Helgar tilgangurinn meðalið?

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, skrifar nokkur orð um heimildarmyndina Hækkum Rána.

Auglýsing

Talsverð umræða hefur skapast við sýningu á heimildamyndinni Hækkum Rána, þar sem fjallað er um þjálfunaraðferðir ungra körfuknattleiksstúlkna, og sýnist sitt hverjum. 

Heimildamyndin rammar viðfangsefnið inn sem áhugavert verkefni körfuknattleiksþjálfara við að valdefla 8-11 ára stúlkur í karlægum íþróttaheimi með því að byggja upp andlegan styrk þeirra og gera þær að meiri töffurum – eins og það er orðað í myndinni. Og við fyrstu sýn þá er margt í þessu sem hljómar vel og auðvelt er að hrífast með. En þegar betur er að gáð þá leynist maðkur í mysunni.

Hugmyndin að valdefla ungar stúlkur í gegnum íþróttir er allt í senn falleg, þörf og göfug. Myndin segir frá því þegar þjálfari í körfubolta býr til hóp 9 ára stúlkna sem eiga að stefna hátt í körfubolta, með markvissum æfingum og valdeflingu sem á að búa þær undir að breyta heiminum sem þær eru hluti af. Vandamálið sem hópurinn stendur frammi fyrir kjarnast í því að stelpurnar fá ekki að keppa við stráka. Þjálfarinn með sinn sannfæringarkraft fær með sér foreldra stúlknanna til að taka þátt í þessu tilraunaverkefni þar sem stemningin minnir á stundum á trúarleiðtoga sem vefur bæði iðkendum og foreldrum um fingur sér. En spurningin sem viðfangsefni heimildamyndarinnar vekur að mínu mati snýr ekki að því að reynt hafi verið að valdefla ungar stúlkur í íþróttum, heldur hvernig það var gert. 

Sú tilraun sem birtist í myndinni með það að markmiði að valdefla iðkendur, fól í raun í sér að afreksvæða íþróttastarf 8-11 ára barna. Sem er merkilegt þar sem þær þjálfunaraðferðir sem þjálfarinn beitir í myndinni eru löngu taldar úreltar enda ganga þær gegn allri fræðilegri þekkingu vísindasamfélagsins, hagnýtri þekkingu íþróttasamfélagins, stefnu íþróttayfirvalda, skipulagi íþróttastarfs hér á landi og þeirri íþróttamenningu sem hér ríkir. 

Auglýsing
Það er því er mikilvægt að vekja athygli lesenda á þeim aðferðum sem áhorfendur verða vitni að í myndinni, og mögulegum afleiðingum þeirra. Það er að mínu mati ekki réttlætanlegt undir neinum kringumstæðum að beita slíkum aðferðum á börn í íþróttum þó svo að það sé gert í nafni jafnréttis og valdeflingar stúlkna – eins göfugt og það markmið er í sjálfu sér. Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. 

Afreksvæðing leiksins

Þær hörðu og markvissu þjálfunaraðferðir sem sýndar eru í myndinni eru ekki nýjar af nálinni. Þessar aðferðir hafa um áratugaskeið verið við lýði úti í hinum stóra heimi. Allt frá skipulagðri íþróttauppbyggingu austurblokkarinnar á tímum kalda stríðsins, til elítu akademíustarfs sumra stórþjóða og atvinnumannaliða seinni tíma. Þessar aðferðir eru þó á hröðu undanhaldi og þykja vera barn síns tíma. Angi af þessum aðferðum lifir þó enn góðu lífi og birtist í óæskilegri þróun í íþróttum barna og ungmenna sem hefur verið nefnd afreksvæðing leiksins (e. the professionalization of play). Afreksvæðing leiksins felur það í sér að þjálfunaraðferðir sem notaðar eru á fullorðna atvinnumenn eru yfirfærðar á börn. Íþróttir barna fara með þessu að einkennast af meiri alvöru og festu, snemmbærri sérhæfingu, fleiri æfingum og meira álagi, væntingum og pressu en áður, allt með það að markmiði að sigra og skapa grunninn að afreksíþróttafólki framtíðarinnar. Hætturnar við afreksvæðingu leiksins eru aftur á móti það alvarlegar fyrir börn og ungmenni að varað er við slíkum aðferðum. Til að mynda þá birtast afleiðingarnar í aukinni tíðni ofþjálfunar og álagsmeiðsla, auknu brottfalli, óhóflegum og óþörfum fjárhagslegum kostnaði fjölskyldna, óraunhæfra væntinga um árangur og frama, glataðrar barnæsku, sem og að leikurinn fer frá því að vera leikur og verður að vinnu, svo sitthvað sé nefnt. Staðreyndirnar tala sínu máli í þessu sambandi. 

