Í frumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er lagt til að að við mannréttinda kafla stjórnarskrárinnar bætis við nýtt ákvæði sem hljómar svo: „Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“
Tillaga er m.a. rökstudd með þeim hætti að Ísland hafi ákveðna sérstöðu þar sem hér búi ein þjóð með sameiginlegt tungumál. Íslenskt samfélag sé hins vegar í þróun og áhrif erlendra tungumála fari vaxandi auk þess sem samfélagið sé fjölþjóðlegra en áður. Markmiðið sé að „styrkja stöðu íslensks máls, undirstrika mikilvægi þess og veita stoð þeim aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að efla og varðveita íslenska tungu og íslenskt táknmál.“
Í stuttu mál þá er ákvæðinu ætlað að verja íslenskt mál fyrir erlendum áhrifum og þá á þeim grunni að í tungumálinu felist menningarverðmæti sem vert er að standa sérstakan vörð um af hálfu ríkisvaldsins. Höfundur greinargerðar frumvarpsins metur það sem svo að „vandséð [sé] að nokkur neikvæð áhrif geti fylgt“ frumvarpinu, enda muni það ekki draga „úr réttindum minnihlutahópa eða þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku til þess að nota tungumál sitt.“
Telja má að þarna dragi frumvarpshöfundurinn ályktun sem fær tæpast staðist. Þvert á það sem haldið er fram, er nokkuð auðvelt að sjá fyrir sér neikvæð áhrif af frumvarpinu á þá Íslendinga sem tala ekki íslensku. Þeim kann að vera áfram frjálst að nota sína tungu, en ef markmið frumvarpsins gengur eftir er ekki víst að sú tunga muni gagnast þeim til þess að bera réttindin og skyldur í samfélaginu með sama hætti og áður.
Spyrja má hvort tungumál geti með sama hætti verið andlag valds? Stutta svarið við því er klárlega já. Valdi er fyrst og fremst beitt í gegnum tjáningu. Sá sem fer með valdið gefur skipanir, tilmæli, beitir fortölum og áróðri til þess að fá aðra til þess að lúta valdi sínu. Vald er líka temprað með gagnkvæmri tjáningu. Við mótmælum, gagnrýnum og kvörtum yfir þeim sem fer með valdið. Í rétti til gagnkvæmrar tjáningar felst því vald sem vex í hlutfalli við hæfileika og getu viðkomandi til áhrifaríkrar tjáningar.
Ákvörðun um að veita ákveðnu tungumáli sérstaka stöðu í stjórnarskrá snýst einkum um að valdefla það form tjáningar sem fer fram á því tungumáli. Líkt og kemur skýrt fram í frumvarpinu og greinargerðinni er ætlunin að efla íslenskuna, m.a. með skírskotun til þess að innflytjendum fari ört fjölgandi. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að maður styrkir ekki stöðu tungumáls án þess að styrkja stöðu þeirra sem hafa færni í notkun viðkomandi tungumáls, og þá gjarnan á kostnað þeirra sem skortir færnina.
Tilkoma ákvæðisins er rakin að nokkru í greinargerð frumvarpsins. Hægt er að rekja það til tillögu Íslenskrar málnefndar frá því 2007. Það kom síðan tillaga um slíkt ákvæði á Þjóðfundinum svokallaða 2010 og í kjölfarið skrifaði Björg Thorarensen stutta samantekt um slík ákvæði í stjórnarskrám nokkurra annarra ríkja og tók jafnframt undir sjónarmið um að slíkt ákvæði kæmi inn í þá íslensku. Það varð hins vegar ekki niðurstaðan úr þeirri vinnu sem skilaði af sér Nýju stjórnarskránni. Þar var tunga þeirra sem byggja Ísland talin upp í aðfararorðum sem eitt af verðmætum þjóðarinnar, án þess þó að tekið væri af skarið um að sú tunga væri endilega bara íslenska. En þar segir: „Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, land og sögu, tungu og menningu.“
Þegar Nýja stjórnarskráin fór til meðferðar á Alþingi var gerð tillaga um íslensku ákvæði í meðförum nefndar og þá sem mótvægi við útvíkkun jafnræðisreglu sem bannaði mismunun á grundvelli tungumáls að fyrirmynd Mannréttindasáttmála Evrópu. Nú er þessi sama tillaga og komin fram aftur án þess þó að jafnframt sé lagt til að taka upp bann við mismunun á grundvelli tungumáls í stjórnarskrá. Eins og sjá má er mikill munur á því sem Nýja Stjórnarskráin kveður á um og þess sem nú er lagt til.
Ef við reynum að meta áhrifin af frumvarpinu, þá má teljast líklegt að ákvæðið sé ágætlega til þess fallið að stuðla að forvörslu íslenskunnar líkt og stefnt er að. Þarna kæmi fram skýr heimild til handa löggjafanum og öðrum stjórnvöldum til þess að gera kröfum um notkun íslensku við hvers kyns opinber störf og þjónustu, auk þess sem þar væri komin skýlaus heimild til þess að gera íslensku kunnáttu að forsendu fyrir að hljóta hin ýmsu störf á vegum hins opinbera.
En áhrifin væru líka þau að móðurmáli sumra Íslendinga væri skipað skör hærra en móðurmáli annarra Íslendinga, án þess að gripið sé til nokkurra aðgerða til að vinna á móti slíkum áhrifum. Slíkt er til þess fallið að raskar núverandi valdajafnvægi á milli Íslendinga af ólíkum bakgrunni. Tillagan styrkir, með öðrum orðum, stöðu hinna valdamiklu og veikir stöðu hinna valdalausu í íslensku samfélagi. Frumvarpið er því heilt yfir líklegt til þess að ná markmiði sínu um eflingu íslenskunnar, en það mun að líkindum verða á kostnað þeirra Íslendinga og annarra íbúa landsins sem hafa ekki fullkomin tök á íslensku.
Að leggja fram frumvarp sem hefur þessi áhrif getur flokkast sem pólitísk afstaða. Hún er hins vegar ekkert voðalega nútímaleg eða líkleg til þess að verða landi og þjóð til framdráttar. Tungumál er fyrst og fremst verkfæri til þess að tjá hugsanir. Það er mikil skammsýni og sóun á mannauði fólgin í því að skipa fólki á skör eftir því á hvaða tungumáli það hugsar.
Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég hef hér rakið stendur framlögð tillaga langt að baki þeirri útfærslu sem kveðið er á um í Nýju stjórnarskránni. Þar er með snjöllum hætti skotið stjórnskipulegum stoðum undir tilvist tungumála sem menningarverðmæta, en jafnframt ekki gert upp á milli ólíkra tungumála, auk þess sem skerpt er á banni við mismunun á grundvelli tungumáls. Í þessari útfærslu felst sú pólitíska afstaða að tungumál séu mikilvægur þáttur í sjálfsmynd þjóðar, en að það sé engu að síður sama hvaðan gott kemur og því skulu allir vera jafnir réttháir samfélagsþegnar óháð kunnáttu í einstökum tungumálum.
Að mínu mati er því framlögð tillaga um að gera íslensku að stjórnarskrárbundnu ríkismáli verri kostur en að halda óbreyttu ástandi og sömuleiðis verri kostur en að taka upp tungumálaákvæði Nýju stjórnarskrárinnar. Í hnotskurn má segja að framlögð tillaga geti ekki orðið andlag samfélagssáttmála allra Íslendinga, en hún getur hins vegar orðið andlag samfélagssáttmála þess meirihluta sem fer með flest völd í samfélaginu og talar íslensku.
Höfundur er nýdoktor við lagadeild HR.