Það ríkir neyðarástand í atvinnumálum á Íslandi. Meira en 20 þúsund manns eru án vinnu og hátt í 5 þúsund hafa verið atvinnulaus í meira en ár. Þetta er nýr veruleiki fyrir okkur. Í fyrsta skipti síðan mælingar hófust er atvinnuleysi meira hér en á hinum Norðurlöndunum. Niðurstöður spurningakönnunar sem var lögð fyrir félagsmenn ASÍ og BSRB í desember gefa til kynna að helmingur atvinnulausra eigi erfitt með að ná endum saman og meirihluti þeirra hafi neitað sér um heilbrigðisþjónustu vegna fjárhags undanfarna mánuði. Ef ekki er gripið strax til markvissra aðgerða er hætt við því að afleiðingarnar verði varanlegar: ójöfnuður og lagskipting á vinnumarkaði aukist og fátækt og félagsleg vandamál af áður óþekktri stærð festist í sessi.
Atvinnuleysisflóðbylgjan var ekki bara afleiðing af heimsfaraldri og nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum heldur skrifast hún líka á hægagang og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Opinber fjárfesting hefur dregist umtalsvert saman í kórónukreppunni og ólíkt snörpum viðbrögðum víða í Evrópu voru íslensk fyrirtæki látin bíða mánuðum saman eftir ríkisábyrgðarlánum og rekstrarstyrkjum. Hlutabótaleiðin reyndist vel í fyrstu en var eyðilögð með hertum skilyrðum síðla sumars um leið og eigendum fyrirtækja voru greiddir ríkisstyrkir til að segja upp starfsfólki. Afleiðingin er sú að langtum lægra hlutfall vinnuafls á Íslandi hefur verið á hlutabótum undanfarna mánuði heldur en víðast hvar í Vestur-Evrópu. Kreppan á Íslandi varð þannig dýpri en hún hefði þurft að vera og atvinnuleysið meira.
Það er á svona tímum sem höfuðmáli skiptir hvaða stjórnmálaöfl eru við völd og hvaða stefna ræður för. Allir flokkar segjast vilja binda enda á fjöldaatvinnuleysið en færri eru reiðubúnir að gera það sem raunverulega þarf til að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Sá stjórnmálaflokkur sem fer með málefni iðnaðar og nýsköpunar og yfirstjórn opinberra fjármála í ríkisstjórn Íslands hefur bitið í sig að opinbert fé eigi fyrst og fremst að elta og spegla markaðshegðun einkafjárfesta; annars sé ríkið að drýgja þá höfuðsynd að „velja sigurvegara“, ákveða hvaða greinar skuli vaxa og hverjar ekki – sem er að vísu einmitt það sem var gert með ívilnunum til stóriðju og ríkistryggðri bankaútrás á árunum fyrir hrun og tíðkast enn á hverjum degi með stuðningi við landbúnað í formi tolla á erlenda samkeppni og stuðningi við útgerðarfyrirtæki með úthlutun kvóta undir markaðsverði.
En ef einhvern tímann var ástæða til að setja háleit markmið um hvert atvinnulífið skuli stefna, þá er það núna á tímum neyðarástands í loftslagsmálum og hraðrar sjálfvirknivæðingar. Hvarvetna í nágrannalöndunum sjáum við dæmi um þetta. Nýlega kynnti ríkisstjórn Noregs tugmilljarða átak í föngun og flutningi kolefnis. Danir hafa sett á fót grænan fjárfestingarsjóð sem styður við vistvæna uppbyggingu, orkuskipti og þróun loftslagslausna, og í fyrra stofnuðu Skotar ríkisrekinn fjárfestingarbanka sem fjárfestir í grænni atvinnuþróun og verkefnum sem stuðla að kolefnishlutlausu samfélagi. Á Íslandi tönnlast hins vegar ráðamenn á því að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri eða skipta sér af því hvert fjármagni er beint. Um leið og talað er um nýsköpun sem leiðina út úr kreppunni er ráðist í einkavæðingu á verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands án þess að mótuð sé skýr og heildstæð áætlun um stuðning ríkisins við stoðkerfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs næstu árin. Kjarnastarfseminni er komið fyrir í nýju einkahlutafélagi þótt slík tilhögun bitni á öflun rannsóknarstyrkja erlendis. Kannski segir það sitt að í sama mánuði og nýsköpunarráðherra Íslands lýsti því yfir á Alþingi að stuðningur ríkisins við nýsköpun gæti unnið meiri skaða en gagn og ekki væri forgangsmál að styðja við klasauppbyggingu með opinberu fé voru stofnaðir 14 nýir „ofurklasar“ fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Danmörku sem fá ríkisstuðning að andvirði 13 milljarða íslenskra króna til að efla samstarf á sviði nýsköpunar, þekkingarstarfs og umhverfis- og loftslagsmála.
Áskoranir okkar daga kalla á að mótuð verði framsækin atvinnu- og iðnaðarstefna fyrir Ísland. Á meðal þess sem við í Samfylkingunni höfum lagt til, við góðar undirtektir náttúruverndarsamtaka og fulltrúa atvinnulífs, er að stofnaður verði burðugur fjárfestingarsjóður í opinberri eigu með skýra árangursmælikvarða og skilgreind markmið um græna atvinnuuppbyggingu. Dæmi um verkefni sem má ímynda sér að slíkur sjóður geti liðkað fyrir er framleiðsla á lífrænu eldsneyti til útflutnings og fyrir samgöngur innanlands, þróun tæknilausna til föngunar og förgunar kolefnis, nýsköpun í matvælaiðnaði, markaðsstarf og kynning á grænum íslenskum útflutningsvörum á erlendri grundu og uppbygging iðn- og auðlindagarða þar sem virði hreinnar orku er hámarkað.
Við skulum styðja og valdefla atvinnuleitendur, verja þá atvinnuvegi sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna kórónuveirunnar og hjálpa hvert öðru að komast í gegnum tímabundna erfiðleika – en verum líka óhrædd við að beita ríkisvaldinu með skapandi hætti í samstarfi við einkaðila til að fjölga störfum og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Endurreisnin upp úr kórónukreppunni má ekki vera á forsendum hinna fáu og fjársterku heldur verður hún að grundvallast á fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu í þágu okkar allra.
Höfundur er MSc. í evrópskri stjórnmálahagfræði og þingframbjóðandi Samfylkingarinnar.