Alls segjast 84 prósent landsmanna vera sammála því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, greiði framlínustarfsfólki aukalega fyrir það álag sem fylgt hefur COVID-19 faraldrinum. Með framlínustarfsfólki er átt við t.d. starfsfólki Almannavarna, Landsspítalans og heilsugæslunnar.
Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir BSRB. Einungis sex prósent svarenda var ósammála því að framlínustarfsfólk ætti að fá álagsgreiðslur.
Þegar afstaða fólks til greiðslnanna er skoðuð eftir því hvaða flokk það ætlar að kjósa kemur í ljós að mikill meirihluti allra flokka vill álagsgreiðslur til framlínustarfsfólks. Minnstur er stuðningur við þær hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins (70 prósent styðja álagsgreiðslur) og hjá kjósendum Miðflokksins (75 prósent styðja álagsgreiðslur). Kjósendur Samfylkingar (96 prósent), Sósíalistaflokks Íslands (95 prósent), Vinstri grænna (94 prósent) og Pírata (94 prósent) var líklegast til að styðja greiðslurnar.
Um var að ræða netkönnun sem gerð var daganna 17. til 23. ágúst 202. Úrtakið var 2.600 einstaklingar 18 ára og eldri og svarendur voru 1.341. Svarhlutfallið var því 52 prósent.
Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að starfsfólk almannaþjónustunnar hafi verið undir gríðarlegu álagi síðastliðna 18 mánuði. „Við getum ekki gert þá kröfu á þennan stóra hóp fólks að þau leggi endalaust á sig fyrir okkur hin án þess að fá greiðslur í samræmi við þetta mikla álag. Það er virkilega ánægjulegt að sjá íslensku þjóðina þjappa sér með þessum hætti að baki þeim sem staðið hafa vaktina í heimsfaraldrinum. Þjóðin er með þessu að segja að þakklætið eitt og sér dugi ekki til heldur þurfi að umbuna framlínufólkinu okkar með sérstökum álagsgreiðslum.“