Nágrannalöndin okkar nota orðið grundlov um sínar stjórnarskrár, grunnlög, sem dregur vel fram það eðli þessa plaggs að vera grundvöllur allrar lagasetningar í landinu, og þar með samskipta okkar borganna hvert við annað. Þetta er samfélagssáttmáli. Eiginlega hefur stjórnarskráin að geyma nokkurs konar boðorð okkar allra sem myndum saman þetta samfélag, æðstu lög landsins og grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Þetta er plaggið sem tryggir okkur öllum tiltekin grundvallarréttindi og skilgreinir skyldur okkar gagnvart samborgunum okkar – skyldur þeirra við okkur – og skyldur ríkisvaldsins við okkur. Þetta varðar okkur öll.
Og þess vegna þurfum við öll – svo sem kostur er – að koma að gerð þessa samfélagssáttmála. Að sjálfsögðu eru síðan ótal flókin tæknileg úrlausnaratriði og álitamál við sjálfa útfærsluna sem þarf að ráða fram úr með hjálp og atbeina þeirra sem fást við það daglega að túlka lögin og framfylgja þeim. En stjórnarskráin er ekki einkamál lögspekinganna – þetta varðar okkur öll.
Stöndum vörð um ferlið
Þetta eru boðorð. En þau eiga ekki að koma að ofan úr upphæðum heldur verða til í samtali og samráði okkar sem myndum þetta samfélag. Sumir líta á núgildandi stjórnarskrá eins og steintöflurnar sem Móse kom með niður af Sínaífjalli; endanlegt plagg samið af Guði almáttugum og afhent sérlegum trúnaðarmönnum hans til að færa okkur þjóðinni. Gott ef við sjáum ekki hreinlega þessa hugsun á höggmyndinni af Kristjáni IX framan við stjórnarráðið: Hans hátign Kristján níundi af guðs náð réttir okkur upprúllað plagg, „frelsisskrá úr föðurhendi“ þess sem talinn var starfa í sérstöku umboði frá Guði og með hans velþóknun, samkvæmt þeirri hugmyndafræði einveldisins sem lifði hér á landi löngu eftir að einveldið hafði verið formlega afnumið.
Þó gerðu íslenskir ráðamenn sér grein fyrir því árið 1944 að plaggið væri til bráðabirgða og þyrfti endurskoðunar við – um það má meðal annars lesa í fróðlegri grein frá árinu 2011 eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson, Tjaldað til einnar nætur. Uppruni bráðabirgðastjórnarskrárinnar. Krafan um þjóðareiningu varð til þess að menn lögðu til hliðar og frestuðu ágreiningsefnum, sem að sjálfsögðu gagnaðist fyrst og fremst þeim sem högnuðust á óbreyttu ástandi. Ákveðið var að breyta sem minnstu frá þeirri dönsku stjórnarskrá sem hér hafði ríkt í þáverandi mynd frá 1920 en fyrrgreindur Kristján IX hafði fært okkur árið 1874.
Síðan hafa ótal nefndir tekist á við það verkefni að endurskoða stjórnarskrána, og einstakir kaflar og greinar hafa verið endurskoðuð en heildarendurskoðunin hefur ekki tekist.
Auðlindaákvæðið
Þetta varðar okkur öll. Ekki síst auðlindaákvæðið. Í umræðum sem fóru fram á Alþingi um þessi mál á dögunum komu fram ólíkar hugmyndir um þjóðareign. Hægrimenn vilja helst ekki sjá þessi tvö fjögurra stafa orð saman – þjóð og eign – telja hugtakið vera sósíalisma og þversögn í sjálfu sér: þjóð geti ekki átt neitt – og er þessum öflum þó tamt að vísa til þjóðar þegar kemur að því að berjast gegn því sem talin er utanaðkomandi ógn, ekki síst bálkum Evrópusambandsins um rétt neytenda og samkeppni á markaði.
Aðrir stjórnmálamenn hægra megin eru ekki jafn stífir á bókstafnum í varðstöðunni um einkaeignaréttinn og ljá máls á orðinu „þjóðareign“ í stjórnarskránni, ef tryggt sé að orðið sé merkingarlaust og hafi engar afleiðingar umfram þær sem fylgja núverandi ákvæði í í 1. grein fiskveiðistjórnarlaga – sem krötum tókst á sínum tíma að troða þar inn um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu „sameign íslensku þjóðarinnar“. Þessir praktísku hægrimenn telja að þótt talað sé um „þjóðareign“ í stjórnarskránni verði áfram tryggður sérstakur aðgangur hinna fáu og stóru og volduðu og einkaréttur þeirra til að draga óveiddan fisk úr sjó geti áfram gengið kaupum og sölum út í hið óendanlega. Í auðlindaákvæði er hvorki talað um „fullt gjald“ né „eðlilegt“ – eins og í fyrri drögum – heldur einungis „gjald“, með afleiðingum sem við þekkjum öll: ofsagróða útvalinna sem vita varla sitt rjúkandi ráð af ríkidæmi en standa í umfangsmiklum sýndarviðskiptum á auðri skrifstofu einhvers staðar á Kýpur til að halda utan um það sem þeir álíta djásnið sitt – en er eign okkar allra.
