Ég varð undrandi og eilítið skelkaður, þegar ég hlustaði og horfði á fréttir RÚV af 30 ára afmæli viðurkenningar Íslands á sjálfstæði Litháens. Þar vantaði eitthvað í fréttina. Gerðist þetta af sjálfu sér? Var þetta ekki í fyrsta sinn sem Ísland gerði sig gildandi og tók afstöðu í máli sem var alþjóðlegt, ofur eldfimt en mikið réttlætismál? Viðurkenning Eystrasaltsríkjanna sem sjálfstæð ríki var á sínum tíma umdeilt, bæði meðal vinaþjóða erlendis og hér heima, svo ekki sé minnst á sjálf Sovétríkin. Vestrænar stórþjóðir með BNA og Þýskaland í broddi fylkingar, réðu eindregið frá því, að Ísland gerði þetta. Þær óttuðust, að það myndi gera Gorbatsjoff erfitt fyrir og endurvekja kalda stríðið. Þýskaland átti mikið undir því, að ekki hlypi snuðra á þráðinn. Þetta var rætt á fundi í NATO, þar sem eindregið var varað við þessum einleik. Hér heima kom fram andstaða, aðallega frá vinstra fólki, sem enn hélt trúnaði við Sovétríkin. Einnig heyrðust raddir úr hinum stjórnarflokknum, sem taldi þetta vera einskisverða tímasóun.
Ísland reið á háskalegt vað
Þegar Ísland reið á vaðið og viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, ýtti það við öðrum að gera slíkt hið sama. Danir og fleiri Norðurlandaþjóðir fylgdu í kjölfarið. Seinna komu svo stóru þjóðirnar. Forysta Íslands skipti sköpum, enda muna og varðveita Eystrasaltsþjóðirnar vel þetta frumkvæði. Hver skyldi svo hafa haft forystu í þessu máli? Hver skyldi hafa unnið allan undirbúninginn bæði hér heima sem og á erlendum vettvangi? Hver skyldi hafa leitt það til lykta og farið til Vilníus meðan skriðdrekar Sovétríkjanna voru þar á vettvangi? Eystrasaltsþjóðirnar vita þetta. Íslenska Ríkisútvarpið virðist þó ekki renna grun í það. Þegar sagt var frá 30 ára afmælinu í RÚV, sást Guðlaugur Þór taka við blómvendi. Það var ekki einu sinni greint frá því hver var utanríkisráðherra Íslands á þessum árum. Það hefði þó verið upplýsandi fyrir yngra fólkið, sem ekki man þessa tíma. En það virðist ekki vera í verkahring RÚV að segja rétt frá eða upplýsa. Ókunnur maður sagði eitt sinn, að sjónvarpið væri stærsta einstaka sárið, sem maðurinn hefði valdið sjálfum sér, síðan púðrið var fundið upp! Skyldi vera fótur fyrir því? Jón Baldvin er orðinn persona non grata og þau miklu þarfaverk, sem hann vann fyrir þjóðina, skulu liggja í þagnargildi. En þögn er fölsun, ágæti útvarpsstjóri!
RÚV varð fótaskortur
Jú – Jón Baldvin á í málaferlum við fréttamann RÚV, og telur hann hafa vísvitandi misbeitt stöðu sinni og stuðst einhliða við heimildir, sem hann mátti a.m.k. gruna, að væru varhugaverðar. Það mál verður útkljáð fyrir dómi. Jón Baldvin hefur orðið fyrir meiri fordæmingu og útskúfun en nokkur annar lifandi Íslendingur. Hann hefur þó ekki fengið á sig neinn dóm fyrir ósiðsemi eða vansæmandi verknað, sem hann er ásakaður um, og ekki liggja, mér vitanlega, neinar óafgreiddar kærur fyrir dómstólum þar af lútandi. Ég ætla mér ekki þá dul að kveða upp úr um sekt eða sakleysi, allra síst í siðferðislegum málum. Þar verður að treysta réttarríkinu. En að götudæma á grundvelli einhliða ásakana, eins og Trump vildi, vegna eigin ásakana um ósönnuð kosningasvindl, er leið út úr réttarríkinu, út í óvissu réttleysisins. Er mitt kæra Ríkisútvarp lent þar? Er ekki lengur hægt að treysta fréttaflutningi RÚV? Styðst RÚV við sögusagnir og sært egó fréttamanns? Verður framvegis að taka fréttaflutning þess með fyrirvara? Já, nú bregðast krosstré sem önnur tré.
Höfundur er hagfræðingur.