Auglýsing

Viku fyrir jól var ákveðið, nokkuð óvænt, að endurræsa söluferli á hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka. Það var óvænt vegna þess að það geisar heimsfaraldur.

Ákvörðunin var meðal annars rökstudd með því að hlutabréfamarkaðir hafi verið að hækka, bæði hérlendis og erlendis, og sagt að það bendi til þess að nú sé góður sölutími. Þar var þó ekki horft til þess að út um allan heim er verið að prenta peninga í áður óþekktu magni til að halda kerfum gangandi á meðan að faraldurinn gengur yfir. Fyrir vikið er fátt eðlilegt við starfsemi markaða. Þeir stjórnast ekki að uppistöðu af venjulegu framboði og eftirspurn heldur litast af því að mjög ódýru fjármagni er dælt inn á þá. 

Vegna þessa hafa myndast eignabólur út um allan heim, aðallega á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum. Það er enda ekkert annað ríki í hinum vestræna heimi að standa í sölu á ríkiseignum sem stendur. 

Alþjóðlega má til að mynda benda á hækkanir á bréfum í bílaframleiðandanum Tesla sem ýkt dæmi um þessa stöðu. Þau hækkuðu um yfir 700 prósent á einu ári og á blaði er Tesla nú meira virði en Toyota, Volkswagen, General Motors, Ford, Fiat Chrysler, Nissan og Daimler til samans. Samt seldi Toyota tíu milljónir bíla í fyrra en Tesla einungis 367.500. Og hagnaður Toyota var sex sinnum meiri á þriðja ársfjórðungi síðasta árs en samanlagður hagnaður Teslu á fimm ársfjórðungum. Það er augljóslega eitthvað annað en hin ósýnilega hönd markaðarins sem stýrir svona þróun. 

Hér heima hækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 61,4 prósent frá 23. mars og til loka síðasta árs. Ekkert í undirliggjandi rekstri þeirra félaga sem mynda hana útskýrir þessa mikla hækkun. Á síðasta ári hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 7,7 prósent. Í miðri kreppu. 

Auglýsing
Líklegra er að tímabundið bann á fjárfestingu lífeyrissjóða erlendis hafi ýtt þeim út í frekari kaup á íslenskum hlutabréfum. Og að skörp lækkun á vöxtum hafi ýtt fjármagni sem hefur fengið að malla í verðtryggðum hávaxtarþægindum áratugum saman í áhættusamari fjárfestingar. Þá hafa ýmsar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ýtt undir fýsileika þess að fjárfesta í ákveðnum hlutabréfum. Gríðarlega umfangsmikil, og fjölþætt, ríkisaðstoð við Icelandair í aðdraganda hlutafjárútboðs þess félags í fyrra stendur þar upp úr. Að endingu er ekki hægt að líta framhjá því að sparnaður einstaklinga sem hafa haldið vinnu og tekjum í gegnum faraldurinn hefur stóraukist, sem eykur líkur á því að fleiri leiti færa til að finna betri ávöxtun á þann sparnað en býðst á innlánsreikningum banka. Allt ofangreint vinnur saman að því að skapa nokkurskonar þvingaða eftirspurn eftir fjárfestingu í hlutabréfum. 

Athyglisvert er að einu erlendu leikendurnir á íslenskum hlutabréfamarkaði sem máli skipta, vogunarsjóðir í eigendahópi Arion banka, hafa verið að draga hratt úr fjárfestingum sínum hérlendis. Þeir virðast ekki sjá þau tækifæri á íslenska markaðnum sem okkur er sagt að séu til staðar.

Er of mikil áhætta fyrir ríkið að eiga banka?

Önnur röksemdarfærsla sem er gefin fyrir því að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka er að því fylgi of mikil áhætta fyrir ríkið að eiga fjármálafyrirtæki og að binda fé í þeim eignarhlutum. Eignarhald íslenska ríkisins á bönkum sé hlutfallslega það hæsta í Evrópu. „Myndi ríkið eyða 300-400 milljörðum króna í að kaupa banka“ heyrist oft hjá þeim sem vilja að ríkið selja sig út úr bönkunum tveimur sem það á. 

Því fylgir vissulega áhætta að eiga banka. Sú áhætta felst aðallega í því að bankinn geti lent í rekstrarvandræðum. Ýmsar aðstæður geta skapað slík vandræði. Bankinn getur til að mynda sýnt of litla varúð og verið með of lítið eigið fé til að takast á við áföll. Lánasöfn hans geta líka súrnað vegna ytri aðstæðna, eins og kórónuveirufaraldurs, eða vegna þess að hann lánar lélegum lántökum of mikið af peningum í léleg verkefni. 

En það liggur líka fyrir, sama hver á íslensku bankana, þá er óformleg ríkisábyrgð á íslenska fjár­mála­kerf­inu. Það hefur ein­fald­lega sýnt sig að það fær ekki að falla. Síð­ast þýddi það neyð­ar­laga­setn­ingu, yfir­töku á inn­lendri starf­semi allra íslensku við­skipta­bank­anna og fjár­magns­höft. 

Auglýsing
Þegar fjár­mála­kerfið hrundi 2008 voru liðin ein­ungis rúm fimm ár frá því að það var að fullu einka­vætt. Það tók ekki lengri tíma en það fyrir íslenska banka- og við­skipta­menn að búa til vít­is­vél úr kerf­inu, þar sem örgjald­mið­ill­inn krónan varð að lyk­il­breytu. Íslensku bankarnir starfa að uppistöðu bara á Íslandi, þeir eru einu fjármálafyrirtækin í heiminum sem notast við íslenska krónu og það er búið að „þrífa“ allt kerfið með ærnum tilkostnaði eftir bankahrunið. 

Það er rétt að regluverk í kringum bankastarfsemi hérlendis hefur verið breytt verulega á síðasta rúma áratug, og girt hefur verið fyrir að margt af því sem gerðist fyrir hrun, gerist aftur. Takmörk hafa verið sett á lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum til óvarinna aðila, eiginfjárkröfur hafa verið stórauknar og hömlur voru settar á fjárfestingar erlendra aðila í skráðum skuldabréfum. Mikilvægast af öllu er svo að bönkum hefur verið meinað að lána með veði í eigin hlutabréfum og takmarkanir hafa verið settar á lánveitingar til tengdra aðila. Ef útlán fara að vaxa hratt þá getur fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans líka hækkað eiginfjárkröfur til þess að stemma stigu við óhóflegum vexti útlána.

Í ljósi reynsl­unnar má hins vegar færa sterk rök fyrir því að áhætta rík­is­ins, og sam­fé­lags­ins alls, sé mun meiri af því að einka­væða bank­anna en að gera það ekki. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, benti á þetta í nýlegri grein í Vísbendingu. Þar sagði hann: „Einkavæðing viðskiptabanka felur í sér að hvati til áhættutöku margfaldast vegna þess að í stað greiðvikni og laxveiðiferða ríkisbankastjórans kemur mikill væntanlegur hagnaður bankans þegar vel gengur sem rennur beint í vasa eigenda og stjórnenda. Þá er hætta á að of mikil áhætta sé tekin ef ábyrgð er takmörkuð.“

Þarf að selja banka til að eiga fyrir COVID-19?

Það er þekkt röktækni að tengja nauðsyn sölu á ríkiseignum við fjármögnun ákveðinna verkefna. Síminn var til að mynda einkavæddur árið 2005 með þeim rökum að þeir fjármunir sem fengust fyrir hann væru að mestu eyrnamerktir nýju hátæknisjúkrahúsi og samgönguúrbótum á borð við lagningu Sundabrautar. Þeir 67 milljarðar króna sem fengust fyrir fjarskiptafyrirtæki ríkisins fóru hins vegar ekkert í þessi verkefni, heldur voru að mestu lánaðir til Kaupþings í formi neyðarláns í hruninu, og endurheimtust síðar einungis að litlum hluta. 

Þegar bankasala rataði inn í umræðuna haustið 2019 var það með þeim formerkjum að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sáu fyrir sér að hægt yrði að fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Á mannamáli var því verið að segja að selja yrði banka til að fjármagna borgarlínu og Sundabraut. Svo þegar samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið var gerður í fyrra reyndist ekki nauðsynlegt að selja banka til að koma verkefnunum á koppinn. 

Nú þarf að selja banka til að eiga fyrir COVID-19 reikningnum. Í því samhengi ber fyrst að nefna að öll ríki heims sem geta eru að reka sig í miklum halla til að takast á við þessar aðstæður. Hér er ekki um séríslenskar aðstæður að ræða. Skuldastaða Íslands var góð þegar þessi kreppa hófst og hún verður að óbreyttu góð í öllum alþjóðlegum samanburði þegar hún verður yfirstaðin. 

Gylfi Magnússon, forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, hefur bent á að vextir af skuldum ríkisins hafi verið að lækka hratt. „Ávinningurinn af því að selja banka og greiða upp skuldirnar er því enn minni en áður. Raunar gætu arðgreiðslur sem ríkið verður af vegna sölu verið hærri en vextir sem ríkið þarf ekki að greiða ef það notar söluandvirðið til að grynnka á skuldum.“ Þessi skoðun Gylfa var síðast staðfest í síðustu viku þegar íslenska ríkið sótti sér 117 milljarða króna erlenda fjármögnum á núll prósent vöxtum, sem er nánast sama upphæð og ríkið hefur skuldbundið sig til að setja í efnahagslífið vegna kórónuveirufaraldursins. Eftirspurn eftir bréfunum sem ríkið var að selja var fjórföld. Það liggur því fyrir að Ísland er ekki í vandræðum með að verða sér úti um fjármuni. 

Auglýsing
Að endingu má benda á að ríkisstjórnin hefur ráðist í nokkuð umfangsmiklar skattalækkanir sem munu draga umtalsvert úr tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Það að ríkisstjórnin telji svigrúm til þess að gefa eftir skatttekjur gefur ekki til kynna að það þurfi sérstaklega að sækja sér pening með því að selja eignir.

Fæst rétt verð fyrir Íslandsbanka?

Þetta er flókin spurning. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði nýverið í viðtali við Morgunblaðið að hann hafi væntingar til þess að það fáist að minnsta kosti 119 milljarðar króna fyrir allan bankann. Þær væntingar gefa þá væntanlegum kaupendum væntingar um að sá sem heldur á eign ríkisins í Íslandsbanka, sem er með 183 milljarða króna í eigið fé, telji raunhæft að selja bankann fyrir ⅔ hluta af eigin fé hans. 

Bjarni hefur líka sagt að honum þyki ekki líklegt að lagt verði til að greiða út arð áður en fyrsta skrefið verði stigið til að selja hlut í Íslandsbanka. Umfram eigið fé Íslandsbanka, miðað við lágmarks eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands að viðbættum 0,5 prósent lágmarks stjórnendaauka, var 57,6 milljarðar króna í lok september síðastliðins, eða rétt tæpur þriðjungur af öllu eigin fé bankans.

Áhættan af því að lækka eigið fé bankans er tvíþætt: annars vegar gæti það lækkað söluvirði hans og hins vegar getur það dregið úr getu hans til að mæta mögulegum útlánatöpum viðskiptavina. Í níu mánaða uppgjöri bankans í fyrra kom fram að 20 prósent lána til fyrirtækja séu í frystingu vegna COVID-19 áhrifa (það er ekki verið að greiða af þeim sem stendur) eins og stendur, eða alls 120,3 milljarðar króna. Þá eru 17,5 milljarðar króna af lánum til einstaklinga í frystingu og samtals eru því útlán upp á tæplega 138 milljarða króna í þeirra stöðu að ekki er verið að greiða af þeim. 

Margir hafa hins vegar áhyggjur af því að ef bankinn er seldur troðfullur af eigin fé þá muni áhættusamir skammtímafjárfestar dragast að honum með það fyrir augum að greiða út eins mikið eigið fé og hægt er, á sem skemmstum tíma, í eigin vasa.

Fyrirmyndin af slíku fyrirkomulagi er Arion banki, þar sem það hefur verið skýrt markmið ráðandi hluthafa að greiða út tugi milljarða króna af eigin fé bankans með því að gera breytingu á fjármögnun bankans, með því að draga úr útlánum hans, með því að minnka kostnað í gegnum uppsagnir á starfsfólki, með því að hrinda í gang umfangsmikilli endurkaupaáætlun á hlutabréfum í bankanum og svo auðvitað í gegnum arðgreiðslur. COVID-19 hefur tafið það ferli, en áætlanir eigenda eru enn óbreyttar.

Svo verður auðvitað að hafa hugfast að eiginfjárkröfur til íslenskra banka eru mun hærri en víða annars staðar, um 17-18 prósent. Áður en heimsfaraldurinn skall á var haldið uppi linnulausum þrýstingi frá einkahluta fjármálageirans, og þeim fjölmiðlum sem óma skilyrðislaust vilja hans, um að lækka þessar kröfur. Það myndi losa um enn meira fé til að „tappa af“ bönkunum, og í vasa hluthafa þeirra. Enginn skal velkjast í vafa um að þessi söngur mun verða kyrjaður hátt og snjallt á ný strax og einhverskonar eðlilegt ástand næst á Íslandi. 

Hverjir eiga að kaupa Íslandsbanka?

Ef við göngum út frá því að Íslandsbanki seljist á því verði sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðrað þá ætti að fást 30 til 40 milljarðar króna fyrir þann 25 til 35 prósent hlut sem stendur til að selja í fyrsta kasti. 

Allt stefnir í að skynsamlegar takmarkanir verði settar á það hvað hver og einn má kaupa, og að það þak verði sett við 2,5 til 3,0 prósent eignarhlut. Á móti verður ríkið eigandi að 65 til 75 prósent hlut og því með alla nema einn til tvo stjórnarmenn í bankanum eftir að hlutafjárútboðið. En Bjarni Benediktsson hefur líka sagt að hann sjái fyrir sér að bankinn verði seldur að öllu leyti á næstu tveimur til þremur árum. Því eru líkindi til þess að ef hann heldur völdum eftir næstu kosningar mun annað stórt skref í sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka væntanlega vera stigið fljótlega. Þegar það skref, annað skrefið í einkavæðingunni, verður stigið þá munu skapast aðstæður fyrir hóp eigenda að mynda kjarna sem getur orðið stefnumótandi fyrir bankann. 

Auglýsing
Þess vegna skiptir gríðarlegu máli hver kaupir banka. Í Hvítbókinni um framtíð fjármálakerfisins, sem skilað var í desember 2018, sagði meðal annars: „Heil­brigt eign­ar­hald er mik­il­væg for­senda þess að banka­kerfi hald­ist traust um langa fram­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­semi banka og fjár­hags­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­tíma­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi.“

Bankasýsla ríkisins hefur útilokað að selja Íslandsbanka til erlends banka. Þar sé einfaldlega ekki áhugi. Búið er að slá niður hugmyndir um að sameina Íslandsbanka við íslenska banka. Vonandi dettur engum í hug að selja stóran hlut í banka aftur til skuldsettra eignarhaldsfélaga í eigu manna með enga getu né þekkingu á bankarekstri. Það gekk ekki vel síðast þegar bankar voru einkavæddir. 

Þá er eðlilegt að spyrja: hverjir sem uppfylla ofangreind skilyrði standa eftir, aðrir en íslenska ríkið?

Nokkuð augljóst er að ekki verður hægt að selja svona dýra eign án aðkomu lífeyrissjóða. Það er ekki vandamálalaust, þar sem að lífeyrissjóðakerfið á þegar saman stóran hlut í tveimur öðrum skráðum bönkum, Arion banka og Kviku, og allt að helming allra skráðra hlutabréfa í Kauphöll, en þau félög eru líka stórir viðskiptavinir íslenskra banka. Þá eru lífeyrissjóðir samkeppnisaðilar viðskiptabanka á húsnæðislánamarkaði. 

Það er ríkur vilji til að selja almenningi hlut í bankanum sem hann á nú þegar. Afleiðing þess er að sá hlutur verður í raun óvirkur og gerir það að verkum að þeir sem vilja verða stefnumótandi fyrir bankann geta gert það í krafti minni eignarhlutar en ella. 

Að endingu eru auðvitað nokkrir einkafjárfestar sem eiga nægt eigið fé til að kaupa stóran hlut í Íslandsbanka. Sýnilegastur þar er fámennur hópur Íslend­inga sem hefur hagn­ast á ævin­týra­legan hátt á því að fá að nýta veiði­heim­ildir sem eiga að vera sam­eign þjóð­ar­inn­ar. 

Vill eigandi Íslandsbanka í alvöru selja hann?

Ef efnahagslegu rökin fyrir því að selja banka núna eru ekki sannfærandi, líkt og fært hefur verið rök fyrir hér, og markmiðum Hvítbókarinnar um heilbrigt eignarhald verður augljóslega ekki náð, fyrir hvern er þá verið að selja Íslandsbanka?

Í könnun sem gerð var við gerð Hvítbókarinnar kom fram að 61,2 pró­sent lands­manna væri jákvæður gagn­vart því að íslenska ríkið sé eig­andi við­skipta­banka. Ein­ungis 13,5 pró­sent þeirra voru nei­kvæðir gagn­vart því og 25,2 pró­sent höfðu ekki sér­staka skoðun á því.

Í nið­ur­stöðum hennar kom líka fram að þau þrjú orð sem flestum Íslend­ingum datt í hug til að lýsa banka­­kerf­inu á Íslandi voru háir vext­ir/­­dýrt/ok­­ur, glæp­a­­starf­­sem­i/­­spill­ing og græðgi. Þar á eftir komu orð eins og van­­traust, hrun og há laun/­­bón­us­­ar/eig­in­hags­muna­­semi. Í könnun sem Gallup birti í febrúar í fyrra kom í ljós að 23 prósent landsmanna treystu Alþingi, þeirri stofnun sem á að fara með sölu Íslandsbanka. Í könnun sem hópurinn Skiltakarlarnir létu MMR gera fyrir sig nýverið kom fram að tveir af hverjum þremur aðspurðum sögðust ekki treysta Bjarna Benediktssyni til að selja Íslandsbanka. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðusamband Íslands, og birt var í síðasta mánuði, kom fram að tæp 56 pró­sent lands­manna leggj­ast gegn því að ríkið selji hlut sinn í Íslands­banka á næstu mán­uð­um. Alls 23,5 pró­sent sögðust vera fylgj­andi sölu og 20,8 pró­sent sögðust ekki hafa skoðun á mál­inu, hvorki með né á móti.

Fyrir hvern er verið að selja banka?

Í síðastnefndu könnuninni leyndist líka svarið við því hverjir það eru sem vilja selja ríkisbanka á Íslandi. Það eru kjósendur eins flokks, Sjálfstæðisflokks. Alls voru 56 prósent þeirra fylgjandi sölu en einungis 21 prósent á móti. Forsvarsmenn þess flokks gerðu kröfu um að sala á ríkisbönkum yrði hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hinir tveir stjórnarflokkarnir samþykktu, gegn því að fá í gegn mál sem þeir töldu eftirsóknarverð í huga sinna kjósenda. Nú styðja kjörnir fulltrúar Vinstri grænna og Framsóknarflokks söluferlið í þeirri vissu að það tryggi framgang annarra mála. Í tilfelli Vinstri grænna er þar um að ræða Hálendisþjóðgarð og stjórnarskrárbreytingar.

Kjósendur allra annarra flokka á Alþingi en Sjálfstæðisflokksins eru að meirihluta mótfallnir sölu. Hjá kjósendum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og flokks hennar var andstaðan 65 prósent. Meira að segja kjósendur Viðreisnar – eina flokksins utan stjórnar sem styður bankasölu – eru á móti sölunni. Einungis 13 prósent þeirra sögðust styðja hana.

Af þessari niðurstöðu má draga þá ályktun að það sé fyrst og síðast hugmyndafræðilegur vilji innan eins stjórnarflokks, sem nýtur að jafnaði 22-23 prósent stuðnings samkvæmt könnunum, sem drífur áfram sölu á ríkisbanka. Sjálfstæðisflokknum finnst einfaldlega að aðrir en ríkið eigi að eiga fjármálafyrirtæki. 

Auk þess er lítill en hávær hópur, með sálrænar og að einhverju leyti raunverulegar, rætur í Borgartúninu í Reykjavík, sem berst hart fyrir sölunni.

Sá hópur samanstendur af starfsmönnum í fjármálageiranum sem er orðinn þreyttur á að bíða eftir meiri spennu og hærri þóknunum, viðskiptafjölmiðlamönnum sem ganga í fullkomnum takti við þá og helstu hagsmunavörðum atvinnulífsins, sem virðast aðallega þjóna hluta efsta lags fjármagnseigenda í hagsmunagæslu sinni undanfarin misseri. Þessi hópur syngur einum rómi sama sönginn, og ræðst saman eins og flokkur úlfa á þá sérfræðinga sem bera fram varúðarsjónarmið með atvinnurógi, háði og níði. 

Er vilji þessa hóps nægjanlegur til að leggja af stað í einkavæðingu banka? Það er auðvitað ekkert sem segir að ríkið verði alltaf að eiga þessa banka. En það skiptir meira máli hverjir kaupa heldur en hvenær er selt og fyrir hvaða verð. Á meðan að það finnst ekki annar eigandi sem hefur reynslu af bankarekstri og langtímamarkmið sem styrkja samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði þá liggur ekkert á að selja ríkisbanka. 

Á meðan að almenningur í landinu treystir ekki fjármálakerfinu, treystir ekki þeim sem eru að fara að kaupa bankann og treystir ekki stjórnmálamönnunum sem eru að selja hann þá getur ekki verið rétti tíminn til að selja Íslandsbanka. 

En samt er verið að selja hann. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari