Eftir að hafa verið á vinnumarkaði frá 1980 og tekið þátt í þeim efnahagslega óstöðugleika og áföllum sem komið hafa upp á þeim tíma, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort ekki sé til önnur leið og eða hvað veldur þessari óáran endalaust í efnahagsmálum á Íslandi? Mismunandi skýringar hafa verið settar fram þegar gjaldmiðilinn hefur tekið dýfur, til að réttlæta tilvist hans, eftir því hvað hefur hentað.
Ég er kominn að þeirri einföldu niðurstöðu að það sé gjaldmiðillinn okkar íslenska krónan sem hefur verið örlagavaldurinn allan þennan tíma. Að mínu viti er búið að fullreyna allar hugmyndir sem mönnum hafa dottið í hug til að halda stöðugleika á gjaldmiðlinum. Þessu hefur fylgt ótrúlegt verðbólgu- og vaxta umhverfi. Ef litið er til baka og tölur um verðbólgu og vaxtastig skoðaðar er ótrúlegt að hafa komist í gegnum þetta tiltölulega óskaddaður, það er mitt lán. Það hefur því miður ekki verið allra, margar fjölskyldur og einstaklingar hafa lent í miklum hremmingum og jafnvel tapað aleigunni. Stór hluti þeirra sem átt hafa við mesta vandann að etja í samfélaginu eru einmitt fórnarlömb óstöðugleika í efnahagsmálum á misjöfnum tíma. Jafnvel fólk sem er að fara á eftirlaun eftir ævistritið er skuldum vafið og hefur áhyggjur af sinni framtíð. Fólk sem er búið að færa ótrúlega miklar fórnir fyrir þröngan hagsmunahóp sem vill halda í gjaldmiðilinn. Meðan hagsmunahópurinn hefur krónuhagkerfi sitt í fákeppni er lífið afslappað hjá þeim.
Stöðugleiki er verðmæti
Erum við meðvituð um hvað krónan hefur og er að kosta okkur?
Þessa fjármuni gætum við notað í fjársvelt velferðar- og heilbrigðiskerfið.
Hvers vegna höfum við ekki viljað komast í efnahagslegan stöðugleika, með stöðugan gjaldmiðil, varanlega lága vexti, stöðugan kaupmátt og heilbrigða samkeppni?
Hér á undan er stiklað á stóru, á þessu tímabili frá því ég kom á vinnumarkaðinn og reyndar áratugina þar á undan hafa átt sér stað miklar efnahaglegar sveiflur sem hafa verið launafólki mjög erfiðar og kostnaðarsamar. Við erum reglulega að vinna okkur upp úr efnahagslægðum sem krónan hefur valdið eða magnað upp. Það eru óvissutímar framundan og ef illa fer munum við upplifa sömu afleiðingarnar og oft áður. Krónan gefur eftir, við það kemur verðbólguskot, kaupmáttarrýrnun og vextir æða upp.
Þess á milli getur krónan orðið of sterk og valdið miklum erfiðleikum hjá útflutningsatvinnugreinunum.
Búum til betri framtíð
Í þessum hugleiðingum mínum kemur upp í huga minn hvort þetta þurfi virkilega að vera svona áfram, að börnin mín og barnabörn verði að fara í gegnum sama óstöðugleikann í efnahagsmálum og ég hef þurft að lifa með frá 1980.
Svarið er einfalt, það er NEI.
Ef litið er til baka þá hafa menn verið að halda sömu ræðurnar um sömu vandamálin með reglulegu millibili og ekkert hefur breyst.
Aukum jöfnuð í samfélaginu
Samhliða þeim varanlegu lausnum sem við veljum til að koma á efnahagslegum stöðugleika, þarf samfélagssáttmála þvert á pólitíska flokka til að koma á félagslegum stöðugleika. Allir verða að axla ábyrgð á verkefninu óháð ríkisstjórnum sem koma og fara. Þannig værum við að tryggja stöðu þeirra sem lökustu kjörin hafa og um leið er kominn grunnur fyrir vinnumarkaðsmódel sem tryggt getur meiri frið á vinnumarkaði. Eftir á að hyggja var þetta mikilvæga atriði það sem vantaði inn í vinnuna sem lagt var af stað með nýju vinnumarkaðsmódeli sem fékk nafnið SALEK. Þá var það pólitíkin sem var ekki tilbúin að axla ábyrgð á þeim félagslega stöðugleika sem þannig vinnumarkaðsmódel verður að hafa sem öryggisventil. Að þeir sem lökustu kjörin hafa geti alið börnin sín upp í öruggu húsnæði og framfleytt sér og sínum með sjálfsvirðinguna í lagi. Allir þeir sáttmálar og samningar um félagslegar lausnir sem gerðir hafa verið við gerð kjarasamninga hafa ítrekað ekki gengið eftir eða lausnirnar ekki virkað. Það byggir enginn upp félagslegan stöðugleika með plástralækningum við gerð kjarasamninga í verkföllum.
Þetta verður að vera gert heildstætt, með framtíðarsýn og byggt upp á traustum grunni.
Við þurfum ekki að finna upp hjólið, við getum sótt fyrirmyndirnar til annarra þjóða sem hafa byggt upp svona kerfi, það er okkar að velja það besta. Til þess að koma svona verkefni í framkvæmd þarf samtal og þeir sem vilja koma að þessu þurfa að axla ábyrgð, en ekki vera alltaf á móti og hafa engar lausnir. Hugsanlega eigum við fyrir þessu ef skipt verður um gjaldmiðil, kostnaðurinn vegna krónunnar er mikill, ótrúlegar upphæðir í milljörðum hafa verið nefndar hvað hún kostar okkur.
Grunnurinn að félagslegum stöðugleika er öflugt atvinnulíf og friður á vinnumarkaði. Við séum meðvituð um hvað er til skiptanna við gerð kjarasamninga og þeir sem betur hafi það séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að fjármagna verkefnið.
Það heitir að auka jöfnuð í samfélaginu!
Þurfum nýjan drifkraft í stjórnmálin
Til að koma þessu á, þarf nýtt afl inn í íslensk stjórnmál til að leiða breytingarnar, afl sem er tilbúið er að fara nýjar leiðir, hefur hugmyndafræðina og kjarkinn til að koma þessu á. Eru gömlu flokkarnir ekki fullreyndir jafnvel þó þeir beri fyrir sig félagshyggju og jöfnuð?
Flokkarnir hafa einangrað sig frá almenningi í landinu og eru ekki að svara þeim kröfum sem kallað er eftir varðandi breytingar á flestum sviðum. Það þarf að hlusta á kröfur frá samtökum launamanna, en þær þurfa líka að vera raunsæjar og ábyrgar.
Til að byggja upp aukin jöfnuð í þessu litla samfélagi okkar þá verða þessar tvær forsendur að vera til staðar svo stöðugleiki komist á og allir fái að njóta þess sem þetta auðuga land býður upp á, en ekki bara sumir.
Höfundur er vélfræðingur.