Um þrjátíu og átta þúsund eldri borgarar hafa mætt ósanngirni ríkistjórna og félagasamtaka undanfarin mörg ár. Þeir fá skertar greiðslur frá Almannatryggingum (TR)
Núverandi ríkistjórn hefur undanfarin tæp fjögur ár aukið óréttlætið með því að halda óbreyttum skerðingarákvæðum og lækkað skattleysismörk, þannig að lækkun á skattaprósentu hefur nær engu skilað. Ráðherrar hafa hins vegar sagt að þeir hafi bætt stöðu eldri borgara verulega. Sé það skoðað þá voru sett lög nr. 74/2020, sem lofuðu um 3500 eldri borgurum allt að 90% af grunnlífeyri. Hér var um að ræða innflytjendur og Íslendinga, sem hafa búið erlendis og höfðu engan rétt frá TR um greiðslur. Hins vegar voru hin nýsettu lög með svo íþyngjandi takmörkum og hindrunum, að nú í byrjun árs hafði aðeins 141 einstaklingur uppfyllt kröfurnar og sótt um.
Skerðingar á greiðslum frá TR
Greiðslur almannatrygginga (TR) til eldri borgara hafa verið með óbreyttum skerðingum síðan 2017, þótt allar aðrar greiðslur í samfélaginu hafi árlega hækkað, Fjármagnstekjur umfram 25 þúsund krónur skerða greiðslur TR um 45% á mánuði. Skerðingarmörkin varðandi launatekjur eru þau sömu umfram 100 þúsund krónur á mánuði og heimilisfólk á hjúkrunarheimilum er ofurskert. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru taldar með fjármagnstekjum hjá TR. Þegar þær eru greiddar út, þá eru þær að fullu skattlagðar sem launatekjur með miklu hærra skatthlutfalli.
Hvers vegna sameinast ekki stéttarfélög og verkalýðsfélög í baráttu gegn því óréttlæti, sem eldra fólki er beitt með þessum óbreyttu skerðingum á greiðslum frá TR vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og hins vegar einnig þess lífsréttar, að fá að vinna sér til bjargar? Í samningaviðræðum stéttar- og verkalýðsfélaga og atvinnurekenda við ríkið, hafa engar kröfur um leiðréttingu varðandi þessar skerðingar verið settar fram. Og engar hækkanir til eldri borgara hafa náðst í tengslum við launasamninga milli þessara aðila síðustu 12 ár. Meira að segja desemberuppót og orlofsgreiðslur, sem þessir aðilar sömdu um á sínum tíma eru með skerðingum á greiðslum til eldri borgara, en ekki á samsvarandi greiðslum til launamanna.
Lífskjarasamningar
Þann 16. desember s.l. tók Alþýðusambandið undir kröfu Landssambands eldri borgara um hækkun, samsvarandi lífskjarasamningnum um 15.750 krónur á mánuði árið 2021. Hvaða krafa eða hækkun var það? Ráðherra hafði áður tilkynnt nákvæmlega um þessa hækkun til þeirra er tæki gildi 1.janúar 2021. Hvað varð þá um launahækkanir og lífskjarasamninginn fyrir árið 2020? Gleymdist að þær hækkanir ættu að ná til eldri borgara, en síðasta hækkun til þeirra var 3,6% frá TR 1. janúar 2020 og miðaði þá líklega við hækkun óskiljanlegrar viðmiðunar á launum annarra árið 2018!
Greiðslur sem týnast
Greiðslur stéttarfélaga og verkalýðsfélaga til starfsmanna sinna vegna ýmissa tilgreindra útgjalda týnast, þegar þeir verða eldri borgarar og ekkert kemur þar í staðinn frá almannatryggingum eða sjúkratryggingum. Þeir fá þó í flestum tilfellum að sækja um sumarbústaði áfram, sem þeir lögðu fram framlag til að byggja. Áunninn réttur til hjálpar og styrktar fellur hins vegar niður. Hafa félögin gleymt stöðu þessa fólks, sem greiddi öll starfsár sín prósentur af launum til hinna mörgu sjóða sem félögin sjá um? Hvers vegna fær þetta fólk ekki áfram að njóta þess til hjálpar, sem það hefur alla sína starfsæfi lagt framlag til? Gleyma þeir sem ráða þessu, að þeir verða einnig eldri borgarar?
