Eftirfarandi er að mínu viti framúrskarandi við íslenskan sjávarútveg og öfundarefni um veröld víða.
Auðlindin sjálf
Samkvæmt Hagstofunni er aflaverðmæti áranna 2005-2020 1.980.756.637.789 kr. Það jafngildir því að aflaverðmæti sé að meðaltali um 124 milljarðar á ári. Tölur sem erfitt er að setja í samhengi en árið 2018 vorum við talin 19. mesta fiskveiðiþjóð heimsins. Stærsta fiskveiðiþjóðin var þá Kínverjar en hún veiddi einungis 17 sinnum meiri afla það árið en við Íslendingar. Frændur okkar Norðmenn voru númer 11 í röðinni en þeir veiddu þá rúmlega tvisvar sinnum það magn er við veiddum. Þegar við svo skoðum aflamagn á íbúa landanna þá kemur í ljós að við veiðum 7,5 sinnum meira magn á íbúa en Norðmenn og 244 sinnum meira á íbúa en Kínverjar. Óhætt er því að fullyrða að gullfótur okkar Íslendinga syndi í hafinu umhverfis okkur og hafi umfram allt annað tryggt okkur þann sess sem við eigum í nútímasamfélagi. Velmegun okkar megum við að sama skapi þakka auðlindinni að stóru leyti.
Sjómennirnir
Frá örófi alda hafa íslenskir sjómenn að öðrum ólöstuðum þróað með sér afburða reynslu og færni. Meðal þeirra hefur byggst upp yfirburða þekking á hvers kyns veiðum sem hér er stundaðar. Allt frá línu- og handfæraveiðum til neta- og togveiða. Tegundum sem hér eru veiddar og verða þjóðinni að tekjum hefur fjölgað með árunum og má að miklu leyti þakka það elju og útsjónarsemi þessara hetja hafsins. Að sama skapi hefur útsjónarsemi þeirra við að auka virði aflans verið með eindæmum. Í þeirra höndum hefur virði aflans og gæði aukist smám saman með árunum. Líta má á það sem hámarksviðurkenningu til sjómanna landsins er til Íslands var leitað vegna þróunaraðstoðar sem í framhaldinu var veitt í formi kennslu í þeirra fræðum.
Fiskmarkaðirnir
Fyrstu fiskmarkaðir landsins voru stofnaðir á níunda áratug síðustu aldar. Þeir umfram allt annað hafa stuðlað að nýsköpun í framleiðslu sjávarafurða í landinu. Strax eftir tilkomu þeirra spratt upp fjöldi framleiðslufyrirtækja, öll drifin áfram af sama markmiðinu sem var að lifa af á samkeppnismarkaði. Þessi suðupottur leiddi af sér margs konar nýsköpun. Fjöldi fisktegunda sem fram að stofnun fiskmarkaðanna var lítils virði, varð allt í einu að tekjulind fyrir framsækin fyrirtæki á markaði. Að sama skapi ruddum við okkur í framhaldinu leið inn á nýja markaði með nýjar vörur. Í dag er svo komið að íslenska fiskmarkaðanetið er algjörlega framúrskarandi hvað afhendingaröryggi varðar. Eitt uppboð er keyrt 5 til 6 daga vikunnar og afhending hráefnis er í síðasta lagi morguninn eftir uppboðsdag. Það eitt og sér er afrek í landi hinna ýmsu veðra. Vegalengdir og vegir hér á landi hjálpa heldur ekki og afrekið því ekki minna. Kerfið er það gott að hægt er að fullyrða að það skáki samþættum veiði- og vinnslufyrirtækjum, fjölbreytt og stöðugt framboð er þar tryggt.
Virðiskeðja þessi er sú vanmetnasta á landinu að mínu viti.
Afli seldur á markaðsvirði
Ef allur afli væri seldur á markaðsvirði myndu tekjur þjóðarbúsins aukast um 10-30 milljarða.
Einfaldasta leiðin til að auka tekjur þjóðarbúsins af sjávarauðlindinni er ekki falin í endalausu karpi um veiðigjöld. Nóg er komið þegar ráðamenn vita ekki hvort 11 milljarðar í veiðigjöld séu meira virði en 4 milljarðar í veiðigjöld. Að mínu viti verður með einhverju móti að tryggja að hráefni sé ætíð selt gegn markaðsvirði og ekki sé í neinum tilfellum um að ræða niðursett verð í innri viðskiptum fyrirtækja. Í dag er það svo að einungis 18% af 22 helstu botn- og bolfisktegundum okkar eru seld gegn hæsta verði á fiskmörkuðum landsins á uppboði. Hin 82% eru seld með öðrum hætti. Nýjustu kjarasamningar sjómanna kveða á um að afli sé seldur að lágmarki með 25% afslætti. Sýnt hefur verið fram á dæmi þar sem aflaverðmæti í innri viðskiptum er allt að helmingi lægra en markaðsvirði.
Hvað þýðir þetta?
Ef við tökum til viðmiðunar fiskveiðiárið 2019/2020 þá voru 86 þúsund tonn (18%) af umræddum tegundum seld á fiskmörkuðum landsins að andvirði liðlega 23 milljarða. Ef við gerum ráð fyrir að allur afli Íslendinga hefði verið seldur á markaðsvirði jafnt á fiskmörkuðum sem og í innri viðskiptum þá hefði aflaverðmæti þeirra 479 þúsund tonna sem veidd voru af tegundunum, verið rúmlega 128 milljarðar.
Í síðustu kjarasamningum sjómanna var samið um 25% sem lágmarksafslátt frá markaðsvirði sem verð í innri viðskiptum fyrirtækja. Þannig er tekjustofn þjóðarinnar eða auðlindarinnar lækkaður að fjárhæð rúmlega 32 milljarðar. Ef afslátturinn er 40% sem dæmi eru um þá má sjá að tekjustofn þjóðarinnar er rúmlega 51 milljörðum lægri en ef markaðsverð réði för.
Tekjustofn þessi hefur bein áhrif á afkomu þjóðarinnar með áhrifum langt umfram núverandi veiðigjöld. Nær allar tekjur þjóðarinnar af sjávarútveginum tengjast beint verðmæti aflans sem að landi berst. Aukið virði hans er þjóðinni til hagsbóta en handhöfum veiðiheimildanna ekki. Í því felst freistnivandi sem að mínu viti er stærsti vandi kerfisins.
Að þessu viðbættu mun það ýta undir samkeppni og nýsköpun ef öll fyrirtæki landsins starfa samkvæmt sömu reglum og sitja við sama borð. Sá hæfasti mun njóta þess að vera sá hæfasti, hann þarf ekki endilega að vera sá stærsti. Þjóðin mun verða sá sem mest ber úr býtum.
Hvatar til vinnslu innanlands
Á síðastliðnu ári fluttu Íslendingar úr landi rúmlega 50.000.000 kg af heilum óunnum fiski. Fiskur þessi var að andvirði 17 milljarðar. Stöðug aukning hefur verið í þessa veru undanfarið og nam hún 24% milli árana 2019 og 2020. Verðmætasköpun vegna þessa afla takmarkaðist þannig við veiðar. Atvinnu- og tekjuskapandi hlutum þjóðfélagsins eins og framleiðslu-, sölu- og þjónustufyrirtækjum gafst ekki tækifæri til að auka verðmæti þessa hluta auðlindarinnar.
Ef við gerum ráð fyrir 30% viðbótarverðmætasköpun innanlands vegna þessa afla má sjá að rúmir 5 milljarðar hefðu bæst við tekjur þjóðarinnar. Með einföldum útreikningi má jafnframt sjá að með 50 % viðbótarverðmætasköpun hefðu tekjur þjóðarinnar aukist um allt að 9 milljörðum.
Samkeppnissjónarmið tekin til greina
Markaðsbrestir hvers konar eru í öllum tilfellum skilgreindir af hagfræðingum samtímans sem ágallar sem valda þjóðum svokölluðu allratapi. Allratap, er það tap sem þjóðfélag verður fyrir vegna ágalla á innri markaði sem veldur því að hámörkun virðis auðlinda næst ekki.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga er hlutverk Samkeppniseftirlitsins m.a. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði.
Markaðsbrestir sem við þekkjum best og má tengja við íslenskan sjávarútveg eru fákeppni, lóðrétt samþætting fyrirtækja, hindrun á nýliðun og undirverðlagning í innri viðskiptum. Allir þessir þættir hafa á undanförnum árum færst stöðugt til verri vegar.
Í margumræddri skýrslu McKinsey & Company frá árinu 2012 kemur fram „að samkeppni sé lykill að aukinni framleiðni hér á landi.“ Segir í skýrslunni að samkeppnin stuðli að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, hvetji stjórnendur til að hagræða í rekstri og leiði til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga.
Áhrif þess að vinna að bættu samkeppnisumhverfi með áherslu á það að lágmarka umrætt allratap, ætti að vera algjört forgangsatriði ráðamanna. Hvert skref í þá átt mun styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Um leið munu þjóðartekjur og afleidd áhrif aukast á ómetanlegan máta.
Höfundur er formaður Samtaka Fiskframleiðenda og Útflytjenda.