1. Er Ísland fullvalda ríki?
Samkvæmt stjórnarskránni, já. Ísland telst hafa sitt eigið löggjafar-,framkvæmda - og dómsvald. Erum við ekki þar með fullvalda ríki innan eigin landamæra og lögsögu? Jú, formlega er það svo. En erum við – og fjöldi annarra smáþjóða innan alþjóðasamfélagsins – fullvalda í reynd? Sagan kennir okkur, að fullveldi smáþjóða Evrópu reyndist haldlítið, þegar á reyndi í hildarleik Seinni heimsstyrjaldar.
Íslendingar hafa þá sérstöðu meðal þjóða að vera herlaus þjóð. Við getum ekki af eigin rammleik varið fullveldið, ef á það er ráðist. Við höfum, eins og margar aðrar smáþjóðir, valið þann kost að ganga í fjölþjóðasamtök, sem ábyrgjast varnir landsins, ef á það er ráðist. Það heitir NATO. Og til öryggis höfum við samið við Bandaríkin um verktöku við varnir landsins, f.h. NATO. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er enn í gildi. Óljósar fregnir hafa borist af því, að ríkisstjórn Íslands, undir forystu Vinstri-grænna, sé að heimila meiri háttar framkvæmdir, til að efla varnarviðbúnað í nafni þessa varnarsamstarfs.
2. Fullveldið – styrking eða veiking?
Íslendingar eiga lífskjör sín undir milliríkjaverslun. Útflutningur okkar er tiltölulega einsleitur, og lífskjör okkar - einhver hin bestu í heimi – byggja á innflutningi. Til þess að þetta gangi upp þurfum við samninga um markaðsaðgang í útlöndum á samkeppnishæfum kjörum. Til þess gerðum við EES-samninginn á sínum tíma (1989-1994). Þessi samningur hefur síðan verið burðarás og lyftistöng íslensks efnahagslífs. Eftir langvarandi kreppu og samdrátt í þjóðarframleiðslu á árunum 1988-94 hófst nýtt vaxtarskeið, sem skapaði skilyrði fyrir aukinni fjölbreytni í efnahagslífinu og byggði á hindrunarlausum aðgangi að stærsta fríverlunarmarkaði heims. Var það á kostnað fullveldisins, eða styrkti það fullveldið?
Var Hrunið kannski afleiðing af opnun hagkerfisins og frjálsu flæði fjármagns? Sumir héldu því fram –eftir á að hyggja – að frjálst flæði fjármagns skv. EES-samningnum hefði verið megin orsakavaldur Hrunsins. En þegar á það var bent, að Noregur innleiddi sömu lög og reglur og gilda um innri markað ESB, án þess að það hefði valdið hruni norsks efnahagslífs, þögnuðu þær raddir.
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum Hrunsins, staðfesti þá niðurstöðu. Þótt smitberi Hrunsins hafi verið gjaldþrot bandarískra fjármálastofnana, sem barst þaðan um alþjóðavætt heimshagkerfi, voru ástæður þess, hversu hart Ísland var leikið af völdum Hrunsins af innlendum rótum runnið. Þar var um að kenna andvaraleysi og vanrækslu ríkisstjórna, eftirlitsstofnana (Seðlabanka og fjármálaeftirlits) og stjórnsýslu, eins og þar er rakið í níu bindum.
3. Þjóðríkið og hnattvæðingin
En hnattvæðing heimshagkerfisins á undanförnum áratugum hafði veikt varnargetu þjóðríkisins frammi fyrir ofvexti alþjóðlegs fjármálakerfis, sem hafði vaxið raunhagkerfinu yfir höfuð, og enn hefur ekki verið ráðin bót á. Hættan er því viðvarandi. En hefur ekki reynslan sýnt, að EES-samningurinn brýtur í bága við fullveldi Íslands, eins og það er skilgreint í Stjórnarskrá ríkisins?
Fremstu lögfræðingar þjóðarinnar komust á sínum tíma að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki. Meginástæðan var – og er – sú, að skv. samingnum hefur Ísland óvéfengjanlegan rétt til að hafna innleiðingu löggjafar ESB á sviði innri markaðarins, ef sú löggjöf á ekki við á Íslandi, eða samrýmist ekki íslenskum þjóðarhagsmunum.
Þetta er samningsatriði skv. mörgum fordæmum. Sem dæmi um slíkt má nefna löggjöf ESB um járnbrautir og skipaskurði, sem af augljósum ástæðum eiga ekki við á Íslandi. Sama máli gegnir um sameiginlegan orkumarkað ESB, sem var utan innri markaðarins, þegar EES-samingurinn gekk í gildi 1994. Ísland hefur engin tengsl við orkumarkað ESB og samningsbundinn rétt til að standa utan hans.
EES-samningurinn stendur því ekki í vegi fyrir því, að Íslendingar móti sér sína eigin auðlindastefnu, sem kveði á um, að framleiðsla og dreifing orku sé skilgreind sem samfélagsþjónusta og verði ekki einkavædd samkvæmt fyrirmælum frá Brussel.
Vilji menn hins vegar af einhverjum öðrum ástæðum segja upp EES-samningnum, sem Íslandi hefur svo sannarlega reynst vera happafengur, stendur upp á þá hina sömu að segja þjóðinni, hvað eigi að koma í staðinn. Við skulum ekki rasa um ráð fram.
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, flokks íslenskra jafnaðarmanna.