannsóknum, að verðmætasköpun og kostnaðarlækkun opinberrar þjónustu, t.a.m. í heilbrigðiskerfi megi rekja til gæða húsnæðis, m.ö.o. sýnt fram á virðisauka gæða í hönnun og arkitektúr þegar kemur að innviðum hins byggða umhverfis.
Orðið „gæði” er hins vegar orðið framandi í íslenskri stjórnsýslu. Árið 2010 var gerð gagngerð endurnýjun á byggingarreglugerðinni og við það þurrkaðist orðið „gæði” nánast út, það sama má segja um orð eins og „byggingararfleifð” og „byggingarlist” en orð eins og „gæðastjórnunarkerfi” og „eftirlit” urðu þeim mun vinsælli. Orð skipta máli og forðumst við að nota þau, endurnýja þau, finna sameiginlegan skilning og sátt um þau- hverfa þau úr tungumálinu. Ef við hræðumst að skilgreina gæði í húsnæði og öðrum manngerðum innviðum, eigum við á hættu að standa uppi fátækari.
Húsnæði er undirstaða velsældar eins og yfirskrift húsnæðisþings ber réttilega með sér. Húsnæðismál eru velferðarmál, lýðheilsumál, umhverfismál, efnahagsmál og geta með stefnu sinni eða stefnuleysi stuðlað að jöfnuði eða ójöfnuði. Velsæld eða vesöld. Eins og Danir hafa reynt og lært og sýna fram á með nýlegum stjórnkerfisbreytingum geta lausnir sem hverfast einungis um markaðslega þætti ekki leyst húsnæðismál samtímans. Sanngjarnt og skilvirkt lána- og afgreiðslukerfi húsnæðismála, sem byggt er á yfirsýn yfir framboð og eftirspurn, er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt. Jafnvægislist húsnæðismála snýst um að fanga viðfangsefnið frá breiðum grundvelli, leitast við að ná utan um heildarsamhengið, þar sem gæði húsnæðis er undirstaða velsældarinnar.
Höfundar eru arkitektar.