Bónusar: Eru bankamenn mikilvægastir allra í samfélaginu?

Stefán Ólafsson skrifar um nýtt kaupaukakerfi hjá Arion banka og veltir því fyrir sér hvort starfsmenn banka skapi mestu verðmætin í samfélaginu.

Auglýsing

Stjórn Arion banka ákvað í skjóli jóla (16. desember sl.) að innleiða nýtt kaupaukakerfi fyrir árið 2021. Samkvæmt því geta lykilstjórnendur fengið allt að 25% ofan á föst árslaun í bónus og almennir starfsmenn geta fengið allt að 10% ofan á föst árslaun sín, náist tiltekin markmið um arðsemi rekstrar. Þetta eru mjög miklar launahækkanir sem þannig geta komið til, ofan á almennar launahækkanir viðkomandi starfshópa (sjá hér).

Þetta eru mikil tíðindi sem lítið hafa ratað inn í þjóðmálaumræðuna.

Rétt er að byrja á rifja upp að mikið óhóf í bónusgreiðslum til stjórnenda átti sinn þátt í háskalegum rekstri bankanna á árunum í aðdraganda hrunsins. Þegar bankar fara aftur inn á þessa leið vakna því stórar spurningar, ekki bara um slæma fyrri reynslu heldur einnig um mat á mikilvægi starfsstétta í samfélaginu, fordæmisgildi á vinnumarkaði, stöðugleika, sanngirni og sjálftöku.

Þá er einnig rétt að skoða þessa þróun í ljósi þess að lífeyrissjóðir vinnandi fólks eru eigendur að meira en þriðjungi hlutafjár í Arion banka.

En skoðum fyrst umfang þessara heimilda til kaupauka bankamanna í samhengi vinnumarkaðarins. 

Gríðarlegur kaupauki til bankamanna – langmest til toppanna

Bankastjórinn í Arion banka er með um 5 milljónir á mánuði, eða um 60 milljónir á ári. Ef hann fær 25% í kaupauka (bónus) bætast um 15 milljónir við árslaunin. Gert er ráð fyrir að stjórnendur bankans taki hluta þessa í kauprétti á hlutabréfum í bankanum, væntanlega á hagstæðu gengi eins og tíðkast. Því til viðbótar njóta þeir sérstakra skattfríðinda á slíkum kaupauka, sem ríkisstjórnin ætlar að auka verulega á árinu (sjá hér). Tekjurnar af fyrstu 1,5 milljóninni sem kaupréttur skilar verður skattfrjáls, sem er mun hærra frítekjumark en almennu launafólki býðst í formi persónuafsláttar í tekjuskattskerfinu.

Ef almennir bankastarfsmenn eru nálægt meðallaunum á vinnumarkaði, með til dæmis 650 þúsund kr. á mánuði, þá fengju þeir að jafnaði hækkun á mánaðarlaunum um 65 þúsund kr. með 10% bónus og árslaun þeirra myndu hækka um 780 þúsund krónur – þegar vel gengur í efnahagslífinu og bönkunum þar með.

Auglýsing

Bónus almennra bankamanna verður þannig miklu meiri en framlínufólk Landspítalans fékk í álagsbónus á síðasta ári vegna meðhöndlunar Kóvid sjúklinga og bónus stjórnenda bankans er beinlínis í öðrum heimi.

Til samanburðar við vinnumarkaðinn má benda á að launafólk á almennum markaði samdi um að fá hagvaxtartengdan launaauka í Lífskjarasamningnum 2019, út frá mismunandi viðmiðum um hagvöxt á mann á samningstímanum. Ef vel gengur í þjóðarbúinu átti þetta að skila launafólki frá 3.000 til 13.000 krónum í kaupauka á mánuði, eða frá 36 til 156 þúsund krónum á árinu. Þetta er sambærilegt við virkni bónuskerfis í bönkum, nema hvað greiðslurnar eru auðvitað miklu lægri.

Almennir bankamenn í Arion banka geta sem sagt fengið allt að 650 þúsund í kaupauka á ári en starfsmenn á almennum vinnumarkaði 36 til 156 þúsund krónur, ef vel gengur í efnahagslífinu. Samkvæmt þessu mætti ætla að bankamenn skili margfalt meiri verðmætum inn í samfélagið en vinnandi fólk almennt. Margfalt.

En er einhver fótur fyrir slíkri forsendu?

Nei, það er ekki að sjá. 

Skapa bankamenn mestu verðmætin í samfélaginu?

Reynslan í Kóvid-kreppunni hefur víðast sýnt á mjög áþreifanlegan hátt hvaða starfsstéttir hafa verið mikilvægastar í samfélaginu á þessum tíma. Það er heilbrigðisstarfsfólk, framlínufólk í þjónustu, verslun, umönnun, leikskólum, skólum almennt, lögreglu og byggingariðnaði, svo dæmi séu tekin. Ef einhverjir ættu að fá bónus fyrir góða frammistöðu á árunum 2020 og 2021 þá er það þetta fólk.

Raunar má spyrja hvort nokkrir aðrir en heilbrigðis- og umönnunarfólk ættu að fá bónusa á þessum tíma þegar meira en tíundi hluti launafólks hefur misst vinnuna og orðið fyrir 30% til 50% launaskerðingu með því að fara á atvinnuleysisbætur, til lengri eða skemmri tíma. Það fólk eru helstu fórnarlömb kreppunnar, ásamt þeim sem veiktust illa.

Stóðu bankarnir sig sérstaklega vel í kreppunni?