Til hvers?
Samfylkingin og Píratar hafa á undanförnum þingum haldið lífinu í því ferli sem hófst með frumkvæði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að því að þjóðin fengi nýja stjórnarskrá, eins og staðið hafði til að gera frá lýðveldisstofnun, og var í þessu skyni efnt til víðtæks samráðs á þjóðfundum og svo var kosið til stjórnarlagaþings, sem voru svo lýðræðislegar kosningar – einn maður, eitt atkvæði óháð búsetu – að íhaldsmönnum ofbauð og kærðu niðurstöðurnar sem voru ómerktar í Hæstarétti vegna ónógrar hæðar á skilrúmum.
Stjórnlagaþing/ráð skilaði tillögum eftir merkilegt starf þar sem fólk úr ólíkum áttum reyndi að mætast með sín ólíku sjónarmið og vinna eftir þeim leiðarljósum sem þjóðfundirnir höfðu kveikt. Þessar tillögur fóru svo til meðferðar í þinginu – hlustað var á ráðgjöf innlendra og erlendra sérfræðinga – og svo lagt fram fullbúið frumvarp, 2013, sem náði aldrei að greiða atkvæði um vegna málþófs stjórnarandstöðuflokkanna þáverandi, sem nú eru í ríkisstjórn með VG. Þessa sögu þekkjum við – og Píratar og Samfylking hafa á undanförnum árum skipst á að leggja þetta frumvarp fram á þinginu.
Katrín Jakobsdóttir leggur nú sjálf fram stjórnarskrárfrumvarp, með breytingum á hlutverki forseta, ákvæði um íslenska tungu, ákvæði um íslenska náttúru – og svo fyrrgreindu auðlindaákvæði, sem styrinn hefur einkum staðið um. Í tillögum Samfylkingar og Pírata er talað um að auðlindir séu „sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ en Katrín lætur duga að segja: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni“ sem óneitanlega er svipminna orðalag (auk þess sem móðir mín kenndi mér að sögnin „að tilheyra“ væri dönskusletta og þar með ekki fallegt mál). Hitt er verra að tímamörk eru horfin á nýtingarréttinum og „eðlilegt gjald“ – upphaflega „fullt gjald“ er hjá Katrínu bara „gjald“.
Skiptir þetta máli? Gjaldið sem stórútgerðin greiðir – þar á meðal hinir miklu umsvifamenn á lokaðri skrifstofu á Kýpur – dugir ekki einu sinni fyrir kostnaði ríkisins af þjónustu við útgerðina.
Í umræðunum á þinginu spurðu hægrimenn ítrekað eftir því í hvaða löndum sé að finna sambærileg ákvæði um þjóðareign á auðlindum, og virtust nokkuð hróðugir yfir því að slík ákvæði skyldi ekki að finna nema ef til vill í aflögðum kommúnistaríkjum eða löndum sem ekki hafa getið sér orð fyrir lýðræði og góða stjórnarhætti.
Á móti mætti spyrja: hvaða önnur þjóð reiðir sig á gjafir hafsins á viðlíka hátt og við Íslendingar? Skyldu margar þjóðir standa í viðlíka sambandi við þessa miklu matarkistu sem hélt lífinu í þjóðinni um aldir með ógurlegum fórnum – í næstum hverri íslenskri fjölskyldu eru sögur af mönnum sem fórust við það færa björg í bú.
Skyldu þeir sem spyrja svo fávíslega um gildi fiskimiðanna fyrir íslenska þjóð vera búnir að gleyma ítrekaðri útfærslu landhelginnar á síðustu öld og þorskastríðunum sem við háðum til þess að ráða sjálf yfir fiskveiðiauðlindinni okkar og nýtingu hennar? Við stóðum ekki í því öllu til þess að gera nokkrar fjölskyldur ofsaríkar eða til að leggja heil byggðalög í eyði. Það var gert til að tryggja skynsamlega nýtingu og stjórn á þessum veiðum, en um leið var ætlunin alltaf sú að jafnræði og réttlæti ríkti og menn stæðu jafnfætis í því að sækja sjóinn, það væri komið undir dugnaði manna og þekkingu hvernig þeim farnaðist í útgerðinni frekar en bókhaldsfimi og sérréttindum – og síðast en ekki síst væri tryggt að þjóðin fengi eðlilegan og réttlátan arð af auðlind sinni, á svipaðan hátt og Norðmenn hafa tryggt sinn þjóðararð af olíuauðlindum sínum.
Þetta varðar okkur öll. Misskipting gerir samfélagið verra en ella. Við eigum að stuðla að jöfnuði, jöfnum tækifærum fólks, jöfnum kjörum og jöfnum aðgangi að gæðum. Nú er lag: við getum sett það í stjórnarskrána að sjávarauðlindin sé ekki bara sameiginleg eign þjóðarinnar heldur geti enginn nýtt hana nema í takmarkaðan tíma, og tryggt sé um leið að viðkomandi greiði eðlilegt gjald eigandanum þjóðinni, sem nýtir féð til uppbyggingar hvers kyns innviða öllum til heilla og hagsbóta.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar