Sundabraut hefur aftur skotið upp kollinum og nú á bara að drífa í þessu og „við þurfum ekki að skrifa fleiri skýrslur“ eins og samgönguráðherra Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði. Það er dálítið undarlegt fyrir þá sem söguna þekkja. Frá 2008 hafa verið aðeins skrifaðar tvær, mér vitanlega, og báðar að undirlagi ráðherrans. Ég sat í samráðshópi um Sundabraut á árunum 2005-2008 fyrir Íbúasamtök Laugardals, en þá stóð til að leggja brú við ósa Elliðaáa úr Grafarvogi og inn á Skeiðarvog. Talað var um að brúin sú myndi anna tugþúsundum bíla á dag. Íbúar beggja vegna vogsins voru lítið hrifnir af þeim áformum og úr varð að borgin setti saman samráðshóp með íbúum, borginni og Vegagerðinni. Íbúar stungu upp á að skoða gangakostinn til að leysa málið og var það gert. Hann var vissulega dýrari en brúin, en þá var ekki reiknaður sá kostnaður sem mengun þúsunda bíla á dag í gegnum skólahverfi ylli og lífsgæðataps íbúa vegna þess.
Eftir marga fundi komst borgin að þeirri niðurstöðu þvert á alla flokka í borgarstjórn að Sundabraut skyldi vera í göngum. Það var því og er opinber afstaða borgarinnar til málsins eins og borgarstjóri hefur réttilega bent á. Vegagerðin var enn á móti því og greip til ýmissa talnakúnsta til að eyðileggja þann kost. Það er því ekki að ástæðulausu sem að traust íbúa til þessa ríkisapparats er ekki mikið. En svo kom hrunið og málið datt út af borðinu, peningarnir voru komnir upp í „peningahimnaríki“ og ekkert til í brú eða göng.
Það er síðan 2019 að skrifuð er skýrsla um Sundabraut, sú fyrri af tveimur hinum nýjustu. Starfshópurinn sem hana skrifaði reiknaði göngin reyndar óvenju dýr, eða upp á 74 milljarða króna, en komst samt að eftirfarandi niðurstöðu: „Starfshópurinn telur að miðað við gildandi skipulag, stefnu stjórnvalda og framtíðaráform Faxaflóahafna og skipafélaganna hvað varðar hafnarsvæðið sé í raun aðeins einn raunhæfur möguleiki fyrir útfærslu Sundabrautar þvert yfir Kleppsvík, jarðgöng.“ Ráðherrann lýsti samt vilja sínum til að byggja brú og skipaði annan starfshóp strax í febrúar á síðasta ári til að sinna „frekari greiningarvinnu“. Pólitískur vilji ráðherrans var samt sem áður augljós frá upphafi og túlkun hans á nýju niðurstöðunum í samræmi við það. Hann telur brúna hagkvæmari þar sem hún er ódýrari. Samkvæmt skýrslunni eiga göngin að kosta 58 milljarða með öllum tengingum og brúin á að kosta 44 milljarða með tengingum, en þó ekki öllum.
Því við lestur skýrslunnar vakna ýmsar spurningar. Sú fyrsta snýr vitaskuld að vegtengingum við íbúahverfin. Gert er ráð fyrir mislægum gatnamótum við Hallsveg og verður fróðlegt að sjá viðbrögð íbúa Grafarvogs við slíkjum mannvirkjum í túnfætinum hjá þeim. Sunnan megin á brúin að koma inn á Holtaveg og gatnamótin við Sæbraut verða í „plani“, þ.e. svipuð og þau eru núna og hægt verður að aka áfram Holtaveginn inn á Langholtsveg og síðan niður Álfheima ef að líkum lætur. Gert er ráð fyrir að um 32 þúsund ökutæki fari um brúna á sólarhring árið 2030 og 47 þúsund bílar árið 2050 og það gefur auga leið að margir þessara bíla aka áfram í gegnum hverfið, t.d. ef fólk er á leið niður í Skeifuna. Sama á við um akstur í hina áttina. Einnig á umferðin á Sæbrautinni eftir að aukast og þá reyna vafalaust margir að stytta sér leið í gegnum hverfið fremur en að bíða í bílaröðunum á annatímum. Nú segðu verkfræðingar líkast til að gripið yrði til „mótvægisaðgerða“ en einhverra hluta vegna er þeirra lítt getið í kostnaðaráætlun.
En það er fleira sem virðist vera utan „kostnaðaráætlunar“. Vegna þess að brúin hefur umtalsverð áhrif á starfsemi Sundahafnar verður að grípa til „mótvægisaðgerða“ þar og þær kosta mikið, marga milljarða, raunar. Í umfjöllun Spegilsins kom fram þær kosti mikla peninga, að minnsta kosti 2 milljarða til þess eins að stækka viðlegukantinn í höfninni, en þar kemur einnig fram í viðtali við fulltrúa Vegagerðarinnar að brúin kalli á nýja hafnartengingu, veg frá Sæbraut niður á höfnina, fyrir flutningabílana til og frá. Þessi tenging virðist ekki vera í kostnaðaráætlunum og vekur það furðu ef rétt er, því þetta er áreiðanlega beinn kostnaður vegna brúarinnar.
Verðmunurinn á verkefnunum virðist minnka talsvert við þetta og það má vel spyrja sig hvort það sé ekki fremur bitamunur en fjár. Það má líka minna á, að ólíkt flestum jarðgöngum á Íslandi yrðu þessi jarðgöng arðbær áður en langt um liði, eins og sást best með Hvalfjarðargöngum. En mikilvægasta atriðið er að með göngum verða þúsundir íbúa í hverfunum ekki útsettar fyrir gífurlegri bílaumferð og mengun, bæði úr útblæstri og nagladekkjum og það er hægt að reikna það til mikils fjár í lífsgæðum og hreinlega verði fasteigna íbúanna. Stærsta spurningin er samt hvers vegna ráðherrann leggur svona mikla áherslu á þessa brú, þegar löngu var búið að samþykkja og sættast á að göng væru sú leið sem best væri fyrir íbúana. Þá hefði ekki þurft að skrifa þessa nýjustu skýrslu og drífa bara í þessu.
Höfundur er prófessor í þýðingarfræði við Haskóla Íslands.