Engin atvinnugrein á Íslandi nýtur eins víðtækrar og altækrar fyrirgreiðslu hins opinbera og landbúnaðurinn. Umfang fyrirgreiðslunnar er svo víðtækt að erfitt er að safna saman tölum og ná utan um heildina! Landbúnaðarráðherra upplýsti Jón Steindór Valdimarsson, þingmann Viðreisnar um það á Alþingi 2019-2020 að árið 2019 hafi beingreiðslur og aðrar greiðslur til sauðfjárbænda numið tæpum 5 milljörðum króna, sjá hér. Beingreiðslur og aðrar greiðslur til mjólkurframleiðenda námu 6,6 milljörðum króna sama ár. Er þá ekki allt talið.
OECD metur heildarstuðning við íslenskan landbúnað til 27,4 milljarða króna þetta sama ár. Að mati OECD eru 16 milljarðar króna tæpar í formi tilfærslna frá skattgreiðendum (beingreiðslurnar sem að ofan eru taldar og margháttaður annar stuðningur ríkisins við greinina, t.d. afleysingaþjónusta bænda. Árið 2019 var framlag ríkisins til kynbótastarfs tæpir 2 milljarðar króna!). Tæpir 13 milljarðar króna eru tilfærslur frá neytendum í formi svokallaðs „markaðsstuðnings“, en það er sá stuðningur sem felst í að innlendir neytendur borga landbúnaðarvörur hærra verði vegna tollverndar en eðlilegt getur talist (sjá hér).
Þannig er tæpur þriðjungur tilfærslna til bænda í formi beingreiðslna, enda beinast þær fyrst og fremst að hefðbundnu greinunum mjólk og sauðfé. En hinar „óhefðbundnu“ greinar, svínakjötsframleiðsla og egg og kjúklingar njóta umtalsverðs markaðsstuðnings. Tekjur svínabænda myndu næstum helmingast væri stuðningnum svift brott og innflutningsverndin afnumin. Tekjur af sölu eggja og kjúklinga myndu minnka um heil 75%. Tölur OECD sýna mun skýrar en tölur úr fjárlagafrumvarpi hversu kostnaðarsöm landbúnaðarframleiðslan er þjóðarbúinu.
Árið 2019 nam verðmæti framleiðslu landbúnaðarvara að frádregnum kostnaði við aðföng (olíu á traktora, rúlluplast, lyf, áburður o.s.frv.) umfram tekjur án framleiðslustyrkja 1,5 milljarði króna. Laun og launatengd gjöld vegna aðkeypts vinnuafls námu 6,8 milljörðum. Það gengur til 1.800 aðila sem vinna samtals 1,8 milljón vinnustunda. Fjármagnskostnaður 4,6 milljörðum, greiðslur vegna leigu á landi 0,2 milljörðum króna. Tap áður en tekið er tillit til framleiðslustyrkja og reiknaðs endurgjalds nemur 10 milljörðum króna. Ríkissjóður leggur framleiðendum til 12,6 milljarða. Þannig verður til 2,6 milljarða „hagnaður“ sem í raun eru vinnulaun sjálfstætt starfandi í landbúnaði, þ.e.a.s. þeirra sem í daglegu tali eru taldir bændur. Þeir voru 2.200 árið 2019 í 1.700 „stöðugildum“ og unnu 1,8 milljónir vinnustunda samtals. Þjóðhagslegt tap á vinnustund nam 2.759 krónum! Framlag ríkissjóðs nam 3.468 krónum á hverja vinnustund. Framlag ríkissjóð á stöðugildi í landbúnaði nam 3,8 milljónum króna árið 2019. Þá er ótalið framlag neytenda. Eins og fyrr segir metur OECD það svo að innflutningsverndin hafi hækkað tekjur bænda um 13 milljarða króna á árinu 2019. Reiknað á „stöðugildi“ nemur þessi stuðningur 4,1 milljónum króna. Beinn og óbeinn stuðningur á ársverk í landbúnaði nemur þannig tæpum 8 milljónum króna á ári eða 666.666 krónur á mánuði með launatengdum gjöldum.
Neytendur og skattgreiðendur leggja sameiginlega um 8 milljónir króna með hverju ársverki í landbúnaði. Tekjur sem lenda í höndum starfsfólksins í landbúnaði (launatengd gjöld meðtalin) eru 2,8 milljónir króna. Já, þú lest rétt lesandi góður. Skattgreiðendur og neytendur borga 5 milljónir árlega á stöðugildi í landbúnaði sem ekki skilar sér sem tekjur til bænda og búaliðs. Hvernig stendur á því? Ástæðan er að í skjóli innflutningstakmarkana og ofurtolla þrífst umfangsmikill rekstur sem yrði rekinn með dúndrandi tapi ef aðstæður og starfsrammi landbúnaður væri með sama hætti og í öðrum atvinnurekstri. Smjörið sem gæti dropið af hverju strái fer illilega til spillis!
Höfundur er prófessor í hagfræði.