Afreksheimurinn er ekki endilega eins fallegur eða heilbrigður eins og hann virkar jafnan utanfrá séð. Til að mynda þá líkti hinn þekkti rúmenski fimleikaþjálfari Béla Károlyi fimleikastúlkunum sem hann var að þjálfa við sporðdreka. Hugmyndafræði Karolyi var á þá leið að það að þjálfa kornungar fimleikastúlkur væri eins og að vera með 50 sporðdreka sem hann setti í flösku og setti svo tappann í flöskuna. Hvað gerist, jú sporðdrekarnir enda á því að drepa hver annan, þangað til einn er eftir sem skríður að lokum uppúr flöskunni, og það verður Ólympíumeistarinn minn, sagði Károlyi stoltur. Það sem felst í þessari samlíkingu er að afreksstefna í íþróttum barna verður oft hörkuleg og ómannúðleg þar sem eingöngu þeir hæfustu lifa af, og nánast öllum er sama um þá sem ekki ná í gegn. Sagan verður þannig skráð af sigurvegurunum sem gerir slíkar aðferðir oft eftirsóknarverðar í augum almennings, án þess þó að almenningur geri sér grein fyrir öllum fórnarkostnaðinum sem varð til við uppbyggingu meistarans í slíku afreksumhverfi. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. 

Aðferðir körfuboltaþjálfarans í myndinni eru umdeildar (og óþægilegar) vegna þess að þær veita innsýn í það hvernig afreksvæðing lítur út, á bak við tjöldin. Hvort sem um er að ræða þær hörðu þjálfunaraðferðir sem þar voru sýndar eða álagsmeiðsl barna vegna slíkrar íþróttaiðkunar. Í myndinni kemur einnig fram hvernig þjálfarinn reyndi að setja 10 ára börn í aðstæður sem væru óþægilegar, í þeim tilgangi að búa til stress og álag fyrir börn. Ein stúlkan talaði um að þjálfarinn reyndi að láta þeim líða illa, að vera stressaðar og kvíðnar, í þeim tilgangi að gera þær betri. Þetta er gamalkunnugt stef sem kann að vera að virki í einhverjum tilfellum í afreksíþróttum fullorðinna, þ.e. að brjóta fyrst niður og byggja svo upp, en á alls ekki heima í almennu íþróttastarfi barna. Þaðan af síður aðferðir sem byggja á því að taka einstaklinga sérstaklega fyrir, fyrir framan aðra, „hrauna“ yfir iðkendur, tala um þá sem rolur og aumingja og jafnvel græta, sem allt gengur gegn viðurkenndum aðferðum í þjálfun barna sem og fullorðinna. Allt eru þetta merki um óeðlilega afreksvæðingu leiksins.

Er íþróttastarf bara fyrir þær bestu?

Íþróttastarfi á Íslandi er ætlað að veita öllum börnum tækifæri til að eflast félagslega, á sál og líkama, en ekki einungis þeim börnum sem eru góð í að bíta á jaxlinn eða þeim sem eru á einhvern hátt meira snemmþroska en önnur börn. Við skulum í þessu samhengi ekki gleyma því að íþróttastarfinu er að miklu leiti haldið úti af sveitarfélögum og ríki á þeim forsendum að íþróttum barna og ungmenna er ætlað að vera fyrir alla, en ekki bara fyrir þá „bestu“ eða þá „sterkustu“.

Körfuboltastarfið sem myndin veitir innsýn í virðist fyrst og fremst vera ætlað þeim bestu; alla vega þeim börnum sem höfðu þann metnað eða þann andlega styrk að geta tekist á við mikið álag. Í yfirlýsingu frá Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar, sem send var út í kjölfar þess að félagið ákvað að framlengja ekki samning sinn við þjálfarann, segir meðal annars að brottfall úr félaginu hafi verið vandamál undir hugmyndafræði þjálfarans þar sem „stúlkur sem eiga foreldra sem ekki voru í einu og öllu fylgjandi því, eða einfaldlega ekki í aðstöðu til að setja körfuknattleiksiðkun 9-10 ára dóttur sinnar í forgang í fjölskyldulífinu, hafi lent hvað verst í þjálfaranum”, sem ber glögglega með sér einkenni snemmbærrar afreksmennsku. 

„Þær eru sterkar persónur, geta staðið á sínu,“ sagði einn faðirinn stoltur í heimildamyndinni og hefur hann eflaust rétt fyrir sér hvað það varðar. Sumar stúlknanna gátu ábyggilega staðið í gegnum þetta og látið mótlætið styrkja sig, en það gerðu aftur á móti alls ekki allar stúlkurnar. Með öðrum orðum, þá sýnir myndin sögu sigurvegaranna. Þeirra sterku stelpna sem komust í gegnum harðræðið. Myndin sýnir aftur á móti ekki hina hliðina; „aumingjana“ eins og tíðrætt var um í myndinni. Hún segir ekki sögu þeirra sem heltust úr lestinni, einhvers staðar á leiðinni, og sitja jafnvel uppi með skömmina yfir að hafa grátið og gefist upp undan óæskilegu álaginu og harðræðinu – eins og jafnan er afleiðing afreksvæðingar barna- og unglingaíþrótta. Stúlkurnar sem fengu ekki að keppa við strákana eru því ekki einu fórnarlömbin í þessari sögu, heldur ekki síður þær stúlkur sem hröktust úr íþróttinni sinni og félaginu sínu. Þeirra saga var ekki sögð. 

Inntak valdeflingar

Það er einnig umhugsunarefni hvort það sé rétta leiðin að gera stelpur að meiri strákum í íþróttum; að gera þær að meiri „töffurum“ eins og lagt var upp með í myndinni. Að mörgu leiti þá er íþróttastarf stúlkna mun heilbrigðara en íþróttastarf pilta. Hjá piltum er meira um einelti, hörku og hroka, en hjá stúlkum, sem allt eru óæskilegir fylgifiskar keppnisíþrótta. Oft hefur líka verið rætt um að íþróttir kvenna feli í sér minni leikaraskap og svindl en í íþróttum karla. Að því leyti mætti segja að íþróttir kvenna séu þannig í raun hreinni og óspilltari en íþróttir karla. Það er gríðarlega mikilvægt að vinna gegn ljótu tali (rusltali), hroka, einelti og óþarfa hörku í íþróttum yfirhöfuð. Það þarf að vinna gegn þeirri karlrembu og ömurlegheitum sem rætt var um í myndinni, en ekki að stuðla að óþarfa töffaraskap og ömurlegheitum hjá þeim sem það skortir. Eiga íþróttir kvenna ekki að vera á forsendum kvenna frekar en úrsérgengnum karlmennskuhugmyndum sem hægt og bítandi eru að renna sitt skeið? Það eru nýir tímar. Staða kvenna í íþróttum batnar ár frá ári. Þátttökutölurnar sýna það. Árangurinn sýnir það, á vellinum, sem og utan hans. Konur eru komnar í æðstu stöður í íþróttahreyfingunni. Framkvæmdastjórar ÍSÍ, UMFÍ og KSÍ eru til að mynda allt konur sem hafa áhrif á að móta íþróttastarfið fyrir nýja tíma. Tíðarandinn er annar, sem gerir konum loksins kleift að vera gjaldgengar í íþróttum og bæta íþróttirnar á eigin forsendum, með því að vera eins og konur. 

Að lokum

Það er mikil einföldun að stilla viðfangsefninu eingöngu upp sem verkefni um valdeflingu stúlkna, eins og gert er í heimildamyndinni, því sú nálgun segir okkur aðeins hálfa söguna. Heimildamyndin tekur þannig afstöðu og því þarf að huga að því hvað var sýnt og hvað var ekki sýnt. Hin hliðin, sem ekki var sögð, en er ekki síður mikilvæg í þessu samhengi, er sú að verkefnið fólst í raun í því að afreksvæða íþróttastarf 8-11 ára barna, þvert á alla vitneskju okkar um ókosti slíkrar nálgunar. Þó að tilgangurinn með verkefninu virki góður, þá bendir margt til þess að meðalið sem beitt var geti haft slæmar aukaverkanir í för með sér. 

Það eru sumir sem eru þeirrar skoðunar að börn í nútímasamfélagi lifi í of mikilli bómull, séu veikgeðja og það þurfi að herða þau upp. Þrátt fyrir að sú skoðun geti verið réttmæt þá er úrsérgengin hugmyndafræði um einhverja töffarahörku og gamaldags karlmennsku ekki rétta svarið. Það er vafasamt að gera tilraunir á viðkvæmum hópum eins og börnum. Börn eiga ekki að vera tilraunadýr fyrir slíkar hugmyndir. Að taka upp þessar gömlu og úreltu þjálfunaraðferðir í íþróttaþjálfun barna er í mínum huga eins og að foreldrar myndu byrja að rassskella börnin sín á nýjan leik til að halda uppi aga. Er þetta virkilega stefnan sem við viljum taka?


Hvort stúlkur eigi að fá að keppa við pilta í íþróttum er svo bara allt önnur spurning.


Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hringir hér inn fyrstu viðskipti í Íslandsbanka
73 prósent af viðskiptunum voru í Íslandsbanka
Alls námu viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka 5,4 milljörðum króna eftir fyrsta viðskiptadag þeirra í Kauphöllinni í dag. Verð bréfanna er nú fimmtungi hærra en útboðsgengi þeirra.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar