Stjórnvöld heimsins bera ábyrgð á því hvernig mannkyninu mun vegna áfram hér á jörðinni. Þetta á bæði við um opinbera valdhafa í hverju landi og aðra leiðtoga. Hlutverk þeirra ætti að byggjast á nýjustu og bestu þekkingu, m.a. á þeim staðreyndum að loftslagsváin ógnar lífi á jörðinni í dag og í náinni framtíð, að mannkynið hefur lifað í síauknum mæli umfram þolmörk náttúrunnar í um a.m.k. hálfa öld og að ójöfnuður og óréttlæti hefur aukist í heiminum. Helmingi af þeim gróðurhúsalofttegundum sem eru í andrúmsloftinu af mannavöldum hefur verið dælt þangað á sl. 30 árum, eða á þeim tíma sem valdhöfum hefur verið ljóst að loftslagsbreytingar eru hættulegar og raunverulegar.
Sem betur fer hefur meðvitund um tilurð, orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga aukist til muna undanfarin ár, bæði meðal almennings, forsvarsmanna fyrirtækja og stjórnmálamanna. En það virðist því miður óravegur í að valdhafar skilji nógu vel það flókna samspil sem er á milli loftslagsmála, ofnýtingar og röskunar náttúrunnar, samfélagsmála og efnahagskerfis.
Það er því grafalvarlegt mál og í raun grænþvottur þegar stjórnvöld hérlendis halda því fram að við getum, þegar á heildina er litið, haldið áfram með svipaðan lífsstíl ef við förum í orkuskipti og bindum kolefni í gróðri, jarðvegi og grjóti. Að sjálfsögðu eru þetta mikilvægar aðgerðir en þær ná ekki að rót vandans. Rót vandans liggur í notkun jarðefnaeldsneytis og ásókn okkar í auðlindir sem er langt umfram það sem náttúran þolir. Núverandi hagkerfi og lífsstíll kynda einmitt undir þessa notkun jarðefnaeldsneytis og ásókn, arðrán á náttúru og fólki, aukið óréttlæti og ójöfnuð.
Vistspor mannkyns er alltof stórt. Vinna þarf markvisst að því að minnka með afgerandi hætti allt vistsporið í staðinn fyrir að reyna að leysa eitt vandamál á kostnað annarra, s.s. að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum innanlands m.a. með orkuskiptum en valda síðan meiri röskun á náttúrunni vegna virkjanaframkvæmda, auk þess að með því að viðhalda svipuðum lífsstíl hérlendis værum við áfram völd að losun mikils magns gróðurhúsalofttegunda annars staðar í heiminum, yllum röskun náttúrunnar þar og fremdum arðrán á íbúum þar fyrir okkar neyslu og sóun.
Eins og rannsóknir sýna þá útvista Íslendingar stórum hluta af losun gróðurhúsalofttegunda vegna neyslu sinnar til annarra landa þar sem þessar neysluvörur hafa verið framleiddar. En gróðurhúsalofttegundir þekkja engin landamæri og það er ekki fyrr en við drögum líka stórlega úr þessari losun með alvöru lífsstílsbreytingum og breytingum á hagkerfinu, sem við getum náð árangri og staðið undir ábyrgð okkar.
Aðgerðir í loftslagsmálum eiga ekki aðallega að snúast um að lagfæra einhverja þætti inni í núverandi lifnaðar-, hugsunar- og viðskiptaháttum. Leiðin sem stjórnvöld telja okkur trú um að sé nóg heldur okkur áfram á braut með of stóru vistspori og of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda, áfram á braut þar sem við lifum á auðlindum annarra sem þurfa svo einnig að bera ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun sem verður vegna framleiðslu á vörum fyrir okkur.
Það er ekki að ástæðulausu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram framtíðar- og heildarsýn sína sem er sjálfbær þróun með þeim markmiðum sem þarf til að stuðla að henni þ.e. heimsmarkmiðin. Það er ekki fyrr en unnið er að þessum markmiðum í samhengi sem hægt verður að sjá alvöru árangur. Markviss, öflugur og skjótur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda þarf að gerast samhliða og með því að draga úr ósjálfbærri framleiðslu, lifnaðarháttum og neyslu, vinna að verndun og endurheimt náttúrunnar og auka réttlæti og jöfnuð.
Stíga þarf nokkur skref til þess að koma á og tryggja umbreytandi ferli, s.s. það ferli sem við mannkynið þurfum að hefja núna til þess að stuðla að sjálfbærri þróun. Talið er að þau skref séu m.a. aukin meðvitund, skilningur á flækjustigi og samhengi, tilfinningaleg tengsl, samkennd og valdefling. Margt bendir til þess að flest okkar hafi aukið meðvitund sína á málinu. Hins vegar virðist mikið vanta upp á til að ná árangri í öðrum skrefum, ekki síst hjá opinberum valdhöfum og leiðtogum sem eiga að leiða okkur á rétta braut.
Lýst eftir leiðtogum
Lýst er eftir leiðtogum sem horfa ekki á róttækar breytingar innan samfélaga sem ógnir heldur sjá að staða loftslagshamfara, eyðilegging náttúrunnar og óréttlæti eru hinar raunverulegu ógnir. Leiðtogum sem sjá að róttækar breytingar eru ekki einungis nauðsynlegt svar við þessum ógnum heldur einnig tækifæri mannkyns til að þroskast og búa til friðsæl samfélög sem hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi og lifa innan þeirra takmarka sem náttúran gefur.
Lýst er eftir leiðtogum sem eru ekki hræddir við breytingar, leiðtogum sem sjá leiðina, leiðtogum sem hika ekki við að segja skilið við kerfi sem hefur leitt okkur á braut ósjálfbærrar þróunar. Valdhöfum sem hafna grænþvotti mengandi iðnaðar sem skilur eftir sig eyðileggingu á samfélögum og náttúru um allan heim.
Að halda áfram á sömu braut er ekki valkostur. Loftslagsmálin eru engin gæluverkefni heldur spursmál um framtíð mannkyns.
Til þess að gera breytingar á kerfinu þurfa stjórnmálamenn að hafa kjark, vilja og þor og háværan hóp virkra lýðræðisborgara á bak við sig.
Verum þessir háværu og virku lýðræðisborgarar!
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd.