Með tíundarlöggjöf frá 1096 var staða fátækra að nokkru tryggð til nauðþurftar allt til 1914, þegar fátæktartíund var afnumin, en í þess stað átti að taka við kerfi til meiri hjálpar með sjúkrasamlögum, alþýðutryggingum og síðar almannatryggingum (TR) 1936, sem fólk greiddi til af launum sínum, einnig til sjúkrasamlaga. 1986 var staðgreiðsla skatta tekin upp, en þá var skattprósenta hækkuð samsvarandi þessum greiðslum. 1990 voru eignir sjúkrasamlaga yfirteknar til (TR), sem greiddu síðan út sjúkrabætur, örorkubætur og ákveðið grunngjald til allra eldri borgara, sem þeir höfðu greitt til alla starfsævi sína með þessum iðgjöldum til TR og sjúkrasamlaga. Þegar lífeyriskerfið var lögfest 1969 var útilokað að einhver tenging gæti orðið á þeim greiðslum með skerðingum til eldri borgara frá TR. Þetta var óbreytt til hrunsins 2009, en þá voru settar á miklar skerðingar á greiðslum TR frá 2009 til 2013. Reglurnar 2009 voru t.d. þær, að aðeins mátti vinna fyrir kr. 25.000 á mánuði án skerðinga frá TR og fjármagnstekjur og lífeyrissjóðsgreiðslur skertu greiðslur TR umfram kr. 25.000 á mánuði.
Eftir það var létt að nokkru á skerðingum, en þær síðan teknar upp að nýju 1. mars 2017. og þá mátti vinna að kr. 100.000 á mánuði án skerðinga. Ef fólk reyndi að vinna sér til bjargar umfram þessa upphæð, myndu greiðslur almannatrygginga skerða umframgreiðslu um 45%, og með frádregnum tekjuskatti væri eftir um kr. 20.000 af hverjum kr 100.000. Lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur umfram kr. 25.000 á mánuði skertu greiðslur TR um 45%.
Neyðarúrræði hjóna eða sambúðarfólks
Hjón eða sambúðarfólk, sem búa við þær aðstæður að hafa aðeins um 380 til 420 þúsund á mánuði samanlagt, eru líklega um 4 þúsund talsins. Þrátt fyrir þessa stöðu hafa þau greitt í lífeyrissjóð, bæði eða annað, meiri hluta starfsævi sinnar. Hvaða neyðarúrræði geta þau átt, til að lifa af með fjárhagslegri reisn? Líklega aðeins það að skilja og leigja síðan öðrum aðilanum með leynd aðstöðu í íbúð sinni, sem þau eiga eða leigja í dag. Þannig bættu þau fjárhag sinn fyrir utan skatt um 134.450 krónur á mánuði. Þetta hlyti að teljast neyðarréttur þessa fólks. sem býr við ofurskerðingar á greiðslum almannatrygginga gagnvart vinnu- og lífeyrissjóðstekjum. Giftast síðan á ný þegar leiðrétting hefur náðst fram.Neyðarúrræði þess einstaklings sem býr einn
Þessi einstaklingur nýtur greiðslu frá TR að upphæð kr 333.258 á mánuði. Vilji hann hjálpa afkomanda, frænda eða frænku með því að fá að búa á heimilinu eða að fá hjálp sjálfur með því að fá afkomanda til að búa hjá sér, er hann skertur um kr 67.225 á mánuði, og ef TR kemst ekki að því strax, þá er skerðingin afturvirk til greiðslu. Neyðarrétturinn felst í því að skrá ekki þennan einstakling á heimilinu og reyna að láta sem minnst á honum bera.Neyðarúrræði fólks sem flytur á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili
Nauðvörn getur eldra fólk átt, sem flyst á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili. Grunngreiðsla TR fellur þá niður, en viðkomandi fær kr. 79.859.- á mánuði til nauðsynlegra útgjalda s.s. fyrir bifreiðakostnaði, fatnaði, ólyfseðilsskyldum lyfjum, heilsuvörum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, ferðalögum, snyrtivörum, gleraugum, heyrnartækjum, innbústryggingu, efni í föndurvörur, sælgæti, tóbaksvörum, tækifærisgjöfum, jólagjöfum, ofl, - þar með endanlega að hætta að reka eða leigja húsnæði. Allar aðrar tekjur viðkomandi einstaklings, s.s. lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur eru þá teknar upp í þennan dvalarkostnað, allt að kr 454.542 á mánuði. Við þessar aðstæður væri neyðarúrræði, til að geta átt fyrir eðlilegum útgjöldum, að taka út úr banka sparnað sinn og geyma annars staðar.Komum í veg fyrir neyð fólks og breytum skerðingarlöggjöf á greiðslum TR
Löggjöf, sem neyðir fólk vegna fátæktar til skilnaðar eða til að fara fram hjá lögum við þær eða aðrar aðstæður, verður að breyta. Lög og reglugerðir, sem heimila TR að hafa eftirlit með öllum fjármálahreyfingum viðkomandi og hvar viðkomandi býr og með hverjum, jaðrar við njósnir, sem verður einnig að breyta.
Höfundur er formaður kjararáðs félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.