Símtal Davíðs og Geirs birt: Vissu að lánið fengist ekki endurgreitt

Símtal milli þáverandi seðlabankastjóra og þáverandi forsætisráðherra, sem fór fram neyðarlagadaginn 6. október 2008, hefur verið birt í heild sinni í Morgunblaðinu, sem er ritstýrt af Davíð Oddssyni.

Davíð Oddsson og Geir Haarde.
Davíð Oddsson og Geir Haarde.
Auglýsing

Morg­un­blaðið birtir í dag sím­tal milli þáver­andi for­­manns Seðla­­banka Íslands, Dav­­íðs Odds­­son­­ar, og þáver­andi for­­sæt­is­ráð­herra, Geirs H. Haarde, sem átti sér stað 6. októ­ber 2008. Í sím­tal­inu ræða þeir neyð­ar­lána­lán­veit­ingu til Kaup­þings upp á 500 millj­ónir evra, sem kost­aði íslenska skatt­greið­endur á end­anum 35 millj­arða króna í tap.

Að­ilar máls hafa hingað til ekki viljað birta sím­tal­ið, sem fór fram fyrir rúmum níu árum síðan og er um einn þýð­ing­­ar­­mesta atburð í nútíma hag­­sögu sem hefði haft í för með sér afdrifa­­ríkar afleið­ingar fyrir íslenskan almenn­ing.

Kjarn­inn mið­l­­ar, móð­­ur­­fé­lag Kjarn­ans, stefndi í síð­asta mán­uði Seðla­­banka Íslands og fór fram á að ógilt yrði með dómi sú ákvörðun bank­ans að hafna kröfu Kjarn­ans um aðgang að hljóð­­ritun og afritum af sím­tal­inu.

Birt í blað­inu sem Davíð stýrir

Davíð Odds­son er í dag rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins og þar er sím­talið birt í heild sinni. Um málið er einnig fjallað í for­síðu­frétt og þar er því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að sím­talið var tekið upp.

Auglýsing
Í vitna­­skýrslu yfir Sturlu Páls­­syni, fram­­kvæmda­­stjóra mark­aðsvið­­skipta og fjar­stýr­ingar hjá Seðla­­banka Íslands, hjá sér­­­stökum sak­­sókn­­ara árið 2012, sem fjallað var um í fjöl­miðlum fyrir um ári,  kom fram að sím­tal milli Dav­­íðs og Geirs, þar sem rætt var um lán­veit­ing­una, hafi átt sér stað klukkan 11.57 mán­u­dag­inn 6. októ­ber. Þar sagði einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var við­staddur sím­tal­ið. Við skýrslu­tök­una sagði Sturla að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóð­­rit­aður og því frekar tekið sím­talið úr síma sam­­starfs­­manns síns en úr sínum eig­in. Eng­inn annar var við­staddur sím­tal­ið.

Bjugg­ust ekki við því að fá pen­ing­anna til baka

Í sím­tal­inu rekja Davíð og Geir stöð­una eins og hún var og ræða um að það sé ein­ungis hægt að lána Kaup­þingi. Það muni þýða að bæði Lands­bank­inn og Glitnir falli nær sam­stund­is.

Davíð útskýrir fyrir Geir að ef Seðla­banki Íslands geti „skrapað saman 500 millj­ónum evra“ fyrir Kaup­þing séu þeir „komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaup­þingi í ein­hverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Lands­bank­anum líka, sko.“

Davíð spyr svo Geir hvort að hann sé að tala um að það eigi frekar að reyna að hjálpa Kaup­þingi. Geir svar­ar: „ Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gær­kvöldi alla­vega þessir Morgan menn.“

Davíð segir honum þá að hann búist ekki við því að fá pen­ing­anna til baka. „Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra fimm daga en ég held að það séu ósann­indi eða við skulum segja ósk­hyggja.“

Þeir ræða svo hinn danska FIH banka sem tek­inn var sem veð fyrir lán­inu og Davíð segir að án góðra veða myndi bank­inn aldrei lána þessa fjár­muni. Hann bætir svo við: „Við megum ekki setja íslenska ríkið á galeið­una.“

Geir svar­ar:„Nei, nei þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in.“

Þar á Geir við að þarna sé verið að eyða hinum svoköll­uðu Síma­pen­ing­um, en ríkið fékk um 67 millj­arðar króna þegar það seldi Sím­ann til Exista árið 2005. Stór hluti þeirra pen­inga, um 18 millj­arðar króna, voru eyrna­merktir nýju hátækni­sjúkra­húsi en ein­ungis brot af þeirri upp­hæð, um 700 millj­ónir króna, rataði þang­að. Þá áttu einnig að fara um 15 millj­arðar króna í sam­göngu­bætur á borð við lagn­ingu Sunda­braut­ar.

