Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittast á sameiginlegum fundi í dag. Fjarfundur þeirra er kjörið tækifæri til að ræða möguleika á auknu norrænu rannsóknasamstarfi á umbreytingatímum. Óvæntir og nánast ófyrirsjáanlegir atburðir hafa kollvarpað hugmyndum okkar um heiminn að undanförnu. Þar má nefna breyttar áherslur í Evrópusamvinnu, stöðu lýðræðis í heiminum, vaxandi áhrif Kína, ógnandi tilburðir Rússlands, áhrif loftslagsbreytinga á heimsbyggðina og síðast en ekki síst þær fordæmalausu áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum. Nýafstaðin valdaskipti í Bandaríkjunum boða líka breytta tíma í alþjóðasamvinnu. Allir þessir þættir gera það að verkum að við stöndum nú frammi fyrir breyttri heimsmynd.
Við þurfum að hafa réttu verkfærin til að dýpka skilning okkar svo að við getum tekist á við þessar breytingar á alþjóðavettvangi og mætt áskorunum framtíðar. Það er mikilvægt fyrir okkur Norðurlandabúa að vinna saman og nauðsynlegt að byggja upp öflugt rannsóknaumhverfi þar sem lögð er áhersla á að greina utanríkis - og alþjóðamál. Slík þekking er mikilvæg til að við getum tekist á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á farsælan hátt.
Óháðar og vandaðar rannsóknir á alþjóðasamskiptum eru mikilvægar fyrir okkar norrænu lýðræðissamfélög. Fræðimenn á sviði alþjóðasamskipta og utanríkismála leggja sitt af mörkum til opinberrar stefnumótunar og umræðu með því að greina og rannsaka mikilvæg alþjóðleg málefni sem hafa áhrif á samfélög okkar. Norrænu alþjóðamálastofnanirnar fimm sem við undirrituð veitum forstöðu leggja áherslu á hágæða rannsóknir. Stofnanirnar vinna nú þegar töluvert saman að ýmsum verkefnum, þar á meðal samstarf sem felur í sér fræðimannaskipti, en það verkefni hefur gefið góða raun. Verkefnið hefur verið styrkt af Norrænu ráðherranefndinni en lýkur í ágúst á þessu ári.
Í nýlegri skýrslu Björns Bjarnasonar, sem norrænu utanríkisráðherrarnir fólu honum að skrifa á síðasta ári, voru möguleikarnir á auknu norrænu samstarfi á ýmsum sviðum kannaðir. Í skýrslunni voru lagðar til fjölmargar nýjar aðgerðir til að efla enn frekar norrænt samstarf. Einnig var lögð áhersla á að auka ætti rannsóknasamstarf milli norrænna alþjóðamálastofnana. Björn lagði meðal annars til í skýrslunni að stofnuð yrði og fjármögnuð sérstök rannsóknaráætlun á sviði alþjóðamála innan NordForsk til að efla verulega norrænar rannsóknir sem ætlað er að greina alþjóðlegar áskoranir samtímans. Slík áætlun ætti að ná til Norðurlandanna fimm með áætlaðri fjármögnun upp á tíu milljónir danskra króna á ári yfir fimm ára tímabil.
Við styðjum tillögur Björns Bjarnasonar heilshugar og erum sammála því að það felist tækifæri í því að þróa norræna samvinnu enn frekar á þessu sviði.
Við hvetjum því stjórnvöld til að íhuga vel þessar fastmótuðu tillögur sem koma fram í skýrslunni um aukið norrænt rannsóknasamstarf á sviði alþjóðasamskipta.
Við erum staðráðin í að halda áfram að efla norrænt rannsóknasamstarf á þessu sviði og viljum vekja athygli á nokkrum málaflokkum sem mikilvægt er að rannsaka frekar, svo sem:
- Að greina breytingar á viðhorfum almennings til „öryggis“ í tímans rás á Norðurlöndum
- Að þróa víðtækara og kerfisbundnara mat öryggismála á Norðurlöndum og greina mögulegan umræðugrundvöll í samskiptum við Rússland
- Að kanna hvaða hlutverk norrænu ríkin geta gegnt sem hreyfiafl til breytinga í Evrópu og í heiminum auk þess að greina ákjósanlegar leiðir fyrir Norðurlöndin að samstarfi við Kína og Bandaríkin á tímum aukinnar pólitískrar samkeppni
- Að kanna möguleikana á frekara varnar- og öryggismálasamstarfi milli Norðurlandanna (NORDEFCO),
- Að greina svæðisbundið samstarf Norðurlandanna um varnar- og öryggismál í ljósi aukins áhuga stórvelda á svæðinu
Fjármögnun rannsókna á þessu sviði ásamt uppbyggingu nánara samstarfs milli fræðimanna á Norðurlöndunum gæti til dæmis leitt til frekara samstarfs í formi sameiginlegrar rafrænnar stofnunar um alþjóðamál á Norðurlöndunum (e. Virtual Nordic Institute). Til að viðhalda stöðu Norðurlandanna sem virkum og ábyrgum ríkjum á umbrotatímum er nauðsynlegt að rækta fjölbreytt norrænt rannsóknasamstarf og stuðla þannig að framúrskarandi rannsóknum og umræðu á sviði alþjóða- og utanríkismála.
Höfundar eru:
Christer Ahlström, forstöðumaður Sænsku alþjóðamálastofnunarinnar (Utrikespolitiska Institutet, UI)
Kristian Fischer, forstöðumaður Dönsku alþjóðamálastofnunarinnar (Dansk Institut for Internationale Studier, DIIS)
Mika Aaltola, forstöðumaður Finnsku alþjóðamálastofnunarinnar (Ulkopoliittinen Instituutti, FIIA)
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands (IIA)
Ulf Sverdrup, forstöðumaður, Norsku alþjóðamálastofnunarinnar (Norsk Utenrikspolitisk Institutt, NUPI)