Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi hefur sjaldan verið í jafn bágri stöðu og nú. Margir af stærstu fjölmiðlum landsins hafa tekjur sínar af smellsugufyrirsögnum (e. clickbait), þar sem athygli lesandans er beint að einhverju sem slitið er úr samhengi. Líf áhrifavalda er lagt að jöfnu við raunverulega heimsviðburði. Þessi þróun er ekki ný af nálinni og á sér margar skýringar. Hún er einnig lýsandi fyrir viðhorf gagnvart fjölmiðlum og hlutverki þeirra í landi þar sem fjölmiðlafræði er ekki kennd sem aðalgrein við stærstu menntastofnun þess (sem nb. er í ríkiseigu) og þar sem siðareglur blaðamanna eru frá árinu 1991.
Það er ljóst að ákveðin vatnaskil hafi orðið með tilkomu upplýsingabyltingar í byrjun aldarinnar. Það er allt gott og vel. Fjölmiðlar geta hins vegar ekki sinnt hlutverki sínu vel ef þeim er gert að starfa undir sömu leikreglum og voru hér við lýði fyrir aldamót í allt öðru landslagi. Það er löngu tímabært að setja starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi rækilega á dagskrá stjórnmálanna. Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytta stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur verið til umræðu síðustu þrjú þingtímabil. Þar kemur fram að einkareknir fjölmiðlar, háð ákveðnum skilyrðum, gætu fengið allt að 25% af rekstrarkostnaði niðurgreiddan úr ríkissjóði. Meðfram frumvarpinu hefur staða RÚV á auglýsingamarkaði verið rædd, en sérstaða ríkismiðilsins skerðir samkeppnishæfni einkarekinna fjölmiðla. Það var því miður að sjá ekkert ákvæði um breytta stöðu RÚV á auglýsingamarkaði í nýjum þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir árin 2020-2023.
Líkt og almennt á markaði þar sem samkeppni er skilyrði frelsis þá er góð og vönduð umræða skilyrði heilbrigðs lýðræðis. Ef fjölmiðlar neyðast til þess að fórna góðum og sönnum málflutningi til að lifa af, þá skaðar það lýðræðið. Án upplýsts samfélags sem veitir því aðhald getur ríkið ekki kennt sig við lýðræði.
Höfundur er mastersnemi í evrópskri stjórnsýslu við Sciences Po í París og með BA gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.