Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir að nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem frumvarp forsætisráðherra leggur til, geti rammað inn óbreytt ástand þar sem sjávarauðlindin verður áfram í eigu og á forræði hinna fáu.
Í umræðum um stjórnarskrá er ýmist talað um gömlu stjórnarskrána eða þá nýju. Nýlegt frumvarp forsætisráðherra um auðlindir er þriðja afbrigðið, stökkbreytt gætum við jafnvel kallað það nú á tímum heimsfaraldurs. Hvers vegna? Vegna þess að frumvarpið er þögult um stærstu pólitísku spurningarnar. Þögult um þá þætti sem mestu skipta. Ákalli þjóðarinnar um sanngjarna auðlindapólitík er ekki mætt.
Rík þörf er á að fjalla um auðlindir í stjórnarskrá og setja meginreglur sem stjórnvöld verða að virða við alla aðra reglusetningu um auðlindanýtingu. Sem grundvallarlöggjöf þjóðarinnar verðskuldar stjórnarskráin að vera stöðug. Þar eiga að vera skrásettar grundvallarreglur samfélagsins sem öll önnur löggjöf þarf að standast. Til þess að hún getið staðið stöðug þarf hins vegar að ríkja um hana sátt. Þess vegna verður hún líka að fá að þróast með tímanum. Getur þetta tvennt saman? Já, það er ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt að svo sé. Það er inntak hennar sem máli skiptir, en ekki hvort hún er að grunni ný eða gömul.
Lögð hafa verið fram allnokkur frumvörp til stjórnarskipunarlaga á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Raunar hefur verið unnið að mótun slíks ákvæðis nánast frá 1998. En hvað er það sem vantar í frumvarpið?
Tímabinding réttinda er meginregla þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum í þjóðareign til hagnýtingar. Mest öll orkuframleiðsla í landinu er á forræði ríkis eða sveitarfélaga. Orkulög heimila hins vegar sveitarfélögum að framselja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu um tilgreint tímabil í senn. Dæmin sjást gegnumgangandi í löggjöf um auðlindir. Í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu er ákvæði um tímabundin leyfi til allt að 65 ára. Í lögum um fiskeldi er mælt fyrir um rekstrarleyfi til 16 ára. Og nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um Hálendisþjóðgarð skilgreinir hálendi Íslands sem náttúruauðlind í þjóðareign. Þar kemur skýrt fram að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi í þjóðgarði nema með tímabundnum samningi.
Nýtt auðlindaákvæði myndi því vera á skjön við lagasetningu um flestar aðrar auðlindir. Eftir áralanga vinnu og yfirferð virðist niðurstaðan hafi orðið sú af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja að leggja fram áferðarfallegt en fremur opið ákvæði. Ákvæði sem skilar ekki þeirri niðurstöðu sem að var stefnt og ákall hefur verið um. Það er þögult um stærstu pólitísku álitaefnin.
Hafi markmiðið verið sátt um auðlindapólitík og að stjórnarskrá festi í sessi einhverja efnislega þýðingu þess að auðlind sé í sameign þjóðar, þá verður það ekki niðurstaðan. Um þessi atriði er ákvæðið einfaldlega þögult. Sé ætlunin hins vegar að ná fram breytingum þá er óskandi að meirihlutinn á Alþingi tryggi það með skýru auðlindaákvæði. Annars gætum við hæglega verið að eignast auðlindaákvæði sem í reynd rammar inn óbreytta ástand, þar sem sjávarauðlindin verður áfram í eigu og á forræði hinna fáu.
Í samskiptum er mikilvægt kunna þá list að heyra það sem fólk segir, en um leið að rýna í það sem ekki kemur fram. Stundum felast nefnilega sterkustu skilaboðin í því sem ekki er sagt. Í þögninni sjálfri.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.