Hér er fjallað um þær breytingar sem gera þarf til að taka upp evrutryggða krónu með myntráði. Myntráð við evru er tiltölulega einföld leið til að fá fram kosti fastgengis við evru. Efnahagsleg áhrif eru svipuð og með einhliða upptöku evru. Myntráð er ódýrara en bein upptaka evru því krónan er áfram lögeyrir og myntsláttuhagnaður helst innanlands. Um er að ræða verulega upphæð, sem nemur hundruðum milljóna, þó erfitt sé að meta það nákvæmlega. Myntráð er einnig sveigjanlegra en einhliða upptaka þar sem unnt er að skipta út evru fyrir t.d. dal ef viðskiptavog breytist mikið eða evran verður óstöðug sem er ólíklegt. Einhliða upptaka evru jafngildir því að reyna að fara bakdyramengin inn á evrusvæðið og mun ekki njóta stuðnings Seðlabanka Evrópu, en notkun myntráðs stríðir ekki gegn peningastefnu evrusvæðisins eftir því sem næst verður komist. Hugsanlegt er að leita eftir stuðningi Seðlabanka Evrópu við myntráð gegnum EES aðildina ef markmiðið er þátttaka í evrusvæðinu þótt síðar verði. Innganga á evrusvæðið tekur lágmarkstíma og aðlögun verður mjög einföld ef myntráð hefur verið tekið upp fyrir inngöngu.
Lagaramminn
Nauðsynlegt er að vanda vel til regluverks og lagaramma um myntráð. Mikilvægt er að lögin tryggi að engar breytingar verði gerðar á myntráðfyrirkomulaginu nema með mjög löngum fyrirvara eða inngöngu í evrusvæðið. Best er að taka upp hefðbundið myntráð þar sem myntráðið hefur afmörkuð og vel skilgreind verkefni:
- Að gefa út seðla og mynt sem eru baktryggðir með evrum einn á móti einum án vikmarka. Þessi aðferð kemur í veg fyrir áhlaup á vikmörkin.
- Að varðveita gjaldeyrisvarasjóð sem nægir til að tryggja útistandandi seðla og mynt ásamt fjárkröfum sem hægt er að breyta í seðla og mynt hindrunarlaust, þar um ræðir einkum skammtíma innstæður í Seðlabankanum sem mætti flytja yfir í myntráðið. Núverandi gjaldeyrisforði er nógu stór til að innleiða myntráð.
- Láta prenta seðla og slá mynt ásamt því að endurnýja ónýta seðla líkt og Seðlabankinn gerir nú.
- Taka við innlögnum viðskiptaaðila og ríkissjóðs og veita takmarkaða lausafjárfyrirgreiðslu ef til er gjaldeyrisforði umfram þörf fyrir baktryggingu.
Viðskiptaaðilar myntráðs verða bankar en allir sem eiga seðla og mynt eiga að geta skipt krónum yfir í evrur gegnum viðskiptabanka óski þeir þess. Hins vegar gætu skipti í hina áttina verið háð takmörkunum ef talið er að um óeðlilega seðlasöfnun sé að ræða. Við gerð lagaramma er hægt að nýta reynslu frá tímum myntráðs í Eistlandi auk ýmissa rita og skýrslna svo sem á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Danir hafa rekið myntráðslíki (nota þröng vikmörk) við evru um árabil með frábærum árangri sem kemur meðal annars fram í því að nú bjóðast húsnæðislán til langs tíma án vaxta. Framkvæmd peningastefnu þeirra getur verið lærdómsrík fyrir Ísland þótt ekki sé um hefðbundið myntráð að ræða.
Stofnanaumhverfið
Með myntráði við evru er Seðlabankinn í núverandi mynd lagður niður. Aðeins deildir sem sjá um gjaldeyrisvarasjóð, reikninga viðskiptaaðila og meðhöndlun seðla og myntar auk alþjóðasamskipta starfa áfram. Verulegur sparnaður verður í mannafla í fjármálakerfinu þar sem flækjustig peningastefnunnar minnkar. Þannig hverfur til að mynda gengisáhætta að mestu úr peningakerfinu og verðtrygging verður óþörf. Myntráðið reynir ekki að hafa áhrif á heildareftirspurn með vaxtaákvörðunum. Vextir innanlands ráðast af framboði og eftirspurn á markaði og munu nálgast vexti á evrusvæðinu. Til að nýta þá hagfræðiþekkingu sem Seðlabankinn býr yfir kemur til greina að endurvekja Þjóðhagsstofnun sem vinnur hagspár ásamt ýmissi úrvinnslu hagtalna. Hagstofa myndi þá sérhæfa sig eingöngu í öflun grunnupplýsinga. Fjármálastöðugleiki og eftirlit með fjármálastofnunum á ekki að vera hlutverk myntráðsins. Skilja verður algerlega á milli myntráðsins og fjármálaeftirlits. Hlutverk lánveitanda til þrautavara verður alfarið á hendi ríkisstjórnar og Alþingis. Fjármagnsflutningar verða frjálsir innan alþjóðlegs regluverks sem meðal annars inniheldur varnir gegn peningaþvætti.
Ákvörðun jafnvægisgengis og seðlaútgáfa
Ákvörðun á skiptigengi evru og íslensku krónunnar er vandasamt þegar frjáls markaður er ekki virkur og sveiflur eru miklar. Samt sem áður er núverandi gengi sennilega ekki langt frá viðunandi jafnvægisgengi en þetta þarf að meta að bestu manna yfirsýn. Samhliða upptöku myntráðs við evru kemur til greina að gefa út nýja seðla og mynt. Það gæti styrkt tengslin við evru í huga almennings og auðveldað verðsamanburð við evrusvæðið. Almenningur gæti skipt núverandi seðlum fyrir evrutryggða seðla á fullu verði í takmarkaðan tíma en gera þarf grein fyrir uppruna ef menn hafa stórar upphæðir í seðlum undir höndum.
Niðurstaða
Innleiðing myntráðs við evru er einföld aðgerð sem leiðir samstundis til mikils sparnaðar í viðskiptum, lækkar fjármagnskostnað og sparar mikinn mannafla í eftirlitsiðnaðinum og peningastofnunum. Að auki verður innganga í evrusvæðið mjög auðveld og hröð ákveði Íslendingar að stíga skrefið til fulls inn í ESB. Þegar samþykkt var á Alþingi að taka upp metrakerfið árið 1907 var málið rökstutt með því m.a. að slík alþjóðleg umgjörð um mál og vog væri einkar mikilvæg til að liðka fyrir alþjóðaviðskiptum. Þetta var á tímum gullfótarinns og frjálsra viðskipta undir „Pax Brittanica“. Samskonar rökstuðningur gildir um innleiðingu myntráðs þó að mál og vog séu að öðru leyti annars eðlis en peningar. Það verður mikið framfaraspor að fá stöðugan gjaldmiðil sem ekki þarf að teyja og toga til að endurspegla „íslenskan veruleika“. Myntráðið eflir verðstöðugleika og skapar traust sem auðveldar erlenda fjárfestingu og stuðlar að alþjóðavæðingu bankakerfisins.