Segir fjöl­marga hafa haft sam­talið undir höndum

Davíð fjallar einnig um sím­talið í Reykja­vík­ur­bréfi Morg­un­blaðs­ins. Þar segir hann meðal ann­ars frá því að þegar fjár­laga­nefnd hafi fjallað um hugs­an­lega birt­ingu sím­tals­ins á sínum tíma, undir for­ystu Björns Vals Gísla­son­ar, þá hafi hann, fyrr­ver­andi seðla­banka­stjór­inn, aldrei verið boð­aður fyrir nefnd­ina.„ Hann var þó annar af aðeins tveimur sem örugg­lega vissi eitt­hvað um þetta sam­tal. Hvers vegna var hann aldrei boð­að­ur? Var það vegna þess að hann hefði aðeins þurft að stoppa í fimm mín­útur til að segja að sjálf­sagt væri að birta þetta sam­tal. Fjöl­margir aðilar hafa haft það undir hönd­um. Sumir í end­ur­rit­aðri hljóð­upp­töku og aðrir í upp­skrift. Það er merki­legt á tím­um, þegar svo mörgu ómerki­legu er lekið að þetta stutta sam­tal hafi ekki birst.“

Davíð segir að sam­talið sé ekki sú sprengja sem menn voru búnir að ímynda sér og að það sé aug­ljóst af því að hann hafi ekki verið með­vit­aður um að sam­talið var tekið upp. Þá hefði hann verið fág­aðri í tal­máli sínu en á einum stað í sam­tal­inu segir Davíð til að mynda að „við erum að fara alveg niður að rass­gat­i.“ „Annað sem aug­ljóst er að þarna er um fram­halds­sam­tal tveggja manna að ræða, sem þekkst hafa í ára­tugi. Það þriðja er að banka­stjór­inn hefur miklar efa­semdir um að bank­inn, sem lánið fái, sé að segja satt um það, að hann muni end­ur­greiða lánið innan nokk­urra daga. Þess vegna megi alls ekki lána honum nema mjög öruggt veð fáist (það var á end­anum alls­herj­ar­veð, sem skipti máli). Þannig veð að bank­inn og rík­is­sjóður standi óskadd­aðir eftir þótt lán­tak­and­inn svíki allt sem hann geti svik­ið.“

Sam­talið í heild sinni eins og það er birt í Morg­un­blað­inu í morg­un: 

Davíð Odds­son seðla­banka­stjóri: Halló.

Rit­ari Geirs H. Haarde for­sæt­is­ráð­herra: Gjörðu svo vel.

Dav­íð: Halló.

Geir: Sæll vertu.

Dav­íð: ­Sæll það sem ég ætl­aði að segja þér, sko, sko, við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 millj­ónir evra en nátt­úr­lega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaup­þingi í ein­hverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Lands­bank­anum líka, sko.

Geir: ­Nei.

Dav­íð: Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaup­þingi.

Geir: Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gær­kvöldi alla­vega þessir Morgan menn.

Dav­íð: Ég býst við því að við fáum ekki þessa pen­inga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra fimm daga en ég held að það séu ósann­indi eða við skulum segja ósk­hyggja.

Geir: En eru þeir ekki með ein­hver veð?

Dav­íð: Við myndum aldrei lána það og við ætlum að bjóða þetta gegn 100% veði í FIH banka.

Geir: Já.

Dav­íð: Og þá verðum við að vita að sá banki sé veð­banda­laus.

Geir: Já.

Dav­íð: Því þá við megum ekki, sko, við megum ekki setja íslenska ríkið á galeið­una.

Geir: Nei, nei þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in.

Dav­íð: Já, já ert þú ekki sam­mála því að við verðum að gera ýtr­ustu kröf­ur?

Geir: Jú, jú.

Dav­íð: Já.

Geir: Ég held að þeir muni leggja mikið á sig til að reyna samt að að upp­fylla þær, sko.

Dav­íð: Já, já, já, já það er bara eina hættan er sú að þeir séu búnir að veð­setja bréfin og þá geta þeir ekki gert þetta, sko.

Geir: Já, já og hvað myndum við koma með í stað­inn?

Dav­íð: Ja, það veit ég ekki, þá verðum við bara að horfa á það en það, við erum bara að tala um ýtr­ustu veð, erum að fara með okkur inn að beini þannig að við verðum að vera algjör­lega örugg­ir.

Geir: En er Lands­bank­inn ekki með neitt slíkt sem hann geti látið okkur hafa?

Dav­íð: Já, en þá er að við erum ekki með pen­ing í þetta. Við erum að fara alveg niður að rass­gati og við ætlum meira að segja að draga á Dan­ina sem ég tal­aði við í gær og sagði að við myndum ekki gera.

Geir: Já.

