Íslensk fjárfestingafélög keyptu fyrir milljarða í Arion banka í síðustu viku

Erlendir vogunarsjóðir hafa verið að minnka hlut sinn í Arion banka hratt síðustu mánuði. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa keypt stærstan hluta af þeim bréfum sem þeir hafa losað um og aðrir fagfjárfestar hafa líka bætt við sig.

Arion banki
Auglýsing

Á meðal þeirra sem keyptu hlutabréf í Arion banka af bandaríska vogunarsjóðnum Taconic Capital í síðustu viku eru íslensku fjárfestingafélögin Mótás, Hvalur, Stálskip og Sjávarsýn. Hvalur sem átti fyrir 1,5 prósent hlut, stækkaði sig upp í 2,13 prósent með því að kaupa bréf fyrir um milljarð króna. Mótás, sem nýverið keypti sig inn í Stoðir, stærsta innlenda einkafjárfestinn í Arion banka, keypti 0,6 prósent hlut fyrir tæplega 800 milljónir króna. Fjárfestingafélagið Stálskip, í eigu eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra, keypti fyrir 300 milljónir króna og Sjávarsýn, í eigu Bjarna Ármannssonar, forstjóra Iceland Seafood og fyrrverandi bankastjóra Glitnis, keypti fyrir 200 milljónir króna.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag

Mótás er í eigu Berg­þórs Jóns­sonar og Fritz Hend­riks Berndsen. Félagið keypti stærstan hluta þess 12,1 pró­senta eignarhluts Lands­bank­ans í fjár­fest­inga­fé­lag­inu Stoðum sem seldur var í des­em­ber fyrir 3,3 millj­arða króna. Það félag keypti bréf fyrir rúman millj­arð króna. Stoðir eiga 4,99 prósent hlut í Arion banka og er líka stærsti einstaki eigandi í TM og Kviku banka, sem verið er að sameina í eitt fjármálafyrirtæki. Á meðal ann­arra fjár­festa sem keyptu hlut í Stoðum af Lands­bank­anum í desember samhliða Mótás var eign­ar­halds­fé­lagið P1211 ehf., sem er í eigu Lárusar Welding, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is, og Ágústu Mar­grétar Ólafs­dótt­ur, eig­in­konu hans. Þau keyptu um eitt pró­sent hlut.

Auglýsing
Hvalur er eitt umsvifamesta fjárfestingafélag á Íslandi í dag. Félagið er að stærstum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar og fjölskyldu hans en á meðal annarra eiganda í Hvali eru félög í eigu Einars Sveinssonar, bróður hans Ingimundar Sveinssonar og sonar hans Benedikts Einarssonar. Einar er auk þess stjórnarformaður Hvals en Kristján er framkvæmdastjóri. Eigið fé Hvals var 25 milljarðar króna í lok september 2019. Auk fjárfestinga í Arion banka á Hvalur hluti í Hampiðjunni, Origo og Marel. 

Lífeyrissjóðir hafa stækkað um 60 prósent á rúmu ári

Kjarninn greindi frá því í gær í fréttaskýringu að mikið breyting hafi átt sér stað á hluthafahópi Arion banka á síðustu mánuðum. Frá því í lok september í fyrra, fyrir fjórum mánuðum síðan, hafa tveir stærstu eigendur bankans á undanförnum árum selt samtals 13,92 prósent hlut í honum. Um er að ræða vogunarsjóðina Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management. Markaðsvirði þess hlutar sem þeir hafa selt, að mestu á allra síðustu vikum, er yfir 23 milljarðar króna.  

Fleiri vogunarsjóðir, sem komu inn í eigendahóp Arion banka eftir að hafa tilheyrt kröfuhafahópi Kaupþings,hafa líka verið að selja sig niður að undanförnum. 

Innlendir fagfjárfestar hafa keypt stærstan hluta þess sem vogunarsjóðirnir hafa selt. Þeir eru að mestu íslenskir lífeyrissjóðir. Á síðustu fjórum mánuðum hafa þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) bætt við sig samanlagt 4,61 prósent hlut í Arion banka. Markaðsvirði þess hlutar í dag er um 7,7 milljarðar króna.

Fleiri lífeyrissjóðir: Stapi, Birta, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífsverk hafa allir líka bætt við sig í Arion banka á síðustu mánuðum. 

Samanlagður eignarhluti þeirra lífeyrissjóða sem birtast á lista yfir 20 stærstu eigendur bankans var 22,42 prósent í byrjun síðasta árs. Í lok september 2020 hafði hann aukist í 29,17 prósent og síðustu fjóra mánuði hefur hann farið upp í 36,29 prósent. Á rúmu ári hefur hlutur sjóðanna því stækkað um rúmlega 60 prósent. Það þýðir að fjárfesting þeirra átta lífeyrissjóða sem eru á meðal 20 stærstu hluthafa í Arion banka er nú um 60 milljarða króna virði. 

Bankar taka meira

Þorri þess sem út af stendur hefur verið keypt af sjóð- og eignastýringarfyrirtækjum banka eða einfaldlega í nafni annarra banka.

Sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringarfyrirtæki Arion banka, hafa aukið verulega við hlut sinn í móðurbankanum. Þeir áttu 1,7 prósent hlut í honum í septemberlok en eiga nú 2,55 prósent. Sjóðir innan Kviku eignastýringar hafa einnig bætt vel við sig. Þeir áttu 0,72 prósent hlut fyrir fjórum mánuðum en fara nú með 2,55 prósent hlut. Vert er að taka fram að lífeyrissjóðir eru að jafnaði á meðal stærstu fjárfesta í þeim sjóðum sem sjóðstýringarfyrirtækin stýra. Þeir eiga því óbeint viðbótarhlut í gegnum hlutdeildarskírteini sín í þessum sjóðum. 

Þá hafa eignarhlutir sem skráðir eru í eigu hinna þriggja bankanna á íslenska markaðnum líka aukist. Þar er í flestum tilvikum líklegast um að ræða framvirka samninga sem þeir hafa gert við viðskiptavini sína, en ekki viðskipti fyrir eigin bók. Eitthvað er þó hluti af veltubók bankanna. 

Kvika er nú skráður með 1,68 prósent hlut í Arion banka, Íslandsbanki með 1,44 prósent hlut og Landsbankinn með 1,09 prósent hlut. 

Það sem upp á vantar var svo keypt af áðurnefndum einkafjárfestum, samkvæmt gögnum sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent