Núna í lok janúar birtist á heimasíðu Viðskiptaráðs athyglisverð samantekt um verðlag og kaupmátt hér á landi og í mörgum Evrópulöndum. Umfjöllunin er byggð á gögnum frá Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands og Eurostat.
Þessari úttekt ber að mínu mati að fagna. Umræða um matvælaverð hefur verið eins og rauður þráður í allri umræðu um landbúnað og matvælaframleiðslu hér á landi. Margir hafa þar haldið því fram að það sé m.a. innlend landbúnaðarstefna sem sé orsök hás matvöruverðs og því beri að gera breytingar á henni (sjá t.d. hér).
Þessi umræða er þó því miður oftar en ekki tekin úr samhengi við þá staðreynd „…að hátt verðlag er þegar upp er staðið afleiðing af háum tekjum Íslendinga og þannig miklum kaupmætti – hagsæld“, eins og segir í samantekt Viðskiptaráðs.
Samband tekna og verðlags
Þá kemur fram að rannsóknir sem gerðar eru þvert á lönd og yfir langan tíma sýni að meiri framleiðni vinnuafls (og þar af leiðandi tekjur launfólks) leiði samhliða til hlutfallslega hærra verðlags í viðkomandi landi. Gengissveiflur og fleiri þættir eins og tekjudreifing geta einnig haft áhrif en engu að síður er tölfræðilega marktækt samband milli verðlags og svokallaðs miðgildis ráðstöfunartekna. Þannig eru tekjur og verðlag lægst í Tyrklandi og Norður-Makedóníu en hvorutveggja hæst á Íslandi, í Noregi og Sviss.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna er mestur í ríkjum þar sem verðlag er hæst
Nánari greining Viðskiptaráðs leiðir í ljós að fyrir hver 10% sem ráðstöfunartekjur hækka, hækkar almennt verðlag um 5%. Af þessu leiðir eðlilega að kaupmáttur ráðstöfunartekna er einnig mestur í þeim ríkjum sem búa við hæsta verðlagið og tekjurnar. Þannig var kaupmáttur miðgildis ráðstöfunartekna sá fjórði hæsti hér á landi árið 2019 af þeim löndum sem samanburðurinn nær til. Sömu ríki og raða sér þannig í efstu sætin þegar kemur að verðlagi og tekjum og raða sér í sætin í kringum Ísland í kaupmætti.
Í samantekt Viðskiptaráðs segir enn fremur: „Dreifing tekna skiptir einnig máli og því ber að nefna að tekjujöfnuður á Íslandi er meiri en í hinum ríkjunum sem raða sér á toppinn í kaupmætti. Aðeins mælist meiri jöfnuður í Slóveníu, Slóvakíu og Tékklandi á mælikvarða Gini og þá er hlutfall milli efstu og neðstu tekjutíundar það lægsta hér á landi.“
Mikill kaupmáttur þvert á vöruflokka
Þegar kaupmáttur eftir helstu flokkum vöru og þjónustu er skoðaður er hann almennt með því hæsta sem þekkist hér á landi og er Ísland í flestum tilvikum í efstu 10 sætunum. Þetta gildir þvert á vöruflokka. Mestur er kaupmátturinn þegar kemur að rafmagni og hita, mat- og drykkjarvörum og húsgögnum og heimilisbúnaði. Lakast kemur Ísland út þegar horft er til útgjalda til heilsu annars vegar og pósts og síma hins vegar.
Viðskiptaráð segir síðan: „Sérstaka athygli vekur að kaupmáttur í mat og drykkjarvöru er sá annar mesti í Evrópu, en aðeins íbúar Lúxemborgar geta keypt sambærilega matarkörfu og notað til þess lægra hlutfall tekna sinna.“ Kaupmáttur hér á landi var þannig meiri en á öllum hinum Norðurlöndunum og sem dæmi 11% meiri en í Danmörku.
Horfurnar fram undan
Hér er byggt á upplýsingum sem eru eins til tveggja ára gamlar, og er það ekki ný saga að nýrri gögn eru sjaldnast aðgengileg. Verðlag og tekjur breytast líkt og flest annað en erfitt að segja hvort staðan hér hafi breyst síðustu 2 ár í samanburði við önnur Evrópuríki. Í umfjöllun Viðskiptaráðs er bent á að hér á landi „… virðist sem samdráttur landsframleiðslu hafi verið óvenju mikill árið 2020, sem almennt rýrir ráðstöfunartekjur, en á móti má nefna að laun hafa hækkað og að kaupmáttur launa jókst um 3,4% á síðasta ári.“ Það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af að mikið og langvarandi atvinnuleysi vegna kreppunnar af völdum COVID-19 faraldursins, breikki bil milli þeirra sem við kröppust kjör búa og annarra í samfélaginu. Það er sannarlega stórt viðfangsefni fyrir stjórnvöld. En í umræðum um verðlag verður hins vegar aldrei komist hjá að horfa á heildarmyndina eins og Viðskiptaráð gerir vel grein fyrir í umfjöllun sinni.
Höfundur hagfræðingur og verkefnisstjóri hjá Mjólkursamsölunni.