Dav­íð: En við erum búnir að tala við banka­stjór­ana þar og þeir eru að íhuga að fara yfir þetta.

Geir: Um.

Dav­íð: Það tekur tvo til þrjá daga að kom­ast í gegn.

Geir: Já.

Dav­íð: En við myndum skrapa, Kaup­þing þarf þetta í dag til að fara ekki á haus­inn.

Geir: Já, en það er spurn­ing með þá, fer þá Lands­bank­inn í dag?

Dav­íð: Já, þá myndi hann fara í dag á haus­inn vænt­an­lega.

Geir: Og Glitnir á morg­un?

Dav­íð: Og Glitnir á morg­un.

Geir: Já.

Dav­íð: Lands­bank­anum verður vænt­an­lega lokað í dag bara.

Geir: Já.

Dav­íð: Við vitum ekki, reyndar vitum við ekki hvort það er árás á Kaup­þing Edge. Við gerum ráð fyrir því þeir hafa ekki sagt okkur það enn­þá.

Geir: Er það á Ices­a­ve?

Dav­íð: Það eru farnar 380 millj­ónir út af Ices­ave punda og það eru bara 80 millj­arð­ar.

Geir: Þeir ráða aldrei við það, sko.

Dav­íð: Nei, þeir ráða aldrei við neitt af því, sko, en þetta er það besta leiðin ef við getum afskrifað allar skuldir þjóð­ar­innar þó að það muni valda vand­ræðum í Evr­ópu þá en þeir bara hjálp­uðu okkur ekki neitt þannig að það er ha...

Geir: Já, já.

Dav­íð: Þannig að þetta er nú...

Geir: Heyrðu, ég var að spá í að halda hérna fund klukkan eitt og ætl­aði að biðja þig að koma þangað annað hvort einan eða með þeim sem þú vilt hafa með með öllum for­mönnum stjórn­mála­flokk­anna.

Dav­íð: OK.

Geir: Og Fjár­mála­eft­ir­lit­inu?

Dav­íð: Já.

Geir: Til að fara yfir þetta og...

Dav­íð: En það, getur þú ekki haft það Jónas ekki Jón Sig­urðs­son það er óeðli­legt að...

Geir: Jónas, hann var hjá okkur í morg­un.

Dav­íð: Og hvað ertu að hugsa um að?

Geir: Ég myndi vilja að það yrði farið í fyrsta lagi yfir frum­varpið án þess kannski að afhenda þeim það en...

Dav­íð: En hvað mega menn vera ein­lægir?

Geir: Ég er búinn að vera mjög ein­lægur við þá.

Dav­íð: Já.

Geir: Ég er eig­in­lega búinn að segja þeim þetta allt.

Dav­íð: OK.

Geir: Ég segi bara að við erum bara hérna að tala hérna saman í fyllstu ein­lægni um alvar­leg­ustu vanda­mál sem upp hafa komið í þjóð­fé­lag­inu og ég treysti ykkur til að fara ekki með það.

Dav­íð: Já, já.

Geir: Og það hafa þeir virt held ég enn­þá.

Dav­íð: Ja, þeir hafa sagt ein­hverjum af örugg­lega en það er bara, þú getur aldrei haldið lok­inu.

Geir: Nei.

Dav­íð: Fast­ara en þetta á.

Geir: Nei, en...

Dav­íð: Klukkan eitt eða hvað?

Geir: Bara hérna hjá mér í rík­is­stjórn­ar­her­berg­inu.

Dav­íð: Hérna niðri í stjórn­ar­ráði?

Geir: Já.

Dav­íð: OK.

Geir: Spurs­málið er svo hérna...

Dav­íð: Ég kem bara einn held ég, það er betra að vera þarna fámennt en fjöl­mennt.

Geir: Já og þá myndum við fara almennt yfir heild­ar­mynd­ina.

Dav­íð: Já.

Geir: Og af hverju þessi lög eru nauð­syn­leg.

Dav­íð: Já, já.

Geir: Og svo er ég að plana það þannig að lögin verði orðin að lögum um sjöleyt­ið, mælt fyrir þeim klukkan fjög­ur, þing­flokks­fundir klukkan þrjú og það ætti að skapa okkur rými til þess að...

Dav­íð: Mælt fyrir þeim klukkan fjög­ur?

Geir: Já.

Dav­íð: OK.

Geir: Já, er það ekki rétti tím­inn?

Dav­íð: Jú, jú, jú, jú, jú, jú.

Geir: Ég er búinn að und­ir­búa það að þetta geti fengið hraða afgreiðslu og þeir...

Dav­íð: Já, já.

Geir: Hafa haft góð orð um það.

Dav­íð: Fínt er.

Geir: OK bless, bless.

Dav­íð: Bless.

Meira úr sama flokkiInnlent