Ef kunningi minn lánar mér húsið sitt og leyfir mér að búa þar endurgjaldslaust má ég að sjálfsögðu hvorki veðsetja það né selja. Og þegar ég er hættur að búa í því skila ég því til eigandans.
Þegar hið opinbera (úthlutar) lánar útgerðarfyrirtæki fiskveiðikvóta má útgerðin veðsetja hann fyrir bankaláni. Og ef hún vill ekki (eða getur ekki) nýtt hann má hún selja hann, kvótann, gjafakvótann. Og stinga andvirðinu í vasann; vasa skráðra eigenda útgerðarinnar. Þetta er svona, og farið eftir einhverri lögleysu sem látin er viðgangast. Og viðurkennt sem lögleg gjörð.
Á föstudaginn var festi Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum kaup á útgerðarfélaginu Hugin ehf. þar í bæ. Samkvæmt Mbl.is fylgdi fjölveiðiskipið Huginn VE-55 ásamt aflaheimildum. Stundin sagði frá því að Huginn ætti „tæplega 1,4 prósent loðnukvótans, 4,2 prósent loðmunnakvótans og rúm 4.6 prósent norsk-íslenska síldarkvótans við Íslandsstrendur og 2.2 prósent síldarkvótans“. Samkvæmt tölum Fiskistofu fékk Huginn á núverandi fiskveiðiári úthlutaðar 634 lestir eða 2,22% af aflamarki í síld, 266 lestir eða 1,4% af aflamarki í loðnu, 7.742 lestir eða 4,21% af aflamarki í kolmunna og 5.182 lestir eða 4,65% af aflamarki í norsk-íslenskri síld."
Í tilkynningu frá Vinnslustöðinni segir að kaupverðið sé trúnaðarmál kaupenda og seljenda. Þann 2. febrúar hefur Stundin eftir eftir framkvæmdastjórna Hugins: „Kaupverð er aldrei gefið upp í svona viðskiptum. Menn geta kannski reynt að fiska það upp úr ársreikningum þegar þeir koma.“
Að selja það sem maður ekki á gengur þvert á það sem kalla má gott siðferði. Huginn átti ekki kvótann sem hann seldi. Hann var með hann í láni. Hann er þjóðareign. Sjálfsagt hefur Huginn keypt kvóta af öðrum útgerðum á liðnum árum og greitt fyrir með peningum eða ígildi þeirra. Sá eða þeir sem seldu Huginn þann kvóta voru líka með hann að láni; Þeir áttu hann ekki.
Og leyfist þá fáfróðum ekki að spyrja: Heimila lögin að seldur sé lánskvóti? Leyfa þau hverjum, sem hefur að láni einhverja þjóðareign, að selja hana? Mega bændur, leiguliðar ríkisjarða, selja þær og eigna sér það sem fyrir þær fæst? Má selja Þingvelli?
Margir þingmenn tala mikið og telja sig hafa vit á því hvernig stjórnarskráin skuli hljóða og um hvað hún eigi að fjalla. Engan þeirra hef ég heyrt ræða um veðsetningu og sölu á gjafakvóta. Hvað þá að einhver þeirra hafi lýst vilja til þess að stoppa þá lögleysu sem fram fer. Ef ekki í stjórnarskrá þá til dæmis með svo einföldu lagaboði, að útgerðir skili þeim kvóta sem þær hafa fengið að láni, þegar um þær selja sín fiskiskip.
Enn situr síðasta þingi fyrir alþingiskosningar og fyrir dyrum atkvæðaveiðar og endurkjör.