Lífeyrissjóðirnir
Það er ekki lengra síðan en árið 1969, að því kerfi var komið á að launþegar skyldu greiða 12% af launum sínum að meðtöldu mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sem launþeginn átti síðan að fá greitt úr eftir 67 ára aldur. Þeir samningar náðust í tengslum við allsherjar kjarasamninga á vinnumarkaði og kváðu fyrst á um greiðslur af dagvinnu. Í kjölfarið voru stofnaðir lífeyrissjóðir út um allt land um 100 að tölu, en þeir hafa síðan sameinast í um 8 virka sjóði af 21 sjóði. Þetta náðist fram með verkfallsbaráttu og samkomulagi við atvinnurekendur. Breytingar á fyrirkomulagi og greiðslum til sjóðanna hafa síðan aftur og aftur verið gerðar með sama hætti í kjölfar kjarabaráttu verkalýðsfélaga, s.s. að greiðsluprósenta hefur miðað við öll laun og hækkað verulega. Samsvarandi lífeyrissjóðskerfi fyrirfinnst hvergi annars staðar og má virða til þess að þetta sé viðbótarskattur á laun og þar með að Íslendingar greiði hæsta skatt í heimi af launum sínum.
Fram til ársins 1988 greiddi launþeginn skatt af þessu iðgjaldi. Það ár var lögum hins vegar breytt í þá veru að iðgjaldið var undanþegið skatti, en greiðsla sem samsvaraði skatti af iðgjaldinu var innt af hendi til lífeyrissjóðanna. Í dag er brotið á lífeyrisþega með tvennum hætti: Reikna ætti út persónulega skattgreiðslur hvers og eins til ársins1988 af launum viðkomandi og endurgreiða honum með vöxtum ef óbreyttu fyrirkomulagi er viðhaldið, að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur, því tvísköttun af sama stofni fjármagns er ólögleg. Einnig ætti að meta það hlutfall greiðslna eftir 1988 frá lífeyrissjóðunum, sem er vaxta og fjármagnstekjur, sem yrðu þá í sama hlutfalli skattlagðar með fjármagnstekjuskatti, 22%, en ekki með þriggja þrepa skattlagningu frá um 31 til 45%.
Krafa um leiðréttingu
Ef ofangreind atriði verða ekki leiðrétt af öllum þeim aðilum, sem að þessari ósangjörnu meðferð á eldri borgurum koma, hljóta eldri borgarar að fylgja fast eftir lögsókn Grá hersins og fleiri um að greiðslur frá TR verði ekki skertar á móti lífeyrissjóðsgreiðslum.
Ef það mál tapast, hljóta menn að íhuga að nota lögvarinn rétt sinn til frelsis frá félagaskyldu, þ.e.a.s. að segja sig frá þeirri skyldu að vera í verkalýðs- eða stéttarfélagi og hætta jafnframt að greiða til lífeyrissjóða. Þess í stað gæti fólk sparað á eigin ábyrgð og tekið sér lífs- og framfærslutryggingu. Á þetta myndi þá einnig þurfa að reyna fyrir öllum dómstólum innanlands og ef á reyndi, einnig erlendis, eins og virðist stefna að með áðurnefndri lögsókn.
Það er sannarlega óskiljanlegt í íslensku þjóðfélagi, að stjórnvöld skuli meðhöndla stóran hluta eldri borgara til smánar og svipta þá áunnum réttindum, sem þeir neyðast til að berjast fyrir með málsóknum, líklega erlendis einnig.
Höfundur formaður kjararáðs eldri borgara í Rangárvallasýslu.