Varla. Bankarnir lokuðu afgreiðslum sínum til lengri tíma og 80% af starfsfólki þeirra var meira og minna heimavinnandi á síðasta ári – ekki beinlínis í framlínu (sjá hér). Arion banki dró sérstaklega úr útlánum sínum á árinu til að auka möguleika á að greiða út eiginfé í arð og endurkaup á eigin hlutabréfum.

Bankarnir létu ríkið að mestu um að styðja fyrirtæki í vanda og veita að auki ríkisábyrgð á þeim brúar- og stuðningslánum sem þeir þó veittu til fyrirtækja.

Þrátt fyrir fagurgala stjórnenda Arion banka má efast um að bankinn hafi virkilega lagt sig fram við að hjálpa fyrirtækjum í gegnum kreppuna, þrátt fyrir að seðlabankinn hafi fleytt mjög auknu fé inn í bankana á síðasta ári. Það var líka reynslan af bandarísku bönkunum í kjölfar fjármálakreppunnar 2008.

Hagfræðingur Kviku banka færði t.d. fyrir því rök sl. haust að bankarnir íslensku hefðu um of ýtt undir verðbólgu á fasteignaverði á síðasta ári, með of miklum lánum til betur settra kaupenda á meðan láglaunafólk sat eftir og komst ekki inn á húsnæðismarkað og fyrirtækin sem voru í mestum vanda sátu sömuleiðis eftir.

Síðan má rifja upp lærdóminn af áratugnum í aðdraganda bankahrunsins 2008. Starfsemi bankanna þá einkenndist af ofurskuldsetningu og stuðningi við brask sem ýtti undir eignaverðsbólu, sem bankarnir græddu síðan á og stjórnendur þeirra notuðu sem átyllu fyrir óhóflegar bónusgreiðslur í eigin vasa. Við virðumst vera á sömu leið á ný – þó í minni mæli sé, enn sem komið er (sjá hér).

Almennt á bankastarfsemi að vera varkár og íhaldssöm en ekki græðgisdrifinn áhættu- eða braskrekstur, sem bónusar kynda undir. Það er því í raun fáránlegt að bankakerfið sé með hæstu bónusgreiðslurnar í samfélaginu. Ef til vill ættu bankamenn að vera síðastir allra til að fá bónusa fyrir störf sín. 

Skapa bankabónusar ekki fordæmi á vinnumarkaði?

Fyrst það er vægast sagt langsótt að bankamenn skapi áberandi meiri verðmæti í samfélaginu en aðrir þá er eðlilegt að spyrja hvort aðrir hópar eigi ekki frekar rétt á slíkum bónusum og hvort almennt sé réttlætanlegt að bankamenn njóti yfir höfuð slíkra forréttinda, hvort sem er stjórnendur bankanna sérstaklega eða almennir starfsmenn?

Ef bankastjórnendur komast upp með kaupaukakerfi eins og Arion banki hefur nýlega samþykkt (og hinir bankarnir munu væntanlega fljótlega taka upp, ef ríkið leyfir) er þá ekki rétt að verkalýðshreyfingin krefjist jafn örlátra kaupaukakerfa fyrir framlínufólkið á lágu töxtunum og fyrir aðrar mikilvæga hópa sem búa við mikið álag og lök kjör? Forysta Eflingar og VR og ASÍ almennt gæti bent á marga hópa innan sinna vébanda sem verðskulda frekar slíka umbun.

Menn ættu líka að hafa í huga að slík innleiðing mikilla kaupauka í bönkunum er af sama meiði og þegar Kjararáð skilaði æðstu embættismönnum og kjörnum fulltrúum (þingmönnum og ráðherrum) launahækkunum langt umfram það sem um hafði verið samið á almennum vinnumarkaði, um miðjan síðasta áratug. Það hleypti af stokkunum mikilli skriðu hárra launahækkana á vinnumarkaði.

Hvers vegna ætti verkalýðshreyfingin að horfa framhjá slíkum áhrifum bankabónusa núna? 

Vilja lífeyrissjóðir ofurbónusa í sínum banka?

Nú er það svo að lífeyrissjóðir vinnandi fólks á Íslandi eiga meira en 35% af hlutafé Arion banka. Aðrir stórir hluthafar eru einkum erlendir fjárfestingasjóðir. Lífeyrissjóðir hafa lengi verið of óvirkir eigendur í atvinnulífinu. Æskilegt er að þeir beiti sér af meiri þunga í stjórnum fyrirtækja þar sem þeir eru stórir eigendur, líkt og í Arion banka. Bæði til að verja hagsmuni sína sem eiganda og til að stuðla að heilbrigðum rekstri og eðlilegu samræmi við það sem tíðkast á almennum vinnumarkaði.

Ofurbónusar til stjórnenda og starfsmanna í bönkum þjóna ekki hagsmunum lífeyrissjóða né hluthafa almennt. Fjármálaeftirlitið hefur þó samþykkt að kaupaukakerfi eins og Arion banki hyggst taka upp samræmist viðmiðum eftirlitsins. Að mínu mati er það alltof rúmt og raunar fráleitt að Fjármálaeftirlitið setji slíkar reglur fyrir eina tegund af atvinnurekstri án þess að taka nokkurt tillit til afleiðinga á almennum vinnumarkaði, sem og án tillits til almenns mats á verðmæti starfa í samfélaginu.

Tímabært er að endurskoða þessi áform Arion banka og reisa skorður við því að við leiðumst aftur út í dansinn sem endaði með hruninu mikla 2008.

Höfundur er stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi. Hann tjáir hér einungis sínar eigin skoðanir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar